Kom, fylg mér
28. september – 11. október. 3. Nefí 17–19: „Sjá, nú er gleði mín algjör“


„28. september – 11. október. 3. Nefí 17–19: ,Sjá, nú er gleði mín algjör‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Mormónsbók 2020 (2020)

„28. september – 11. október. 3. Nefí 17–19,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2020

Jesús birtist Nefítunum

Ljós ásjónu hans geislaði yfir þá, eftir Gary L. Kapp

28. september – 11. október

3. Nefí 17–19

„Sjá, nú er gleði mín algjör“

Fyrri kapítular í 3. Nefí hafa orð frelsarans að megin efni, en kapítular 17–19 greina frá þjónustu hans og kennslu meðal fólksins. Hvað kennir andinn ykkur um frelsarann við lestur þessara kapítula?

Skráið hughrif ykkar

Jesús Kristur hafði rétt áður varið deginum við þjónustu í landi Gnægtarbrunns, kennt fagnaðarerindi sitt, gefið fólkinu kost á að sjá og finna sárin á upprisnum líkama sínum og borið vitni um að hann væri hinn fyrirheitni Messías. Nú var að því komið að hann þurfi að yfirgefa fólkið. Hann þyrfti að snúa aftur til föður síns og honum var ljóst að fólkið þurfti tíma til að íhuga kennslu hans. Hann bauð því mannfjöldanum að fara til síns heima og lofaði að koma aftur daginn eftir. Enginn hélt þó á braut. Fólkið sagði ekki frá tilfinningum sínum, en Jesús vissi af þeim: Það vonaði að hann myndi „dvelja örlítið lengur hjá [því]“ (3. Nefí 17:5). Það biðu hans önnur mikilvæg verk, en tækifærið til að sýna hluttekningu berst ekki alltaf á hentugri stundu, svo Jesús dvaldi örlítið lengur hjá fólkinu. Það sem fylgdi í kjölfarið var ef til vill eitt ljúfasta dæmið um þjónustu sem í ritningunum er skráð. Þeir sem voru viðstaddir gátu einungis sagt það ólýsanlegt (sjá 3. Nefí 17:16–17). Jesús lýsti best sjálfur hinni óvæntu andlegu upplifun með þessum einföldu orðum: „Sjá, nú er gleði mín algjör“ (3. Nefí 17:20).

Táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

3 Nefí 17

Frelsarinn er mér fullkomið fordæmi um þjónustu.

Við vitum að það voru um 2.500 manns (sjá 3. Nefí 17:25) sem upplifðu fyrstu vitjun Krists, eins og fram kemur í 3. Nefí 11–18. Samt megnaði frelsarinn að þjóna þeim hverjum fyrir sig. Hvað lærið þið um þjónustu af fordæmi frelsarans í þessum kapítula? Hvaða þarfir uppfyllti hann með þjónustu sinni? Hugleiðið hvernig fordæmi hans getur hjálpað ykkur að þjóna öðrum.

Jesús blessar börn Nefítanna

Lítið á börn yðar, eftir Gary L. Kapp

3. Nefí 17:13–22; 18:15–25; 19:6–9, 15–36

Frelsarinn kenndi okkur hvernig á að biðjast fyrir.

Ímyndið ykkur hvernig það væri að hlýða á frelsarann biðja fyrir ykkur. Hvað gæti hann sagt í ykkar þágu? Kennsla hans og bænir í þessum kapítula gætu gefið ykkur hugmynd. Hvað lærið þið af fordæmi Krists við námið, sem getur gert bænir ykkar innihaldsríkari? Hvaða blessanir bænar hafið þið séð í lífi ykkar?

3. Nefí 18:1–12

Þegar ég meðtek sakramentið, get ég fyllst andlega.

