„4.–10. október. Kenning og sáttmálar 111–114: ,Ég mun haga öllu yður til góðs,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir sunnudagaskólann: Kenning og sáttmálar 2021 (2020)
„4.–10. október. Kenning og sáttmálar 111–114,“ Kom, fylg mér – Fyrir sunnudagaskólann: 2021
4.–10. október
Kenning og sáttmálar 111–114
„Ég mun haga öllu yður til góðs“
Þegar þið lesið Kenningu og sáttmála 111–114, íhugið þá þann andlega sannleika sem Drottinn vill að meðlimir bekkjar ykkar fái skilið. Heilagur andi mun hjálpa ykkur að vita hvaða reglur ber að leggja áherslu á.
Skráið hughrif ykkar
Boð um að miðla
Íhugið að teikna fjársjóðskistu á töfluna. Meðlimir bekkjarins gætu skrifað á töfluna vers í köflum 111–114 þar sem þeir fundu eitthvað sem þeir álíta „ mikil auðæfi“ (Kenning og sáttmálar 111:2). Biðjið nokkra meðlimi að miðla því sem þeim fannst mikilvægt í þessum versum.
Kennið kenninguna
Drottinn megnar að „haga öllu [okkur] til góðs.“
-
Leiðsögn Drottins í Kenningu og sáttmálum 111 getur hjálpað meðlimum bekkjar ykkar þegar þeir hafa áhyggjur af stundlegum eða andlegum málum, rétt eins og hún hjálpaði Joseph Smith varðandi áhyggjur hans af Síon. Þið gætuð hafið umræður um þennan kafla með því að biðja meðlimi bekkjarins að skrifa á töfluna áhyggjuefni þeirra sjálfra eða einhverra sem þeir þekkja. Þeir gætu síðan kannað kafla 111 með þau áhyggjuefni í huga og leitað þar leiðsagnar og huggunar sem Drottinn veitir til að hjálpa okkur. Meðlimir bekkjarins gætu sagt frá því hvernig frelsarinn hefur hjálpað þeim er þeir hafa sett traust sitt á hann.
-
Meðlimir bekkjar ykkar gætu hafa upplifað eitthvað álíka og Joseph – er þeir fundu viðurkenningu Drottins, þrátt fyrir „heimskupör“ þeirra (Kenning og sáttmálar 111:1). Hvernig eru upplifanir þeirra lýsandi fyrir þann sannleika sem kenndur er í Kenningu og sáttmálum 111? Hvenær hefur þeim t.d. fundist Drottinn „haga öllu [þeim] til góðs? (vers 11). Hvað kenna þessar upplifanir þeim um frelsarann og þá sjálfa?
Kenning og sáttmálar 112:3–15, 22
Drottinn mun leiða þá sem leita vilja hans af auðmýkt.
-
Íhugið að skipta meðlimum bekkjarins í þrjá hópa til að ræða hvað kafli 112 kennir um auðmýkt. Fáið hverjum hópi eina af eftirfarandi spurningum til að íhuga við lestur versa 3–15 og 22: Hvað er auðmýkt? Hvernig getum við orðið auðmjúkari? Hvaða blessunum er hinum auðmjúku lofað? Gefið meðlimum bekkjarins tíma til að miðla svörum sínum. Hóparnir gætu hlotið aukinn skilning með því að lesa tilvitnunina í öldung Quentin L. Cook í „Fleiri heimildir“ eða kaflann „Auðmýkt“ í Boða fagnaðarerindi mitt (bls. 120–21). Af hverju er auðmýkt nauðsynleg til að vinna verk Drottins?
Kenning og sáttmálar 112:12–26
Þeir sem sannlega hafa snúist til trúar þekkja Jesú Krist.
-
Sú staðreynd að sumir postular snerust gegn spámanninum árið 1837 er góð áminning um að burt séð frá þeirri köllun sem við höfum eða hversu mikið við vitum um fagnaðarerindið, þá verðum við tryggja trúarumbreytingu okkar sjálfra. Að lesa leiðsögnina sem Drottinn gaf Thomas B. Marsh, til að hjálpa honum að sameina Tólfpostulasveitina, getur aukið skilning meðlima bekkjarins á merkingu trúarumbreytingar. Meðlimir bekkjarins gætu ef til vill lesið Kenningu og sáttmála 112:12–26 með fjölskyldumeðlim eða vin í huga – einhvern sem gæti háð trúarlega baráttu. Hvaða sannleika í þessum versum gætu meðlimir bekkjarins lagt áherslu á til að hjálpa þeim einstaklingi að efla trú sína? Gefið meðlimum bekkjarins tíma til að íhuga hvað þeir gætu gert til að efla eigin trú á Drottin?
Fleiri heimildir
Hinn kristilegi eiginleiki auðmýktar.
Öldungur Quentin L. Cook kenndi:
„Því miður er það þó svo á okkar tíma að á næstum öllum sviðum samfélagsins, er hroka og stærilæti hampað, en rýrð varpað á auðmýkt og ábyrgð gagnvart Guði. Stór hluti samfélagsins hefur misst fótfestuna og fær ekki skilið ástæðu tilveru okkar á þessari jörðu. Sönn auðmýkt, sem er nauðsynleg til að framfylgja tilgangi Drottins, er yfirleitt ekki áberandi:
Mikilvægt er að skilja umfang auðmýktar Krists, réttlætis, persónugerðar og vitsmuna, eins og fram kemur í ritningunum. Heimskulegt er að vanmeta nauðsyn þess að temja sér stöðugt þessa kristilegu eiginleika og mannkosti, á daglegum grunni, einkum þó auðmýktina. …
Þann 23. júlí 1837 átti spámaðurinn viðræður við öldung Thomas B. Marsh, forseta Tólfpostulasveitarinnar. Öldungur Marsh var augljóslega vonsvikinn yfir því að spámaðurinn hafði kallað tvo meðlimi í sveitinni hans til að fara til Englands, án þess að ráðfæra sig við hann. Þegar Joseph átti samfund með öldungi March voru öll særindi sett til hliðar og spámaðurinn hlaut markverða opinberun. Hana má nú finna í 112. kafla Kenningar og sáttmála. Hún er undraverð leiðsögn frá himni um auðmýkt og trúboðsstarf. Í versi 10 er ritað: ‚Ver auðmjúkur og Drottinn Guð þinn mun leiða þig sér við hönd og svara bænum þínum‘ [Kenning og sáttmálar 112:10; skáletrað hér]“ („Hinn eilífi hversdagsleiki,“ aðalráðstefna, október 2017).