Handbækur og kallanir
27. Musterishelgiathafnir fyrir lifendur


„27. Musterishelgiathafnir fyrir lifendur,“ Valið efni úr Almennri handbók (2023).

„27. Musterishelgiathafnir fyrir lifendur,“ Valið efni úr Almennri handbók

Ljósmynd
brúður og brúðgumi

27

Musterishelgiathafnir fyrir lifendur

27.0

Inngangur

Musterið er hús Drottins. Það leiðir okkur til frelsara okkar, Jesú Krists. Í musterum tökum við þátt í heilögum helgiathöfnum og gerum sáttmála við himneskan föður sem binda okkur við hann og frelsara okkar. Þessir sáttmálar og helgiathafnir búa okkur undir að snúa aftur í návist himnesks föður og að innsiglast sem fjölskyldur að eilífu.

Í musterissáttmálum og helgiathöfnum „opinberast … kraftur guðleikans“ (Kenning og sáttmálar 84:20).

Musterissáttmálar og helgiathafnir eru heilög. Táknin sem tengjast sáttmálum musterisins ætti ekki að ræða utan musterisins. Né ættum við að ræða heilagar upplýsingar sem við lofum í musterinu að opinbera ekki. Við getum hins vegar rætt grunntilgang og kenningu musterissáttmála og helgiathafna og þær andlegu tilfinningar sem við upplifum í musterinu.

Deildar- og stikuleiðtogar ræða upplýsingarnar í þessum kafla með meðlimum sem eru að búa sig undir að meðtaka musterisgjöf eða helgiathöfn innsiglunar.

27.1

Taka á móti musterishelgiathöfnum

27.1.1

Búa sig undir að taka á móti musterishelgiathöfnum

Meðlimir ættu að búa sig andlega undir að taka á móti musterishelgiathöfnum og að gera og heiðra musterissáttmála.

Foreldrar hafa þá ábyrgð að hjálpa börnum sínum að búa sig undir að taka á móti musterishelgiathöfnum. Stiku- og deildarleiðtogar, þjónandi bræður og systur og stórfjölskylda styður foreldra í þessu hlutverki.

Úrræði til aðstoðar meðlimum við að taka á móti musterishelgiathöfnum eru fáanleg á temples.ChurchofJesusChrist.org.

Meðlimir sem búa sig undir að meðtaka eigin musterisgjöf eða að innsiglast maka eru hvattir til að taka þátt í undirbúningsnámskeiði fyrir musterið (sjá 25.2.8).

27.1.3

Meðlimir sem hafa líkamlega fötlun

Verðugir meðlimir sem hafa líkamlega fötlun geta meðtekið allar musterishelgiathafnir. Þessir meðlimir eru hvattir til að sækja musterið með ættingjum sem hafa fengið musterisgjöf eða vinum af sama kyni sem geta aðstoðað þá. Ef meðlimir geta ekki komið með fjölskyldumeðlim eða vini, geta þeir hringt í musterið með fyrirvara til að sjá hvaða ráðstafanir eru í boði.

27.1.4

Þýðingar- eða túlkunaraðstoð

Ef meðlimir þarfnast þýðingar- eða túlkunaraðstoðar, ættu þeir að hafa samband við musterið fyrir fram til að kanna hvort slíkt sé í boði.

27.1.5

Fatnaður sem klæðast skal þegar farið er í musterið

Þegar farið er í musterið ættu meðlimir að klæðast sams konar fatnaði og þeir myndu klæðast á sakramentissamkomu.

Sjá 27.3.2.6 fyrir frekari upplýsingar um fatnað til að klæðast við musterishjónavígslu eða innsiglun.

Sjá 38.5 fyrir upplýsingar um:

  • Fatnað til að klæðast við musterisgjöf og innsiglunarathafnir.

  • Hvernig á að verða sér úti um, klæðast og hirða um musterisskrúða og musterisklæði.

