Aðalráðstefna
Finna persónulegan frið
Aðalráðstefna apríl 2023


15:54

Finna persónulegan frið

Ég bið þess að þið megið finna frið, hjálpa mörgum öðrum að finna hann og útbreiða hann.

Kæru bræður og systur, við höfum verið blessuð með innblásinni kennslu og fallegri tónlist, sem hefur hrært okkur á þessum upphafshluta aðalráðstefnunnar. Við þökkum ykkur fyrir þátttökuna og trú ykkar.

Í dag mun ég tala um það sem ég hef lært um það kraftaverk að finna persónulegan frið, hverjar sem aðstæður okkar eru. Frelsarinn veit að öll börn himnesks föður þrá frið og hann sagði að hann gæti fært okkur hann. Þið munið eftir orðum Jesú Krists sem skráð eru í Jóhannesarguðspjalli: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.“1

Það sem hann meinar með friði og hvernig hann getur veitt hann, verður ljóst af aðstæðum þeirra sem heyrðu hann mæla þessi orð. Hlustið á frásögnina í Jóhannesi um hápunkt jarðneskrar þjónustu Krists. Ofsafengin öfl hins illa herjuðu á hann og kæmu brátt yfir lærisveina hans.

Hér eru orð frelsarans:

„,Ef þér elskið mig munuð þér halda boðorð mín.

Ég mun biðja föðurinn og hann mun gefa yður annan hjálpara sem verður hjá yður að eilífu, anda sannleikans.

Heimurinn getur ekki tekið á móti honum því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann því hann er hjá yður og verður í yður.

Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlaus. Ég kem til yðar.

Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar. Þér munuð sjá mig því ég lifi og þér munuð lifa.

Á þeim degi munuð þér skilja að ég er í föður mínum og þér í mér og ég í yður.

Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau er sá sem elskar mig. En þann sem elskar mig mun faðir minn elska og ég mun elska hann og birta honum hver ég er.‘

Júdas – ekki Ískaríot – sagði við hann: ‚Drottinn, hverju sætir það að þú vilt birtast okkur en eigi heiminum?‘

Jesús svaraði: ‚Sá sem elskar mig varðveitir mitt orð og faðir minn mun elska hann. Til hans munum við koma og gera okkur bústað hjá honum.

Sá sem elskar mig ekki varðveitir ekki mín orð. Orðið, sem þér heyrið, er ekki mitt heldur föðurins sem sendi mig.

Þetta hef ég talað til yðar meðan ég var hjá yður.

En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni mun kenna yður allt og minna yður á allt það sem ég hef sagt yður.

Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.‘“2

Ég hef lært að minnsta kosti fimm sannindi af þessari kennslu frelsarans.

Í fyrsta lagi er gjöf friðar gefin eftir að við höfum þá trú að halda boðorð hans. Hvað þá varðar sem eru sáttmálsmeðlimir kirkju Drottins, þá er hlýðni það sem við höfum lofað að tileinka okkur.

Í öðru lagi mun heilagur andi koma og dvelja hjá okkur. Drottinn segir að þegar við höldum áfram að vera trúföst, þá muni heilagur andi dvelja í okkur. Það er fyrirheitið í sakramentisbæninni um að andinn verði félagi okkar og að við myndum finna huggun hans í hjörtum okkar og huga.

Í þriðja lagi lofar frelsarinn því að þegar við höldum sáttmála okkar, getum við fundið kærleika föðurins og sonarins til annarra og okkar sjálfra. Við getum fundið nálægð þeirra í okkar jarðneska lífi, rétt eins og við munum gera þegar við njótum þeirrar blessunar að vera með þeim að eilífu.

Í fjórða lagi krefst það meira en hlýðni að halda boðorð Drottins. Okkur er boðið að elska Guð af öllu hjarta, mætti, huga og sál.3

Þeir sem elska hann ekki, halda ekki boðorð hans. Og því munu þeir ekki hljóta gjöf friðar í þessu lífi og í hinum komandi heimi.

Í fimmta lagi er ljóst að Drottinn elskaði okkur svo heitt að hann greiddi gjaldið fyrir syndir okkar, svo að við gætum – fyrir trú okkar á hann og iðrun, fyrir tilverknað friðþægingar hans – hlotið gjöf friðar, sem er „æðri öllum skilningi,“4 í þessu lífi og með honum að eilífu.

Sum ykkar, kannski mörg, finnið ekki friðinn sem Drottinn lofaði. Þið gætuð hafa beðið um persónulegan frið og andlega huggun. Samt gæti ykkur fundist sem himnarnir væru hljóðir yfir beiðni ykkar um frið.

Það er óvinur sálar ykkar sem vill ekki að þið, og þau sem þið elskið, finnið frið. Hann getur ekki notið hans. Hann reynir jafnvel að koma í veg fyrir að þið viljið finna þann frið sem frelsarinn og okkar himneski faðir þrá að þið öðlist.

