Kenning og sáttmálar 2021
18.–24. október. Kenning og sáttmálar 121–123: „Ó Guð, hvar ert þú?”


„18.–24. október. Kenning og sáttmálar 121–123: ,Ó Guð, hvar ert þú?’” Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Kenning og sáttmálar 2021 (2020)

„18.–24. október. Kenning og sáttmálar 121–123,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2021

Ljósmynd
Liberty-fangelsið

Liberty-fangelsið að vori, eftir Al Rounds

18.–24. október

Kenning og sáttmálar 121–123

„Ó Guð, hvar ert þú?“

Reynsla ykkar af því að læra ritningarnar verður auðugri ef markmið ykkar er að uppgötva sannleika. Byrjið með bæn, hlustið á andann og skráið hughrif ykkar.

Skráið hughrif ykkar

Neðsta hæð fylkisfangelsisins í Liberty, Missouri, kallaðist dýflissan. Veggirnir voru þykkir, steingólfið kalt og skítugt, maturinn – af eins skornum skammti og hann var – var herfilegur og eina ljósið kom frá tveimur litlum, járnrimlagluggum, uppi við loftið. Í þessari dýflissu vörðu Joseph Smith og nokkrir bræðra hans mestum hluta fangelsisvistar sinnar – fjórum helköldum mánuðum, veturinn 1838–39 – og biðu réttarhalda vegna ákæru um landráð gegn Missouri-fylki. Á þessum tíma fékk Joseph stöðugt fréttir af þjáningum hinna heilögu. Friður og bjartsýni í Far West höfðu aðeins viðhaldist í nokkra mánuði og nú voru hinir heilögu enn á ný heimilislausir, hraktir út í óbyggðirnar, í leit að enn einum staðnum til að byrja frá grunni – að þessu sinni með spámann sinn í fangelsi.

Engin furða að Joseph Smith hafi hrópað: „Ó Guð, hvar ertu?” Svörin sem hann hlaut, „þekkingin frá himni,“ sem barst „í stríðum straumum.“ í þessu ömurlega fangelsi, sýna að þrátt fyrir að svo virðist ekki alltaf, þá er Guð aldrei fjarri. Enginn kraftur fær „haldið himnunum í skefjum“, lærði spámaðurinn. „Guð skal vera með [sínum trúföstu heilögu] um aldur og ævi.” (Kenning og sáttmálar 121:1, 33; 122:9.)

Sjá Saints [Heilagir], 1:323–96; „Within the Walls of Liberty Jail [Innan veggja Liberty fangelsis],” Revelations in Context [Opinberanir í samhengi], 256–63.

Ljósmynd
Táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

Kenning og sáttmálar 121:1–10, 23–33122

Mótlæti getur „verið [mér] til góðs.“

Þegar við eða þeir sem við elskum líða þjáningar, er eðlilegt að velta fyrir sér hvort Guð sé meðvitaður um okkur. Þegar þið lesið Kenningu og sáttmála 121:1–6, hugsið þá um þau skipti þegar þið hafið haft álíka spurningar eða tilfinningar og Joseph Smith. Hvað finnið þið í svari Drottins sem gæti hjálpað ykkur þegar þið hafið þessar spurningar eða tilfinningar? Gætið t.d. að blessununum sem hann lofar í versum 7–10, 26–33, þeim sem „þola [þjáningu] vel.” Þegar þið lesið kafla 122, íhugið þá hvernig Drottinn vill að þið sjáið mótlæti ykkar.

Sjá einnig Henry B. Eyring, „Hvar er tjaldið?aðalráðstefna, október 2012.

Kenning og sáttmálar 121:34–46

Við getum haft aðgang að „krafti himins.“

Við þær, að því er virtist, vanmáttugu aðstæður í Liberty-fangelsinu, hlaut Joseph opinberun um vald eða kraft – ekki pólitískt eða hernaðarlegt vald, sem hinir heilögu höfðu verið beittir, heldur „[kraft] himnins.” Þegar þið lesið Kenningu og sáttmála 121:34–46, hvað lærið þið þá um vald Guðs? Hvernig er það frábrugðið veraldlegu valdi? Skoðið til dæmis orðin sem Drottinn notar í versum 41–43, til að lýsa „valdi eða áhrifum.” Hvað segja þau ykkur um það hvernig Guð viðheldur „valdi eða áhrifum” sínum? Ef til vill gætu þessi vers innblásið ykkur að ígrunda eigið líf og hvað þið gætuð gert til að hafa góð áhrif á aðra með samskiptum ykkar.

Kenning og sáttmálar 122

Jesús Kristur hefur stigið neðar öllu.

