„18.–24. apríl. 2. Mósebók 18–20: ‚Við skulum gera allt sem Drottinn hefur boðið,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Gamla testamentið 2022 (2021)
„18.–24. apríl. 2. Mósebók 18-20,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2022
18.–24. apríl
2. Mósebók 18–20
„Við skulum gera allt sem Drottinn hefur boðið“
Systir Michelle Craig kenndi: „Þið getið, sem trúfastir lærisveinar Jesú Krists, hlotið persónulegan innblástur og opinberun í samræmi við boðorð hans, sem eru sérsniðin fyrir ykkur“ („Andleg hæfni,“ aðalráðstefna, október 2019). Skráið og framfylgið þeim innblæstri sem þið hljótið við lestur 2. Mósebókar 18–20.
Skráið hughrif ykkar
Ferð Ísraelsmanna frá Egyptalandi til róta Sínaífjalls var fyllt kraftaverkum – óneitanlegrar opinberunar óviðjafnanlegs krafts Drottins, elsku hans og miskunnar. Drottinn hafði þó blessanir í huga fyrir þá, umfram frelsun þeirra frá Egyptalandi og að seðja líkamlegt hungur þeirra og þorsta. Hann vildi að þeir yrðu sáttmálsþjóð hans, „sérstök eign“ og „heilög þjóð“ (2. Mósebók 19:5–6). Á okkar tíma einskorðast blessanir sáttmálans ekki við eina þjóða eða einn lýð. Guð vill að öll börn hans verði hluti af sáttmálsþjóð hans, að þau „[hlýði] á [hann] af athygli og [haldi] sáttmála [hans]“ (2. Mósebók 19:5), því hann auðsýnir miskunn „þúsundum þeirra sem elska [hann] og halda boð [hans]“ (2. Mósebók 20:6).
Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi
Þið getið hjálpað við að „létta byrði“ í verki Drottins.
Þegar þið lesið um leiðsögnina sem Móse fékk frá tengdaföður sínum, Jetró, íhugið þá hvernig þið getið orðið eins og þessir „[traustu] menn“ (stundum þýtt sem „menn sannleikans“) sem greint er frá í versi 21. Hvernig getið þið hjálpað við að „létta … byrði“ kirkjuleiðtoga ykkar? (vers 22). Hvernig gæti þetta ráð t.d átt við um hirðisþjónustu ykkar?
Þið gætuð líka íhugað hvort þið séuð stundum eins og Móse og reynið að gera of mikið sjálf. Hvernig getur leiðsögn Jetró átt við ykkur?
Sjá einnig Mósía 4:27; Henry B. Eyring, „Umönnunaraðili,“ aðalráðstefna, október 2012.
Sáttmálsþjóð Drottins er honum sérstök eign.
Íhugið hvað það þýðir fyrir ykkur að vera „sérstök eign“ Drottins (2. Mósebók 19:5). Russell M. Nelson forseti setti fram leið til útskýringar þessa orðtaks: „Í Gamla testamentinu var hebreska orðið segullah þýtt sem sérstakur, sem þýðir ‚mikilsmetin eign,‘ eða ‚fjársjóður.‘ … Það að vera auðkennd af þjónum Drottins sem sérstök eign hans, er mesti virðingarvottur allra“ („Children of the Covenant [Börn sáttmálans],“ Ensign, maí 1995, 34). Hvernig hefur það áhrif á lífsmáta ykkar að vita að ef þið haldið sáttmála ykkar séuð þið „sérstök eign“?
Sjá einnig Gerrit W. Gong, „Sáttmálsaðild,“ aðalráðstefna, október 2019.
Helgar upplifanir þarfnast undirbúnings.
Drottinn sagði Móse að Ísraelsmenn þyrftu að búa sig undir að „[koma] til Guðs“ (2. Mósebók 19:10–11, 17) og halda sáttmála hans (sjá 2. Mósebók 19:5). Hvað gerið þið til að búa ykkur undir helga upplifun, eins og að fara í musterið eða meðtaka sakramentið? Hvað getið þið gert til að búa ykkur enn frekar undir slíkar upplifanir? Íhugið aðrar andlegar athafnir sem krefjast undirbúnings og hvernig sá undirbúningur getur haft áhrif á upplifun ykkar.
