Aðalráðstefna
Hvenær skal meðtaka eigin patríarkablessun
Aðalráðstefna apríl 2023


10:47

Hvenær skal meðtaka eigin patríarkablessun

Þegar þið meðtakið blessun ykkar, munið þið gera ykkur grein fyrir því og skynja hve himneskur faðir og Jesús Kristur elska ykkur og einblína á ykkur sem einstaklinga.

Í gær talaði minn kæri vinur, öldungur Randall K. Bennett um patríarkablessanir. Það var góður boðskapur og veitti okkur öllum innblástur. Kæru bræður og systur, má ég einnig tala um patríarkablessanir? Patríarkar, þar sem beiðnir um patríarkablessanir gætu aukist, bið ég þess að Drottinn muni blessa ykkur er þið haldið áfram að efla köllun ykkar.

Þegar ég fer á stikuráðstefnur, heilsa ég alltaf upp á stikupatríarkann og eiginkonu hans. Patríarkar eru ljúfir, hlýðnir og ótrúlegir leiðtogar, kallaðir af Guði. Þeir segja mér frá mörgum andlegum upplifunum. Ég spyr þá um aldur yngsta og elsta einstaklingsins, sem þeir hafa veitt patríarkablessun. Fram að þessu var sá yngsti 11 ára og sá elsti 93 ára.

Ég fékk patríarkablessun mína sem nýr meðlimur kirkjunnar, 19 ára gamall, tveimur árum eftir skírn mína. Patríarki minn var ótrúlega gamall. Hann gekk í kirkjuna árið 1916 og var frumkvöðull kirkjunnar í Japan. Það var mér mikill heiður að fá patríarkablessun mína frá þessum ótrúlega lærisveini Drottins. Ég átti eilítið erfitt með að skilja japönskuna hans, en þetta var áhrifamikið.

Patríarkarnir sem ég hef hitt segja mér að margir meðtaki patríarkablessun sína rétt áður en þeir þjóna í trúboði. Kæru piltar, stúlkur, foreldrar og biskupar, patríarkablessanir eru ekki einungis til undirbúnings fyrir trúboð. Verðugir skírðir meðlimir geta fengið patríarkablessun sína þegar tíminn er réttur fyrir þá.1

Kæru fullorðnu meðlimir, sum ykkar hafið ekki enn hlotið patríarkablessun ykkar. Munið að það er ekkert aldurstakmark.

Tengdamóðir mín var mjög virkur meðlimur kirkjunnar, þjónaði sem Líknarfélagskennari fram að dánardegi sínum, 91 ára gömul. Ég var sorgmæddur þegar ég komst að því að hún fékk ekki patríarkablessun. Hún upplifði mikla erfiðleika í lífi sínu og vegna þess að hún var ekki með prestdæmishafa á heimili sínu, hlaut hún ekki margar prestdæmisblessanir. Patríarkablessun hefði kannski veitt henni huggun þegar hún þarfnaðist þess mest.

Fullorðna fólk, ef þið hafið ekki þegar hlotið patríarkablessun ykkar, hafið ekki áhyggjur! Andleg tímalína allra er ólík. Ef þið eruð 35 ára eða 85 ára og þið hafið þrá, talið við biskup ykkar um að fá blessun ykkar.

Nýjir meðlimir kirkjunnar, hafið þið heyrt um patríarkablessanir? Ég vissi ekki um möguleikann að hljóta hana þegar ég gekk í kirkjuna, en ástkær biskup minn sagði mér frá patríarkablessunum og hvatti mig til að búa mig undir að fá hana eftir að ég skírðist. Kæru nýju meðlimir, þið getið hlotið patríarkablessun líka. Drottinn mun hjálpa ykkur að búa ykkur undir þá helgu stund.

Hugleiðum tvær ástæður fyrir patríarkablessun:

  1. Patríarkablessun inniheldur persónulega leiðsögn frá Drottni til ykkar.2

  2. Patríarkinn tilgreinir ættkvísl ykkar í húsi Ísraels.

Patríarkablessun ykkar er boðskapur frá himneskum föður ykkar og inniheldur líklega loforð og innblásna leiðsögn til að leiða ykkur í gegnum lífið. Patríarkablessun mun ekki kortleggja líf ykkar eða svara öllum spurningum ykkar. Ef hún minnist ekki á mikilvæga stund í lífi ykkar, takið því þá ekki þannig að þið munið ekki fá það tækifæri. Að sama skapi er engin trygging fyrir því að allt sem segir í blessun ykkar muni gerast í þessu lífi. Patríarkablessun er eilíf og ef þið lifið verðuglega, munu loforð sem uppfyllast ekki í þessu lífi veitast í því næsta.3

Þegar ættkvísl ykkar er tilgreind, munið þið vita að þið tilheyrið Ísraelsætt og eruð niðjar Abrahams.4 Til að skilja mikilvægi þessa, einblínið á loforðin sem Drottinn gaf Ísraelsætt í gegnum Abraham.

