„26. júní–2. júlí. Matteus 28; Markús 16; Lúkas 24; Jóhannes 20–21: ‚Hann er upp risinn,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Nýja testamentið 2023 (2022)
„26. júní–2. júlí. Matteus 28; Markús 16; Lúkas 24; Jóhannes 20–21,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2023
26. júní–2. júlí
Matteus 28; Markús 16; Lúkas 24; Jóhannes 20–21
„Hann er upp risinn“
Lesið Matteus 28; Markús 16; Lúkas 24; og Jóhannes 20–21 af kostgæfni og íhugið gleðina sem þið njótið vegna upprisu Krists. Hver gæti hlotið blessun af því að hlýða á vitnisburð ykkar um þennan atburð?
Skráið hughrif ykkar
Mörgum sem fylgdust með gæti hafa virst dauði Jesú frá Nasaret kaldhæðnisleg ævilok merkilegs manns. Var þetta ekki maðurinn sem reisti Lasarus upp frá dauðum? Hafði hann ekki æ ofan í æ komist hjá manndrápshótunum faríseanna? Hann hafði sýnt mátt til að lækna blinda, líkþráa og lamaða. Vindar og sjóir höfðu hlýtt honum. Samt var hann þarna, negldur á kross, lýsandi yfir: „Það er fullkomnað“ (Jóhannes 19:30). Það gæti hafa falist einhver einlæg undrun í hinum hæðnislegu orðum: „Öðrum bjargaði hann, sjálfum sér getur hann ekki bjargað“ (Matteus 27:42). Við vitum þó að dauði Jesú var ekki endir sögunnar. Við vitum að þögn grafarinnar var tímabundin og að hið endurleysandi verk Krists var aðeins að hefjast. Í dag finnum við hann ekki „meðal dauðra,“ heldur meðal lifandi“ (Lúkas 24:5). Kenningar hans yrðu ekki þaggaðar niður, því hinir trúföstu lærisveinar hans myndu boða „[öllum þjóðum]“ fagnaðarerindið og reiða sig á að hann yrði „með [þeim] alla daga allt til enda veraldar“ (Matteus 28:19–20).
Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi
Matteus 28; Markús 16; Lúkas 24; Jóhannes 20
Jesús Kristur reis upp frá dauðum.
Í þessum ritningarhlutum munið þið lesa um einn mikilvægasta atburð í sögu mannkyns: Upprisu Jesú Krists. Er þið lesið, setjið ykkur þá í spor fólksins sem var vitni að atburðunum í aðdragandi upprisunnar. Hvað lærið þið af upplifunum þeirra?
Hverjar eru tilfinningar ykkar er þið lesið um upprisu frelsarans? Íhugið hvernig hún hefur haft áhrif á ykkur – lífsviðhorf ykkar, sambönd ykkar, trú ykkar á Krist og trú ykkar á annan sannleika fagnaðarerindisins.
Sjá einnig Leiðarvísi að ritningunum, „Upprisa“; Sannir í trúnni, „Upprisa, 173“ KirkjaJesuKrists.is Ritningar/Námshjálp.
Ég get boðið frelsaranum að „[vera hjá mér].“
Þegar þið lesið um upplifun lærisveinanna tveggja sem voru á faraldsfæti og hittu hinn upprisna frelsara, gætið þá að hliðstæðum við upplifanir ykkar sem fylgjendur Krists. Hvernig getið þið gengið með honum í dag og boðið honum að „vera hjá“ ykkur svolítið lengur? (Lúkas 24:29). Hvernig skynjið þið nærveru hans í lífi ykkar? Á hvaða hátt hefur heilagur andi borið ykkur vitni um guðleika Jesú Krists?
Sjá einnig „Ó, Drottinn hjá mér dvel í nótt,“ „Dvel hjá mér, Guð,“ Sálmar, nr. 53 og 54.
Upprisa er endanleg sameining andans og líkamans.
Frásagnirnar um upprisu Jesú Krists geta aukið skilning ykkar á hvað í því felst að vera reistur upp. Hvaða sannleika finnið þið t.d. í Lúkas 24:36–43 og Jóhannes 20 um upprisna líkama? Þið gætuð líka kannað önnur ritningarvers sem fjalla um upprisu, svo sem 1. Korintubréf 15:35–44; Filippíbréfið 3:20–21; 3. Nefí 11:13–15; Kenningu og sáttmála 88:27–31; 110:2–3; 130:1, 22.
