Aðalráðstefna
Hefur mér í raun verið fyrirgefið?
Aðalráðstefna apríl 2023


11:36

Hefur mér í raun verið fyrirgefið?

Loforðið um algjöra og fullkomna fyrirgefningu er gefið öllum – með og fyrir hina óendanlegu friðþægingu Jesú Krists.

Fyrir nokkrum árum fluttum ég og systir Nattress til Idaho, þar sem við stofnuðum nýtt fyrirtæki. Það voru langir dagar og nætur á skrifstofunni. Sem betur fer bjuggum við aðeins nokkrum húsaröðum frá vinnustaðnum. Í hverri viku komu Shawna og dætur okkar þrjár – allar undir sex ára aldri – á skrifstofuna til að borða með okkur hádegisverð.

Á einum slíkum degi, eftir hádegisverð fjölskyldunnar, tók ég eftir að fimm ára dóttir okkar, Michelle, hafði skilið eftir persónuleg skilaboð fyrir mig, skrifuð á glósublað og fest á skrifstofusímann minn.

Þar stóð einfaldlega: „Pabbi, mundu að elska mig. Ástarkveðja, Michelle.“ Þetta var áhrifamikil áminning fyrir ungan föður um þá hluti sem skipta mestu máli.

Bræður og systur, ég ber vitni um að himneskur faðir man alltaf eftir okkur og að hann elskar okkur fullkomlega. Spurning mín er þessi: Minnumst við hans? Og elskum við hann?

Fyrir mörgum árum þjónaði ég sem staðarleiðtogi í kirkjunni. Einn af ungu mönnum okkar, Danny, var framúrskarandi á allan hátt. Hann var hlýðinn, góður, vingjarnlegur og hafði stórt hjarta. Hins vegar, þegar hann útskrifaðist úr menntaskóla, tók hann að umgangast hrottalegan hóp. Hann varð viðriðinn fíkniefni, einkum metamfetamíni, og fór á hálan veg fíknar og eyðileggingar. Áður en langt um leið breyttist útlit hans gjörsamlega. Hann varð varla þekkjanlegur. Mikilvægasta breytingin var á augum hans – ljósið í augum hans hafði dofnað. Nokkrum sinnum reyndi ég að ná til hans, en án árangurs. Hann hafði ekki áhuga.

Það var erfitt að sjá þennan ótrúlega unga mann þjást og lifa lífi sem átti ekki við hann! Hann var fær um svo miklu meira.

Svo einn daginn byrjaði kraftaverk hans.

Hann kom á sakramentissamkomu, þar sem yngri bróðir hans miðlaði vitnisburði sínum áður en hann fór í trúboð. Á samkomunni fann Danny fyrir einhverju sem hann hafði ekki fundið í langan tíma. Hann fann kærleika Drottins. Hann hafði loks von.

Þótt Danny hefði löngun til að breytast, reyndist það honum erfitt. Fíkn hans og meðfylgjandi sektarkennd var næstum meiri en hann þoldi.

Eitt tiltekið síðdegi, þegar ég var úti að slá grasiblettinn okkar, kom Danny fyrirvaralaust í bílnum sínum. Hann átti í miklum erfiðleikum. Ég slökkti á sláttuvélinni og við settumst niður saman í skugganum á veröndinni. Það var þá sem hann úthellti tilfinningum hjarta síns. Hann vildi sannarlega koma aftur. Hins vegar var afar erfitt að hverfa frá fíkninni og lífsstílnum. Við það bættist að hann fann til sektarkenndar og skammar fyrir að hafa fallið svona langt. Hann spurði: „Er virkilega hægt að fyrirgefa mér? Er virkilega leið til baka?“

Eftir að hann hafði úthellt hjarta sínu með þessar áhyggjur, lásum við Alma kapítula 36 saman:

„Já, ég minntist allra synda minna og misgjörða. …

„Já, … hugsunin ein um að komast í návist Guðs míns fyllti sál mína ólýsanlegri skelfingu“ (vers 13–14).

Eftir þessi vers sagði Danny: „Þetta er nákvæmlega eins og mér líður!“

Við héldum áfram:

„Ég … hrjáðist af endurminningunni um hinar mörgu syndir mínar, sjá, þá minntist ég einnig þess að hafa heyrt föður minn spá fyrir fólkinu, að Jesús nokkur Kristur, sonur Guðs, mundi koma og friðþægja fyrir syndir heimsins. …

Og ó, hvílík gleði, hve undursamlegt ljós ég sá!“ (vers 17, 20).

Þegar við lásum þessi ritningarvers tóku tárin að streyma. Gleði Alma var gleðin sem hann hafði leitað að!

Við ræddum að Alma hefði verið einstaklega ranglátur. Hins vegar, þegar hann iðraðist, leit hann aldrei aftur til baka. Hann varð trúfastur lærisveinn Jesú Krists. Hann varð spámaður! Augu Danny stækkuðu. „Spámaður?“ sagði hann.

Ég svaraði einfaldlega: „Já, spámaður. Engin pressa á þig!“

Við ræddum að þótt syndir hans væru ekki komnar á sama stig og syndir Alma, þá er sama loforðið um algjöra og fullkomna fyrirgefningu gefið öllum – með og fyrir óendanlega friðþægingu Jesú Krists.

Danny skildi þetta núna. Hann vissi hvað hann þurfti að gera: hann þurfti að hefja ferð sína með því að setja traust sitt á Drottin og fyrirgefa sjálfum sér!