Meðal þessara loforða eru:

  • „Afkomendur hans yrðu ómælanlegir (sjá 1. Mósebók 17:5–6; HDP Abraham 2:9; 3:14).

  • Niðjar hans, eða afkomendur, myndu meðtaka fagnaðarerindið og halda prestdæmið (sjá HDP Abraham 2:9).

  • Í gegnum þjónustu niðja hans, ‚[myndu] allar ættkvíslir jarðar verða blessaðar, já, með blessunum fagnaðarerindisins, sem eru blessanir sáluhjálpar, já, eilífs lífs‘ (HDP Abraham 2:11).“5

Sem meðlimir kirkjunnar erum við börn sáttmálans.6 Við meðtökum blessanir sáttmála Abrahams er við hlýðum lögmáli og helgiathöfnum fagnaðarerindisins.

Undirbúningur fyrir patríarkablessun mun hjálpa ykkur að styrkja trú ykkar á himneskan föður og Jesú Krist. Þegar þið svo meðtakið patríarkablessun ykkar og lesið hana og hugleiðið, getið þið horft til þeirra oftar.

Thomas S. Monson forseti sagði: „Hinn sami Drottinn og sá sem veitti Lehí Líahóna, veitir þér og mér þá fágætu og dýrmætu gjöf í dag að veita leiðsögn í lífi okkar, til að setja viðvaranir okkur til öryggis og til að varða leiðina, jafnvel örugga leið – ekki til fyrirheitins lands, heldur himnesks heimilis okkar.“7

Kæru biskupar, foreldrar, forsetar öldungasveita og Líknarfélaga, deildartrúboðsleiðtogar, bræður og systur í hirðisþjónustu, hvetjið vinsamlega þessa ungu pilta og stúlkur, fullorðnu meðlimi og nýja meðlimi sem hafa enn ekki hlotið patríarkablessun sína að leita leiðsagnar Drottins og aðstoðar við að búa sig undir það.

Ég les mína patríarkablessun oft og í bænarhug; hún veitir mér ávallt hvatningu. Ég sé hvað Drottinn ætlast til af mér og það hjálpar mér við að iðrast og vera auðmjúkur. Þegar ég les hana og hugleiði, þrái ég að lifa verðugur þess að hljóta þær blessanir sem þar er lofað.

Rétt eins og ritningargreinar sem við höfum marglesið fá nýja merkingu seinna meir, þá mun patríarkablessun okkar þýða ólíka hluti á ólíkum stundum. Mín þýðir annað nú en þegar ég var 30 ára og þegar ég var 50 ára. Það er ekki að orðin breytist, en við skynjum þau á annan hátt.

Dallin H. Oaks forseti sagði að patríarkablessun sé „gefin undir innblæstri heilags anda og ætti að vera lesin og túlkuð undir áhrifum sama anda. Merking og vægi patríarkablessunar verður kennd orð á orð ofan er tíminn líður, með krafti sama anda og innblés hana.“8

Bræður og systur, ég ber mitt vitni um að himneskur faðir og ástkær og eingetinn sonur hans, Drottinn Jesús Kristur, lifa. Þeir elska okkur. Patríarkablessanir eru helgar gjafir frá þeim. Þegar þið meðtakið blessun ykkar, munið þið gera ykkur grein fyrir því og skynja hve þeir elska ykkur og einblína á ykkur sem einstaklinga.

Mormónsbók er annað vitni um Jesú Krist. Og ég er þakklátur fyrir að vera leiddur af lifandi spámanni, Russell M. Nelson forseta.

Ég er svo þakklátur fyrir frelsara okkar, Jesú Krist. Þennan páskadag mun ég hugsa til hans og upprisu hans og tilbiðja hann og færa þakkir fyrir fórn hans. Ég veit að hann þjáðist mikið, því hann elskar okkur mikið. Ég veit að hann reis upp vegna elsku sinnar til okkar. Hann er raunverulegur. Um það ber ég vitni í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá General Handbook: Serving in The Church of Jesus Christ of Latter-day Saints, 18.17, ChurchofJesusChrist.org.

  2. Sjá „Patriarchal Blessings,“ í True to the Faith (2004), 112.

  3. Sjá „Patriarchal Blessings,“ í True to the Faith, 113.

  4. Sjá HDP Abraham 2:10.

  5. Abrahamic Covenant,“ í True to the Faith, 5.

  6. Sjá 3. Nefí 20:25–26.

  7. Thomas S. Monson, „Your Patriarchal Blessing: A Liahona of Light,“ Ensign, nóv. 1986, 65.

  8. Dallin H. Oaks, „Patriarchal Blessings,“ Heimsþjálfunarfundur leiðtoga: The Patriarch, 8. jan. 2005, 10.