„5.–11. júlí. Kenning og sáttmálar 76: ,Mikil verða laun þeirra og eilíf verður dýrð þeirra,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Kenning og sáttmálar 2021 (2020)
„5.–11. júlí. Kenning og sáttmálar 76,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2021
5.–11. júlí
Kenning og sáttmálar 76
„Mikil verða laun þeirra og eilíf verður dýrð þeirra“
Í kafla 76 tjáir Drottinn hve heitt hann þráir að opinbera okkur sannleika (sjá vers 7–10). Lesið ritningarnar í þeirri trú að hann geti og muni opinbera ykkur „það sem Guðs er“ (vers 12) og þið þurfið að vita. Skráið síðan hughrifin sem þið hljótið „meðan [þið eruð] enn í andanum“ (vers 28, 80, 113).
Skráið hughrif ykkar
„Hvað verður um mig eftir dauðann?“ Nær öll trúarbrögð heims hafa eitthvað að segja um þessa spurningu, á einn eða annan hátt. Um aldir hafa margir hefðbundnir kristnir söfnuðir, sem reiða sig á kenningar Biblíunnar, kennt um himinn og helju, um paradís fyrir hina réttlátu og kvalarástand fyrir hina ranglátu. Er það þó svo að hægt sé að skipta öllu mannkyni svo afmarkað í góða og slæma? Hver er svo hin raunverulega merking hugtaksins himinn? Í febrúar 1832 veltu Joseph Smith og Sidney Rigdon því fyrir sér hvort ekki væri meira að vita um þetta efni (sjá Kenning og sáttmálar 76, kaflafyrirsögn).
Sú var vissulega raunin. Þegar þeir hugleiddu þetta, „snerti Drottinn augu skilnings [þeirra] og þau lukust upp“ vers 19). Joseph og Sidney hlutu opinberun, svo undurfagra, svo víðtæka, svo upplýsandi, að hinir heilögu kölluðu hana einfaldlega „sýnina.“ Sú sýn lauk upp gáttum himins og veitti börnum Guðs aukinn skilning á eilífðinni. Sýnin opinberaði himininn mikilfenglegri og víðtækari og meira umlykjandi, en fólk hafði áður haldið. Guð er miskunnsamari og réttvísari en við fáum skilið. Eilíf örlög barna Guðs eru dýrðlegri en við fáum ímyndað okkur.
Sjá Saints [Heilagir], 1:147–50; „The Vision [Sýnin],“ Revelations in Context [Opinberanir í samhengi], 148–54.
Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi
Sáluhjálp hlýst fyrir Jesú Krist, son Guðs.
Þegar Wilford Woodruff las um sýnina sem sagt er frá í kafla 76, sagði hann: „Ég skynjaði meiri elsku til Drottins en nokkurn tíma áður í lífi mínu“ (sjá „Raddir endurreisnarinnar,“ aftast í þessum lexíudrögum). Ef til vill hafið þið upplifað svipaðar tilfinningar við lestur þessarar opinberunar. Hvað sem öllu líður, þá væri engin þeirra blessana sem greint er frá í kafla 76 möguleg án frelsarans. Ef til vill gætuð þið auðkennt þau vers í kafla 76 þar sem Drottinn Jesús Kristur er nefndur. Hvað kenna þessi vers ykkur um hann og hlutverk hans í áætlun Guðs? Hvaða áhrif hafa þau á tilfinningar ykkar til hans? Þegar þið lesið og ígrundið, kunnið þið að hljóta hughrif um hvernig þið getið „[veitt] vitnisburðinum um Jesú viðtöku“ og verið „[hugdjörf] í vitnisburðinum um Jesú“ (vers 51, 79).
Kenning og sáttmálar 76:39–44, 50–112
Guð þráir að frelsa „öll handaverk [sín].“
Sumt fólk, þar á meðal sumir fyrritíðar kirkjumeðlimir, mótmæltu sýninni í kafla 76, því hún kenndi að næstum allir myndu frelsast og hljóta einhverja dýrðargráðu. Mótbárur þess gætu að hluta átt rætur í misskilningi á Guði og hvert samband hans er við okkur. Hvað lærið þið, við lestur þessarar opinberunar, um eiginleika Guðs og áætlun hans fyrir börn hans?
