„8.–14. janúar: ‚Ég mun fara og gjöra.‘ 1. Nefí 1–5,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: Mormónsbók 2024 (2024)
„8.–14. janúar. 1. Nefí 1–5,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: 2024 (2024)
8.–14. janúar: „Ég mun fara og gjöra“
1. Nefí 1–5
Mormónsbók hefst á frásögn af raunverulegri fjölskyldu að takast á við raunveruleg vandamál. Þetta gerðist 600 árum f.Kr., en það er ýmislegt við þessa sögu sem gæti hljómað kunnuglega í eyrum fjölskyldna í dag. Þessi fjölskylda bjó í heimi vaxandi ranglætis, en Drottinn lofaði þeim að leiða þau í öruggt skjól, ef þau myndu fylgja honum. Á ferð sinni áttu þau góðar og slæmar stundir og upplifðu miklar blessanir og kraftaverk, en þau tókust einnig á við ósætti og deilur. Það er sjaldséð í ritningunum að sjá svo nákvæma frásögn af fjölskyldu reyna að lifa eftir fagnaðarerindinu: foreldra í basli við að innblása börnum sínum trú og hafa áhyggjur af eigin öryggi, börn að ákveða hvort þau muni trúa foreldrum sínum og bræður að takast á við afbrýðisemi og deilur – og stundum að fyrirgefa hver öðrum. Almennt, þá er kraftur í trúarfordæmi þessarar ófullkomnu fjölskyldu.
Hugmyndir fyrir nám á heimili eða í kirkju
Orð Guðs er mér „mikils virði.“
Einn áberandi boðskapur í Mormónsbók er hið „mikla virði“ orðs Guðs (1. Nefí 5:21). Þegar þið lesið 1. Nefí 1–5, gætið þá að hvernig orð Guðs blessaði fjölskyldu Lehís beint eða óbeint (sjá t.d. 1:11–15; 3:19–20; 5:10–22). Hvað kenna þessir kapítular okkur um orð Guðs? Hvað finnið þið sem innblæs ykkur að kanna ritningarnar?
Sjá einnig „Er í lífsins orðum leita,“ Sálmar, nr. 27; „Scriptures Legacy“ (myndband), Gospel Library.
Ég get hlotið og styrkt vitnisburð minn er ég sný mér til Drottins.
Nefí er kunnur fyrir mikla trú sína á Drottin, en hann varð að erfiða til að öðlast vitnisburð sinn – á sama hátt og við öll gerum. Hvað lesið þið í 1. Nefí 2 sem sýnir ástæður þess að Nefí gat hlotið vitnisburð um að orð föður hans væru sönn? Af hverju hlutu Laman og Lemúel ekki slíkan vitnisburð? (sjá einnig 1. Nefí 15:2–11). Hvenær hafið þið fundið Drottin mýkja hjarta ykkar?
Sjá einnig „The Lord Commands Lehi’s Family to Leave Jerusalem“ (myndband), Gospel Library.
Guð mun undirbúa leið fyrir mig að gera vilja hans.
Þegar Drottinn bauð sonum Lehís að ná í látúnstöflurnar, veitti hann þeim ekki nákvæmar leiðbeiningar til að inna það af hendi. Þetta á oft við um leiðsögn sem við hljótum frá Guði og svo gæti virst sem hann hafi krafist „[erfiðs verks]“ (1. Nefí 3:5). Hvað innblæs ykkur varðandi viðbrögð Nefís við boði Drottins í 1. Nefí 3:7, 15–16?
Þegar þið lesið 1. Nefí 3–4, gætið þá að þeim fjölmörgu erfiðleikum sem Nefí tókst á við. Hvernig „greiddi“ Drottinn Nefí „veg“ til að „leysa af hendi það, sem hann [bauð]“? Af hverju er mikilvægt að þið vitið hvað Drottinn gerði fyrir Nefí?
Ein máttug leið Guðs til að greiða okkur veg til að halda boðorð hans, er að senda Jesú Krist til að vera frelsari okkar. Íhugið að lesa boðskap Dallins H. Oaks forseta, „Hvað hefur frelsarinn gert fyrir okkur?“ (aðalráðstefna, apríl 2021). Hvernig hefur Jesús Kristur greitt hverju okkar veg? Hvað finnst ykkur þið knúin til að „fara og gera,“ vitandi að hann hefur sigrast á öllu fyrir ykkur?
Sjá einnig „Nephi Is Led by the Spirit to Obtain the Plates of Brass” (myndband), Gospel Library; Gospel Topics, „Obedience,“ Gospel Library.