Joseph Smith hafði verið ranglega í varðhaldi í rúma fjóra mánuði, á meðan vinir hans og fjölskylda voru hrakin frá heimilum sínum. Verkið sem hann helgaði sig virtist að engu orðið. Hvaða lærdóm dragið þið af orðum Jesú Krists til Josephs í kafla 122? Hvað lærið þið um Joseph? Hvað lærið þið um sjálf ykkur?

Sjá einnig Alma 7:11–13; 36:3; Kenning og sáttmálar 88:6.

Ljósmynd
Jesús í Getsemanegarðinum

En verði þó ekki minn heldur þinn vilji, eftir Walter Rane.

Kenning og sáttmálar 123

„[Við skulum] með glöðu geði gjöra allt, sem í okkar valdi stendur.“

Í mars 1839 gæti hafa virst að hinir heilögu gætu fátt gert til að til að breyta skelfilegum aðstæðum sínum. Í bréfum sínum sem skrifuð voru í Liberty-fangelsinu, sagði Joseph þeim hinsvegar hvað þeir gætu gert: „Safnið saman vitneskju um allar staðreyndir,” „með fullri vissu … eftir að sjá hjálpræði Guðs” (Kenning og sáttmálar 123:1, 17). Þegar þið íhugið blekkingu og „slægð manna” í heiminum í dag, hugsið þá um það „sem í [ykkar] valdi stendur” að gera (vers 12, 17). Hvers vegna er mikilvægt að gera þessa hluti „með glöðu geði”? (vers 17). Hvern þekkið þið sem er „haldið frá sannleikanum” (vers 12) og hvernig getið þið hjálpað viðkomandi að finna hann?

Margar þeirra fyrirspurna Josephs um útskýringar í þessu bréfi, voru lagðar fyrir ríkisstjórnina og gefnar út í ellefu hluta greinaröð í fréttablaði Nauvoo, Times and Seasons (sjá „A History, of the Persecution, of the Church of Jesus Christ, of Latter Day Saints in Missouri, December 1839–October 1840,” [josephsmithpapers.org]).

Ljósmynd
Táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

Kenning og sáttmálar 121:1–10.„Dýflissan“ í Liberty-fangelsinu var aðeins 4,2 sinnum 4,4 metrar. Hvernig getið þið hjálpað fjölskyldu ykkar að ímynda sér hvernig það hefði verið að vera innilokaður í rými af þessari stærð í fjóra kalda mánuði? Þið getið fundið fleiri upplýsingar um aðstæðurnar í Liberty-fangelsinu í „46. kafla: Joseph Smith í Liberty-fangelsinu” (Sögur úr Kenningu og sáttmálum, 172–74). Þið getið líka lesið „Raddir endurreisnarinnar: Liberty-fangelsið,” aftast í þessum lexíudrögum eða horft á myndband sem lýsir tíma Josephs í Liberty-fangelsinu Joseph Smith: Prophet of the Restoration (ChurchofJesusChrist.org, frá og með 43:00). Hvernig hafa þessar upplýsingar áhrif á hvað okkur finnst um reglurnar í Kenningu og sáttmálum 121:1–10?

Kenning og sáttmálar 121:34–36, 41–45.Ef til vill myndi samlíking hjálpa fjölskyldu ykkar að skilja „[kraft] himins.” Þið gætuð t.d. borið saman kraft Guðs og rafmagn: Hvað gæti varnað því að rafmagnstæki fái afl? Hvað getur þessi samlíking, ásamt versum 34–36, 41–45, kennt um hvernig efla má andlegan kraft okkar? Kannski gætu fjölskyldumeðlimir miðlað sögum úr lífi frelsarans með dæmum um þessa eiginleika.

Kenning og sáttmálar 122:7–9.Ef til vill hefðu fjölskyldumeðlimir ykkar gaman að því að búa til lítil merki með orðtökum úr þessum versum sem hvetja þá til dáða. Þessi merki gætu verið til sýnis heima hjá ykkur. Af hverju er mikilvægt að vita að „mannssonurinn hafi beygt sig undir allt”?

Kenning og sáttmálar 123:12.Hvernig getum við hjálpað fólki að „vita … hvar á að finna“ sannleikann?

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Tillaga að söng: „Þó raunir sárar sverfi aðSálmar, nr. 43.

Ljósmynd
Táknmynd radda endurreisnarinnar

Raddir endurreisnarinnar

Liberty-fangelsið

Meðan Joseph Smith var í varðhaldi í Liberty, Missouri, barst honum bréf, þar sem honum var sagt frá hinni háskalegu stöðu Síðari daga heilagra, sem verið var að hrekja úr fylkinu, að tilskipan fylkisstjórans. Átakanlegt bréf barst frá eiginkonu hans, Emmu. Orð hennar og svar Josephs í bréfi, lýsa þjáningum og trú þeirra beggja á þessum erfiða tíma í sögu kirkjunnar.