Ígrundið annarsvegar hvað í því felst að frelsast (frá líkamlegum og andlegum dauða; sjá vers 39, 43–44) og hinsvegar að verða upphafinn (dvelja í návist Guðs og verða eins og hann er; sjá vers 50–70).
Sjá einnig Jóhannes 3:16–17; Kenning og sáttmálar 132:20–25.
Kenning og sáttmálar 76:50–70, 92–95
Faðir minn á himnum vill að ég öðlist eilíft líf í himneska ríkinu.
Hafið þið einhvern tíma velt fyrir ykkur – eða haft áhyggjur af því – hvort þið munið verða hæf fyrir himneska ríkið? Þegar þið lesið lýsingu þeirra sem öðlast munu þessa dýrð (sjá vers 50–70, 92–95), gætið þá að því sem Guð hefur gert – og er að gera – til að hjálpa ykkur að líkjast sér, í stað þess að einblína einungis á það sem þið verðið að gera og ekki gera. Hefur það áhrif á hvað ykkur finnst um eigin viðleitni að lesa um sýnina á þennan hátt?
Þið gætuð líka íhugað þá miklu blessun að þekkja þessa hluti um himneska ríkið. Hvernig hefur þessi sýn um himneska ríkið áhrif á það hvernig þið sjáið lífið og viljið lifa því?
Sjá einnig HDP Móse 1:39; Joy D. Jones, „Ómetanlegt gildi,“ aðalráðstefna, október 2017; J. Devn Cornish, „Stend ég mig nægilega vel? Mun mér takast þetta?“ aðalráðstefna, október 2016.
Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar
-
Kenning og sáttmálar 76:22–24, 50–52, 78–79, 81–82.Hvað lærum við af þessum versum um mikilvægi vitnisburða okkar? Hvaða hlutverki gegna vitnisburðir okkar í samhengi eilífra örlaga okkar? Það gæti hjálpað að fletta upp skilgreiningu hugtaksins hugdirfska til að ræða hvernig vera á „[hugdjörf] í vitnisburðinum um Jesú“ (vers 79). Tillaga að söng: „Hetja vil ég vera,“ (Barnasöngbókin, 85.)
-
Kenning og sáttmálar 76:24.Fjölskylda ykkar gæti hafa komið auga á samhengi sannleikans í kafla 76 og sannleikans í „Guðs barnið eitt ég er“ (Barnasöngbókin, 2–3); einn slíkan sannleika má finna í Kenningu og sáttmála 76:24. Hvernig gæti heimurinn verið öðruvísi, ef allir skildu að við erum öll börn Guðs? Hvernig hefur þessi sannleikur áhrif á framkomu okkar við aðra? Það gæti ef til vill hjálpað að skoða myndir af hinum ólíku sonum og dætrum Guðs á þessari jörðu, er fjölskylda ykkar ígrundar þessa spurningu. (Sjá einnig „Video Presentation: I Am a Child of God [Myndbandskynning: Guðs barnið eitt ég er],“ ChurchofJesusChrist.org.)
Íhugið að syngja saman sönginn „Guðs barnið eitt ég er“ og gæta að öðrum tengingum við reglurnar í kafla 76 (sjá t.d. vers 12, 62, 96).
-
Kenning og sáttmálar 76:40–41.Hver yrði stutt fyrirsögn okkar í fréttablaði eða tvíti um „gleðitíðindin“ (vers 40), eða góðu fréttirnar, í þessum versum, ef við ættum að gera samantekt á þeim? Hvaða önnur gleðitíðindi finnum við í kafla 76?
