Aðalráðstefna
Hafið hugfast það sem mestu skiptir
Aðalráðstefna apríl 2023


13:30

Hafið hugfast það sem mestu skiptir

Það sem skiptir mestu máli er samband okkar við himneskan föður og ástkæran son hans, fjölskyldur okkar og nágranna og að gera anda Drottins mögulegt að leiða okkur.

Þegar við minnumst þessa helgi sigurinnreiðar frelsarans í Jerúsalem, skömmu fyrir friðþægingarfórn hans, koma í hugann orð hans um von og huggun: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.“1

Ég elska hann. Ég trúi honum. Ég ber vitni um að hann er upprisan og lífið.

Þessi vitnisburður hefur huggað mig og styrkt mig síðastliðin fjögur og hálft ár, frá því að eiginkona mín, Barbara, lést. Ég sakna hennar.

Oft hef ég hugleitt eilíft hjónaband okkar og líf okkar saman.

Ég hef áður sagt frá því hvernig ég kynntist Barböru og hvernig sú reynsla kenndi mér að nota þá kunnáttu að „fylgja eftir,“ sem ég lærði í trúboði mínu. Ég þurfti að láta fljótt til skarar skríða með hana, eftir að við hittumst fyrst, því hún var falleg, vinsæl og átti mjög annasamt félagslíf. Ég varð fljótt hugfanginn, því að hún var viðmótsgóð og vingjarnleg. Ég dáðist að gæsku hennar. Mér fannst ég og hún tilheyra hvort öðru. Í mínum huga var það svo einfalt.

Ég og Barbara fórum á stefnumót og samband okkar tók að þróast, en hún var óviss hvort það væri rétt fyrir hana að giftast mér.

Það nægði ekki að ég vissi það; Barbara þurfti að komast að því fyrir sig. Ég vissi að ef við helguðum tíma til föstu og bænar um málið, gæti Barbara hlotið staðfestingu frá himnum.

Við fórum ekki á stefnumót eina helgi, svo við gætum fastað og beðist fyrir hvort fyrir sig til að vita fyrir okkur sjálf. Til allrar hamingju fyrir mig, þá hlaut hún sömu staðfestingu og ég sjálfur. Framhaldið, eins og sagt er, þekkja allir.

Þegar Barbara lést settu börnin okkar nokkrar lexíur á legsteininn hennar, sem hún vildi að þau hefðu hugfastar. Ein af þessum lexíum er: „Það sem varir lengst skiptir mestu máli.“

Í dag mun ég deila nokkrum hugsunum og hjartans tilfinningum um það sem skiptir mestu máli.

Fyrsta: Samband við himneskan föður og son hans, Drottin Jesú Krist, er mikilvægast. Þetta samband skiptir mestu máli nú og í eilífðinni.

Önnur: Fjölskyldusambönd eru meðal þess sem skiptir mestu máli.

Gegnumsneytt í þjónustu minni hef ég heimsótt marga einstaklinga og fjölskyldur sem hafa orðið illa úti af völdum hrikalegra náttúruhamfara. Margir voru á vergangi, hungraðir og hræddir. Þeir þurftu læknisaðstoð, mat og húsaskjól.

Þeir þurftu líka á fjölskyldum sínum að halda.

Mér er ljóst að sumir njóta ekki blessana náinnar fjölskyldu, svo ég tel stórfjölskylduna, vini og jafnvel deildarmeðlimi með sem „fjölskyldu.“ Þessi sambönd eru nauðsynleg fyrir andlegt og líkamlegt heilbrigði.

Þessi sambönd geta líka falið í sér ást, gleði, hamingju og þá tilfinningu að tilheyra.

Það er valkostur að hlúa að þessum mikilvægu samböndum. Að velja að vera hluti af fjölskyldu krefst skuldbindingar, kærleika, þolinmæði, samskipta og fyrirgefningar.2 Það kunna að koma stundir þar sem við erum ósammála öðrum einstaklingi, en við þurfum þó ekki að vera óvingjarnleg. Í tilhugalífi og hjónabandi verðum við ekki ástfangin eða missum áhugann eins og við séum taflmenn sem verið er að færa á skákborði. Við veljum að elska og styðja hvort annað. Það sama gerum við í öðrum samböndum fjölskyldu og vina sem eru okkur eins og fjölskylda.

Fjölskylduyfirlýsingin segir: „Hin guðlega sæluáætlun gerir fjölskylduböndin varanleg handan grafar. Helgiathafnir og sáttmálar í heilögum musterum gera mönnum mögulegt að komast aftur í návist Guðs og fjölskyldum að sameinast að eilífu.“3

Annað sem skiptir mestu máli, er að fylgja hvatningu andans í mikilvægustu samböndum okkar og í viðleitni okkar til að elska náungann eins og okkur sjálf, þar á meðal í einkaþjónustu okkar og opinberri þjónustu. Ég lærði þessa lexíu snemma á ævinni, er ég þjónaði sem biskup.

Síðla kvöld eitt í vetrarkulda og snjóþyngslum, var ég á leið úr biskupsskrifstofunni minni þegar ég fékk sterkt á tilfinninguna að heimsækja aldraða ekkju í deildinni. Ég leit á úrið mitt – klukkan var 22:00. Ég taldi mér trú um að of seint væri að fara í slíka heimsókn. Auk þess snjóaði. Ég ákvað að heimsækja þessa kæru systur í bítið, fremur en að trufla hana svo síðla kvölds. Ég ók heim og fór í rúmið en bylti mér fram og til baka alla nóttina, því andinn hrærði við mér.