Bréf frá Emmu Smith til Josephs Smith, 7. mars 1839

„Kæri eiginmaður,

„Þar sem mér gefst tækifæri til að senda bréf með vini, reyni ég að skrifa, en þó ekki að tjá allar mínar tilfinningar, því aðstæður þínar, veggirnir, rimlarnir og slagbrandarnir, rennandi árnar og lækirnir, aflíðandi hlíðarnar, djúpir dalirnir og víðáttumiklar slétturnar, sem skilja okkur að og hið grimmilega óréttlæti, sem leiddi til þess að þér var varpað í fangelsi, þar sem þú enn situr, ásamt svo ótal mörgu öðru, gera mér ómögulegt að lýsa tilfinningum mínum með orðum.

Ef ekki væri fyrir meðvitað sakleysi og beina milligöngu guðlegrar miskunnar, er ég viss um að ég hefði aldrei getað umborið þær þjáningar sem ég hef gengið í gegnum … ; en samt er ég á lífi og er fús til að þjást áfram, sé það vilji hins góða himins að ég geri það þín vegna.

Við erum öll hraust, nema Fredrick sem er nokkuð veikur.

Alexander litli, sem nú er í fangi mér, er einn sá besti snáði sem þú færð augum litið. Hann er svo sterkur að hann getur hlaupið um allt herbergið með því að styðja sig við stól. …

Enginn nema Guð einn fær þekkt hugrenningar mínar og tilfinningar hjartans, þegar ég yfirgaf hús okkar og heimili og næstum allar eigur okkar, að undan skildum litlu börnunum okkar, og hóf ferð mína burt frá Missouri-fylki og skildi við þig innilokaðan í þessu einmanalega fangelsi. Minningin um það er þungbærari en mannlegt eðli ætti að fá borið. …

… Ég vona að enn bíði okkar bjartari tíð. … [Ég] er þín ástkæra að eilífu.

Emma Smith“1

Bréf frá Joseph Smith til Emmu Smith, 4. mars 1839

„Kæra – og ástúðlega – eiginkona,

á fimmtudagskvöldið settist ég niður einmitt um leið og sólin setist, er við gægðumst út um rimla þessa einmanalega fangelsis og ég skrifa þér, svo ég geti kunngjört þér aðstæður mínar. Það eru, að ég held, um fimm mánuðir og sex dagar2 sem ég hef verið undir vökulum augum fangavarða, nótt og dag, innan veggja, rimla og ískrandi járnhurða, þessa einmanalega, myrka og óhreina fangelsis. Með tilfinningum sem Guð einn þekkir, skrifa ég þetta bréf. Hugrenningarnar við þessar aðstæður er erfitt að tjá með penna eða tungu, eða mannlegum mætti og reyna að lýsa eða draga upp mynd fyrir menn sem aldrei hafa upplifað það sem við upplifum. … Við reiðum okkur á armlegg Jehóva og einskis annars, okkur til frelsunar og þú getur verið viss um, að ef hann gerir það ekki, verður það ekki gert, því mörgum þyrstir í blóð okkar í þessu fylki; ekki af því að við erum sekir um eitthvað. … Mín kæra Emma, ég hugsa stöðugt um þig og börnin. … Ég þrái að sjá Frederick litla, Joseph, Juliu, Alexander, Joana og Major gamla [heimilishundinn]. … Ég myndi fúslega ganga héðan til þín, berfættur, berhöfðaður og hálfnakinn, til að fá að líta þig augum og það gerði ég af mikilli ánægju og myndi aldrei telja það eftir mér. … Ég umber alla mína áþján af hugprýði og líka þeir sem eru hér með mér, enginn okkar hefur enn kveinkað sér. Ég vil [að] þú sjáir til þess að [börnin okkar] gleymi mér ekki. Segðu þeim að faðir þeirra elski þau fullkominni elsku og sé að gera allt sem hann getur til að komast til þeirra frá múgnum. … Segðu þeim að faðir þeirra segi að þau verði að vera góð börn og hlýða móður sinni. …

Þinn

Joseph Smith yngri.“3

Heimildir

  1. Bréf frá Emmu Smith, 7. mars 1839,“ Bréfabók 2, 37, josephsmithpapers.org; stafsetning og greinarmerki færð í nútímahorf.

  2. Jósef og félagar hans voru handteknir 31. október 1838 og hafðir í ströngu varðhaldi dag og nótt. Eftir fyrsta dómsúrskurð í Richmond, Missouri, voru þeir færðir í Liberty-fangelsið þann 1. desember.

  3. Bréf til Emmu Smith, 4. apríl 1839,” 1–3, josephsmithpapers.org; stafsetning og greinarmerki færð í nútímahorf.

Ljósmynd
Joseph Smith í Liberty-fangelsinu

Þótt Joseph Smith hefði þjáðst í Liberty-fangelsinu, þá hughreysti Drottinn hann og opinberaði honum mikinn sannleika.

Prenta