Það að minnast verka Guðs getur gefið mér trú til að hlýða boðorðum hans.
Þegar Laman og Lemúel langaði að mögla, höfðu þeir vanalega Nefí og Lehí nálægt sér til að hvetja sig og styðja. Þegar ykkur langar til að mögla, getur verið gagnlegt að lesa orð Nefís og Lehís. Hvernig reyndu Nefí og Lehí að hjálpa öðrum að styrkja trú á Guð? (sjá 1. Nefí 4:1–3; 5:1–8; sjá einnig 7:6–21). Hvað lærið þið sem getur hjálpað ykkur, þegar þið freistist til að mögla eða kvarta?
„Andinn leiddi mig.“
Hvað vekur áhuga ykkar í 1. Nefí 4:5–18 um þann eiginleika Nefís að bera kennsl á og fylgja andanum? Þið gætuð kannað boðskap Russells M. Nelson forseta, „Opinberun fyrir kirkjuna, opinberun fyrir eigið líf“ (aðalráðstefna, apríl 2018), til að læra meira um að meðtaka opinberun frá Drottni.
Hugmyndir fyrir kennslu barna
Ég get öðlast minn eigin vitnisburð.
-
Hvernig vissi Nefí að það væri sannleikur, sem faðir hans kenndi? Hjálpið börnum ykkar að finna svör við þessari spurningu í 1. Nefí 2:16, 19. Þau gætu líka haft gaman af því að skrifa gjörðir Nefís á kubba eða aðra hluti og síðan byggja eitthvað með hlutunum. Þetta gæti leitt til umræðna um það hvernig gjörðir hjálpa okkur að byggja upp vitnisburð.
-
Þið gætuð sýnt börnum ykkar myndir af því eða hluti sem tákna það sem þau gætu leitað vitnisburðar um, eins og eintak af Mormónsbók eða mynd af Jesú Kristi, musteri eða lifandi spámanni. Bjóðið þeim að velja einn og gefa vitnisburð sinn um það. Þið gætuð líka sagt börnum ykkar frá því hvernig þið hlutuð vitnisburð ykkar. Af hverju þurfum við eigin vitnisburð?
Guð mun hjálpa mér að halda boðorð sín.
-
Íhugið að nota eitt af eftirfarandi til að auðvelda börnum ykkar að ræða um það hvernig Guð hjálpaði Nefí að ná í látúnstöflurnar: 1. Nefí 3–4; verkefnasíðu þessarar viku; „Nefí hinn hugrakki“ (Barnasöngbókin, 64); og „Kafli 4: Látúnstöflurnar“ (í Sögur úr Mormónsbók, 8–12).
-
Þið og börn ykkar gætuð notið þess að fara í hlutverkaleik 1. Nefí 3:2–7. Þið gætuð ef til vill látist vera Lehí og beðið börn ykkar að fara aftur til Jerúsalem til að ná í látúnstöflurnar. Bjóðið þeim að svara með eigin orðum, eins og þau væru Laman og Lemúel eða Nefí. Hvað er eitthvað af því sem Guð hefur boðið okkur að gera? (sjá mynd 103–15 í Trúarmyndabók eða Mósía 18:8–10 fyrir hugmyndir). Hvernig getum við verið eins og Nefí?
Ritningarnar eru dýrmætur fjársjóður.
-
Ritningarnar voru fjölskyldu Lehís afar mikilvægar. Til að útskýra þetta, gætuð þið boðið börnum ykkar að hjálpa ykkur að segja frá því eða leika það sem Nefí og bræður hans gerðu til að ná í látúnstöflurnar: þeir ferðuðust um langan veg, sögðu skilið við gull sitt og silfur og földu sig í helli til að bjarga lífi sínu. Þið gætuð síðan lesið 1. Nefí 5:21 og rætt ástæður þess að ritningarnar voru fjölskyldu Lehís svo mikilvægar. Af hverju eru þær okkur mikilvægar? Hvernig getum við sýnt að ritningarnar séu okkur fjársjóður?
Heilagur andi mun leiða mig er ég leitast við að gera vilja Drottins.
-
Eftir að þið lesið um það í 1. Nefí 3 hvernig Nefí og bræður hans reyndu að ná í látúnstöflurnar, lesið þá 1. Nefí 4:6 með börnum ykkar, til að komast að því hvað Nefí gerði, sem að lokum varð til þess að honum tókst ætlunarverk sitt. Börn ykkar gætu síðan skráð allt það sem Guð vill að þau geri. Hvernig getur heilagur andi hjálpað okkur í slíkum aðstæðum?