Aðalráðstefna
Kristilegt jafnaðargeð
Aðalráðstefna apríl 2023


11:17

Kristilegt jafnaðargeð

„Hann vaknaði, hastaði á vindinn og sagði við vatnið: ‚Þegi þú, haf hljótt um þig!‘ Þá lægði vindinn og gerði stillilogn“ (Markús 4:39).

Síðast þegar ég talaði á aðalráðstefnu sýndi Ryan tengdasonur minn mér tíst sem sagði: „Í alvöru? Þessi náungi heitir Bragg“ – sem þýðir að hreykja sér – „og hann ræðir ekki um auðmýkt? Þvílík sóun!“ Því miður, þá halda vonbrigðin áfram.

Don Bragg sem körfuboltaspilari

Dásamlegur faðir minn var valinn í úrvalslið háskólakörfuboltans fyrir UCLA undir stjórn hins goðsagnakennda þjálfara, Johns Wooden. Þeir voru nánir alla ævi föður míns og einstaka sinnum komu Wooden þjálfari og eiginkona hans heim til okkar í kvöldmat. Hann var alltaf fús til að tala við mig um körfubolta eða eitthvað annað sem mér datt í hug. Eitt sinn spurði ég hann hvaða ráð hann hefði handa mér er ég hóf síðasta árið mitt í menntaskóla. Verandi alltaf í kennsluham, sagði hann: „Faðir þinn sagði mér að þú hefðir gengið í kirkju Jesú Krists, svo ég veit að þú trúir á Drottin. Vertu viss um að sýna jafnaðargeð í öllum aðstæðum. Vertu góður maður í stormi.“

Í áranna rás festist þetta samtal í mér. Þetta ráð um að halda ró minn og sýna stillingu við allar aðstæður, einkum á tímum mótlætis og álags, sló í gegn hjá mér. Ég sá hvernig lið Wooden þjálfara spiluðu af jafnaðargeði og náðu þeim frábæra árangri að vinna tíu landsmeistaratitla.

Ekki er þó rætt mikið um jafnaðargeð þessa dagana og það jafnvel iðkað enn minna á ólgusömum og tvísýnum tímum. Það er oft vísað til þess í íþróttum – leikmaður með jafnaðargeð er óviðjafnanlegur í jöfnum leik eða lið leysist upp vegna skorts á jafnaðargerði. Þessi dásamlegi eiginleiki nær þó út fyrir íþróttir. Jafnaðargeð hefur miklu víðtækari notkun og getur blessað foreldra, leiðtoga, trúboða, kennara, nemendur og alla aðra sem takast á við storma lífsins.

Andlegt jafnaðargeð er sú blessun að sýna stillingu og einbeita sér að því sem mestu skiptir, einkum þegar við erum undir álagi. Hugh B. Brown forseti kenndi: „Trú á Guð og fullkominn sigur hins rétta felur í sér huglægt og andlegt jafnaðargeð í erfiðleikum.“1

Russell M. Nelson forseti er dásamlegt dæmi um andlegt jafnaðargeð. Þegar Nelson, sem þá var læknir, framkvæmdi eitt sinn fjórfalda kransæðahjáveitu, lækkaði blóðþrýstingur sjúklingsins skyndilega. Nelson læknir mat ástandið af stillingu og benti á að einn í læknahópnum hefði af slysni fjarlægt klemmu. Hún var undir eins sett á sinn stað og Nelson læknir hughreysti þann sem var í teyminu og sagði: „Ég elska þig ennþá,“ og bætti síðan við af gríni: „Stundum elska ég þig meira á öðrum stundum!“ Hann sýndi hvernig ætti að bregðast við neyðartilvikum – með jafnaðargeði og einbeita sér aðeins að því sem mestu skiptir – að takast á við neyðartilvikið. Nelson forseti sagði: „Þetta er spurning um mikinn sjálfsaga. Eðlileg viðbrögð ykkar eru: ‚Taktu mig út af, þjálfari! Ég vil fara heim.‘ En auðvitað geturðu það ekki. Mannslíf er algjörlega háð öllu skurðlæknateyminu. Maður verður því að vera eins rólegur og afslappaður og einbeittur og maður getur verið.“2

Auðvitað er frelsarinn hið fullkomna dæmi um jafnaðargeð.