Viðleitni Satans til að sá illvilja og deilum umhverfis virðist vera að aukast. Við sjáum vísbendingar um slíkt gerast meðal þjóða og í borgum, í hverfum, í rafrænum fjölmiðlum og um allan heim.

Samt er ástæða til bjartsýni: Hún er að ljós Krists er sett í hvert nýfætt barn. Með þeirri algildu gjöf fylgir tilfinning um hvað er rétt, þrá til að elska og vera elskaður. Í hverju barni Guðs er meðfædd réttlætiskennd og sannleikur, þegar það kemur í jarðlífið.

Bjartsýni okkar um persónulegan frið til handa þessum börnum er undir fólkinu komið sem annast þau. Ef þau sem ala börnin upp hafa leitast við að taka á móti gjöf friðar frá frelsaranum, munu þau, með sínu persónulega fordæmi og viðleitni, vekja trú barnsins á að verða hæft fyrir hina himnesku gjöf friðar.

Þetta er það sem ritningarnar lofa: „Fræð hinn unga um veginn sem hann á að halda og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja.“5 Það mun krefjast þess að þau sem bera ábyrgð á umönnun og uppeldi barna séu verðug gjöf friðar.

Því miður höfum við öll fundið fyrir sársauka þegar börn sem alin eru upp af innblásnum foreldrum – stundum öðru foreldrinu – velja síðar að fara veg sorgarinnar eftir trú og frið alla ævi.

Þótt slíkir sorgaratburðir eigi sér stað, hvílir bjartsýni mín á annarri gjöf frá Drottni. Hún er þessi: Hann vekur upp marga friðflytjendur meðal traustra lærisveina sinna. Þeir hafa fundið fyrir friði og kærleika Guðs. Þeir hafa heilagan anda í hjörtum sínum og Drottinn getur leitt þá til að liðsinna hinum villuráfandi sauðum.

Ég hef séð það í áranna rás og um allan heim. Þið hafið líka séð það. Stundum, þegar þið eruð leidd til að koma til bjargar, getur það virst tilviljunarkennt.

Eitt sinn spurði ég einfaldlega einhvern sem ég hitti á ferðalagi: „Viltu segja mér aðeins frá fjölskyldu þinni?“ Samtalið leiddi til þess að ég bað um að fá að sjá mynd af fullorðinni dóttur hennar, sem hún sagði að ætti í erfiðleikum. Ég varð sleginn yfir gæskunni í andliti stúlkunnar á myndinni. Ég fann mig knúinn til að spyrja hvort ég gæti fengið netfangið hennar. Dóttirin var á þeirri stundu týnd og velti fyrir sér hvort Guð hefði eitthvað að segja henni. Hann gerði það. Það var þetta: „Drottinn elskar þig. Hann hefur alltaf gert það. Drottinn vill að þú komir til baka. Fyrirheitnar blessanir þínar eru enn til staðar.“

Meðlimir víðs vegar í kirkjunni hafa skynjað gjöf Drottins um persónulegan frið. Hann er að hvetja alla til að hjálpa öðrum að hljóta tækifæri til að koma til sín og verða sjálfir hæfir fyrir sama frið. Þeir munu síðan, á sama hátt, velja að leita innblásturs til að vita hvernig þeir geti fært öðrum þessa gjöf.

Hin upprennandi kynslóð mun ala upp kynslóðina sem á eftir kemur. Margföldunaráhrifin munu leiða til kraftaverks. Það mun breiðast út og vaxa með tímanum og ríki Drottins á jörðu mun verða undir það búið að taka á móti honum með hósannahrópum. Það verður friður á jörðu.

Ég ber mitt örugga vitni um að frelsarinn lifir og að hann leiðir þessa kirkju. Ég hef fundið elsku hans í lífi mínu og elsku hans og umhyggju fyrir öllum börnum himnesks föður. Boð frelsarans um að koma til hans er boð um frið.

Russell M. Nelson forseti er lifandi spámaður Guðs fyrir alla jörðu. Hann hefur sagt: „Ég fullvissa ykkur um að burtséð frá ástandi heimsins og persónulegum aðstæðum ykkar sjálfra, þá getum við tekist á við framtíðina af bjartsýni og gleði.“6

Ég tjái ykkur elsku mína. Mikil trú ykkar og kærleikur nær til fólks og gerir Drottni mögulegt að breyta hjörtum og þannig öðlast það þrá til að bjóða öðrum gjöf friðar, sem er æðri öllum skilningi.

Ég bið þess að þið megið finna frið, hjálpa mörgum öðrum að finna hann og útbreiða hann. Það verða dásamlegur þúsund ára friður þegar Drottinn kemur aftur. Um það ber ég vitni af gleði, í nafni Jesú Krists, amen.