Kom, fylg mér
21.–27. september. 3. Nefí 12–16: „Ég er lögmálið og ljósið“


„21.–27. september. 3. Nefí 12–16: ‚Ég er lögmálið og ljósið‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Mormónsbók, 2020 (2020)

„21.–27. september. 3. Nefí 12–16,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2020

Jesús kynnir postulana tólf

Þriðji Nefí: Þessir tólf sem ég hef útvalið, eftir Gary L. Kapp

21.–27. september

3. Nefí 12–16

„Sjá, ég er lögmálið og ljósið“

Margar reglur má finna í 3. Nefí 12–16. Á sumar eru lagðar áherslur í þessum lexíudrögum, en þið gætuð einnig fundið fleiri. Látið himneskan föður kenna ykkur, með anda sínum, hvað þið þurfið einmitt núna.

Skráið hughrif ykkar

Það sama átti við um fólkið sem kom saman við musterið við Gnægtarbrunn og lærisveina Jesú sem komu saman á fjallinu í Galelíu, það hafði lifað eftir Móselögmálinu. Það hafði lifað eftir því, sökum þess að það leiddi sálir þess til Krists (sjá Jakob 4:5) og nú stóð Kristur frammi fyrir því og lýsti yfir æðra lögmáli. Þótt við höfum ekki lifað eftir Móselögmálinu, fáum við þó séð að staðalinn sem Jesús setti lærisveinum sínum er mun æðra lögmál. „Ég [vil] að þér séuð fullkomnir,“ lýsti hann yfir (3. Nefí 12:48). Ef þetta gerir ykkur vanmátta, minnist þess þá að Jesús sagði líka: „Blessaðir eru fátækir í anda, sem til mín koma, því að þeirra er himnaríki“ (3. Nefí 12:3). Þetta æðra lögmál er boð – önnur leið til að segja: „Komið … til mín og látið frelsast“ (3. Nefí 12:20). Þetta lögmál, líkt og Móselögmálið, leiðir okkur til Krists – hins eina sem megnar að frelsa og vernda okkur. „Sjá,“ sagði hann, „ég er lögmálið og ljósið. Lítið til mín og standið stöðugir allt til enda, og þér skuluð lifa“ (3. Nefí 15:9).

Táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

3. Nefí 12–14

Kenningar frelsarans sýna mér hvernig vera á sannur lærisveinn.

Það er mikill sannleikur, leiðsagnarorð og aðvaranir í 3. Nefí 12–14. Hér er ein leið til að læra og tileinka sér það sem frelsarinn kenndi í þessum kapítulum: Veljið nokkur ritningarvers og sjáið hvort þið getið gert samantekt á því sem versin kenna með einni setningu sem hefst á: „Sannir lærisveinar Jesú Krists …“ Sem dæmi um það, þá gæti samantekt á 3. Nefí 14:1–5 verið: „Sannir lærisveinar Jesú Krists eru ekki dómharðir.“ Þið gætuð viljað velja vers úr þessum kapítula sem ykkur er einkar hjartfólgið og lært það utanbókar eða afritað það og sett það á áberandi stað. Hugleiðið hvernig þið getið tileinkað ykkur það sem þið lærið persónulega, til að verða betri lærisveinn Jesú Krists.

Sjá einnig Mattesu 5–7; Lúkas 6:20–49.

3. Nefí 12:1–2; 15:-23–24; 16:1–6

Blessaðir eru þeir sem trúa án þess að fá séð.

Miðað við heildarfjölda barna Guðs hafa afar fáir litið frelsarann augum og hlýtt á rödd hans, líkt og fólkið gerði við Gnægtarbrunn. Flest erum við líkari fólkinu sem tilgreint er í 3. Nefí 12:2; 15:23; og 16:4–6. Hvaða loforð eru gefin slíku fólki í þessum versum? Hvernig hafa þessi loforð verið uppfyllt í lífi ykkar?

Sjá einnig Jóhannes 20:26–29; 2. Nefí 26:12–13; Alma 32:16–18.

3. Nefí 12:21–30; 13:1–8, 16–18; 14:21–23

Réttlát verk nægja ekki; hjarta mitt verður líka að vera hreint.

