„10.–16. júlí. Postulasagan 6–9: ‚[Drottinn, hvað viltu að ég geri],‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Nýja testamentið 2023 (2022)
„10.–16. júlí. Postulasagan 6–9,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2023
10.–16. júlí
Postulasagan 6–9
„[Drottinn, hvað viltu að ég geri?]“
Byrjið á því að lesa Postulasöguna 6–9. Ábendingarnar í þessum lexíudrögum geta hjálpað ykkur að bera kennsl á sumar mikilvægar reglur í þessum kapítulum, þótt þið gætuð fundið fleiri í einkanámi ykkar.
Skráið hughrif ykkar
Ef einhver virðist ólíklegur til samtals, var það líklega Sál – farísei sem hafði það orð á sér að ofsækja hina kristnu. Þegar Drottinn bauð lærisveini að nafni Ananías að leita Sál uppi og bjóða honum blessun, var Ananíasi eðlilega brugðið. Ananías svaraði: Drottinn, heyrt hef ég marga segja frá manni þessum, hve mikið illt hann hefur gert þínum heilögu í Jerúsalem“ (Postulasagan 9:13). Drottinn þekkti þó hjarta og möguleika Sáls og hafði hlutverk í huga fyrir hann: „Þennan mann hef ég valið mér að verkfæri til þess að bera nafn mitt fram fyrir heiðingja, konunga og börn Ísraels“ (Postulasagan 9:15). Ananías hlýddi því og þegar hann fann hinn fyrrum ofsækjanda sinn, ávarpaði hann Sál sem „Sál, bróðir“ (Postulasagan 9:17). Þar sem Sál gat breyst svo algjörlega og Ananías gat tekið svo alúðlega á móti honum, ættum við þá nokkuð að álíta einhvern ólíklegan til að breytast – þar með talið okkur sjálf?
Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi
Hjarta mitt þarf að vera „rétt í augum Guðs.“
Vaxandi kirkja gat af sér fleiri lærisveina til að þjóna í ríkinu. Hvaða eiginleikum leituðu postularnir tólf að í þeim sem gætu þjónað með þeim, samkvæmt Postulasögunni 6:1–5? Þegar þið lesið Postulasöguna 6–8, gætið þá að því hvernig þessir og fleiri eiginleikar sýndu sig í mönnum eins og Stefáni og Filippusi. Hvað skorti Símoni og hvað getum við lært af honum um að vera fús til að breytast?
Er eitthvað sem ykkur finnst þið hvött til að gera breytingu á til að tryggja að þið séuð „[einlæg] í hjarta [ykkar] gagnvart Guði“? (Postulasagan 8:21–22). Hvernig gæti sú breyting blessað ykkur í þjónustu ykkar við Guð?
Að standa gegn heilögum anda, getur leitt til þess að frelsaranum og þjónum hans sé hafnað.
Leiðtogar Gyðinga báru ábyrgð á því að búa fólkið undir komu Messíasar. Samt þekktu þeir ekki Messías og höfnuðu honum. Hvernig átti það sér stað? Hluta svarsins má finna í orðum Stefáns: „Þið standið ávallt gegn heilögum anda“ (Postulasagan 7:51). Hverja teljið þið vera merkingu þess að standa gegn heilögum anda? Af hverju leiðir það til þess að frelsaranum og þjónum hans er hafnað, ef staðið er gegn heilögum anda?
Þegar þið lesið Postulasöguna 6–7, gætið þá að öðrum boðskap sem Stefán kenndi Gyðingum. Hverskonar viðhorfi varaði hann við? Greinið þið eitthvert álíka viðhorf hjá ykkur sjálfum? Hvað kenna orð Stefáns ykkur um afleiðingar þess að standa gegn heilögum anda? Hvernig getið þið verið næmari og móttækilegri fyrir hughrifum heilags anda í lífi ykkar?
Sjá einnig „The Martyrdom of Stephen [Píslarvætti Stefáns]“ (myndband), ChurchofJesusChrist.org.
Heilagur andi mun hjálpa mér að leiða aðra til Jesú Krists.
