Gamla testamentið 2022
25. apríl – 1. maí. 2. Mósebók 24; 31–34: „Auglit mitt mun fara með þér“


„25. apríl – 1. maí. 2. Mósebók 24; 31–34: ‚Auglit mitt mun fara með þér,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Gamla testamentið 2022 (2021)

„25. apríl – 1. maí. 2. Mósebók 24; 31–34,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2022

Jehóva birtist Móse og öldungum Ísraels

Teikning af Jehóva birtast Móse og hinum 70 öldungum Ísraels, eftir Jerry Harston

25. apríl – 1. maí

2. Mósebók 24; 31–34

„Auglit mitt mun fara með þér“

Í þessum lexíudrögum er ekki mögulegt að draga fram allar mikilvægar reglur í ritningunum. Hlustið á andann til að hjálpa ykkur að einblína á þann sannleika sem þið þurfið.

Skráið hughrif ykkar

Það var ástæða til að ætla að Ísraelsmenn yrðu trúfastir Guði eftir að hann hafði opinberað þeim lögmál sitt (sjá 2. Mósebók 20–23). Þótt þeir hefðu möglað og villst frá á liðinni tíð, þá gerðu þeir þennan sáttmála þegar Móse las lögmálið við rætur Sínaífjalls: „Við skulum gera allt sem Drottinn hefur boðið og hlýða honum“ (2. Mósebók 24:7). Guð bauð þá Móse að fara upp á fjallið og sagði honum að reisa tjaldbúð, svo að „[hann byggi] mitt á meðal þeirra” (2. Mósebók 25:8; sjá kapítula 25–30).

Á meðan Móse var upp á fjallinu til að læra hvernig Ísraelsmenn gætu notið nærveru Guðs, voru Ísraelsmenn að búa sér til gullskurðgoð við rætur fjallsins til að tilbiðja í stað Guðs. Þeir höfðu rétt áður lofað að „hafa [enga] aðra guði,“ en „[viku þó skjótt]“ frá boðorðum Guðs (2. Mósebók 20:3; 32:8; sjá einnig 2. Mósebók 24:3). Þetta var óvæntur viðsnúningur, en af eigin reynslu vitum við að trú og skuldbinding geta stundum vikið fyrir óþolinmæði, ótta og efa. Þegar við leitum návistar Drottins í lífi okkar, er hughreystandi að vita að Drottinn gafst ekki upp á hinum forna Ísrael og hann mun ekki gefast upp á okkur – af því að hann er „miskunnsamur og náðugur Guð, seinn til reiði, gæskuríkur og trúfastur“ (2. Mósebók 34:6).

táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

2. Mósebók 24:1–11

Sáttmálar mínir sýna hversu fús ég er til að hlýða lögmáli Guðs.

Þegar þið lesið 2. Mósebók 24:3–8, um Ísraelsmenn að gera sáttmála um að hlýða lögmáli Guðs, gætu hugsanir ykkar beinst að þeim sáttmálum sem þið hafið gert við Guð. Sáttmáli Ísraels hafði að geyma helgisiði sem eru ólíkir þeim sem Guð gerir kröfu um á okkar tíma, en þið gætuð þó tekið eftir einhverjum samsvörunum, einkum ef þið íhugið hinn eilífa sannleika sem þessir helgisiðir tákna.

Í versum 4, 5 og 8 er t.d. minnst á altari, dýrafórnir og blóð. Hvað gætu þessir hlutir staðið fyrir og hvernig tengjast þeir sáttmálum ykkar? Hvernig geta sáttmálar ykkar hjálpað ykkur að gera „allt sem Drottinn hefur boðið“? (vers 7).

Sjá einnig HDP Móse 5:4–9; Becky Craven, „Vandvirkur eða værukær,“ aðalráðstefna, apríl 2019.

2. Mósebók 32–34

Synd er að snúa frá Guði, en hann sér okkur fyrir leið til baka.

Ef við íhugum hvernig Ísraelsmenn „[steyptu] sér [svo fljótt] í glötun“ (2. Mósebók 32:7) með því að brjóta sáttmála sína, þá getum við forðast álíka mistök. Þegar þið lesið 2. Mósebók 32:1–8, reynið þá að setja ykkur í spor Ísraelsmanna – þið eruð í eyðimörkinni, Móse hefur verið fjarri í 40 daga, þið vitið ekki hvort eða hvenær hann kemur til baka og í framtíðinni bíða átök við Kanaaníta yfir fyrirheitna landinu (sjá einnig 2. Mósebók 23:22–31). Af hverju haldið þið að Ísraelsmenn hafði viljað gullskurðgoð? Af hverju var synd Ísraelsmanna svo alvarleg? Þessi vers gætu hvatt ykkur til að íhuga hvernig ykkur gæti verið freistað til að setja traust ykkar á einhvern eða eitthvað annað en frelsarann. Er eitthvað sem ykkur finnst þið hvött til að gera til að hafa Guð í auknu fyrirrúmi í lífi ykkar? Hvað innblæs ykkur varðandi ákall Móse til Drottins í 2. Mósebók 33:11–17?