Í Getsemanegarðinum, af ólýsanlegri angist, er „sveiti hans varð eins og blóðdropar,“3 sýndi hann guðlegt jafnaðargeð með hinum einföldu og háverðugu orðum: „Verði þó ekki minn heldur þinn vilji.“4 Undir gríðarlegum þrýstingi við að gera sáluhjálp alls mannkyns að veruleika, sýndi Jesús fram á þrjú mikilvæg atriði sem hjálpa okkur að skilja hið mikla jafnaðargeð hans. Í fyrsta lagi, þá vissi hann hver hann var og var trúr guðlegu hlutverki sínu. Í öðru lagi, þá vissi hann að til var mikil sæluáætlun. Og loks vissi hann að fyrir hina óendanlegu friðþægingu sína myndu allir frelsast sem trúfastlega eru bundnir oki með honum, með því að gera og halda heilaga sáttmála sem mótteknir eru með helgiathöfnum prestdæmisins, eins og svo dásamlega var kennt í dag af öldungi Dale R. Renlund.

Til að átta sig á hvað í því felst að sýna og sýna ekki jafnaðargeð, þá getið þið íhugað það sem gerðist þegar Kristur og postular hans yfirgáfu Getsemanegarðinn. Þegar hermenn hugðust handtaka Jesú, voru fyrstu viðbrögð Péturs að missa stillingu sína og höggva harkalega frá sér svo af fór eyrað af þjóni æðsta prestsins, Malkusi. Viðbrögð Jesú Krists voru aftur á móti að sýna jafnaðargeð og stilla hinar spennuþrungnu aðstæður með því að lækna Malkus.5

Og fyrir okkur sem eigum í erfiðleikum með að halda jafnaðargeði og erum ef til vill orðin vonlaus, íhugið það sem eftir er af frásögn Péturs. Stuttu eftir þetta atvik og sársaukann við að afneita tengslum sínum við Krist,6 stóð hann frammi fyrir þessum sömu trúarleiðtogum og höfðu fordæmt frelsarann og af miklu jafnaðargeði, undir ákafri yfirheyrslu, bar hann máttugan vitnisburð um guðleika Jesú Krists.7

Vitið hver þið eruð og verið sönn ykkar guðlegu sjálfsmynd

Við skulum íhuga þætti kristilegs jafnaðargeðs. Til að byrja með, þá veitir það rósemd að vita hver við erum og að vera trú guðlegri sjálfsmynd okkar. Kristilegt jafnaðargeð krefst þess að við forðumst að bera okkur saman við aðra eða þykjast vera einhver sem við erum ekki.8 Joseph Smith kenndi: „Ef menn skilja ekki persónuleika Guðs, skilja þeir ekki sig sjálfa.“9 Það er hreinlega ekki hægt að hafa guðlegt jafnaðargeð án þess að vita að við erum guðlegir synir og dætur kærleiksríks himnesks föður.

Í ræðu sinni, „Choices for Eternity,“ kenndi Nelson forseti þennan eilífa sannleika um hver við erum: Við erum börn Guðs, við erum börn sáttmálans og við erum lærisveinar Krists. Síðan lofaði hann: „Þegar þið meðtakið þennan sannleika, mun himneskur faðir hjálpa ykkur að ná því endanlega markmiði ykkar að lifa að eilífu í heilagri návist hans.“10 Við erum sannlega guðlegar andaverur að upplifa jarðneska reynslu. Að vita hver við erum og að vera trú þeirri guðlegu sjálfsmynd, er grundvallaratriði fyrir þróun kristilegs jafnaðargeðs.

Vitið að það er guðleg áætlun

Næst er að hafa hugfast að til er mikil áætlun sem krefst hugrekkis og jafnaðargeðs við krefjandi aðstæður. Nefí gat „farið og gjört“11 eins og Drottinn bauð, þótt hann hafi „ekki [vitað] fyrirfram“12 það sem hann átti að gera, vegna þess að hann vissi að hann yrði leiddur af andanum, til að uppfylla eilífa áætlun kærleiksríks himnesks föður. Jafnaðargeð hlýst þegar við sjáum hlutina út frá eilífu sjónarhorni. Drottinn hefur boðið lærisveinum sínum að „líta upp og horfa“13 og „láta hátíðleika eilífðarinnar hvíla í hugum [sínum].“14 Með því að ramma krefjandi tíma í eilífa áætlun, verður þrýstingur að forréttindum til að elska, þjóna, kenna og blessa. Eilíft sjónarhorn stuðlar að kristilegu jafnaðargeði.