Einn efnisþráður í þessum kapítulum, sem þið kunnið að veita eftirtekt, er boð frelsarans um að lifa eftir æðra lögmáli – að vera ekki aðeins réttlátur í ytri breytni, heldur líka í hjarta. Gætið að þessum efnisþræði þar sem frelsarinn talar um þrætur (3. Nefí 12:21–26), ósiðsemi (3. Nefí 12:27–30), bæn (3. Nefí 13:5–8) og föstu (3. Nefí 13:16–18). Hvaða fleiri dæmi getið þið fundið? Hvað getið þið gert til að hreinsa þrár hjarta ykkar, fremur en að einblína aðeins á ytri breytni?

3. Nefí 14:7–11

Ef ég leita „[góðra gjafa]“ frá himneskum föður, mun ég hljóta þær.

Russell M. Nelson forseti sagði: „Vill Guð í raun tala til ykkar? Já! … Ó, það er svo ótal margt annað sem himneskur faðir vill að þið vitið“ („Opinberun fyrir kirkjuna, opinberun fyrir eigið líf,“ aðalráðstefna, apríl 2018). Þegar þið lesið boð Drottins í 3. Nefí 14:7–11, um að biðja, leita og knýja á, hugleiðið þá hvaða „góðu gjafir]“ hann myndi vilja að þið bæðuð um. Eftirtalin önnur ritningarvers gætu hjálpað ykkur að skilja hvernig skal biðja, leita og knýja á. Þau gætu líka útskýrt fyrir ykkur afhverju sumum bænum er ekki svarað á þann hátt sem þið væntuð: Jesaja 55:8–9; Helaman 10:5; Moróní 7:26–27, 33, 37; og Kenning og sáttmálar 9:7–9.

Táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

Þegar þið lesið ritningarnar með fjölskyldu ykkar, getur andinn hjálpað ykkur að vita hvaða reglur ber að ræða og leggja áherslu á, til að uppfylla þarfir fjölskyldu ykkar. Hér eru nokkrar ábendingar.

3. Nefí 12:48

Hvernig hjálpar boðskapur öldungs Jeffreys R. Holland „Verið þér því fullkomnir – að lokum“ (aðalráðstefna, október 2017) okkur að skilja orð frelsarans í þessu versi? Ykkur gæti líka reynst gagnlegt að lesa Moróní 10:32–33.

3. Nefí 12:9, 38–42; 14:3–5, 12

Hvernig eiga þessi vers við um samskipti fjölskyldumeðlima? Ef til vill gæti fjölskylda ykkar sett einhver markmið í sameiningu, um að lifa betur eftir þessum reglum.

3. Nefí 13:19–21

Þessi vers gætu hvatt til umræðna um það sem fjölskyldu ykkar er dýrmætt. Eru einhverjir fjársjóðir á jörðu sem halda ykkur frá því að safna fjársjóðum á himnum? Þið gætuð lagt áherslu á þetta atriði með því að fara í fjársjóðsleit með fjölskyldunni, til að finna eitthvað á heimili ykkar sem minnir fjölskyldumeðlimi á fjársjóð af eilífu gildi.

3. Nefí 14:7–11

Yngri börn gætu haft gaman að leik, innblásnum af 3. Nefí 14:8–9, þar sem þau biðja um eitthvað ákveðið og fá síðan eitthvað allt annað. Hvað vildi frelsarinn að við vissum um himneskan föður, þegar hann sagði frá þessu dæmi?

3. Nefí 14:15–20

Hvaða „[góði ávöxtur]“ gerir okkur kleift að vita að Joseph Smith, eða núverandi forseti kirkjunnar, er sannur spámaður?

3. Nefí 14:24–27

Hugsið um hvernig þið gætuð hjálpað fjölskyldu ykkar að sjá fyrir sér dæmisöguna í þessum versum. Ef til vill gætu fjölskyldumeðlimir teiknað myndir, gert hreyfingar eða byggt eitthvað á öruggum og óöruggum jarðvegi.

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Bæta kennslu okkar

Hafið sýnikennslu. Frelsarinn kenndi djúpan sannleika með því að vísa til kunnuglegra hluta. Þið gætuð gert eitthvað álíka, er fjölskylda ykkar les 3. Nefí 12–16. Þegar þið t.d. lesið kapítula 12, gætuð þið sýnt salt, kerti og yfirhöfn. Þetta gæti líka leitt til góðs upprifjunarverkefnis. Eftir að þið hafið lesið þessa kapítula, sýnið þá hlutina aftur og biðjið fjölskyldumeðlimi að segja frá því hvað frelsarinn kenndi um hvern þeirra.

Jesús kennir Nefítunum

Frelsarinn vitjar fólksins í Ameríku, eftir Glen S. Hopkinson