Í bítið daginn eftir ók ég beinustu leið heim til ekkjunnar. Dóttir hennar kom til dyra og sagði tárfellandi: „Ó, biskup, takk fyrir að koma. Mamma lést fyrir tveimur klukkustundum“ – ég varð miður mín. Ég mun aldrei gleyma tilfinningum hjartans. Ég grét. Hver átti betur skilið en þessi kæra ekkja að biskupinn héldi í hönd hennar, huggaði hana og veitti henni ef til vill síðustu blessunina? Ég varð af þessu tækifæri, því ég rökræddi gegn þessari sterku hvatningu andans.4

Bræður og systur, piltar og stúlkur og börn í Barnafélaginu, ég ber vitni um að eitt af því sem skiptir mestu máli í öllum okkar samböndum er að fylgja hvatningu andans.

Síðasta: Þessa pálmasunnudagshelgi, ber ég vitni um að það sem líka er meðal þess sem mestu máli skiptir, er að snúa til Drottins, bera vitni um hann og þjóna honum.

Trú á Jesú Krist er grundvöllur vitnisburðar okkar. Vitnisburður er staðfesting á eilífum sannleika sem vakinn er í hjarta og sál einstaklings fyrir tilstilli heilags anda. Vitnisburður um Jesú Krist, sem andinn lífgar og styrkir, breytir lífi fólks – hann breytir því hvernig við hugsum og lifum. Vitnisburður snýr okkur til himnesks föður og hins guðlega sonar hans.

Alma kenndi:

„Sjá, ég ber yður þess vitni, að mér er vel kunnugt um, að það, sem ég hef talað um, er sannleikur. Og hvernig haldið þér, að ég viti með vissu, að það er satt?

Sjá, ég segi yður, að hinn heilagi andi Guðs hefur kunngjört mér það. Sjá, ég hef fastað og beðið í marga daga til að öðlast vitneskju um þetta sjálfur. Og nú veit ég sjálfur, að það er sannleikur, því að Drottinn Guð hefur opinberað mér það með sínum heilaga anda.“5

Það nægir þó ekki einungis að eiga vitnisburð. Þegar trúarlegur viðsnúningur okkar til Jesú Krists verður meiri, verður okkur eðlislægt að vitna um hann – gæsku hans, kærleika og góðvild.

Oft á vitnisburðarsamkomum okkar á föstusunnudögum, heyrum við orðtök eins og „ég er þakklát/ur“ og „ég elska“ oftar en við heyrum orðtök eins og „ég veit“ og „ég trúi.“

Ég býð ykkur að gefa oftar vitnisburð ykkar um Jesú Krist. Berið vitni um það sem þið vitið og trúið og það sem þið skynjið, ekki bara um það sem þið eruð þakklát fyrir. Berið vitni um eigin reynslu af því að kynnast og elska frelsarann, að lifa eftir kenningum hans og um endurleysandi og virkjandi kraft hans í lífi ykkar. Þegar þið berið vitni um það sem þið vitið, trúið og skynjið, mun heilagur andi staðfesta sannleikann fyrir þeim sem hlusta einlæglega á vitnisburð ykkar. Þau munu upplifa það, vegna þess að þau hafa horft á ykkur verða friðsama fylgjendur Jesú Krists. Þau munu sjá hvað það þýðir að vera lærisveinn hans. Þau munu líka finna fyrir einhverju sem þau hafa kannski ekki fundið áður. Hreinn vitnisburður kemur frá umbreyttu hjarta og getur borist með krafti heilags anda í hjörtu annarra sem opin eru fyrir því að taka á móti honum.

Þau sem finna fyrir einhverju vegna vitnisburðar ykkar, geta síðan beðið Drottin í bæn að staðfesta sannleika vitnisburðar ykkar. Þá geta þau vitað það fyrir sig sjálf.

Bræður og systur, ég ber ykkur vitni um að ég veit að Jesús Kristur er frelsari og lausnari heimsins. Hann lifir. Hann er upprisinn sonur Guðs og þetta er kirkja hans, leidd af spámanni hans og postulum. Ég bið þess að vitnisburður minn megi loga bjart þann dag sem ég fer yfir í næsta heim.

Í þjónustu minni hef ég lært að það sem skiptir mestu máli er samband okkar við himneskan föður og ástkæran son hans, fjölskyldur okkar og nágranna og að gera anda Drottins mögulegt að leiða okkur í þessum samskiptum, svo við getum vitnað um það sem skiptir mestu máli og varir lengst. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Jóhannes 11:25.

  2. Sjá greinarnar „Family,“ „Unity“ og „Love“ í Gospel Topics í Gospel Library (á ChurchofJesusChrist.org eða í símaappinu) til að lesa ritningarvers og ræður spámanna, postula og annarra kirkjuleiðtoga um þetta efni.

  3. Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ KirkjaJesuKrists.is, Kirkjuefni > Námsefni og kennslugögn > Ritningar > Grunngögn.

  4. Frásögn um upplifun hans er í Susan Easton Black og Joseph Walker, Anxiously Engaged: A Biography of M. Russell Ballard (2021), 90–91.

  5. Alma 5:45–46.