Slepptu aldrei tækifæri til að bera vitni um Krist
Sönn gleði felst í vilja okkar að koma nær Kristi og verða sjálf vitni.
Fyrir fimm árum réttum við upp hendur til að styðja ástkæran spámann okkar, Russell M. Nelson forseta, sem spámann Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu – talsmann Drottins fyrir þessa einstaka tímabil vaxtar og opinberunar. Með honum höfum við hlotið óteljandi boð og okkur lofað dásamlegum blessunum, ef við myndum gera frelsara okkar, Jesú Krist, að þungamiðju lífs okkar.
Árið 2011, þegar ég og eiginmaður minn þjónuðum sem trúboðsleiðtogar í hinni fallegu Curitiba, Brasilíu, hringdi sími minn á meðan ég var á fundi. Í flýti við að þagga niður í honum, sá ég að símtalið var frá föður mínum. Ég yfirgaf fundinn í skyndi til að svara: „Hæ pabbi!“
Mér að óvörum var rödd hans fyllt tilfinningum: „Hæ Bonnie. Ég þarf að segja þér svolítið. Ég hef verið greindur með ALS.“
Hugur minn þyrlaðist um í ringulreið: „Bíddu! Hvað er ALS?“
Pabbi var þegar byrjaður að útskýra: „Hugur minn verður skýr á sama tíma og líkaminn slekkur smátt og smátt á sér.“
Ég fann hvernig heimur minn umturnaðist er ég hóf að glíma við þýðingu þessara alvarlegu frétta. Á þessum ógleymanlega degi var það síðasta setningin sem fann varanlegan stað í hjarta mínu. Elskulegi faðir minn sagði með ákafa: „Bonnie, slepptu aldrei tækifæri að bera vitni um Krist.“
Ég hef hugleitt og beðist fyrir varðandi ráð pabba. Ég hef oft spurt sjálfa mig hvort ég vissi fyllilega hvað það þýðir að sleppa aldrei tækifæri til bera vitni um Jesú Krist.
Eins og þið, hef ég stundum staðið upp á fyrsta sunnudegi mánaðarins og borið vitni um Jesú Krist. Oft hef ég borið vitni um sannleika fagnaðarerindisins sem hluta af lexíu. Ég hef hugdjörf kennt og lýst yfir guðleika Krists sem trúboði.
Samt virtist þessi bón persónulegri! Það virtist sem hann væri að segja: „Bonnie, ekki láta heiminn taka yfirhöndina! Vertu sönn sáttmálum þínum við frelsarann. Leitastu við að upplifa blessanir hans dag hvern og geta borið vitni með heilögum anda um kraft hans og nærveru í lífi ykkar.“
Við búum í föllnum heimi, með truflanir sem draga augu okkar og hjörtu niður á við, frekar en upp til himins. Líkt og með Nefítana í 3. Nefí 11, þá þörfnumst við Jesú Krists. Getið þið ímyndað ykkur vera þar, meðal fólksins sem hafði upplifað svo mikla ringulreið og eyðileggingu? Hvernig það væri að heyra persónulegt boð Drottins:
„Rísið á fætur og komið til mín, svo að þér getið þrýst höndum yðar á síðu mína og einnig fundið naglaförin á höndum mínum og fótum, svo að þér megið vita að ég er … Guð allrar jarðarinnar og hef verið deyddur fyrir syndir heimsins.
„[Og] mannfjöldinn gekk fram … hver af öðrum, … og allir sáu með augum sínum og fundu með höndum sínum og vissu … og [höfðu] sannfærst.“1
Þessir Nefítar gengu ákafir fram til að þrýsta höndum sínum á síðu hans og finna naglaförin á höndum hans og fótum, svo að þeir gætu orðið persónuleg vitni um að þetta væri Kristur. Á svipaðan hátt, hafði mikið af trúföstu fólki, sem við höfum lært um í Nýja testamentinu þetta árið, beðið komu Krists. Síðan gekk það frá ökrum sínum, vinnuborðum og matarborðum og fylgdi honum, þyrptist að honum, var þétt við hlið hans og sat með honum. Erum við jafn óðfús að verða vitni sjálf eins og mannfjöldinn í ritningunum? Eru blessanirnar sem við sækjumst eftir síður nauðsynlegri en þeirra?
Þegar Kristur heimsótti Nefítana sjálfur við musteri þeirra, var boð hans ekki að standa fjarri og horfa á hann, heldur að snerta hann, að finna sjálf fyrir raunveruleika frelsara mannkyns. Hvernig getum við komið nægilega nálægt til að öðlast persónulegt vitni um Jesú Krist? Þetta gæti hafa verið hluti af því sem faðir minn var að reyna að kenna mér. Þó að við njótum kannski ekki sömu nálægðar og þeir sem gengu með Kristi í jarðneskri þjónustu hans, þá getum við upplifað kraft hans hvern dag með heilögum anda. Eins mikið og við höfum þörf fyrir!
Stúlkurnar um allan heim hafa kennt mér svo mikið um að leita Krists og að öðlast daglegan, persónulegan vitnisburð um hann. Leyfið mér að miðla ykkur visku tveggja þeirra:
Livvy hefur horft á aðalráðstefnu allt sitt líf. Í raun horfir fjölskyldan saman á alla fimm hlutana á heimili þeirra. Hér áður þýddi ráðstefnan það fyrir Livvy að hún teiknaði eða féll stundum í óviljandi svefn. Síðasta október var aðalráðstefnan öðruvísi. Hún varð persónuleg.
