„19.–25. október. 3. Nefí 27–4: ‚Og vissulega gat ekki hamingjusamara fólk,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Mormónsbók, 2020 (2020)
„19.–25. október. 3. Nefí 27–4,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2020
19.–25. október
3. Nefí 27–4. Nefí
„Og vissulega gat ekki hamingjusamara fólk“
Drottinn bauð lærisveinum sínum að skrá það sem þeir upplifðu (sjá 3. Nefí 27:23–24). Skráið þær andlegu upplifanir sem þið hljótið við námið.
Skráið hughrif ykkar
Kenningar Jesú Krists eru ekki einungis falleg heimspeki til íhugunar. Þær eru miklu meira en það – þeim er ætlað að breyta lífi ykkar. Bók 4. Nefís geymir hrífandi dæmi um þetta, sem sýnir hvernig fagnaðarerindi frelsarans megnar að breyta fólki algjörlega. Eftir stutta þjónustu Jesú, var endir bundinn á aldagamlar deildur á milli Nefítanna og Lamanítanna. Tvö þjóðarbrot, sem þekkt voru fyrir dramb og ágreining, urðu „eitt, börn Krists“ (4. Nefí 1:17), og „allt var sameign þeirra“ (4. Nefí 1:3). „[Elska] Guðs … bjó í hjörtum fólksins,“ og „vissulega gat ekki hamingjusamara fólk á meðal allra þeirra, sem Guð hafði skapað“ (4. Nefí 1:15–16). Þannig breyttu kenningar frelsarans Nefítunum og Lamanítunum. Hvernig breyta þær ykkur?
Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi
Kirkja Jesú Krists er nefnd hans nafni.
Þegar lærisveinar frelsarans tóku að stofnsetja kirkju hans víða um landið, kom upp spurning, sem sumir gætu talið léttvæga – hvert ætti nafn kirkjunnar að vera? (sjá 3. Nefí 27:1–3). Hvað lærið þið um mikilvægi þessa nafns af svari frelsarans í 3. Nefí 27:4–12? Árið 1838 opinberaði Drottinn nafn kirkju sinnar á okkar tíma (sjá Kenning og sáttmálar 115:4). Ígrundið hvert orð í nafni hennar. Hvernig hjálpa þessi orð okkur að vita hver við erum, hverju við trúum og hvernig okkur ber að breyta?
Sjá einnig Russell M. Nelson, „Hið rétta nafn kirkjunnar,“ aðalráðstefna, október 2018, 87–80; M. Russell Ballard, „Mikilvægi nafns,“ aðalráðstefna, október 2011.
Ég verð trúfastari lærisveinn þegar ég göfga þrár mínar.
Hvað mynduð þið segja, ef frelsarinn spyrði ykkur þess sama og lærisveina sinna: „Hvers óskið þér af mér?“ (3. Nefí 28:1). Íhugið þetta er þið lesið um reynslu lærisveina frelsarans í 3. Nefí 28:1–11. Hvað lærið þið um hjartans þrá lærisveinanna af svörum þeirra við spurningu hans? Dallin H. Oaks forseti kenndi: „Til að ná eilífum ákvörðunarstað okkar, þurfum við að þrá og vinna að því að hljóta þá eiginleika sem nauðsynlegir eru fyrir eilífa tilveru. … Við þráum að líkjast [Jesú Kristi]“ „Þrá,“ aðalráðstefna, apríl 2011). Hvað getið þið gert til að gera hjartans þrár ykkar réttlátari? (Ef þið viljið vita meira um „[breytinguna sem varð] á líkömum,“ hinna þriggja lærisveina, sjá þá 3. Nefí 28:37 og „Umbreyttar verur,“ Leiðarvísir að ritningunum, churchofjesuschrist.org/study/scriptures/gs/translated-beings?lang=isl.)
Trú á Jesú Krist og fagnaðarerindi hans leiðir til einingar og hamingju.
