Patríarkablessunin ykkar – innblásin leiðsögn frá himneskum föður
Patríarkarblessunin mín hjálpaði mér að skilja mína sönnu eilífu sjálfsmynd – hver ég raunverulega væri og hver ég gæti orðið.
Ég var alinn upp af yndislegum foreldrum sem elskuðu og kenndu okkur, börnum sínum, fagnaðarerindið. Því miður þá glímdu foreldrar mínir við erfiðleika í hjónabandi sínu í mörg ár. Ég var Barnafélagsbarn þegar mér var sagt að líklegast myndu þau skilja einhvern daginn og ég og systkin mín þyrftum að velja hjá hvoru foreldrinu við vildum búa. Í langan tíma upplifði ég verulegan kvíða; en gjöf frá himneskum föður breytti þó að lokum öllu fyrir mig – patríarkablessunin mín.
Þegar ég var 11 ára, hafði ég sífellt meiri áhyggjur af sambandi foreldra minna og þráði innilega patríarkablessunina mína. Ég vissi að himneskur faðir þekkti mig fullkomlega og mínar sérstöku aðstæður. Ég vissi líka að ég myndi hljóta leiðsögn frá honum. Strax eftir 12 ára afmælisdaginn minn hlaut ég patríarkablessunina mína. Það gerðist fyrir meira en hálfri öld, en ég man glögglega eftir þessari helgu reynslu.
Þakksamlega, þá höfum við innblásna leiðsögn um patríarkablessanir í Almennri handbók kirkjunnar:
„Sérhver verðugur, skírður meðlimur á rétt á að meðtaka patríarkablessun, sem veitir innblásna leiðsögn frá himneskum föður.“
Meðlimur ætti að vera „nægilega þroskaður til að skilja mikilvægi og heilagt eðli blessunarinnar“ og „skilja grunnkenningu fagnaðarerindisins“.
„Helst ætti meðlimurinn að vera nógu ungur til að margar mikilvægar ákvarðanir lífsins séu enn framundan. … Prestdæmisleiðtogar ættu ekki að ákveða lágmarksaldur fyrir meðlim til að meðtaka patríarkablessun. …
„Hver patríarkablessun er heilög, trúnaðarmál og persónuleg. …
„Sá sem fær patríarkablessun ætti að varðveita orð hennar, ígrunda þau og lifa verðugur þess að hljóta hinar fyrirheitnu blessanir í þessu lífi og í eilífðinni.“1
Okkar ástkæri spámaður, Russell M. Nelson forseti, hefur ítrekað kennt um mikilvægi patríarkablessunar,2 að hún veiti hverjum viðtakanda „yfirlýsingu um ættkvísl aftur til Abrahams, Ísaks og Jakobs“3 og „er ykkur persónuleg ritning.“4
Patríarkablessunin mín var mér afar mikilvæg þegar ég var ungur af mörgum ástæðum. Í fyrsta lagi, hjálpaði patríarkablessunin mín mér, fyrir kraft heilags anda, að skilja mína sönnu eilífu sjálfsmynd – hver ég raunverulega væri og hver ég gæti orðið. Hún hjálpaði mér að vita, eins og Nelson forseti kenndi, að ég væri „sonur Guðs,“ “[barn] sáttmálans“ og „lærisveinn Jesú Krists.“5 Ég vissi að himneskur faðir og frelsari minn þekktu og elskuðu mig og að þeir tækju persónulega þátt í lífi mínu. Þetta jók þrá mína til að komast nær þeim og efla trú mína og traust á þeim.
Kær vinur, sem gekk í kirkjuna þegar hann var ungur fullorðinn maður, sagði: „Þegar patríarkinn lagði hendur sínar á höfuð mitt og ávarpaði mig með nafni, breyttist allt, … ekki bara þá, heldur það sem eftir var lífs míns. Ég skynjaði strax – fyrir kraftinn sem hann talaði með – að ég var þekktur náið og innilega. Orðin sem hann mælti smugu í gegnum alla sál mína. Ég vissi að himneskur faðir þekkti mig, hið innra sem ytra.“
Að vita hver ég raunverulega var, hjálpaði mér að skilja og þrá að gera það sem Guð vænti af mér.6
Þetta leiddi mig til að læra um sáttmálana sem ég hafði gert og hinar fyrirheitnu blessanir í sáttmála Guðs við Abraham.7 Það veitti mér eilíft sjónarhorn sem hvatti mig til að halda sáttmála mína enn betur.