„Sælir eru þeir sem hafa ekki séð og trúa þó.“
Sumum líður eins og Tómasi, sem sagði: „Sjái ég ekki, … mun ég alls ekki trúa“ (Jóhannes 20:25). Af hverju getur það verið blessun að trúa án þess að sjá, að ykkar mati? (sjá Jóhannes 20:29). Íhugið hvernig þið hafið verið blessuð að trúa á það sem þið fenguð ekki séð? Hvað hjálpar ykkur að trúa á frelsarann, jafnvel þótt þið fáið ekki séð hann? Hvernig getið þið haldið áfram að styrkja trú ykkar á „það, sem eigi er auðið að sjá, en er sannleikur“? (sjá Alma 32:16–21; Eter 12:6). Íhugið að skrifa upplifanir í dagbók sem hafa hjálpað ykkur að trúa á Jesú Krist eða miðlið þeim einhverjum.
Frelsarinn býður mér að gæta sauða sinna.
Áhugavert gæti verið að bera saman samskipti frelsarans við postula sína í Jóhannes 21 og fyrstu samskipti hans um að þeir létu frá sér fiskinetin sín í Lúkas 5:1–11. Hvað finnið þið sem er líkt og ólíkt? Hvaða skilning á hlutverki lærisveinsins finnið þið?
Íhugið hvernig orð frelsarans til Péturs í Jóhannes 21:15–17 gætu átt við um ykkur. Er eitthvað sem heldur ykkur frá því að þjóna sauðum Drottins? Hverju mynduð þið svara, ef Drottinn spyrði ykkur: „Elskar þú mig?“ Íhugið hvernig þið getið sýnt Drottni elsku ykkar.
Sjá einnig 1. Pétursbréf 5:2–4, 8; Jeffrey R. Holland, „Fyrsta og æðsta boðorðið,“ aðalráðstefna, október 2012.
Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar
-
Lúkas 24:5–6.Thomas S. Monson forseti sagði um Lúkas 24:5–6: „Engin orð kristninnar hafa meiri þýðingu fyrir mig“ („Hann er upp risinn!,“ aðalráðstefna, apríl 2010). Hvaða þýðingu hafa þessi orð fyrir ykkur og fjölskyldu ykkar?
-
Matteus 28; Markús 16; Lúkas 24; Jóhannes 20–21.Þegar fjölskylda ykkar les þessa kapítula, gætið þá að fólkinu sem á samskipti við Jesú í hverri frásögn. Hvað vekur t.d. áhuga ykkar varðandi fólkið sem vitjaði gröf frelsarans? Hvað lærið þið af orðum og verkum postulanna eða lærisveinanna á veginum til Emmaus?
Íhugið að syngja saman „Reis Jesús upp?“ (Barnasöngbókin, 45). Ræðið um einhvern í fjölskyldunni sem hefur látist og hvernig sannleikurinn í þessum söng færir huggun.
-
Matteus 28:16–20; Markús 16:14–20; Lúkas 24:44–53.Hvað var Jesús að biðja postula sína að gera í þessum versum? Hvernig getum við hjálpað til við að vinna þetta verk? Fjölskyldumeðlimir gætu sagt frá upplifunum þegar þeir fundu að „Drottinn var í verki með þeim“ við að framfylgja tilgangi sínum (Markús 16:20).
-
Jóhannes 21:15–17.Íhugið að lesa þessi vers meðan þið borðið saman. Það gæti undirstrikað merkingu orða frelsarans: „Gæt sauða minna.“ Byggt á því sem Jesús kenndi um sauði í Nýja testamentinu (sjá t.d. Matteus 9:35–36; 10:5–6; 25:31–46; Lúkas 15:4–7; Jóhannes 10:1–16), af hverju er það að gæta sauða góð leið til að lýsa þjónustu við börn Guðs? Hvað kennir þessi samlíking um það hvað himneskum föður finnst um okkur?
Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.
Tillaga að söng: „Reis Jesús upp?,“ Barnasöngbókin,“ nr. 45.