Gamla testamentið 2022
Ábendingar til að hafa hugfastar: Sögubækur í Gamla testamentinu


„Ábendingar til að hafa hugfastar: Sögubækur í Gamla testamentinu,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Gamla testamentið 2022 (2021)

„Ábendingar til að hafa hugfastar: Sögubækur í Gamla testamentinu,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2022

Ljósmynd
ábendingatákn

Ábendingar til að hafa hugfastar

Sögubækur í Gamla testamentinu

Jósúabók til og með Esterarbók eru þær bækur sem almennt eru kunnar sem „sögubækur“ Gamla testamentisins. Það þýðir ekki að aðrar bækur Gamla testamentisins hafi ekki sögulegt gildi. Sögubækurnar eru skilgreindar þannig, því megin viðfangsefni höfunda þeirra var að sýna hönd Guðs í sögu Ísraelsþjóðar. Þeim var ekki ætlað að útskýra lögmál Móse, eins og 3. Mósebók og 5. Mósebók gera. Þeim var ekki ætlað að tjá lof eða harm í ljóðaformi, eins og Sálmarnir og Harmaljóðin gera. Þeim var heldur ekki ætlað að geyma orð spámannanna, eins og bækur Jesaja og Esekíels gera. Sögubækurnar geyma hins vegar frásagnir.

Mismunandi sjónarhorn

Sú saga er auðvitað sögð út frá ákveðnu sjónarhorni – í raun út frá ákveðnum sjónarhornum. Rétt eins og ómögulegt er að líta á blóm, stein eða tré út frá fleiri en einu sjónarhorni í einu, þá er óhjákvæmilegt að söguleg frásögn endurspegli sjónarhorn þess aðila eða hóps fólks sem hana ritar. Þetta sjónarhorn er háð þjóðernislegum tengslum höfundanna og menningarlegum viðmiðum þeirra og viðhorfum. Vitneskja um þetta getur hjálpað okkur að skilja að höfundar og þýðendur sögubókanna einbeittu sér að ákveðnum upplýsingum en slepptu öðrum.1 Þeir gáfu sér ákveðnar forsendur sem aðrir hefðu kannski ekki gert. Þeir komust líka að niðurstöðum á grundvelli þessara upplýsinga og forsendna. Við getum jafnvel séð mismunandi sjónarhorn víða í bókum Biblíunnar (og stundum í sömu bók).2 Því meðvitaðri sem við erum um þessi sjónarhorn, því betur getum við skilið sögubækurnar.

Eitt sjónarhorn sem öllum sögubókum Gamla testamentisins er sameiginlegt, er sjónarhorn Ísraelsmanna, sáttmálsþjóðar Guðs. Trú þeirra á Drottin hjálpaði þeim að sjá hönd hans í lífi þeirra og íhlutun hans í málefni þjóðar þeirra. Þótt veraldlegar sögubækur fjalli almennt ekki um hlutina á þennan hátt, þá er þetta andlega sjónarhorn hluti af því sem gerir sögubækur Gamla testamentisins svo mikils virði fyrir þá sem reyna að byggja upp trú sína á Guð.

Samhengi þess sem eftir er af Gamla testamentinu

Sögubækurnar hefjast þar sem 5. Mósebók lýkur og áratuga löng ganga Ísraelsmanna um eyðimörkina er í þann mund að taka enda. Jósúabók sýnir Ísraelsmenn reiðubúna til inngöngu í Kanaansland, fyrirheitna landsins þeirra og lýsir því hvernig þeir tóku það yfir. Bækurnar sem á eftir fylgja, Dómarabókin til og með 2. Kroníkubók, lýsa reynslu Ísraelsmanna í fyrirheitna landinu, allt frá því að þeir námu þar land, þar til þeir voru sigraðir af Assýríu og Babýlon. Esrabók og Nehemíabók segja frá endurkomu nokkurra hópa Ísraelsmanna til höfuðborgar þeirra, Jerúsalem, áratugum síðar. Að endingu fjallar Esterabók um sögu Ísraelsmanna sem búa í útlegð undir stjórn Persa.

Þar lýkur tímatali Gamla testamentisins. Sumir sem lesa Biblíuna í fyrsta skipti verða hissa þegar þeir komast að því að í raun hafi þeir lokið að lesa sögu Gamla testamentisins áður en þeir hafa lesið litlu meira en helming síðna þess. Eftir Esterarbók fáum við ekki miklar upplýsingar um sögu Ísraelsmanna. Þess í stað passa bækurnar sem fylgja á eftir – einkum bækur spámannanna – innan tímalínunnar sem sögubækurnar mörkuðu.3 Þjónusta spámannsins Jeremía átti sér t.d. stað á sama tíma og atburðirnir sem eru skráðir í 2. Konungabók 22–25 (og hliðstæðri frásögn í 2. Kroníkubók 34–36). Vitneskja um þetta getur haft áhrif á hvernig þið lesið bæði sögulegu frásagnirnar og spádómsbækurnar.

Ljósmynd
hönd með púsluspil með ólokinni púslþraut á borði

Sum ritningarvers geta verið eins og púsl sem við vitum ekki hvernig passa inní heildarmyndina.

Þegar eitthvað passar ekki

Þegar þið lesið Gamla testamentið er líklegt að þið lesið um fólk sem gerir eða segir eitthvað sem á okkar tíma virðist einkennilegt eða jafnvel óþægilegt, eins og gerst getur í öllum sögum. Við ættum að búast við þessu – höfundar Gamla testamentisins sáu heiminn út frá sjónarhorni sem að sumu leyti var nokkuð frábrugðið okkar. Ofbeldi, þjóðernissamskipti og hlutverk kvenna er aðeins nokkuð af því sem fornir höfundar gætu hafa litið öðrum augum en við gerum í dag.

