„Ábendingar til að hafa hugfastar: Tjaldbúðin og fórn,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Gamla testamentið 2022 (2021)
„Ábendingar til að hafa hugfastar: Tjaldbúðin og fórn,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2022
Ábendingar til að hafa hugfastar
Tjaldbúðin og fórn
Þegar við lesum Gamla testamentið, finnum við stundum langar málsgreinar um eitthvað sem Drottni hefur greinilega fundist mikilvægt, sem þó er ekki brýnt fyrir okkar tíma. 2. Mósebók 25–30; 35–40; 3. Mósebók 1–9; 16–17 eru dæmi um það. Í þessum kapítulum er tjaldbúð Ísraelsmanna í eyðimörkinni lýst ítarlega og dýrafórnunum sem þar voru framkvæmdar.1 Tjaldbúðin var flytjanlegt musteri, dvalarstaður Drottins meðal fólks síns.
Musterum okkar tíma svipar til tjaldbúðar Ísraelsmanna, en falla vissulega ekki að lýsingunni í 2. Mósebók. Við aflífum ekki dýr í musterunum okkar – friðþægingarfórn frelsarans batt enda á dýrafórnir fyrir meira en 2000 árum. Þótt að þarna greini á milli, þá er afar gagnlegt á okkar tíma að lesa sér til um hina fornu tilbeiðsluhætti Ísraelsmanna, einkum ef við lítum þá sömu augum og fólk Guðs í Mormónsbók gerði – sem aðferð til „að styrkja trú þeirra á Krist“ (Alma 25:16; sjá einnig Jakob 4:5; Jarom 1:11). Þegar við skiljum táknræna merkingu tjaldbúðarinnar og dýrafórnanna, getum við hlotið andlegan skilning sem mun einnig styrkja trú okkar á Krist.
Tjaldbúðin styrkti trú á Jesú Krist
Þegar Guð bauð Móse að reisa tjaldbúð meðal Ísraelsmanna, greindi hann frá tilgangi sínum: „Að ég búi mitt á meðal þeirra“ (2. Mósebók 25:8). Í tjaldbúðinni var nærvera Guðs táknuð með sáttmálsörkinni – trékistu, þaktri gulli, sem í var rituð heimild um sáttmála Guðs við fólk hans (sjá 2. Mósebók 25:10–22). Örkin var geymd í heilagasta, innsta herberginu, sem aðskilið var öðru í tjaldbúðinni með fortjaldi. Fortjaldið táknaði aðskilnað okkar frá nærveru Guðs vegna fallsins.
Að Móse undanskildum, þá vitum við að einungis einum öðrum var leyfði innganga í hið „allra helgasta“ rými (2. Mósebók 26:34) – æðsta prestinum. Líkt og átti við um hina prestana, þá varð fyrst að lauga og smyrja hann (sjá 2. Mósebók 40:12–13) og íklæða hann helgum klæðum, sem táknuðu stöðu hans (sjá 2. Mósebók 28). Einu sinni á ári, á degi sem nefndur var friðþægingardagurinn, færði æðsti presturinn fórnir í þágu fólksins, áður en það fékk inngöngu í samfundatjaldið. Við fortjaldið brenndi hann ilmreykelsi (sjá 3. Mósebók 16:12). Reykilmurinn steig upp til himins og táknaði bænir fólksins stíga upp til Guðs (sjá Sálmarnir 141:2). Æðsti presturinn fór síðan með blóð fórnardýrsins í gegnum fortjaldið og að hásæti Guðs, sem sáttmálsörkin táknaði (sjá 3. Mósebók 16:14–15).
Fáið þið nú skilið hvernig tjaldbúðin vísar á frelsarann, með vitneskju ykkar um Jesú Krist og hlutverk hans í áætlun himnesks föður? Á sama hátt og samfundatjaldið, og örkin í því, táknaði nærveru Guðs meðal fólks hans, þá var Jesús Kristur nærvera Guðs meðal fólks hans (sjá Jóhannes 1:14). Líkt og æðsti presturinn, þá er Jesús Kristur meðalgöngumaður okkar og Guðs föðurins. Hann fór í gegnum fortjaldið til að úthella blóði eigin fórnar í okkar þágu (sjá Hebreabréfið 8–10).
Sumt í tjaldbúð Ísraelsmanna gæti ykkur fundist hljóma kunnuglega, einkum ef þið hafið farið í musterið til að taka á móti helgiathöfnum fyrir ykkur sjálf. Líkt og hið allra heilagasta í samfundatjaldinu, þá táknar himneska herbergi musterisins nærveru Guðs. Áður en við förum þangað, þarf að lauga og smyrja okkur. Við íklæðumst helgum klæðum. Við biðjumst fyrir við altarið og bænirnar stíga upp til Guðs. Loks förum við í gegnum fortjaldið, inn til návistar Guðs.