Þekkið hinn virkjandi kraft Jesú Krists og friðþægingar hans

Og að lokum veitir hinn virkjandi kraftur Krists, sem mögulegur er fyrir friðþægingarfórn hans, okkur styrk til að standast og sigra. Vegna Jesú Krists, getum við gert sáttmála við Guð og hlotið styrk til að halda þann sáttmála. Við getum verið bundin frelsaranum í gleði og rósemd, óháð stundlegum aðstæðum okkar.15 Alma, kapítuli 7 kennir dásamlega um virkjandi kraft Krists. Auk þess að leysa okkur frá synd, getur frelsarinn styrkt okkur í veikleika okkar, ótta og áskorunum þessa lífs.

Þegar við einblínum á Krist, getum við bælt ótta okkar, eins og fólk Alma gerði í Helam.16 Þegar ógnandi her safnaðist saman, sýndu þessir trúföstu lærisveinar Krists jafnaðargeð. Öldungur David A. Bednar hefur kennt: „Alma ráðlagði hinum trúuðu að muna eftir Drottni og endurlausninni sem aðeins hann gæti veitt (sjá 2. Nefí 2:8). Vitneskjan um verndandi mátt frelsarans varð til þess að óttann lægði í hjörtum fólksins.“17 Þetta sýnir jafnaðargeð.

Maður mikill í stormi

Nói kenndi okkur margt um þolinmæði í stormi, en frelsarinn var besti kennarinn um það hvernig lifa á af í stormi. Hann var maður mikill í stormi. Eftir langan kennsludag með postulum sínum, þurfti frelsarinn að hvílast og lagði til að þeir færu með báti hinum megin Galíleuvatns. Þegar frelsarinn hvíldi sig, skall á mikill stormur. Þar sem vindurinn og öldurnar voru ógn við að báturinn sykki, tóku postularnir að óttast um líf sitt. Og munið að nokkrir af þessum postulum voru fiskimenn sem voru vel kunnugir stormum á þessu vatni! Samt voru þeir áhyggjufullir,18 vöktu Drottin og spurðu: „[Drottinn], hirðir þú eigi um að við förumst?“ Af miklu jafnaðargeði „vaknaði [frelsarinn], hastaði á vindinn og sagði við vatnið: ‚Þegi þú, haf hljótt um þig!‘ Þá lægði vindinn og gerði stillilogn.“19

Og síðan kom mikil lexía fyrir postulana hans um jafnaðargeð. Hann spurði: „Hví eruð þið hræddir, hafið þið enn enga trú?“20 Hann var að minna þá á að hann væri frelsari heimsins og að hann væri sendur af föðurnum til að gera ódauðleika og eilíft líf barna Guðs að veruleika. Vissulega myndi sonur Guðs ekki farast á báti. Hann sýndi guðlegt jafnaðargeð, vegna þess að hann þekkti guðleika sinn og vissi að til var áætlun sáluhjálpar og upphafningar og hversu nauðsynleg friðþæging hans væri fyrir eilífan tilgang þeirrar áætlunar.

Það er fyrir Krist og friðþægingu hans sem allt gott kemur inn í líf okkar. Þegar við minnumst þess hver við erum, vitandi að til er guðleg áætlun um miskunn og hljótum hugrekki í styrk Drottins, er okkur allt mögulegt. Við munum finna ró. Við verðum góðar konur og karlar í hvaða stormi sem er.

Megum við leita blessunar kristilegs jafnaðargeðs, ekki aðeins til að hjálpa okkur sjálfum á erfiðum tímum, heldur til að blessa aðra og hjálpa þeim í gegnum stormana í lífi þeirra. Á þessu pálmasunnudagskvöldi ber ég gleðilega vitni um Jesú Krist. Hann er upp risinn. Ég ber vitni um friðinn, rósemdina og hið himneska jafnaðargeð sem hann einn færir í líf okkar og það geri ég í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Hugh B. Brown, í Conference Report, okt. 1969, 105.

