Kom, fylg mér
13.–19. júlí Alma 32–35: „Gróðursetja orðið í hjörtum yðar“


„13.–19. júlí Alma 32–35: ,Gróðursetja orðið í hjörtum yðar,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Mormónsbók 2020 (2020)

„13.–19. júlí Alma 32–35,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2020

Sáðkorn í barnshönd

13.–19. júlí

Alma 32–35

„Gróðursetja orðið í hjörtum yðar“

Skráið þau andlegu hughrif sem þið hljótið þegar þið lesið Alma 32–35. Hvað finnst ykkur þið hvött til að gera varðandi það sem þið lærið?

Skráið hughrif ykkar

Hjá Sóramítum var bænin sjálfmiðuð, reglubundin iðkun einu sinni í viku. Í henni fólst að standa í allra augnsýn og endurtaka hégómleg, sjálfselskuleg orð. Verra var ef til vill að Sóramíta skorti trú á Jesú Krist – afneituðu jafnvel tilvist hans – og ofsóttu hina fátæku (sjá Alma 31:9–25). Andstætt því kenndu Alma og Amúlek einarðlega að bænin hefði meira að gera með það sem ætti sér stað í hjartanu heldur en á opinberum vettvangi. Ef hún leiddi ekki til samúðar með nauðstöddum, er hún „til einskis og gjörir …ekkert gagn“ (Alma 34:28). Mest um vert er að hún er trúartjáning til Jesú Krists, sem býður frelsun með fórn sem er „algjör og eilíf fórn“ (Alma 34:10). Slík trú, útskýrði Alma, verður til af auðmýkt og „löngun til að trúa“ (Alma 32:27). Hún vex hægt, líkt og tré, og þarfnast stöðugrar næringar. Þegar þið lesið Alma 32–35, gætuð þið íhugað eigin trú og bænir; finnst ykkur stundum að viðhorf Sóramíta læðist að ykkur? Hvernig munið þið næra trú ykkar á Jesú Krist, þannig að hún verði „að tré og [vaxi] í ykkur til ævarandi lífs“? (Alma 32:41).

Táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

Alma 32:1–16.

Ég get valið að sýna auðmýkt.

Alma skynjaði að hinir fátæku Sóramítar væru auðmjúkir og „undir það búnir að heyra orðið“ (Alma 32:6). Þegar þið lesið Alma 32:1–16, íhugið þá hvernig þið búið ykkur undir að heyra orð Guðs.

Hvaða reynsla hefur vakið með ykkur auðmýkt? Hvað hafið þið gert til að verða auðmjúkari? Þessi vers gætu kennt ykkur að velja auðmýkt fram yfir að vera neydd til auðmýktar. Hver er t.d. munurinn á því að vera „fátækir að þessa heims gæðum“ og að vera „fátækir í hjarta“? (verse 3). Hver er merking þess að „auðmýkja sig …orðsins vegna?“ (vers 14).

Sjá einnig „Auðmjúkur, Auðmýkt,“ Leiðarvísir að ritningunum, https://www.churchofjesuschrist.org/study/scriptures/study-helps?lang=isl.

Alma 32:17–43; 33–34

Ég iðka trú á Jesú Krist með því að gróðursetja og næra orð hans í hjarta mínu.

Hvers vegna haldið þið að Alma talaði um að gróðursetja fræ til að svara spurningum Sóramíta um bænahald? Hvað er sáðkornið sem Alma talaði um? (Sjá Alma 32:28; 33:22–23). Þegar þið lesið Alma 32:17–43, takið þá eftir orðum og orðtökum sem hjálpa ykkur að skilja hvernig iðka eigi trú á Jesú Krist og orð hans. Hvað lærið þið um það hvað er trú og hvað ekki? Síðan, er þið lesið kapítula 33–34, leitið þá svara við spurningu Sóramíta: „Hvernig [eigum við] að gróðursetja sáðkornið“? (Alma 33:1).

Hér er önnur leið til að nema Alma 32–34: Teiknið myndir sem sýna mismunandi vöxt sáðkorns. Merkið síðan sérhverja mynd með orðunum úr Alma 32:28–43, sem hjálpa ykkur að skilja hvernig gróðursetja og næra megi orðið í hjarta ykkar.

Sjá einnig Matteus 13:3–8, 18–23; Hebreabréfið 11; Neil L. Andersen, „Trúin er val, ekki tilviljun,” aðalráðstefna, október 2015; „Trú, Trúa,” Leiðarvísir að ritningunum, https://www.churchofjesuschrist.org/study/scriptures/study-helps?lang=isl.