Ef til vill er mikilvægasta samlíking mustera okkar tíma og hins forna samfundatjalds sú að hvorttveggja styrkir trú okkar á Jesú Krist, sé hún rétt skilin, og fyllir okkur þakklæti fyrir friðþægingarfórn hans. Guð vill að öll börn hans komi í návist hans; hann vill „konungsríki presta“ karla og kvenna (2. Mósebók 19:6). Syndir okkar varna því þó að við hljótum þá blessun, því „ekkert óhreint fær dvalið með Guði“ (1. Nefí 10:21). Guð faðirinn sendi því Jesú Krist, „[æðsta prest] hinna komandi gæða“ (Hebreabréfið 9:11). Hann dregur fortjaldið frá fyrir okkur og gerir öllu fólki Guðs kleift að „[koma] með djörfung að hásæti Guðs náðar. Þar finnum við miskunn“ (Hebreabréfið 4:16).
Tilgangur mustera á okkar tíma er meiri en sá að hljóta persónulega upphafningu. Eftir að hafa tekið á móti helgiathöfnum fyrir okkur sjálf, þá getum við verið staðgenglar áa okkar og tekið á móti helgiathöfnum fyrir þá. Á vissan hátt getum við orðið eins og hinn forni æðsti prestur – og hinn mikli æðsti prestur – gert öðrum kleift að njóta návistar Guðs.
Fórn styrkir trú á Jesú Krist
Reglur friðþægingar og sáttargjörðar eru kenndar á áhrifaríkan hátt með hinum fornu dýrafórnum, sem voru iðkaðar löngu fyrir lögmál Móse. Sökum hins endurreista fagnaðarerindis, þá vitum við að Adam og Eva færðu fórnir, skildu táknræna merkingu þeirra um fórn frelsarans og kenndu það börnum sínum (sjá HDP Móse 5:4–12; sjá einnig 1. Mósebók 4:4).
Hin táknræna dýrafórn gæti hafa virst einkar áhrifamikil Ísraelsmönnum á friðþægingardaginn („Yom Kippur“ á hebresku). Þörfin á þessari árlegu athöfn er lýst í 3. Mósebók 16:30: „Á þessum degi er friðþægt fyrir ykkur svo að þið hreinsist. Frammi fyrir Guði verðið þið hreinir af öllum syndum ykkar.“ Nærvera Guðs gat þannig viðhaldist meðal fólksins. Þessari friðþægingu var komið til leiðar með ýmsum helgisiðum. Einn slíkur var að aflífa geit sem fórn fyrir syndir fólksins og æðsti presturinn fór með blóðið inn í hið allra heilagasta. Síðar lagði æðsti presturinn hendur á lifandi geit og játaði syndir Ísraelsmanna – og færði syndirnar á táknrænan hátt yfir á geitina. Geitin var síðan rekin burt úr búð Ísraelsmanna.
Í þessum helgisið táknaði geitin Jesú Krist, sem tók stað hins synduga fólks. Í návist Guðs er synd ekki leyfð. Í stað þess að tortíma hinum synduga eða reka hann burtu, þá hefur Guð fyrirbúið aðra leið – aflífa átti geit eða reka hana burtu. „Geithafurinn ber þannig öll afbrot þeirra“ (3. Mósebók 16:22).
Tákn þessara helgisiða vísuðu til þeirrar leiðar sem Guð hefur fyrirbúið til að leiða okkur aftur í návist sína – sem er Jesús Kristur og friðþæging hans. „En vorar þjáningar voru það sem [frelsarinn] bar,“ já, „synd vor allra“ (Jesaja 53:4, 6). Hann tók okkar stað, gaf líf sitt til að greiða gjald syndar og síðan sigra dauðann með upprisu sinni (sjá Mósía 15:8–9). Fórn Jesú Krists var „[hin mikla] lokafórn, … já, en ekki … að manni sé fórnað, né heldur dýrum,“ heldur fremur „algjör og eilíf fórn“ (Alma 34:10). Hann uppfyllti allt það sem hin forna fórn vísaði til.
Af þessari ástæðu sagði hann eftir fórn sína: „Þér [skuluð ekki] fórna mér blóðfórnum framar. Já, fórnir yðar … skulu undir lok líða. … En þér skuluð bjóða mér sem fórn sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda“ (3. Nefí 9:19–20).
Þegar þið finnið málsgreinar í Gamla testamentinu um fórnir og samfundatjaldið (eða síðar, musterið) – og þær eru margar – hafið þá hugfast að megin tilgangur þessa alls er að efla trú ykkar á Messías, Jesú Krist. Snúið hjarta ykkar og huga að honum. Ígrundið hvað hann hefur gert til að leiða ykkur aftur í návist Guðs – og hvað þið munið gera til að fylgja honum.