Í þetta skiptið ákvað Livvy að vera virkur þátttakandi. Hún slökkti á tilkynningunum í símanum sínum og skrifaði niður hughrif frá andanum. Hún var undrandi er hún skynjaði ákveðna hluti sem Guð vildi að hún heyrði og gerði. Þessi ákvörðun breytti lífi hennar nær samstundis.
Aðeins nokkrum dögum seinna buðu vinir hennar henni á óviðeigandi bíómynd. Hún hugsaði málið: „Ég fann orð og anda ráðstefnunnar koma aftur í hjarta mér og ég heyrði sjálfa mig afþakka boð þeirra.“ Hún hafði einnig hugrekkið til að miðla vitnisburði sínum í deild sinni.
Eftir þessa atburði sagði hún: „Það merkilega er að þegar ég heyrði sjálfa mig bera vitni um að Jesús er Kristur, fann ég heilagan anda staðfesta það aftur fyrir mér.“
Livvy stiklaði ekki á stóru yfir aðalatriði ráðstefnuhelgarinnar; hún stakk sér á kaf, í huga og anda og fann frelsarann þar.
Svo er það Maddy. Þegar fjölskylda hennar hætti að mæta í kirkju, var Maddy ráðvillt og ekki viss hvað hún ætti að gera. Hún gerði sér grein fyrir því að það vantaði eitthvað mikilvægt. Þannig að Maddy fór að mæta ein í kirkju, 13 ára gömul. Jafnvel þó að það væri stundum erfitt og óþægilegt að vera ein, þá vissi hún að hún gæti fundið frelsarann í kirkju, og hún vildi vera þar sem hann væri. Hún sagði: „Í kirkju fannst sál minni að hún væri heima.“
Maddy hélt fast í þá staðreynd að fjölskylda hennar væri innsigluð um eilífð. Hún tók að fara með yngri bræður sína með sér í kirkju og lesa ritningarnar með þeim heima. Loks fór mamma hennar að taka þátt. Maddy sagði mömmu sinni frá þrá sinni til að þjóna í trúboði og spurði hvort móðir hennar gæti búið sig undir að fara með henni í musterið.
Í dag er Maddy í trúboðsskólanum. Hún er að þjóna. Hún er að vitna um Krist. Fordæmi hennar hjálpaði til að leiða báða foreldra hennar aftur í musterið og aftur til Krists.
Eins og hjá Livvy og Maddy, þá mun andinn bera vitni um Krist í mörgum ólíkum aðstæðum, er við veljum að leita hans. Þessi vitni andans munu koma er við föstum, biðjum, bíðum og höldum áfram. Nánd okkar við Krist vex við tíða tilbeiðslu í musterinu, daglega iðrun, lestur ritninganna, kirkjusókn og trúarskólasókn, hugleiðslu um patríarkablessun okkar, að meðtaka helgiathafnir verðuglega og heiðra helga sáttmála. Allt býður þetta andanum að upplýsa huga okkar og færir okkur meiri frið og vernd. Heiðrum við þetta sem heilög tækifæri til að bera vitni um Krist?
Ég hef oft farið í musterið, en þegar ég tilbið í húsi Drottins, breytir það mér. Stundum þegar ég fasta finn ég að ég er bara svöng, en á öðrum stundum endurnærist ég af andanum með tilgangi. Stundum hef ég muldrað bænir sem eru endurtekningar og vani, en ég hef einnig verið fús til að taka á móti ráði Drottins í bæn.
Það felst kraftur í því að gera þessar heilögu venjur að meiru en bara gátlista og meira að vitni. Ferlið verður hægfara en við munum vaxa með daglegri, virkri þátttöku og ákveðinni reynslu með Kristi. Þegar við tileinkum okkur stöðugt kenningu hans, öðlumst við vitnisburð um hann; við þróum samband við hann og himneskan föður okkar. Við byrjum að verða eins og þeir eru.
Andstæðingurinn skapar svo mikinn hávaða að það getur verið erfitt að heyra rödd Drottins. Heimur okkar, áskoranir og aðstæður verða ekki hljóðari, en við getum og okkur verður að hungra og þyrsta eftir því sem Krists er, til að „hlýða á hann“ af skýrleika.2 Okkur langar að skapa vöðvaminni lærisveinsins og vitnisburð sem mun beina athyglinni að daglegu trausti okkar á frelsaranum.
Faðir minn lést fyrir meira en 11 árum en orð hans eru mér enn ljóslifandi. „Bonnie, slepptu aldrei tækifæri til að bera vitni um Krist.“ Ég býð ykkur að þiggja boð hans með mér. Leitið Krists alls staðar – ég lofa ykkur að hann er þar!3 Sönn gleði felst í vilja okkar að koma nær Kristi og verða sjálf vitni.
Við vitum að á síðustu dögum mun „hvert kné beygja sig og hver tunga viðurkenna“ að Jesús er Kristur.4 Ég bið þess að þetta vitni verði eðlileg og náttúruleg upplifun fyrir okkur nú – að við munum nýta hvert tækifæri til að bera gleðilegt vitni: Jesús Kristur lifir!
Ó, hve ég elska hann. Mikið erum við þakklát fyrir altæka friðþægingu hans sem „gerði eilíft líf og ódauðleika að veruleika fyrir okkur öll.“5 Ég vitna um góðvild frelsarans og mikla dýrð, í hans heilaga nafni, Jesú Krists, amen.