Getið þið ímyndað ykkur hvernig það gæti hafa verið að lifa á árunum í kjölfar vitjunar frelsarans? Hvernig viðhélt fólkið slíkum guðlegum friði í svo langan tíma – næstum 200 ár? Þegar þið lærið 4. Nefí 1:1–18, íhugið þá að merkja við eða gæta að því sem fólkið valdi að gera til að njóta þessa blessaða lífsmáta.
Ígrundið hvað þið getið gert til að hjálpa fjölskyldu ykkar, deild eða samfélagi að búa við aukna einingu og hamingju, líkt og fólkið í 4. Nefí gerði. Hvaða kenningum Jesú Krists getið þið lifað eftir, til að fá áorkað þessu markmiði? Hvað getið þið gert öðrum til hjálpar við að skilja og lifa eftir þessum kenningum?
Ranglæti leiðir til ágreinings og sorgar.
Því miður fór svo að lokum að Síonarsamfélagið sem lýst er í 4. Nefí (sjá einnig HDP Móse 7:18) leystist upp. Gætið að viðhorfi og atferli við lestur 4. Nefís 1:19–49, sem leiddi til hnignunar og endaloka þessa samfélags. Sjáið þið einhver merki um slíkt viðhorf eða atferli hjá ykkur sjálfum?
Sjá einnig „Kafla 18: Beware of Pride [Varist dramb]“ (Teachings of Presidents of the Church: Ezra Taft Benson [2014], 229–40).
Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar
Þegar þið lesið ritningarnar með fjölskyldu ykkar, getur andinn hjálpað ykkur að vita hvaða reglur ber að ræða og leggja áherslu á, til að uppfylla þarfir fjölskyldu ykkar. Hér eru nokkrar ábendingar.
3. Nefí 27:13–21
Þessi vers geta auðveldað fjölskyldumeðlimum að skilja betur það sem frelsarinn átti við með því að segja „fagnaðarerindi mitt.“ Eftir að hafa lesið og rætt þessi vers, þá gætuð þið beðið hvern fjölskyldumeðlim að segja hvað fagnaðarerindið er í einni setningu.
3. Nefí 27:23–26
Hvernig gengur okkur að skrá það sem við höfum „séð og heyrt“ – sem einstaklingar eða fjölskylda? Afhverju er mikilvægt að halda heimild um andlega hluti?
3. Nefí 27:30–31
Þið gætuð farið í leik, til að hjálpa fjölskyldumeðlimum að skilja gleðina sem frelsarinn lýsti í þessum versum, þar sem fjölskyldumeðlimir fela sig og einn reynir að finna hina. Þetta gæti leitt til umræðna um mikilvægi þess að finna hvern fjölskyldumeðlim, svo að „enginn þeirra [glatist].“ Hvernig getum við hjálpað fjölskyldumeðlimum okkar að vera sterkum í fagnaðarerindinu eða koma til baka, ef þeir hafa farið frá?
3. Nefí 28:17–18, 36–40
Hvað getum við lært af fordæmi Mormóns, þegar hann skildi ekki allt varðandi breytinguna sem varð á Nefítunum þremur? Hvað getum við gert þegar við skiljum ekki allt varðandi reglur fagnaðarerindisins? Dieter F Uchtdorf forseti kenndi: „Guð lætur sér annt um ykkur. Hann mun hlusta og hann mun svara persónulegum spurningum ykkar. Svörin við bænum ykkar munu berast að hans hætti og á hans tíma og því þurfið þið að læra að hlusta á rödd hans“ („Öðlast vitnisburð ljóss og sannleika,“ aðalráðstefna, október 2014).
4. Nefí 1:15
Ef til vill gætu fjölskyldumeðlimir sett sér markmið um að vera ástúðlegri við hver annan í þessari viku, til að draga úr ágreiningi á heimilinu. Í lok vikunnar getið þið metið árangurinn saman og rætt hvaða áhrif hin aukna ástúð hefur haft á fjölskyldulífið.
Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.