Þegar þið lesið 3. Nefí 18:1–12, hugleiðið þá hvernig sakramentið getur „mettað“ ykkur andlega (3. Nefí 18:3–5, 9; sjá einnig 3. Nefí 20:1–9). Þið gætuð til að mynda skráð nokkrar spurningar sem hvetja til persónulegrar íhugunar þegar þið meðtakið sakramentið, svo sem: „Hvað finnst mér um frelsarann og fórn hans fyrir mig?“ „Hvernig hefur fórn hans áhrif á mitt daglega líf?“ eða „Í hverju stend ég mig vel sem lærisveinn og hvernig get ég bætt mig?“

Þessi orð Henrys B. Eyring forseta, geta hjálpað ykkur að hugleiða hvernig sakramentið getur á einn hátt mettað ykkur andlega: „Þegar þið leggið mat á eigið líf í helgiathöfn sakramentis, þá vona ég að hugsanir ykkar snúist ekki aðeins um hið ranga sem þið hafið gert, heldur líka um hið góða sem þið hafið gert – stundir þar sem ykkur fannst himneskur faðir og frelsarinn vera ánægðir með ykkur. Þið getið jafnvel gefið ykkur tíma meðan á sakramentinu stendur til að biðja Guð um að hjálpa ykkur að koma auga á það. … Þegar ég hef gert þetta, þá hefur andinn fullvissað mig um að ég er betri í dag en í gær, þótt ég sé langt frá því að vera fullkominn. Það fyllir mig sjálfstrausti yfir að geta gert enn betur á morgun, sökum frelsara míns“ („Hafa hann ávallt í huga,“ Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, febrúar 2018, churchofjesuschrist.org/study/liahona/2018/02/first-presidency-message?lang=isl).

3. Nefí 18:36–37; 19:6–22

Lærisveinar Jesú Krists leita gjafar heilags anda.

Hugsið um bæn sem þið nýlega fluttuð. Hvað kenna bænir ykkar um dýpstu þrár ykkar? Þegar mannfjöldinn hafði varið heilum degi í návist frelsarans, bað hann „um það, sem þeir þráðu heitast“ – gjöf heilags anda (3. Nefí 19:9). Þegar þið lesið þessi ritningarvers, hugleiðið þá eigin þrá eftir samfélagi heilags anda. Hvað lærið þið um að sækjast eftir samfélagi heilags anda?

Táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

Þegar þið lesið ritningarnar með fjölskyldu ykkar, getur andinn hjálpað ykkur að vita hvaða reglur ber að ræða og leggja áherslu á, til að uppfylla þarfir fjölskyldu ykkar. Hér eru nokkrar ábendingar.

3 Nefí 17

Þegar þið lesið þennan kapítula sem fjölskylda, íhugið þá að staldra við endrum og eins og biðja fjölskyldu ykkar að ímynda sér að þau séu að upplifa þessa atburði í eigin persónu. Þið gætuð t.d. spurt eins og: „Hvaða böl færuð þið með til frelsarans til að læknast af?“ „Hvert vilduð þið að væri bænarefni hans í ykkar þágu?“ eða „Hvaða ástvin vilduð þið að hann blessaði?“ Lestur þessa kapítula gæti líka innblásið ykkur til að biðja fyrir fjölskyldumeðlimum, einum af öðrum, líkt og Jesús gerði.

3. Nefí 18:1–12

Hver er merking þess að „mettast“ af því að meðtaka sakramentið og hvernig upplifum við það? Hvað lærum við af versum 5–7 um ástæður þess að Jesús fól okkur helgiathöfn sakramentis?

3. Nefí 18:17–21

Hvað lærum við af þessum versum um tilgang bænar? Hvernig getum við bætt andlegan mátt bæna okkar, bæði sem einstaklingar og fjölskylda?

3. Nefí 18:25; 19:1–3

Hvað hefur fjölskylda okkar upplifað varðandi fagnaðarerindið sem við vildum að allir gætu upplifað? Hvernig getum við fylgt fordæmi fólksins í þessum versum og „[lagt hart að okkur]“ (3. Nefí 19:3) við að leiða aðra til Krists, svo þeir megi líka „finna og sjá“ (3. Nefí 18:25) það sem við höfum upplifað varðandi fagnaðarerindið?

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Bæta persónulegt nám

Látið andann leiða ykkur í náminu. Heilagur andi getur dag hvern leitt ykkur að því sem þið þurfið að læra. Verið næm fyrir ábendingum hans, jafnvel þótt þær hvetji til þess að þið lesið annað efni eða lærið á annan hátt en þið venjulega gerið. Þegar þið t.d. lesið um sakramentið í 3. Nefí 18, gæti andinn hvatt ykkur til að verja auknum tíma við annað efni en þið ráðgerðuð.

Englar umhverfis Jesú og börn Nefítanna

Það sá himnana ljúkast upp, eftir Walter Rane