„17.–23. júlí. Postulasagan 10–15: ‚Orð Guðs efldist og breiddist út,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir sunnudagaskólann: Nýja testamentið 2023 (2022)
„17.–23. júlí. Postulasagan 10–15,“ Kom, fylg mér – Fyrir sunnudagaskólann: 2023
17.–23. júlí
Postulasagan 10–15
„Orð Guðs efldist og breiddist út“
Að læra kostgæfið Postulasöguna 10–15 áður en þið lesið þessi lexíudrög, mun stuðla að því að þið hljótið innblástur frá Drottni. Hugmyndirnar hér fyrir neðan eru aðeins tillögur.
Hvetjið til miðlunar
Bjóðið meðlimum bekkjarins að miðla sessunaut sínum einhverju sem andinn kenndi þeim er þeir lásu Postulasöguna 10–15. Biðjið nokkra þeirra að miðla innsýn sinni með öllum bekknum.
Kennið kenninguna
Postulasagan 10; 11:1–18; 15:1–25
Himneskur faðir kennir okkur orð á orð ofan með opinberun.
-
Sumir meðlima bekkjarins gætu haft ranghugmyndir um opinberunarferlið. Það gæti verið hjálplegt að ræða hvernig Pétur hlaut opinberun og hvernig þeir geti haldið „hiklaust“ áfram (Postulasagan 10:20) þegar opinberun virðist ófullgerð eða óskýr. Þið getið dregið línu á töfluna og skrifað við annan enda línunnar: Fagnaðarerindið skal vera boðað heiðingjunum. Lesið Postulasöguna 10 og 11:1–18 sem bekkur og bætið punktum við línuna, sem sýna hvernig Drottinn opinberaði Pétri skref fyrir skref að sá tími væri kominn að bjóða skyldi heiðingjunum fagnaðarerindið. Þið gætuð t.d. byrjað á punkti merktum „Kornelíus sá sýn“ (Postulasagan 10:1–6) eða jafnvel byrjað á boði frelsarans til lærisveina sinna í Matteusi 28:19 um að „gera allar þjóðir að lærisveinum.“ Hvað getum við lært um opinberun af upplifun Péturs? Hverju bæta kenningar Nefís í 2. Nefí 28:30 og kenningar öldungs Davids A. Bednar í „Fleiri heimildir“ við skilning okkar?
-
Þið gætuð skoðað tilfelli í ritningunum þar sem Drottinn kenndi fólkinu orð á orð ofan. Til viðbótar við upplifun Péturs í Postulasögunni 10, gætu meðlimir bekkjarins lesið upplifun Nefís (1. Nefí 18:1–3); Alma (Alma 7:8; 16:20); og Mormóns (3. Nefí 28:17, 36–40). Hvaða fleiri dæmi muna meðlimir bekkjarins eftir, þar sem fólk hlaut andlega leiðsögn „örlítið hér, örlítið þar“? (2. Nefí 28:30). Af hverju velur Drottinn stundum að opinbera á þennan hátt, frekar en að veita okkur svörin öll í einu? (sjá Kenning og sáttmálar 50:40; 98:12).
-
Meðlimir hafa stundum spurningar um eða áhyggjur af breytingum á reglum og starfsemi í kirkjunni. Það gæti hjálpað að ræða hvernig opinberunin um að hefja boðun fagnaðarerindisins til heiðingjanna (sjá Postulasagan 10) kom í stað fyrri fyrirmæla Drottins til lærisveina sinna (sjá Matteus 10:1, 5–6). Þið getið líka sýnt myndbandið „The Jerusalem Conference [Jerúsalemráðstefnan]“ (ChurchofJesusChrist.org). Hvernig myndu meðlimir bekkjarins bregðast við einhverjum á tíma Péturs, sem væri ósammála stefnu Péturs vegna þess að hún var í mótsögn við fyrri venjur? Hvernig getur opinberunin í Postulasögunni 10 stuðlað að því að við veitum eftirtekt áframhaldandi opinberun Drottins með spámönnum hans?
„Guð fer ekki í manngreinarálit.“
-
Gætu meðlimir bekkjar ykkar haft gagn af umræðum um þýðingu þess að „[fara] ekki í manngreinarálit“? Þið gætuð byrjað á því að biðja bekkinn að lesa ritningar sem kenna að Guð fari ekki í manngreinarálit, t.d. Rómverjabréfið 2:1–11; 1. Nefí 17:34–40; 2. Nefí 26:32–33; Alma 5:33; Moróní 8:12; og Kenning og sáttmálar 1:34–35. Biðjið meðlimi bekkjarins að skrifa niður mögulegar skilgreiningar á því að „fara ekki í manngreinarálit,“ sem byggjast á því sem þeir lesa og miðla svo því sem þeir skrifuðu. Hvernig sýna atburðirnir og reglurnar í Postulasögunni 10:34–48 að Guð fer ekki í manngreinarálit? Hvernig geta hinir réttlátu notið „[samþykkis]“ og „náðar“ Guðs ef hann fer ekki í manngreinarálit? (sjá Postulasagan 10:34–35; 1. Nefí 17:35).
Þið gætuð þurft að hjálpa meðlimum bekkjarins að skilja að þótt hann „[fari] ekki í manngreinarálit,“ þýðir það ekki að Guð blessi alla jafnt, án tillits til breytni þeirra. Hann vill að öll börn sín taki við fagnaðarerindinu, en fylling blessana fagnaðarerindisins er geymd þeim sem gera og halda sáttmála við hann.
Fleiri heimildir
Hljóta opinberun orð á orð ofan.
Öldungur David A. Bednar kenndi: „Dæmigert er að mörg okkar geri ráð fyrir því að hljóta einu sinni svar eða einu sinni innblástur við einlægum bænum. Við búumst einnig oft við því að slíkt svar eða innblástur berist þegar í stað og í einni svipan. Við trúum gjarnan að Drottinn veiti okkur mikilfenglegt svar skyndilega og í eitt skipti fyrir öll. Sú forskrift sem ritningarnar lýsa endurtekið, gefur þó til kynna að við meðtökum ‚orð á orð ofan og setning á setning ofan‘ eða, með öðrum orðum, mörg lítil svör yfir lengri tíma. Að bera kennsl á og skilja þessa forskrift er lykilatriði í því að hljóta hvatningu og liðsinni heilags anda“ („Line upon Line, Precept upon Precept [Orð á orð ofan, setning á setning ofan],“ New Era, sept. 2010, 3–4).