Kom, fylg mér
2.–8. mars. 2. Nefí 31–33: „Þetta er vegurinn“


„2.–8. mars. 2. Nefí 31–33: ,Þetta er vegurinn,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Mormónsbók 2020 (2020)

„2.–8. mars. 2. Nefí 31–33,“ Kom, fylgið mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2020

Jesús kennir lærisveinum sínum

Kristur kennir lærisveinum sínum, eftir Justin Kunz

2.–8. mars

2. Nefí 31–33

„Þetta er vegurinn“

Í þessum lexíudrögum er fjallað um reglur í 2. Nefí 31–33, sem ykkur gæti fundist mikilvægar. Það mikilvægasta sem þið lærið í námi ykkar mun þó berast með hinni hljóðlátu rödd andans. Leitið slíkrar leiðsagnar og skráið hughrifin sem þið verðið fyrir.

Skráið hughrif ykkar

Meðal þess síðasta sem Nefí skráði, er þessi yfirlýsing: „Því að svo hefur Drottinn boðið mér, og mitt er að hlýða“ (2. Nefí 33:15). Hún gæti verið góð samantekt á lífi Nefís. Hann leitaði vilja Drottins og reyndi hugdjarfur að hlýða honum – hvort heldur það fólst í því að hætta eigin lífi til að ná látúnstöflunum af Laban, smíða skip til að sigla yfir hafið eða kenna kenningu Krists af trúmennsku, látleysi og krafti. Nefí gat talað af sannfæringu um að „sækja fram, [af staðfestu] í Kristi,“ með því að fylgja „hinum krappa og þrönga vegi, sem liggur til eilífs lífs (2. Nefí 31:20, 18), af því að það var sá vegur sem hann fylgdi. Hann vissi af eigin reynslu að þessi vegur væri gleðivegur, þótt erfiður væri á köflum, og að „enginn annar vegur [væri] til og ekkert annað nafn gefið undir himninum, sem frelsað [gæti] manninn í Guðs ríki“ (2. Nefí 31:21).

Táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

2. Nefí 31–32

Eina leiðin til eilífs lífs er Jesús Kristur og kenning hans.

Hvernig mynduð þið skilgreina veg eilífs lífs, ef þið þyrftuð að gera það með fáeinum orðum? Af sínu látleysi og einfaldleika skilgreindi Nefí hann þannig: Trú á Krist, iðrun, skírn, móttaka gjafar heilags anda og standa stöðugur til enda. Eftir að þið ígrundið kenningar Nefís í 2. Nefí 31–32, íhugið þá hvernig þið mynduð útskýra þær fyrir einhverjum með eigin orðum. Íhugið hvernig það hefur blessað ykkur að lifa eftir þessum kenningum. Þið gætuð ígrundað kenningar Nefís í 2. Nefí 31:18–20 og lagt mat á eigin viðleitni til að „sækja fram“ á vegi fagnaðarerindisins.

Sjá einnig 3. Nefí 11:32–39; 27:13–22; D. Todd Christofferson, „Kenning Krists,“ aðalráðstefna apríl 2012; Brian K. Ashton, „Kenning Krists,“ aðalráðstefna október 2016.

Fjölskylda biður saman

Að fylgja kenningum Jesú Krists, leiðir okkur til eilífs lífs.

2. Nefí 31:4–13

Jesús Kristur sýndi fullkomið fordæmi um hlýðni með því að láta skírast.

Hvort sem þið hafið skírst í gær eða fyrir 80 árum, þá var sú stund ykkur afar mikilvæg – þið gerðuð sáttmála um að fylgja Jesú Kristi allt ykkar líf. Hugsið um skírn ykkar sjálfra er þið lesið um skírn frelsarans í 2. Nefí 31:4–13. Afhverju var frelsarinn skírður? Að hvaða leyti eru ástæður þess að hann skírðist, líkar ástæðum þess að þið skírðust? Hvað gerið þið nú til að fylgja stöðugt fordæmi frelsarans um hlýðni?

Helgiathöfn sakramentis gerir ykkur kleift að endurnýja vikulega skuldbindingu ykkar um að fylgja Jesú Kristi. Næst þegar þið meðtakið sakramentið, ráðgerið þá að lesa 2. Nefí 31:13 og íhuga viðleitni ykkar til að „[fylgja] syninum af hjartans einlægni“ og fúsleika ykkar til að „taka á [ykkur] nafn Krists.“

2. Nefí 31:17–2032

Heilagur andi mun sýna mér hvað mér ber að gera.