Alma 33:2–11; 34:17–29

Ég get tilbeðið Guð í bæn, alltaf og alls staðar.

Ráðleggingar Alma og Amúleks varðandi tilbeiðslu og bænir áttu að leiðrétta ákveðinn misskilning meðal Sóramíta (sjá Alma 31:13–23). Sannleikurinn sem þeir kenndu getur einnig hjálpað sérhverju okkar að skilja betur bæn og tilbeiðslu. Þið gætuð ef til vill útbúið lista yfir sannleika um bænina sem þið finnið í Alma 33:2–11 og 34:17–29. Útbúið annan lista yfir hugsanlegan misskilning varðandi bænina sem sannleikur þessi leiðréttir (sjá Alma 31:12–23). Hvernig hafa atriðin sem þið lærið úr þessum versum áhrif á bænir ykkar og tilbeiðslu?

Alma 33:3–17

Hverjir voru Senos og Senokk?

Senos og Senokk voru spámenn sem vitnuðu um Jesú Krist á tímum Gamla testamentisins, en kenningar þeirra er ekki að finna í Gamla testamentinu. Nefítar höfðu aðgang að kenningum þessara spámanna, sennilega vegna þess að þær voru skráðar á látúnstöflurnar sem Nefí fékk frá Laban. Einnig er minnst á þá í 1. Nefí 19:10–12; Jakob 5:1; og Helaman 8:19–20.

Alma 34:30–41

„Þetta líf er tími … til að búa sig undir að mæta Guði.“

Þegar þið lesið Alma 34:30–41, íhugið þá hvernig þið gætuð „[nýtt] betur tíma [ykkar] hér í þessu lífi“ (vers 33). Hvernig geta iðrun og þolinmæði hjálpað að búa ykkur undir að mæta Guði? Þurfið þið að breyta einhverju sem þið hafið frestað? Verið viss um að bregðast við hugboðunum sem berast.

Sjá einnig Alma 12:24; Larry R. Lawrence, „Hvers er mér vant?aðalráðstefna, október 2015.

Táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

Þegar þið lesið ritningarnar með fjölskyldu ykkar, getur andinn hjálpað ykkur að vita hvaða reglur ber að ræða og leggja áherslu á, til að uppfylla þarfir fjölskyldu ykkar. Hér eru nokkrar ábendingar.

Alma 32:9–11; 33:2–11; 34:38–39

Hvernig yrði það ef ykkur væri eingöngu leyft að tilbiðja og biðja á sunnudögum? Þegar þið lesið þessi vers saman, geta fjölskyldumeðlimir rætt um hvernig þeir geta tilbeðið daglega og hvers vegna þeir eru þakklátir fyrir að geta það.

Alma 32:28–43

Útlínur af tré fylgja þessum lexídrögum; þið gætuð notað það til að skýra orð Alma í þessum versum. Fjölskylda ykkar gæti líka fengið sér göngutúr og fundið plöntur á mismunandi vaxtarstigum og lesið vers úr Alma 32 sem líkir vöxt plöntu við trú okkar. Ef til vill gæti sérhver fjölskyldumeðlimur gróðursett sáðkorn og rætt um hvað það þarfnast til að vaxa. Á næstu vikum gætuð þið kannað sáðkornið og minnt hvert annað á þörfina fyrir að næra vitnisburðinn stöðugt.

Alma 33:2–11; 34:17–29

Hvað leggja þessi vers til að við getum gert til að bæta einkabænir okkar og fjölskyldubænir?

Alma 34:31

Hvaða reynsla hefur sýnt okkur að þegar við iðrumst, njótum við „samstundis“ blessana sáluhjálparáætlunarinnar?

Alma 34:33–35

Veit fjölskylda ykkar hvað það merkir að fresta? Ef til vill getur einhver gefið dæmi um frestun og neikvæðar afleiðingar hennar. Hver er merking þess að „skjóta ekki degi iðrunar [okkar] á frest“?

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Bæta kennslu okkar

Teikna myndir. Þið gætuð leyft fjölskyldumeðlimum að teikna myndir meðan þeir læra ritningarnar. Þeir gætu t.d. notið þess að teikna sáðkorn sem verður að tré meðan þeir læra Alma 32.

ávöxtur á tré

„Vegna kostgæfni ykkar, trúar ykkar og þolinmæði við að næra orðið … sjá, þá munuð þið senn uppskera ávöxt þess, sem er mjög dýrmætur“ (Alma 32:42).