„4. Leiðtogastarf og ráð í kirkju Jesú Krists,“ Valið efni úr Almennri handbók (2023).
„4. Leiðtogastarf og ráð í kirkju Jesú Krists,“ Valið efni úr Almennri handbók
4.
Leiðtogastarf og ráð í kirkju Jesú Krists
4.0
Inngangur
Sem leiðtogar í kirkjunni, hafið þið verið kölluð með innblæstri réttmætra leiðtoga Drottins. Þið njótið þeirra forréttinda að aðstoða himneskan föður við að „gera ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika“ (HDP Móse 1:39).
4.2
Reglur leiðtogastarfs í kirkjunni
Í jarðneskri þjónustu sinni setti frelsarinn fordæmið að stjórnun kirkju sinnar. Megintilgangur hans var að gera vilja síns himneska föður og hjálpa öðrum að skilja fagnaðarerindi sitt og lifa eftir því (sjá Jóhannes 5:30; Mósía 15:7).
Leitið leiðsagnar Drottins ykkur til hjálpar við að læra skyldur köllunar ykkar og framfylgja þeim.
4.2.1
Undirbúa sig andlega
Jesús bjó sig andlega undir jarðneskt hlutverk sitt (sjá Lúkas 4:1–2). Að sama skapi undirbúið þið ykkur líka andlega með því að nálgast himneskan föður er þið biðjist fyrir, lærið ritningarnar og hlýðið boðorðum hans.
Leitið opinberunar til að skilja þarfir þeirra sem þið leiðið og hvernig framfylgja á því starfi sem Guð hefur kallað ykkur til.
Drottinn hefur líka lofað að veita þeim andlegar gjafir sem leita þeirra (sjá Kenning og sáttmálar 46:8).
4.2.2
Þjóna öllum börnum Guðs
Elskið fólkið sem þið þjónið, eins og Jesús gerði. Biðjið „af öllum hjartans mætti“ til að fyllast elsku hans (Moróní 7:48).
Hjálpið einstaklingum að dýpka viðsnúning sinn og styrkja trú sína á himneskan föður og Jesú Krist. Hjálpið fólki að búa sig undir að gera sáttmála þegar það meðtekur sína næstu helgiathöfn. Hvetjið það til að halda þá sáttmála sem það gerði og meðtaka af blessunum iðrunar.
4.2.3
Kenna fagnaðarerindi Jesú Krists
Allir leiðtogar eru kennarar. Leggið ykkur fram við að fylgja fordæmi frelsarans sem kennara (sjá kafla 17; Kenna að hætti frelsarans). Kennið kenningu Jesú Krists og reglur fagnaðarerindis hans í orði og verki (sjá 3. Nefí 11:32–33; Kenning og sáttmálar 42:12–14).
Kennið úr ritningunum og orð síðari daga spámanna (sjá Kenning og sáttmálar 52:9).
Ef þið eruð kölluð eða tilnefnd til að vera í forsæti á samkomum eða athöfnum kirkjunnar, gætið þess þá að kennslan sé uppbyggjandi og kenningarlega rétt (sjá Kenning og sáttmálar 50:21–23).
4.2.4
Réttlát forsjá
Hver embættismaður í forsæti þjónar undir handleiðslu einstaklings sem hefur prestdæmislykla (sjá 3.4.1). Í þeirri formgerð felst regla og skýrar línur um ábyrgðarskyldur og ábyrgðarskil í verki Drottins.
Embættismaður í forsæti getur úthlutað öðrum einstaklingi tímabundnu verkefni til forsætis.
Leiðtogi sem er í forsæti samtaka, fundar eða athafnar kirkjunnar, gætir þess að tilgangi Drottins sé framfylgt. Í þeirri viðleitni fylgir leiðtoginn trúarreglum, kirkjureglum og leiðsögn heilags anda.
Einstaklingur sem hlýtur köllun eða verkefni til að stjórna verður fyrir vikið ekki mikilvægari eða mikilsmetnari en aðrir (sjá Kenning og sáttmálar 84:109–10).
Ekki er viðeigandi að sækjast eftir því að vera í forsæti í einhverjum samtökum í kirkju Drottins (sjá Kenning og sáttmálar 121:34–37).
4.2.5
Úthluta ábyrgð og tryggja ábyrgðarskil
Frelsarinn sá lærisveinum sínum fyrir innihaldsríkum verkefnum og ábyrgðarskyldum (sjá Lúkas 10:1). Hann gaf þeim líka kost á að standa skil á þeim verkefnum sem þeim var falið að leysa af hendi (sjá Lúkas 9:10).
Sem leiðtogar, getið þið hjálpað öðrum að vaxa með því að fela þeim verkefni. Leggið ykkur fram við að fá alla meðlimi til þátttöku í verki Guðs.
Að úthluta verkefnum, gerir þjónustu ykkar líka árangursríkari. Leitið leiðsagnar andans um hverju skal úthluta, svo þið getið einbeitt ykkur að forgangsatriðum ykkar.
