Reiða sig á kenningu Krists
Þegar við byggjum hús okkar á undirstöðu sáttmálssambands við Krist, erum við að reiða okkur á kenningu Krists.
Í huga mér sé ég hinn aldraða spámann Nefí við skrifborðið sitt, með gulltöflurnar útbreiddar frammi fyrir sér og pennann í hendinni.
Nefí var að ljúka við síðasta leturgröftinn á töflurnar. Hann ritaði: „Og nú, ástkæru bræður mínir, læt ég máli mínu lokið.“1 En skömmu síðar knúði andinn Nefí til að snúa aftur að heimildum sínum og skrifa lokaorð. Með máttugum áhrifum heilags anda, tók þessi mikli spámaður sér aftur penna í hönd og skrifaði: „Þess vegna læt ég það nægja, sem ég hef ritað, að viðbættum nokkrum orðum, sem ég vil segja um kenningar Krists.“2
Hve eilíflega þakklát við erum fyrir þessi „nokkur orð“3 og að andinn hafi knúið Nefí til að skrifa þau. Ritverk Nefís um kenningu Krists er þeim fjársjóður sem á henni endurnærast. Það hefur að geyma skilning á skírn frelsarans4 og rödd sonarins, sem býður öllum að fylgja sér5 og „[gjöra það, sem við höfum séð hann gjöra].“6 Það hefur að geyma vitnisburð Nefís um að þeir sem í trú á Krist iðrast synda sinna af einlægni og fylgja frelsaranum niður í skírnarvatnið, munu „meðtaka heilagan anda, … skírn eldsins og heilags anda.“7 Við heyrum líka rödd föðurins bera vitni: „Já, orð míns elskaða sonar eru rétt og sönn. Sá, sem stöðugur stendur allt til enda, mun frelsast.“8
Russell M. Nelson forseti lagði eitt sinn áherslu á hið einstaka mikilvægi kenningarinnar um Krist í ávarpi til nýkallaðra trúboðsleiðtoga: „Fremur en nokkuð annað viljum við að trúboðar okkar … hafi kenningu Krists rista á hjörtu sín – rótfasta … í merg beina sinna.“9
Í Boða fagnaðarerindi mitt er samantekt fimm mikilvægra þátta sem tengjast kenningu Krists. Þar segir: „[Við bjóðum] öðrum að koma til Krists með því að hjálpa þeim að meðtaka hið endurreista fagnaðarerindi fyrir trú á Jesú Krist og friðþægingu hans, iðrun, skírn, gjöf heilags anda og með því að standast allt til enda.“10
En mikilvægi kenningar Krists er ekki bara fyrir trúboða! Og hún er miklu dýpri en aðeins yfirborðsleg endurtekning þessara fimm lykilþátta hennar. Hún felur í sér lögmál fagnaðarerindisins. Hún er hin mikla áætlun um eilíft líf.
Ef við hyggjumst taka á móti boði Nelsons forseta um að hafa kenningu Krists rótfasta í merg beina okkar, verðum við að auka trú okkar á Drottin með námi, bæn, trúföstu líferni og viðvarandi iðrun. Við verðum að bjóða heilögum anda að rista kenningu Krists „á hjartaspjöld [okkar] úr holdi,“11 eins djúpt og varanlega eins og hún var rist af Nefí á gulltöflurnar.
Í síðastliðnum október, spurði Nelson forseti: „Hvað þýðir það að sigra heiminn?“ Hann sagði meðal annars: „Það þýðir að reiða sig á kenningu Krists, meira en heimspeki manna.“12
Orðið traust er skilgreint sem „að reiða sig algjörlega á eðli, getu, styrk eða sannleika um einhvern eða eitthvað.“13 Þessi einhver er Jesús Kristur og þetta eitthvað er kenningin hans.
Hvernig myndi það breyta lífshætti okkar ef við einsettum okkur að reiða okkur á kenningu Krists?
Ef við reiðum okkur á kenningu Krists, munum við treysta Kristi nægilega til að lifa eftir hverju orði hans.14 Við munum læra alla ævi um Jesú Krist,15 þjónustu hans, kenningar hans og óendanlega friðþægingu hans, svo og hina dýrðlegu upprisu hans. Við munum læra um loforð hans og skilyrðin sem þeim fylgja.16 Þegar við lærum, munum við fyllast aukinni elsku til Drottins.
Ef við reiðum okkur á kenningu Krists, munum við dag hvern koma til himnesks föður í auðmjúkri, hljóðri bæn, þar sem við getum fært honum þakkir fyrir gjöf sonar hans og fyrir blessanir okkar.17 Við getum beðið fyrir upplýsandi samfélagi heilags anda,18 að laga okkar vilja að hans,19 til að ígrunda sáttmála okkar og endurnýja skuldbindingu okkar um að halda þá.20 Við getum beðið fyrir því að fá stutt og elskað spámenn, sjáendur og opinberara;21 beðið fyrir hreinsandi mætti fyrirgefningar;22 og beðið fyrir styrk til að standast freistingar.23 Ég býð ykkur að hafa bænina í fyrirrúmi í lífi ykkar og reyna dag hvern að bæta samskipti ykkar við Guð.
Ef við reiðum okkur á kenningu Krists, munum við leggja til hliðar lokkandi hluti heimsins, svo við getum einbeitt okkur að lausnara heimsins.24 Við munum takmarka eða leggja af tíma sem varið er á samfélagsmiðlum; í netleikjum; í óhóflegar eða óviðeigandi skemmtanir; tælandi gersemar og hégóma þessa heims; og hvers kyns aðrar athafnir sem standa fyrir falskar hefðir og afvegaleidda heimspeki manna. Það er aðeins í Kristi sem við finnum sannleika og varanlega fyllingu.
