„7.–13. september. 3. Nefí 1–7: ‚Lyft höfði þínu og ver vonglaður‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Mormónsbók, 2020 (2020)
„7.–13. september. 3. Nefí 1–7,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2020
7.–13. september
3. Nefí 1–7
„Lyft höfði þínu og ver vonglaður“
Nefítarnir urðu vitni að undursamlegum táknum, en með tímanum féll sú upplifun þeirra í gleymsku (sjá 3. Nefí 2:1). Að skrá hughrif ykkar, gerir ykkur kleift að muna eftir andlegum upplifunum ykkar í náminu 3. Nefí 1–7.
Skráið hughrif ykkar
Á margan hátt var hrífandi að trúa á Jesú Krist á þessum tíma. Spádómar voru að uppfyllast – undursamleg tákn og kraftaverk meðal fólksins bentu til þess að frelsarinn myndi brátt fæðast. Á hinn bóginn, var þetta líka erfiður tími hinum trúuðu, því að þrátt fyrir öll kraftaverkin, þá héldu hinir vantrúuðu því fram að „tíminn væri liðinn“ fyrir frelsarann að fæðast (3. Nefí 1:5). Þetta fólk „[olli] miklu uppnámi um allt landið“ (3. Nefí 1:7) og einsetti sér jafnvel að drepa alla hina trúuðu, ef táknin sem Lamanítinn Samúel hafði spáð um – nótt án myrkurs – kæmu ekki fram.
Spámaðurinn Nefí „hrópaði kröftuglega til Guðs síns vegna fólks síns,“ við þessar aðstæður (3. Nefí 1:11). Svar Drottins er hverjum þeim hughreystandi sem tekst á við ofsóknir eða efasemdir og þarfnast þess að vita að ljósið sigrar myrkrið: „Lyft höfði þínu og ver vonglaður. … Ég mun uppfylla allt það, sem ég hef talað um fyrir munn minna heilögu spámanna“ (3. Nefí 1:13).
Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi
Drottinn mun uppfylla öll sín orð.
Hvernig haldið þið að ykkur hefði liðið, ef þið hefðuð verið meðal hinna trúuðu, á þeim tíma sem sagt er frá í 3. Nefí 1–7? Hvernig gæti það til að mynda hafa verið að vænta nætur án myrkurs, sem gæfi til kynna fæðingu frelsarans, vitandi að þið yrðuð tekin af lífi, ef þetta kæmi ekki fram? Þegar þið lesið 3. Nefí 1:4–21 og 5:1–3, gætið þá að því sem Nefí og aðrir trúaðir gerðu til að varðveita trú sína á þessum erfiða tíma. Hvernig blessaði Drottinn fólkið? Hvað lærið þið sem getur hjálpað, ef þið væntið lofaðra blessana Drottins?
Ég verð varnarlaus gagnvart freistingum Satans, ef ég gleymi andlegum upplifunum mínum.
Þið gætuð talið, ef þið yrðuð vitni að einhverju svo undursamlegu eins og nótt án myrkurs, að það myndi seint renna ykkur úr minni og efla vitnisburð ykkar. Minningin um táknin og undrin sem Nefítarnir urðu vitni að, virtist þó falla í gleymsku með tímanum. Hvað olli því að þeir gleymdu þessu og hver var afleiðing þeirrar gleymsku? (sjá 3. Nefí 1:22; 2:1–3).
Hvað gerið þið til að minnast og endurnýja vitnisburð ykkar um andlegan sannleika? Hugleiðið t.d. hvernig það getur gagnast ykkur að skrá andlegar upplifanir ykkar? Hvernig eflið þið trú ykkar nánustu með því að miðla þeim vitnisburði ykkar?
Sjá einnig Alma 5:6; Henry B. Eyring, „Ó, munið og hafið hugfast,“ aðalráðstefna, október 2007; Neil L. Andersen, „Trúin er val, ekki tilviljun,“ aðalráðstefna, október 2015.
3. Nefí 2:11–12; 3:1–26; 5:24–26
Drottinn styrkir sína heilögu gegn andlegum hættum.
Á okkar tíma verðum við yfirleitt ekki fyrir barðinu á ræningjum sem flæma okkur frá heimilum okkar og safna okkur saman á einum stað. Við stöndum þó frammi fyrir andlegum hættum og reynsla Nefítanna gæti falið í sér gagnlegar lexíur fyrir okkur. Gætið að slíkum lexíum við lestur 3. Nefís 2:11–12 og 3:1–26.
Í 3. Nefí 5:24–26 lesum við um samansöfnun fólks Drottins á síðari dögum. Hvað kenna þessi vers um hvernig Drottinn safnar saman fólki sínu á okkar tíma?
Sjá einnig „Worldwide Devotional for Youth: Messages from President Russell M. Nelson and Sister Wendy W. Nelson,“ 3. júní 2018, ChurchofJesusChrist.org; „Ísrael – Samansöfnun Ísraels,“ Leiðarvísir að ritningunum, churchofjesuschrist.org/study/scriptures/study-helps?lang=isl.
Ég er lærisveinn Jesú Krists.
Hvað haldið þið að felist í því að vera lærisveinn Jesú Krists? (sjá Kenning og sáttmálar 41:5). Í 3. Nefí 5:12–26 gerði Mormón hlé á útdrætti sínum úr heimildunum um Nefítanna og lýsti yfir að hann væri lærisveinn Jesú Krists. Síðan sagði hann frá þjónustu annars lærisveins í 3. Nefí 7:15–26 – spámannsins Nefís. Hvað finnið þið í þessum tveimur frásögnum sem eykur skilning ykkar á merkingu þess að vera lærisveinn Jesú Krists?
Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar
Þegar þið lesið ritningarnar með fjölskyldu ykkar, getur andinn hjálpað ykkur að vita hvaða reglur ber að ræða og leggja áherslu á, til að uppfylla þarfir fjölskyldu ykkar. Hér eru nokkrar ábendingar.
3. Nefí 3:13–14, 25–26
Hvað gerðu Nefítarnir sér til varnar gegn óvini sínum? Hvað gerum við til að gera heimili okkar að stað öryggis og verndar gegn illsku heimsins?
3. Nefí 2:1–3; 6:15–17
Auðveldið fjölskyldu ykkar að læra hvernig Satan blekkir okkur, með því að teikna líkama og þegar þau lesa 3. Nefí 2:1–3 og 6:15–17, merkið þá við hina ýmsu líkamshluta sem sagt er frá. Hvað er sumt það sem Satan gerir til að fá okkur til að gleyma Guði og snúa okkur að synd, samkvæmt þessum versum?
3. Nefí 4:7–12, 30–33
Hvað gerðu Nefítarnir þegar þeir sáu Gadíanton-ræningjana koma að þeim? Hvað getur fjölskylda okkar lært af Nefítunum þegar erfiðar aðstæður koma upp? Hvað getum við lært af orðum Nefítanna eftir að Drottinn hafði hjálpað þeim á erfiðum tíma?
3. Nefí 5:13; Kenning og sáttmálar 41:5
Lesið 3. Nefí 5:13 og Kenningu og sáttmála 41:5 og ræðið merkingu þess að vera lærisveinn Jesú Krists. Ef til vill gætu fjölskyldumeðlimir rætt um atvik þar sem þau hafa séð hvert annað vera lærisveina. Ef þið eigið yngri börn, gætuð þið búið til nafnspjald sem á stendur: „Ég er lærisveinn Jesú Krists,“ og látið þau síðan bera nafnspjaldið þegar þið takið eftir að þau fylgja frelsaranum.
Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.