Þótt synd Ísraelsmanna hafi verið alvarleg, þá er þessi frásögn líka lýsandi fyrir miskunn og fyrirgefningu Guðs. Hvað kennir 2. Mósebók 34:1–10 ykkur um frelsarann? Hvað er líkt með því sem Móse gerði í þágu Ísraelsmanna og því sem Jesús Kristur gerði fyrir alla menn? (sjá 2. Mósebók 32:30–32; Mósía 14:4–8; 15:9; Kenning og sáttmálar 45:3–5).

Þýðing Josephs Smith, 2. Mósebók 34:1–2 (á KirkjaJesuKrists.is)

Hvernig voru steintöflurnar tvær sem Móse bjó til frábrugðnar hvorri annarri?

Þegar Móse kom niður af fjallinu, þá hafði hann með sér lögmálið ritað á steintöflur. Eftir að Móse komst að því að Ísraelsmenn höfðu brotið sáttmála sinn, braut hann töflurnar (sjá 2. Mósebók 31:18; 32:19). Guð bauð Móse síðar að búa til aðrar tvær steintöflur og fara aftur með þær upp á fjallið (sjá 2. Mósebók 34:1–4). Þýðing Josephs Smith, 2. Mósebók 34:1–2 (á KirkjaJesuKrists.is) útskýrir að á fyrri steintöflunum var „hin helga regla“ Guðs eða Melkísedeksprestdæmið. Á hinum síðari voru „lögmál holdlegra boðorða.“ Þetta var lægra lögmál, sem „lægra prestdæmið“ þjónustaði (sjá Kenning og sáttmálar 84:17–27), sem var ætlað að búa Ísraelsmenn undir æðra lögmálið og æðra prestdæmið, svo þeir gætu betur notið návistar Guðs.

táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

2. Mósebók 31:12–13, 16–17.Eftir lestur þessara versa, gæti fjölskylda ykkar ef til vill rætt spurningu Russells M. Nelson forseta, um atferli okkar á hvíldardegi: „Hvaða teikn getið þið gefið Drottni sem sýnir að þið elskið hann?“ („Hvíldardagurinn er feginsdagur,“ aðalráðstefna, apríl 2015). Fjölskylda ykkar gæti komið einhverjum táknum fyrir á heimili sínu til að minna ykkur á hvernig þið sýnið Drottni elsku á hvíldardegi. (Sjá einnig myndbandasafnið „Sabbath Day—At Home [Hvíldardagur á heimilinu]“ [ChurchofJesusChrist.org].)

fólk á gangi fyrir framan kirkju

Við sýnum Drottni elsku með því að heiðra hvíldardaginn.

2. Mósebók 32:1–8.Íhugið að búa til slóða á gólfinu (eða finnið einhvern í nágrenninu) til að hjálpa fjölskyldunni að ræða hvernig Ísraelsmenn sneru frá Guði. Þegar fjölskyldan gengur saman slóðann, gæti hún rætt freistingar þess að „[víkja] af þeim vegi sem [Drottinn] bauð.“ Hvernig getum við verið stöðug á veginum? Hvernig getum við komist á hann aftur, ef við höfum villst út af honum? Hvernig hjálpar frelsarinn okkur?

2. Mósebók 32:26.Eftir að Móse hafði staðið Ísraelsmenn að því að tilbiðja skurðgoð, sagði hann: „Hver sem fylgir Drottni komi til mín.“ Hvernig sýnum við að við fylgjum Drottni?

2. Mósebók 33:14–15.Fjölskyldumeðlimir gætu sagt frá upplifunum þegar þeir hafa fundið það sem Guð lofaði Móse: „Auglit mitt mun fara með þér og ég mun veita þér hvíld.“ Þið gætuð sungið sálm um mikilvægi návistar Guðs í lífi ykkar, t.d. „Dvel hjá mér, Guð“ (Sálmar, nr. 54).

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Tillaga að söng: „Fylg þú mérSálmar, nr. 55.

Bæta kennslu okkar

Bjóðið andanum að vera með. Íhugið hvernig helgitónlist, listmunir og kærleikstjáning hafa áhrif á andrúmsloft heimilis ykkar er þið kennið fjölskyldu ykkar (sjá Teaching in the Savior’s Way [Kenna að hætti frelsarans], 15).

Móse brýtur töflurnar

Tilbeiðsla kálfsins, eftir W. C. Simmonds