Einlæg iðrun25 verður gleðilegur26 hluti af lífi okkar – bæði til að hljóta fyrirgefningu synda okkar og til að breytast að mynd Krists.27 Iðrun í trú á Krist veitir okkur aðgang að friðþægingu Krists. Dallin H. Oaks forseti kenndi að þegar frelsarinn fyrirgefur „gerir hann meira en að hreinsa [okkur] af synd. Hann veitir [okkur] líka nýjan styrk.“28 Sérhvert okkar þarfnast þessa styrks til að halda boðorð Guðs og framfylgja eilífum tilgangi lífs okkar.
Við finnum styrk í Jesú og kenningu hans. Hann sagði: „Sannlega, sannlega, segi ég yður, að þetta er mín kenning, og allir þeir, sem á henni byggja, byggja á bjargi mínu, og hlið heljar munu ekki á þeim sigrast.“29
Við sjáum þetta loforð uppfyllast í lífi þeirra sem eru trúfastir. Það var fyrir rúmu ári að ég naut þeirra forréttinda að kynnast Travis og Kacie. Þau gengu í hjónaband árið 2007. Á þeim tíma var Travis ekki meðlimur kirkjunnar. Kacie, þótt alin væri upp á virku Síðari daga heilögu heimili, hafði horfið frá trú sinni á táningsaldri og villst frá undirstöðu sinni.
Árið 2018 hitti Travis trúboðana og var skírður 2019. Travis varð trúboði fyrir Kacie, sem einnig upplifði lífsbreytandi trúarumbreytingu. Þau innsigluðust í musterinu í september 2020. Um tveimur árum eftir skírn sína var Travis kallaður til að þjóna í biskupsráði.
Travis er með sjaldgæfan sjúkdóm sem myndar stöðugt æxlaþyrpingar í innri líffærum hans. Hann hefur gengist undir margar aðgerðir til að fjarlægja æxlin sem endurtekið vaxa, en sjúkdómurinn er ólæknandi. Fyrir nokkrum árum var Travis sagt að hann ætti innan við 10 ár ólifuð.
Kacie er með retinitis pigmentosa, sjaldgæfan erfðasjúkdóm sem veldur óafturkræfri þrengingu á sjónsviði þar til algjör blinda tekur við.
Kacie talaði við mig um framtíð sína. Hún sá fram á þann tíma, ekki all fjarri, þegar hún yrði ekkja, blind, án fjárhagsaðstoðar og skilin eftir ein til að ala upp fjögur stækkandi börn. Ég spurði Kacie hvernig hún gæti tekist á við svona dapurlega framtíð. Hún brosti friðsæl og sagði: „Ég hef aldrei verið hamingjusamari eða vonbetri á ævinni. Við höldum við fyrirheitin sem við hlutum í musterinu.“
Travis er nú biskup. Fyrir tveimur mánuðum fór hann í aðra stóra aðgerð. En hann er bjartsýnn og friðsæll. Sjón Kacie hefur versnað. Hún á nú blindrahund og er ófær um að aka bíl. En hún er sátt, elur upp börnin sín og þjónar sem ráðgjafi í forsætisráði Stúlknafélagsins.
Travis og Kacie eru að byggja húsið sitt á bjargi. Travis og Kacie reiða sig á kenningu Krists og fyrirheitið um að Guð „[muni] helga þrengingar [þeirra þeim] til góðs.“30 Í hinni fullkomnu áætlun Guðs, er þjáning í trú á Krist tengd því að fullkomnast í Kristi.31 Eins og í dæmisögunni um vitra manninn sem byggði hús sitt á bjargi32 er stóðst þegar steypiregnið og flóðið kom og vindar blésu og buldu, svo og er um húsið sem Travis og Kacie hafa byggt, það mun ekki falla, því það er byggt á bjargi.33
Jesús talaði ekki um að mögulega yrði regn og flóð og vindar í lífi okkar; hann talaði um að stormar kæmu fyrir víst. Í dæmisögunni snýst spurningin ekki um það hvort stormar muni koma, heldur hvernig við bregðumst við boði hans um að bæði heyra og gera það sem hann hefur kennt.34 Það er engin önnur leið til að komast af.
Þegar við byggjum hús okkar á undirstöðu sáttmálssambands við Krist, erum við að reiða okkur á kenningu Krists og er við komum til hans, verður loforðið um eilíft líf okkar. Þau sem reiða sig á kenningu Krists, sækja staðföst fram í Kristi og standast allt til enda. Það er ekkert annað nafn sem fær frelsað manninn í Guðs ríki.35
Ég ber mitt persónulega vitni um hinn lifandi, upprisna, raunveruleika Jesú Krists. Ég ber vitni um að Guð faðirinn elskaði svo heiminn að hann sendi son sinn til að frelsa okkur frá synd36 og lækna okkur af sorg.37 Ég ber vitni um að hann hefur kallað spámann Guðs á okkar tíma, já, Russell M. Nelson forseta, sem hann mælir fyrir og leiðir okkur með.
Af öllu hjarta, býð ég ykkur að reiða ykkur á kenningu Krists og byggja líf ykkar á bjargi lausnarans. Hann mun aldrei bregðast ykkur. Í nafni Jesú Krists, amen.