Hvað lærið þið um að miðla fagnaðarerindinu af frásögninni í Postulasögunni 8:26–39? Hvernig hjálpaði heilagur andi Filippusi? Hvernig er það líkt því að vera leiðbeinandi að miðla fagnaðarerindinu? (sjá Postulasagan 8:31).
Öldungur Ulisses Soares sagði þessa frásögn vera „áminningu um hina guðlegu ábyrgð okkar allra að læra og kenna hvert öðru fagnaðarerindi Jesú Krists. … Við erum … stundum eins og eþíópíski maðurinn. … Við þurfum hjálp trúfasts og innblásins kennara; og við erum stundum eins og Filippus – við þurfum að kenna og styrkja aðra í trú þeirra“ („Hvernig fæ ég skilið?,“ aðalráðstefna, apríl 2019). Íhugið að lesa alla ræðu öldungs Soares og hugleiða hvernig heilagur andi getur hjálpað ykkur að verða betri lærlingar og kennarar fagnaðarerindisins.
Þegar ég lýt vilja Drottins, get ég orðið verkfæri í höndum hans.
Trúarumbreyting Sáls virðist hafa gengið afar hratt fyrir sig; hann hætti skyndilega að fangelsa hina kristnu og tók að prédika um Krist í samkunduhúsunum. Þegar þið lesið sögu hans, íhugið þá ástæðu þess að hann var svo fús til að breytast. (Til að lesa lýsingu Sáls sjálfs á trúarumbreytingu hans, sjá þá Postulasagan 22:1–16 og 26:9–18. Gætið að því að í þessum frásögnum gengur Sál undir nafninu Páll [sjá Postulasagan 13:9].)
Er eitthvað sem þið getið lært af Sál um trúarumbreytingu, þótt satt sé að reynsla Sáls sé óvenjuleg – og að trúarumbreyting sé mun lengra ferli fyrir flesta? Hvað lærið þið af því hvernig Ananías og hinir lærisveinarnir brugðust við trúarumbreytingu Sáls? Hvað munið þið gera til að tileinka ykkur þessar lexíur í lífi ykkar? Þið gætuð spurt í bæn eins og Sál gerði: „[Hvað viltu að ég geri?]“
Þegar þið lesið Postulasöguna 9:36–42, íhugið þá hvernig Tabíþa var verkfæri í höndum Guðs. Hvað hrífur ykkur varðandi fordæmi hennar?
Sjá einnig Dieter F. Uchtdorf, „Beðið átekta á veginum til Damaskus,“ aðalráðstefna, apríl 2011; „The Road to Damascus [Vegurinn til Damaskus]“ (myndband), ChurchofJesusChrist.org.
Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar
-
Postulasagan 6:8; 7:51–60.Berið saman frásagnirnar um Stefán í Postulasögunni 6:8 og Posulasögunni 7:51–60 og frásagnirnar um frelsarann í Lúkas 23:1–46. Hvernig fylgdi Stefán fordæmi frelsarans?
-
Postulasagan 7:51–60.Hvernig blessaði heilagur andi Stefán þegar hann var ofsóttur? Hvenær höfum við hlotið styrk frá heilögum anda á erfiðum stundum?
-
Postulasagan 9:5.Broddur var oddhvasst spjót til að knýja dýr áfram. Oft sparkaði dýrið aftur fyrir sig þegar það var stungið, sem olli því að spjótið sökk enn lengra inn í hold dýrsins. Hvernig getur þessi samlíking stundum átt við um okkur? Hvernig getum við betur meðtekið leiðréttingu frá Drottni?
-
Postulasagan 9:32–43.Íhugið að bjóða fjölskyldumeðlimum að teikna myndir af frásögnunum í Postulasögunni 9:32–43. Hvað lærum við um að vera sannur lærisveinn af þessum frásögnum? Hvernig getur einhver sem er „mjög [góðgerðasamur],“ eins og Tabíþa var, hjálpað öðrum til trúar á Drottin? (sjá Postulasagan 9:36; „Kafli 60: Pétur reisir Tabíþu upp til lífs“ (í Sögur úr Nýja testamentinu, 156–57, eða samsvarandi myndband á ChurchofJesusChrist.org).
Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.
Tillaga að söng: „Ég fer hvert sem vilt að ég fari,“ Sálmar, nr. 104.