Guð er miskunnsamur.
Þegar þið lesið 2. Mósebók 20, íhugið þá að skrifa hjá ykkur hver boðorðanna tíu ykkur finnist þið halda og hver þeirra þið gætuð haldið enn samviskusamlegar. Þið gætuð valið eitt boðorð til þess að vinna með og síðan lært meira um það með því að lesa ritningarvers því tengdu (sjá Leiðarvísi að ritningunum á ChurchofJesusChrist.org/study/scriptures/gs?lang=isl) eða aðalráðstefnuræður (sjá leitarþráð á ChurchofJesusChrist.org/study/general-conference?lang=isl). Íhugið að taka inn í nám ykkar þær blessanir sem þeir hljóta sem hlýða boðorðunum. Hvernig sýna þessar blessanir miskunn Guðs og elsku til ykkar?
Sjá einnig Carole M. Stephens, „Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín,“ aðalráðstefna, október 2015.
Það er mikilvægt að setja Drottin í efsta sæti í lífi okkar.
Lestur á 2. Mósebók 20:1–7 gæti hvatt ykkur til umhugsunar um forgangsröðun í lífi ykkar – þið gætuð jafnvel skráð þau. Hvað eru mögulega „guðir“ eða „líkneski“ (2. Mósebók 20:3–4) sem þið gætuð freistast til að setja ofar Guði? Hvernig getur það að setja Drottin í efsta sæti hjálpað ykkur við annað mikilvægt í lífi ykkar? Hvað eruð þið hvött til að gera til að einblína meira á himneskan föður og Jesú Krist?
Sjá einnig Dallin H. Oaks, „Enga aðra guði,“ aðalráðstefna, október 2013.
Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar
-
2. Mósebók 18:8–12.Hvaða áhrif hafði vitnisburður Móse um björgun Guðs á Jetró? Hvaða miklu hluti hefur Guð gert fyrir fjölskyldu okkar? Með hverjum getum við deilt upplifunum okkar? Hvernig getum við varðveitt þær upplifanir fyrir komandi kynslóðir?
-
2. Mósebók 18:13–26.Þessi vers gætu hvatt fjölskyldu ykkar til að hugsa um þjónustu staðarleiðtoga ykkar í kirkjunni, eins og biskups, leiðtoga ungmenna eða kennara Barnafélagsins. Hvers konar ábyrgð er á herðum þeirra, sem gæti virst „of [erfið]“ (2. Mósebók 18:18) fyrir einn að bera? Hvað getum við gert til að létta á byrðum þeirra?
-
2. Mósebók 20:3–17.Íhugið skilvirka leið til að ræða um boðorðin tíu sem fjölskylda. Dæmi: Þið gætuð skrifað boðorðin í 2. Mósebók 20:3–17 á tíu pappírsræmur. Fjölskyldumeðlimir gætu því næst raðað þeim í tvo flokka: (1) heiðra Guð og (2) elska aðra (sjá einnig Matteus 22:36–40). Íhugið að velja eitt eða tvö boðorð dag hvern í vikunni og ræða þau nánar saman. Dæmi: Hvernig getur hlýðni við þetta boðorð styrkt fjölskyldu okkar? Hvernig hlýddi frelsarinn því?
-
2. Mósebók 20:12.Til að skilja 2. Mósebók 20:12, gæti verið gagnlegt fjölskyldu ykkar að finna skilgreiningu hugtaksins „heiðra.“ Fjölskyldumeðlimir gætu skráð hvernig við getum heiðrað foreldra okkar. Þið gætuð sungið söng um að heiðra foreldra, eins og „Þegar mamma kallar“ (Barnasöngbókin, 71) og notfært ykkur svo hugmyndirnar sem þið skráðuð til að bæta nýjum versum við sönginn.
Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.
Tillaga að söng: „Boðorðin haldið,“ Barnasöngbókin, 68.