4.2.6
Búa aðra undir að verða leiðtogar og kennarar
Verið bænheit þegar þið íhugið hverjir geta þjónað í köllunum eða verkefnum. Hafið hugfast að Drottinn mun gera þau hæf sem hann kallar. Mest er um vert að þau séu fús til að þjóna, leiti liðsinnis Drottins af auðmýkt og leggi sig fram við að vera verðug.
4.2.7
Skipuleggja samkomur, kennslu og athafnir með skýran tilgang í huga
Leitið leiðsagnar andans við að skipuleggja samkomur, kennslu og athafnir sem hafa skýran tilgang. Sá tilgangur ætti að vera að styrkja einstaklinga og fjölskyldur, leiða þau nær Kristi og hjálpa við að framfylgja sáluhjálpar- og upphafningarstarfi Guðs (sjá kafla 1 og 2).
4.2.8
Meta framlag ykkar
Metið reglubundið ábyrgðarskyldur ykkar og andlegan vöxt sem leiðtogar. Íhugið líka vöxt þeirra sem þið þjónið.
Farsæld ykkar sem leiðtogar er að mestu undir þeirri skuldbindingu ykkar komin að hjálpa börnum Guðs að vera trúfastir lærisveinar Jesú Krists. Þið getið vitað að Drottinn er ánægður með framlag ykkar er þið skynjið andann vinna gegnum ykkur.
4.3
Ráð í kirkjunni
Drottinn hefur boðið leiðtogum kirkju sinnar að eiga samráð við framkvæmd verks síns (sjá Kenning og sáttmálar 41:2–3). Ráð veita ráðsmönnum tækifæri til að öðlast opinberun, er þeir reyna að skilja þarfir barna Guðs og skipuleggja hvernig best er að uppfylla þær.
4.4
Reglur árangursríkra ráða
4.4.1
Tilgangur ráða
Ráð leggja sérstaka áherslu á að hjálpa meðlimum að meðtaka helgiathafnir og halda viðeigandi sáttmála.
4.4.2
Undirbúningur fyrir ráðsfundi
Þess er vænst að forsætisráð og ráð fundi reglubundið. Þessir leiðtogar leita leiðsagnar Drottins við að skipuleggja ráðsfundi. Þeir leita líka eftir ábendingum frá ráðsmeðlimum við að ákveða umræðuefnið.
Leiðtogar upplýsa ráðsmeðlimi um umræðuefnið með fyrirvara. Ráðsmeðlimir búa sig undir að miðla skilningi um efnið.
4.4.3
Umræða og ákvarðanir
Á ráðsfundi útskýrir leiðtoginn (eða einhver sem leiðtoginn tilnefnir) málið sem er til meðferðar. Leiðtogi hvetur síðan til umræðu allra ráðsmanna, spyr spurninga og leitar hugmynda.
Meðlimir koma með tillögur og hlusta hver á annan af virðingu. Þegar þeir leitast við að þekkja vilja Drottins, getur andi innblásturs og einingar orðið ríkjandi.
Í ráði sem skipað er af konum og körlum, leitar leiðtoginn eftir skilningi og hugmyndum beggja kynja. Konur og karlar hafa oft mismunandi sjónarhorn sem veita nauðsynlegt jafnvægi.
Leiðtogi stjórnar umræðum ráðsins. Þó ætti hann eða hún að hlusta meira en að tala.
Eftir umræðuna, getur leiðtoginn hvort heldur ákveðið aðgerðir eða frestað ákvörðun meðan hann aflar sér frekari upplýsinga og leiðbeininga.
4.4.4
Eining
Ráðsmeðlimir sækjast eftir því að verða eitt í þrá og tilgangi með himneskum föður og Jesú Kristi. Þeir keppa að einingu í umræðum og ákvörðunum sínum.
4.4.5
Framkvæmd og ábyrgð
Ráðsmeðlimir vinna starf sitt að mestu fyrir og eftir ráðsfundi. Á fundum leita þeir innblásturs til að þróa áætlanir við að framfylgja ákvörðunum. Leiðtogi ráðsins býður meðlimum þess að vinna að verkefnum sem tengjast þessum áætlunum.
Ráðsmeðlimir gera skil á verkefnum sínum. Framfarir krefjast yfirleitt stöðugrar einbeitingar og eftirfylgni verkefna.
4.4.6
Trúnaður
Leiðtogar gæta trúnaðar þegar þeir miðla ráðinu persónulegum upplýsingum. Yfirleitt fá þeir leyfi meðlims til að miðla slíkum upplýsingum.
Ráðsmeðlimir ættu ekki að miðla persónulegum upplýsingum utan ráðsins, nema þess sé krafist til að framfylgja úthlutuðu verkefni af hendi leiðtoga ráðsins.
Sum mál eru of viðkvæm til að opinbera þau frammi fyrir fullskipuðu ráði.