Hvað gerum við þegar við höfum loks komist á veginn, ef skírn og staðfesting eru „hliðið, sem [okkur] er ætlað að fara inn um“ (2. Nefí 31:17)? Það var spurnarefni fólks Nefís (sjá 2. Nefí 32:1). Hver voru svör Nefís í 2 Nefí 31:19–20 og kapítula 32? Hvaða svör finnið þið fyrir ykkur sjálf?

Sjá einnig David A. Bednar, „Taka á móti heilögum anda,“ aðalráðstefna október 2010; „Heilagur andi,“ Leiðarvísir að ritningunum, churchofjesuschrist.org/study/scriptures?lang=isl.

2. Nefí 33

Mormónsbók sannfærir alla um að trúa á Krist.

Í 2. Nefí 33, sem eru lokaorð Nefís, greinir hann frá því hverjar hinar raunverulegu ástæður séu að baki skrifum hans. Hvaða ástæður finnið þið í þessum kapítula? Ígrundið það sem þið hafið lesið fram að þessu í 1. Nefí og 2. Nefí og athugasemdir ykkar, ef einhverjar. Hvernig hafa frásagnirnar og kenningarnar náð að uppfylla tilgang Nefís fyrir ykkur? Hvernig hafa þær t.d. hvatt ykkur til að „trúa á [Krist] og standa [stöðug] allt til enda“? (vers 4). Íhugið að skrá þær upplifanir eða miðla þeim fjölskyldumeðlim eða vini.

Táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

Þegar þið lesið ritningarnar með fjölskyldu ykkar, getur andinn hjálpað ykkur að vita hvaða reglur ber að ræða og leggja áherslu á, til að uppfylla þarfir fjölskyldu ykkar. Hér eru nokkrar ábendingar.

2. Nefí 31:5–13

Eru einhverjir í fjölskyldu ykkar að búa sig undir skírn eða hafa nýlega látið skírast? Þeir gætu mögulega sagt frá ástæðu þess að þeir ákváðu að meðtaka skírn. Hverjar segir Nefí vera sumar ástæður þess að okkur beri að láta skírast? Hverjar eru sumar þeirra blessana sem við hljótum þegar við erum skírð?

2. Nefí 31:17–21

Hvernig getið þið hjálpað fjölskyldu ykkar að skilja líkingu Nefís um hinn „krappa og þrönga [veg]“? (2. Nefí 31:18). Þið gætuð t.d. teiknað saman mynd af veginum sem Nefí lýsir í 2. Nefí 31:17–21 og skráð á hann það sem við þurfum að gera til að komast inn á veginn og vera áfram á honum. Hvernig hjálpar frelsarinn okkur að ná framförum á veginum?

2. Nefí 31:20

Ef þið viljið hjálpa fjölskyldu ykkar að skilja betur hvernig við stöndumst til enda, þá má finna góða skilgreiningu á því á bls. 6 í Boða fagnaðarerindi mitt; einnig í boðskap öldungs Dale G. Renlund’s „Síðari daga heilagir haldið áfram að reyna“ (aðalráðstefna apríl 2015).

2. Nefí 32:8–9

Þið gætuð búið til lista yfir aðstæður þar sem biðja mætti, til að hjálpa fjölskyldu ykkar að skilja að við getum „[beðið] án afláts.“ Fjölskylda ykkar gæti síðan sungið söng sem kennir um bænina, til að mynda „Hóf þín dagsins hugsun fyrsta?“ (Sálmar, nr. 47) og sett einhver orð á listanum í stað þeirra sem eru í texta söngsins. Hvernig blessar Drottinn okkur þegar við biðjum án afláts?

2. Nefí 33:1–2

Hvað gæti fengið fólk til að „herða hjörtu sín gegn hinum heilaga anda“? Hvernig getum við tryggt að heilagur andi „[komist að í okkur]“?

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Bæta kennslu okkar

Líkið eftir frelsaranum. Það er gagnlegt að læra hvernig frelsarinn kenndi – aðferðir hans og orð. Máttur Jesú til að kenna og lyfta öðrum fólst í raun í því hver hann var og hvernig hann lifði. Því betur sem þið reynið að lifa eins og Jesús Kristur gerði og reiðið ykkur á mátt friðþægingar hans, því eðlislægara verður ykkur að kenna að hans hætti.

Jóhannes skírari skírir Jesú

Til að fullnægja öllu réttlæti, eftir Liz Lemon Swindle