2015
Allt fer vel
júlí 2015


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, júlí 2015

Allt fer vel

Ljósmynd
Dieter F. Uchtdorf forseti

Þegar mér verður hugsað um arfleifðina frá brautryðjendum okkar, er mér efst í huga hinn hugljúfi sálmur „Ó, kom þú örugg herrans heilög sveit“ (Sálmar, nr. 13). Þeir sem lögðu á sig hina löngu leið til Saltvatnsdalsins, sungu oft þennan sálm á ferð sinni.

Mér er vel ljóst að þessir heilögu áttu enga sæludaga. Þeir þoldu sjúkdóma, hita, örmögnun, kulda, ótta, hungur, sársauka, efa og jafnvel dauða.

Í stað þess að hrópa af góðri ástæðu: „Allt fer ekki vel,“ þá tileinkuðu þeir sér viðhorf, sem við dáumst að í dag, Þeir einblíndu ekki á erfiðleikana, heldur á eilífar blessanir. Þeir voru þakklátir í aðstæðum sínum. Þrátt fyrir þveröfug ummerki, þá sungu þeir af allri sannfæringu sálar sinnar: „Allt fer vel!“

Aðdáun okkar á brautryðjendunum er innantóm, ef hún knýr okkur ekki til innri ígrundunar. Ég dreg fram nokkra þá eiginleika sem ég hrífst af í fari þeirra, er ég ígrunda fórn og skuldbindingu þeirra.

Samúð

Brautryðjendurnir báru umhyggju fyrir hver öðrum, hver sem félagslegur, fjárhagslegur eða stjórnmálalegur bakgrunnur þeirra var. Þótt það hægði á för þeirra, væri óþægilegt eða fæli í sér persónulega fórn og áreynslu, þá liðsinntu þeir hver öðrum.

Í okkar heimi sem knúinn er af markmiðum og flokkum, er oft lögð meiri áhersla á málefnin, heldur en að liðsinna öðrum eða efla ríki Guðs. Í nútíma samfélagi getur það oft virst mælieining á verðgildi okkar ef við náum einhverjum ákveðnum hugmyndafræðilegum markmiðum.

Dásamlegt getur verið að setja sér markmið og að ná þeim. Þegar góður árangur hlýst hins vegar með því að vanrækja, hafa að engu eða særa aðra, kann sá árangur að verða of dýru verði keyptur.

Brautryðjendurnir báru hag allra í hópnum fyrir brjósti, en hugsuðu líka um vagnalestirnar sem á eftir komu með því að gróðursetja nytjaplöntur fyrir fólkið sem í þeim var.

Fólkinu var ljós sá styrkur sem fólst í fjölskyldum og vinum. Þar sem það reiddi sig á hvert annað, efldist styrkur þess. Vinir urðu að fjölskyldu.

Brautryðjendurnir minna okkur á hvers vegna við þurfum að láta af þeirri freistingu að einangra okkur og þess í stað að liðsinna og hafa samúð með hvert öðru.

Starf

„Ó, kom þú örugg Herrans heilög sveit.“

Þessi orð hafa orðið lofsöngur þreyttum ferðalöngum. Erfitt er að gera sér í hugarlund hvað þessar mikilhæfu sálir lögðu á sig. Gangan var eitt af því auðveldasta sem fólkið lagði á sig. Allir urðu að leggjast á eitt til að afla matar, gera við vagnana, hirða um dýrin, þjóna sjúkum og máttvana, leita að og byrgja sig upp af vatni og verja sig gegn aðsteðjandi hættum náttúruafla og illfærra óbyggða.

Fólkið vaknaði á morgnana með markmið og skýran tilgang sem allir skildu: Að þjóna Guði og náunganum og að ná til Saltvatnsdalsins. Það einblíndi dag hvern á þann skýra tilgang, vissi hvað nauðsynlegt var að gera og að árangur hvers dags væri mikilvægur.

Á okkar tíma – þegar hvaðeina sem við þráum er rétt innan seilingar – er freistandi að fara út af veginum eða gefast upp er torfæra eða mikill bratti blasir við. Á þeim stundum getur verið lærdómsríkt að leiða hugann að þessum körlum, konum og börnum, sem héldu hinni útvöldu stefnu, þrátt fyrir sjúkdóma, harðræði, þjáningar og jafnvel dauða.

Brautryðjendunum lærðist að erfiði styrkir líkama, huga og anda, eykur skilning á eigin guðlegu eðli og jók samúð þeirra með hver öðrum. Sú venja grundvallaði sálir þeirra og blessaði þá löngu eftir að ferð þeirra lauk yfir sléttur og fjöll.

Bjartsýni

Aðra lexíu má draga af þessum söngtexta brautryðjendanna: „Þá glaðnar hjarta´og hugarþel.“

Ein mesta kaldhæðni okkar tíma er sú að þrátt fyrir okkar ótal blessanir, þá getum við verið afar gleðisnauð. Velsæld og tækniundur gangtaka okkur og rigna yfir okkur öryggi, ótal skemmtunum, stundaránægju og þægindum. Samt sjáum við mikla óhamingju hvarvetna umhverfis.

Brautryðjendurnir, sem færðu svo miklar fórnir, voru jafnvel án brýnustu lífsnauðsynja og þráðu þær til að halda lífi. Þeir skildu að hamingja hlýst ekki fyrir heppni eða tilviljun. Hún hlýst vissulega ekki af því að við fá allt sem hugurinn girnist. Hamingja hlýst ekki vegna ytri aðstæðna. Hún vaknar hið innra – burt séð frá því sem umhverfis gerist.

Brautryðjendurnir vissu það og í þeim anda fundu þeir hamingju í öllum sínum raunum – jafnvel í dýpstu og sárustu raunum sálar sinnar.

Raunir

Stundum hugleiðum við raunir brautryðjendanna, öndum léttar og segjum: „Sem betur fer þá var ég ekki uppi á þessum tíma.“ Ég velti samt fyrir mér hvort hinir hugrökku brautryðjendur hefðu ekki sagt hið sama um okkur, ef þeir hefðu séð til okkar í dag.

Þótt aðrir tímar og aðstæður séu nú, þá eru reglurnar þær sömu sem fylgja þarf við að takast á við raunir og búa í samfélagi velsældar og kærleika, í forsjá Guðs.

Af brautryðjendunum getum við lært að trúa á og treysta Guði. Við getum lært að sýna öðrum samúð. Við getum lært að vinna og dugnaður blessar okkur ekki aðeins stundlega, heldur líka andlega. Við getum lært að við getum verið hamingjusöm hverjar sem aðstæður okkar eru.

Við heiðrum og sýnum brautryðjendunum þakklæti okkar best með því að lifa staðfastlega eftir boðorðum Guðs, sýna samferðafólki okkar samúð og kærleika og tileinka okkur dugnað, bjartsýni og gleði, sem svo glöggt kom fram í lífi brautryðjendanna.

Þegar við gerum það, getum við farið áratugi aftur í tímann, sett hönd í þeirra hönd og sungið með þeim: „Allt fer vel! Allt fer vel!“

Hvernig kenna á boðskapinn

Þið getið byrjað á því að syngja „Ó, kom þú heilög herrans sveit“ (Sálmar, nr. 13) með þeim sem þið kennið. Þið getið sagt frá atviki þar sem þið, eða einhver sem þið þekkið, hafið sýnt samúð, dugnað eða bjartsýni. Þið getið vitnað um blessanir þess að lifa eftir þessum lífsgildum, ef andinn hvetur ykkur til þess, og lofað þeim sem þið kennið að þeir geti hlotið slíkar blessanir.

Prenta