-
Kenning og sáttmálar 76:50–70.Hvernig munið þið hjálpa fjölskyldu ykkar að einblína á og búa sig undir eilíft líf í himneska ríkinu? Þið gætuð unnið saman að því að finna myndir, vers og spámannlegar kenningar sem falla að orðtökum í Kenningu og sáttmálum 76:50–70. Þið gætuð fundið þetta í kirkjutímaritum á ChurchofJesusChrist.org eða í neðanmálstilvísunum í ritningunum. Þið gætuð síðan sett þessar myndir, vers og kenningar á veggspjald, til að minna fjölskylduna á eilíf markmið ykkar.
Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.
Tillaga að söng: „Ég veit minn lifir lausnarinn,“ Sálmar, nr. 36.
Raddir endurreisnarinnar: Vitnisburðir um „sýnina“
Wilford Woodruff
Wilford Woodruff gekk í kirkjuna í desember 1833, um tveimur árum eftir að Joseph Smith og Sidney Rigdon hlutu sýnina sem skráð er í Kenningu og sáttmála 76. Hann bjó í New York á þeim tíma og lærði um „sýnina“ frá trúboðum sem þjónuðu á svæðinu. Mörgum árum síðar ræddi hann áhrifamátt þessarar opinberunar á sig:
„Frá barnæsku var mér kennt að það væri einn himinn og ein helja og sagt að ein refsing biði allra ranglátra og ein dýrð allra réttlátra. …
… Þegar ég las sýnina … , uppljómaðist hugur minn og vakti mér mikla gleði. Mér virtist að sá Guð vitur, réttvís og sannur, sem opinberaði manninum þessa reglu, byggi yfir hinum bestu eiginleikum, dómgreind og þekkingu. Mér fannst hann mótsagnalaus í kærleika, miskunn, réttvísi og dómgreind og ég skynjaði meiri elsku til Drottins en nokkurn tíma áður í lífi mínu“1
‚Sýnin‘ [er] opinberun, sem veitir meira ljós, meiri sannleika og fleiri lífsreglur en nokkur önnur opinberun í hvaða bók sem við höfum lesið. Hún varpar skæru ljósi á núverandi ástand okkar, hvaðan við komum, afhverju við erum hér og hver örlög okkar verða. Sérhver maður getur með þessari opinberun vitað hvaða örlög og ástand falla í hans hlut.“2
„Áður en ég sá Joseph, sagði ég aldur hans eða útlit engu skipta – hvort hár hans væri sítt eða stutt, því sá væri spámaður Guðs sem færði fram þessa opinberun. Ég vissi það af eigin raun.“3
Phebe Crosby Peck
Þegar Phebe Peck frétti af kennslu Josephs og Sidney um „sýnina,“ átti hún heima í Missouri og var einstæð fimm barna móðir. Hún varð fyrir svo miklum andlegum áhrifum af sýninni að hún ritaði eftirfarandi til að miðla stór-fjölskyldu sinni því sem hún hafði lært:
„Drottinn er að opinbera börnum sínum leyndardóma hins himneska ríkis. … Joseph Smith og Sidney Rigdon komu í heimsókn síðastliðið vor og við áttum saman marga gleðilega samfundi meðan þeir voru hér og upp fyrir okkur lukust margir leyndardómar, sem hughreystu mig mikið. Við skynjuðum lítillæti Guðs við að búa börnum sínum stað friðar. Hver sá sem ekki tekur á móti fyllingu fagnaðarerindisins og verður hugdjarfur liðsmaður í málstað Krists, fær ekki dvalið í návist föðurins og sonarins. Þeim er þó staður fyrirbúinn sem meðtaka það ekki, en sá er mun síðri að dýrð en að dvelja í himneska ríkinu. Ég reyni ekki að tjá mig frekar um þessa hluti, því þeir eru nú í prentun og á leið út í heiminn. . Ykkur gefst ef til vill kostur á að lesa af eigin raun, og ef svo verður, vona ég að þið lesið vandlega af kostgæfni hjartans, því þessir hlutir eru verðir eftirtektar. Ég þrái að þið gefið ykkur að þeim, því slíkt veitir ykkur hamingju í þessum heimi og í komandi heimi.“4