  2. Sjá Sheri Dew, Insights from a Prophet’s Life: Russell M. Nelson (2019), 66–67.

  3. Þýðing Josephs Smith, Lúkas 22:44 (í Lúkas 22:44, neðanmálstilvísun b).

  4. Lúkas 22:42.

  5. Sjá Lúkas 22:50–51; Jóhannes 18:10–11.

  6. Sjá Matteus 26:34–35, 69–75.

  7. Sjá Postulasagan 4:8–10; Neal A. Maxwell, „Content with the Things Allotted to Us,“ Ensign, maí 2000, 74; Liahona, júlí 2000, 89: „Þegar við erum andlega stillt, getum við sýnt jafnaðargeð, jafnvel þótt við skiljum ekki ‚merkingu allra hluta.‘ (1. Nefí 11:17).“

  8. Sjá John R. Wooden, Wooden on Leadership „Poise,“ 50: „Ég skilgreini jafnaðargeð sem að vera samkvæmur sjálfum sér, ekki láta hrófla við sér, trufla sig eða koma sér úr jafnvægi, óháð aðstæðum. Þetta kann að hljóma auðvelt, en jafnaðargeð getur verið afar mikilvægur eiginleiki á krefjandi stundum. Leiðtoga sem skortir jafnaðargeð missa stjórn undir þrýstingi.

    Jafnaðargeð þýðir að halda fast við skoðanir þínar og haga þér í samræmi við þær, óháð því hversu slæmt eða gott ástandið kann að vera. Jafnaðargeð þýðir að forðast að látast eða þykjast, að bera sig saman við aðra og haga sér eins og einhver sem maður er ekki. Jafnaðargeð þýðir að vera hugrakkur í hjarta í öllum aðstæðum.“

  9. Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 40.

  10. Russell M. Nelson, „Choices for Eternity,“ (heimslæg trúarsamkoma fyrir ungt fullorðið fólk, 15. maí 2022), broadcasts.ChurchofJesusChrist.org.

  11. 1. Nefí 3:7.

  12. 1. Nefí 4:6.

  13. Jóhannes 4:35.

  14. Kenning og sáttmálar 43:34; sjá einnig James E. Faust, „The Dignity of Self,“ Ensign, maí 1981, 10: „Sjálfsvirðing eykst til muna er við lítum upp á við í leit að heilagleika. Eins og risastór tré, ættum við að teygja okkur upp í ljósið. Mikilvægasti ljósgjafinn sem við getum þekkt er gjöf heilags anda. Hún er uppspretta innri styrks og friðar.“

  15. Sjá Russell M. Nelson, „Gleði og andleg þrautseigja,“ aðalráðstefna, október 2016: „Kæru bræður og systur, gleðin sem við finnum hefur lítið að gera með okkar lífsins aðstæður, en þess meira með það sem við einblínum á í lífinu.“

  16. Sjá Mósía 23:27–28.

  17. David A. Bednar, „Þeir bældu þess vegna ótta sinn,“ aðalráðstefna, apríl 2015.

  18. Sjá Jeffrey R. Holland, Our Day Star Rising: Exploring the New Testament with Jeffrey R. Holland (2022), 61–62: „Auk þess voru þetta reyndir menn um borð með honum – ellefu af hinum upprunalegu Tólf voru Galíleubúar (aðeins Júdas Ískaríot var Júdamaður). Og sex af þessum ellefu voru fiskimenn. Þeir höfðu búið á þessu vatni. Þeir höfðu lifað á því að veiða á því. Þar höfðu þeir verið síðan þeir voru börn. Feður þeirra létu þá gera við netin og bátinn þegar þeir voru mjög ungir. Þeir þekktu þetta vatn; þeir þekktu vindana og öldurnar. Þeir voru reyndir menn – en þeir voru dauðhræddir. Og ef þeir voru hræddir, þá var þetta vissulega stormur.“

  19. Sjá Markús 4:35–39.

  20. Markús 4:40.