Hvað ættum við þá að gera þegar við rekumst á ritningarhluta sem gætu verið óþægilegir? Í fyrsta lagi gæti verið gagnlegt að skoða hvern ritningarhluta í víðara samhengi. Hvernig passar efnið við sáluhjálparáætlun Guðs? Hvernig passar það við vitneskju ykkar um eðli himnesks föður og Jesú Krists? Hvernig passar það við opinberaðan sannleika í öðrum ritningum eða kenningum lifandi spámanna? Hvernig passar það við hvíslandi rödd andans í eigin hjarta og huga?

Í sumum tilvikum gæti ritningarhlutinn ekki passað vel við neitt af þessu. Stundum getur ritningarhlutinn verið eins og púsl sem virðist ekki passa við þann hluta púsluspilsins sem þið hafið þegar sett saman. Að reyna að þvinga púslið til að passa, er ekki besta aðferðin. Að gefast upp á púsluspilinu, er þó heldur ekki gott. Þið gætuð þess í stað þurft að leggja púslið til hliðar um tíma. Þegar þið lærið meira og setjið saman meira af þrautinni gætuð þið séð betur hvernig stykkin passa saman.

Það getur líka hjálpað að muna, að auk þess að vera takmarkaðar við ákveðið sjónarhorn, eru ritningarsögur háðar mannlegum mistökum (sjá Trúaratriðin 1:8). Dæmi: Í aldanna rás „hafa mörg skýr og afar dýrmæt atriði verið felld úr [Biblíunni],“ þar á meðal mikilvæg sannindi um kenningar og helgiathafnir (1. Nefí 13:28; sjá einnig vers 29, 40). Á sama tíma ættum við að vera fús til að viðurkenna að sjónarmið okkar sjálfra eru einnig takmörkuð: það munu alltaf vera hlutir sem við skiljum ekki að fullu og spurningar sem við getum ekki enn svarað.

Finna perlurnar

Í millitíðinni þurfa ósvaraðar spurningar þó ekki að halda okkur frá dýrmætum perlum eilífs sannleika sem finna má í Gamla testamentinu – jafnvel þótt þessar perlur leynist stundum í grýttri jörð óþægilegra upplifana og slæmra ákvarðana sem ófullkomið fólk tekur. Dýrmætastar þessara perla eru ef til vill sögurnar og ritningarhlutarnir sem vitna um kærleika Guðs – einkum þar sem huga okkar er beint að fórn Jesú Krists. Perlur eins og þessar skína jafn skært nú sem þá, út frá hvað sjónarhorni sem þær eru skoðaðar. Þar sem þessar frásagnir eru um sáttmálsfólk Guðs – karla og konur sem höfðu veikleika manna en elskuðu þó Drottin og þjónuðu honum – má finna sannleiksperlur hvarvetna í sögubókum Gamla testamentisins.

Heimildir

  1. Sögufrásagnir Biblíunnar sem við höfum í dag, eru fyrst og fremst verk margra ónefndra höfunda og þýðenda, sem stundum unnu að þeim mörgum árum, jafnvel öldum, eftir tímabil hinna raunverulegu atburða. Þeir treystu á hinar ýmsu söguheimildir og tóku ákvarðanir um hverju skildi segja frá og hverju sleppa.

  2. Dæmi: Þótt 1. og 2. Kroníkubók nái um það bil yfir sama tíma og 1. Samúelsbók 31 til loka 2. Konungabókar, þá eru áherslur lagðar á aðrar upplýsingar í 1. og 2. Kroníkubók og sjónarhornið er ólíkt. Ólíkt 1. Samúelsbók – 2. Konungabókar, þá fjallar 1. og 2. Kroníkubók nánast alfarið um suðurríkið Júda og sleppir oft neikvæðum frásögnum um Davíð og Salómon (gerið t.d. samanburð á 2. Samúelsbók 10–12 og 1. Kroníkubók 19–20 og einnig á 1. Konungabók 10–11 og 2. Kroníkubók 9). Námsefnið Kom, fylg mér leggur áherslu á frásögnina í 1. og 2. Konungabók, þótt gagnlegt sé að gera samanburð þeirri frásögn með því að lesa 1. og 2. Kroníkubók. Gagnlegt gæti verið að vita að líklega var byrjað á því verki að vinna að 1. Samúelsbók – 2. Konungabókar áður en Babýloníuríkið sigraði Júda og því var lokið meðan á útlegðinni í Babýlon stóð. Heimildin er varð 1.–2. Krónikubók, var aftur á móti sett saman eftir að Gyðingar sneru aftur til Jerúsalem úr útlegð sinni. Við lesturinn gætið þið velt fyrir ykkur hvernig þessar mismunandi aðstæður gætu haft áhrif á sjónarmið þýðendur hinna ýmsu frásagna.

  3. Fremst í þessari kennslubók finnið þið „Yfirlit Gamla testamentisins,“ tímalínu sem sýnir hvernig þjónusta hvers spámanns fellur inn í sögu Ísraels (eins og hægt er að ákvarða). Þið munuð taka eftir því að flestar spádómsbækur Gamla testamentisins eru við lok tímalínunnar – rétt fyrir og rétt eftir að Ísraelsmenn voru sigraðir, gerðir útlægir og þeim tvístrað af óvinum sínum.

Prenta