Ég las patríarkablessunina mína mörgum sínnum, og oft daglega sem ungmenni, en það hjálpaði mér að finna hughreystandi, leiðandi áhrif heilags anda og það dró úr kvíða mínum að fylgja hvatningu hans. Það jók þrá mína til að sækjast á virkan hátt eftir ljósi, sannleika og heilögum anda, með því að læra ritningarnar og biðja daglega og reyna betur að læra og fylgja kenningum spámanns og postula Guðs. Patríarkablessunin mín jók líka þrá mína eftir því að lúta betur vilja himnesks föður míns og sú einbeiting hjálpaði mér að upplifa mikla gleði, þrátt fyrir mínar persónulegu aðstæður.8
Ég hlaut andlegan styrk í hvert sinn sem ég las patríarkablessunina mína. Þegar svo að því kom að foreldrar mínir skildu, var patríarkablessunin mín, eins og Thomas S. Monson forseti kenndi, orðin mér „dýrmætur og ómetanlegur persónulegur fjársjóður,“ jafnvel „persónuleg Líahóna“.9
Misskiljið mig þó ekki. Ég var ekki fullkominn. Ég gerði alls kyns mistök. Minn eilífi förunautur myndi staðfesta að ég geri það ennþá. En patríarkablessunin mín hjálpaði mér og hjálpar mér enn að þrá að gera betur og verða betri.10 Að kanna patríarkablessunina mína oft, jók þrá mína til að standast freistingar. Hún veitti mér þrá og hugrekki til að iðrast og iðrun varð í auknum mæli ánægjulegt ferli.
Það var mér mikilvægt að hljóta patríarkablessunina meðan ég var enn ungur og meðan vitnisburður minn var enn að vaxa. Ég er ævinlega þakklátur fyrir að foreldrar mínir og biskup minn skildu að þrá mín gaf til kynna að ég væri tilbúin.
Þegar ég var 12 ára var heimurinn mun minna ruglingslegri og truflandi en hann er á þessum tíma. Nelson forseti hefur lýst þessum tíma sem „flóknasta tíma í sögu heimsins,“ heimi sem er „syndamettaður“ og „sjálfmiðaður.“11 Sem betur fer eru ungmenni okkar í dag mun þroskaðri en ég var þegar ég var 12 ára og þau eiga líka fyrir sér að taka mikilvægar ákvarðanir meðan þau eru ung! Þau þurfa líka að vita hver þau í raun eru og að Guð elskar þau og er fullkomlega meðvitaður um þau!
Ekki munu allir þrá patríarkablessunina sína á sama tíma og ég gerði það. Ég bið þess að meðlimir sem enn hafa ekki meðtekið patríarkablessunina sína reyni í bænaranda að vita hvenær þeir eru tilbúnir. Ég lofa því að ef þið undirbúið ykkur andlega mun reynsla ykkar, eins og mín, verða ykkur heilög. Ég bið líka þess að þau sem þegar hafa hlotið patríarkablessunina sína, muni ígrunda og varðveita hana. Að varðveita patríarkablessunina mína meðan ég var ungur, blessaði mig með hugrekki þegar ég var vanmáttugur, huggun þegar ég var óttasleginn, friði þegar ég var kvíðinn, von þegar ég var vonlaus og gleði þegar sál mín þarfnaðist hennar mest. Patríarkablessunin mín hjálpaði við að auka trú og traust á himneskum föður og frelsara mínum. Hún jók líka elsku mína til þeirra – og gerir það enn.12
Ég ber vitni um að patríarkablessanir veita innblásna leiðsögn frá himneskum föður. Ég ber vitni um lifandi veruleika föður okkar á himnum og sonar hans – frelsara okkar Jesú Krists – sem þekkja og elska okkur og þrá að blessa okkur. Ég veit líka með vissu að Russell M. Nelson forseti er spámaður Guðs á jörðu á þessum tíma. Í nafni Jesú Krists, amen.