Hin miklu sinnaskipti Dannys voru ekkert minna en kraftaverk. Með tímanum breyttist ásýnd hans og birtan í augum hans kom aftur. Hann varð musterisverðugur! Hann var loks kominn aftur!

Eftir nokkra mánuði spurði ég Danny hvort hann vildi leggja fram umsókn um að þjóna í fastatrúboði. Viðbrögð hans voru hrifning og undrun.

Hann sagði: „Ég myndi elska að þjóna í trúboði, en þú veist hvar ég hef verið og hvað ég hef gert! Ég hélt að ég væri vanhæfur.“

Ég svaraði: „Það getur verið að þú hafir rétt fyrir þér. Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu að við sendum beiðni. Ef þú ert afsakaður, muntu að minnsta kosti vita að þú lýstir yfir einlægri löngun til að þjóna Drottni.“ Augu hans lýstust upp. Hann var stórhrifinn af þessari hugmynd. Fyrir honum var þetta langsótt, en tækifæri sem hann var tilbúinn til að grípa.

Nokkrum vikum síðar, og honum til mikillar undrunar, gerðist annað kraftaverk. Danny fékk köllun um að þjóna í fastatrúboði.

Nokkrum mánuðum eftir að Danny kom á trúboðsakurinnn fékk ég símtal. Forseti hans sagði einfaldlega: „Hvernig er það með þennan unga manni? Hann er ótrúlegasti trúboði sem ég hef séð!“ Það var nefnilega svo að þessi forseti hafði tekið á móti Alma yngri okkar tíma.

Tveimur árum síðar sneri Danny heim með sóma, eftir að hafa þjónað Drottni af öllu hjarta, mætti, huga og styrk.

Eftir trúboðsræðu hans á sakramentissamkomu, sneri ég aftur heim, aðeins til að heyra að bankað var á útidyrnar. Þarna stóð Danny með tárin í augunum. Hann sagði: „Getum við talað saman í eina mínútu?“ Við fórum út á sömu tröppuna á veröndinni.

Hann sagði: „Forseti, heldurðu að mér hafi sannlega verið fyrirgefið?

Nú fóru tár mín líka að renna. Fyrir framan mig stóð dyggur lærisveinn Jesú Krists sem hafði lagt sig allan fram við að kenna og bera vitni um frelsarann. Hann var holdgervingur hins læknandi og styrkjandi krafts friðþægingar frelsarans.

Ég sagði: „Danny! Hefurðu horft í spegil? Hefurðu séð augun þín? Þau eru fyllt ljósi og þú ljómar af anda Drottins. Auðvitað hefur þér verið fyrirgefið! Þú ert frábær! Nú þarftu að halda áfram með líf þitt. Ekki líta til baka Líttu fram í trú að næstu helgiathöfn.“

Kraftaverk Dannys heldur áfram í dag. Hann giftist í musterinu og fór aftur í skólann, þar sem hann hlaut meistaragráðu. Hann heldur áfram að þjóna Drottni með heiðri og reisn í köllun sinni. Meira um vert, hann er orðinn ótrúlegur eiginmaður og trúr faðir. Hann er trúfastur lærisveinn Jesú Krists.

Russell M. Nelson forseti kenndi: „Án óendanlegrar friðþægingar [frelsarans] væri allt mannkyn óafturkallanlega glatað.“1 Danny var ekki glataður Drottni og það erum við ekki heldur. Hann stendur við dyrnar til að lyfta, styrkja og fyrirgefa okkur. Hann man alltaf eftir því að elska okkur!

Dásamleg kærleikstjáning frelsarans til barna Guðs er skráð í Mormónsbók: „Og svo bar við, að er Jesús hafði mælt þetta, leit hann enn yfir mannfjöldann og sá að fólkið grét og starði á hann, eins og það vildi biðja hann að dvelja örlítið lengur hjá sér.(3 Nephi 17:5).

Frelsarinn hafði þegar varið heilum degi við að þjóna fólkinu. Hann hafði þó meira að gera – hann átti að vitja annarra sauða sinna; hann átti að fara til föður síns.

Þrátt fyrir þessar skyldur, skynjaði hann að fólkið vildi að hann dvaldi aðeins lengur. Þá, er hjarta frelsarans var fullt af samúð, gerðist eitt mesta kraftaverk í sögu heimsins:

Hann dvaldi áfram.

Hann blessaði það.

Hann þjónaði börnum þess, einu af öðru.

Hann bað fyrir því; hann grét með því.

Og hann læknaði það. (Sjá 3. Nefí 17.)

Loforð hans er eilíft; hann mun lækna okkur.

Þið sem hafið villst af sáttmálsveginum, vitið að það er alltaf von, það er alltaf lækning og það er alltaf leið til baka.

Eilífur boðskapur hans um von er hið græðandi smyrsl fyrir alla sem búa í erfiðum heimi. Frelsarinn sagði: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið“ (Jóhannes 14:6).

Bræður og systur, við skulum muna eftir að leita hans, elska hann og minnast hans.

Ég ber vitni um að Guð lifir og að hann elskar okkur. Ég ber ennfremur vitni um að Jesús Kristur er frelsari og lausnari heimsins. Hann er hinn mikli læknir. Ég veit minn lifir lausnarinn! Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Russell M. Nelson, „Prepare for Blessings of the Temple,“ Ensign, mars 2002, 21.