27.1.6

Barnagæsla

Börn verða að vera undir handleiðslu fullorðins einstaklings, ef þau eru á musterislóð. Musterisþjónar eru einungis til reiðu til að hafa eftirlit með börnum í eftirfarandi aðstæðum:

  • Ef þau eru að innsiglast foreldrum

  • Ef þau eru að fylgjast með innsiglun lifandi systkina sinna, stjúpsystkina eða hálfsystkina, til foreldra þeirra

27.1.7

Eiga fund með meðlimum eftir að þeir hafa tekið á móti musterishelgiathöfnum

Meðlimir hafa oft spurningar eftir að hafa tekið á móti musterishelgiathöfnum. Fjölskyldumeðlimir með musterisgjöf, biskupinn, aðrir deildarleiðtogar og þjónandi bræður og systur geta sest niður með meðlimum til að ræða upplifun þeirra í musterinu.

Frekari upplýsingar til að hjálpa til með spurningar eru fáanlegar á temples.ChurchofJesusChrist.org.

27.2

Musterisgjöfin

Orðið musterisgjöf [e. endowment] þýðir „gjöf.“ Musterisgjöfin er bókstaflega gjöf frá Guði, sem hann blessar börn sín með. Sumar gjafir sem meðlimir hljóta með musterisgjöfinni eru:

  • Frekari þekking á tilgangi Drottins og kenningum.

  • Kraftur til að gera allt sem himneskur faðir vill að börn hans geri.

  • Guðleg leiðsögn við að þjóna Drottni, fjölskyldum þeirra og annarra.

  • Aukin von, huggun og friður.

Fylling þessara blessana byggir á trúfesti við fagnaðarerindi Jesú Krists.

Musterisgjöfin er meðtekin í tvennu lagi. Í fyrri hlutanum hlýtur einstaklingurinn fyrst helgiathöfn sem kallast smurning og laugun. Smurning og laugun (sjá 2. Mósebók 29:4–9). Í henni felst sérstök blessun sem tengist guðlegri arfleifð einstaklingsins og möguleikum.

Meðan á smurningu og laugun stendur er meðlimnum heimilað að klæðast musterisklæðunum. Musterisklæðin tákna persónulegt samband hans eða hennar við Guð og skuldbindinguna um að hlýða þeim sáttmálum sem gerðir eru í musterinu. Þegar meðlimir eru trúir sáttmálum sínum og klæðast musterisklæðunum á réttan hátt allt sitt líf, þá þjóna þau einnig sem vernd. Fyrir upplýsingar um að klæðast og hirða um musterisklæðin, sjá 38.5.5.

Í seinni hluta musterisgjafarinnar er sáluhjálparáætlunin kennd, þar á meðal sköpunin, fall Adams og Evu, friðþæging Jesú Krists, fráhvarfið og endurreisnin. Meðlimir fá einnig leiðbeiningar um það hvernig snúa á aftur í návist Drottins.

Í musterisgjöfinni er meðlimum einnig boðið að gera eftirfarandi heilaga sáttmála:

  • Lifa eftir hlýðnilögmálinu og kappkosta að halda boðorð himnesks föður.

  • Hlýða fórnarlögmálinu, sem þýðir að fórna til að styðja við verk Drottins og iðrast með sundurkrömdu hjarta og sáriðrandi anda.

  • Hlýða lögmáli fagnaðarerindis Jesú Krists, sem er hið æðra lögmál sem hann kenndi þegar hann var á jörðu.

  • Halda skírlífislögmálið, sem þýðir að meðlimur eigi einungis í kynferðislegu sambandi með þeirri manneskju sem hann eða hún er löglega og lögformlega gift að lögmáli Drottins.

  • Halda helgunarlögmálið, sem þýðir að meðlimir tileinka tíma sinn, hæfileika og allt sem Drottinn hefur blessað þá með, því að byggja upp kirkju Jesú Krists á jörðunni.

Í staðinn lofar himneskur faðir að þeim sem reynast trúfastir musterissáttmálum sínum muni „veitast kraftur frá upphæðum“ (Kenning og sáttmálar 38:32, 38; sjá einnig Lúkas 24:49; Kenning og sáttmálar 43:16).

27.2.1

Þau sem mega fá musterisgjöf

Öllum ábyrgum fullorðnum meðlimum kirkjunnar er boðið að búa sig undir og meðtaka eigin musterisgjöf. Áður en að meðlimir geti tekið á móti musterisgjöf sinni verða allar skilyrtar helgiathafnir að vera framkvæmdar og skráðar (sjá 26.3.1).

27.2.1.1

Nýskírðir meðlimir

Nýir verðugir fullorðnir meðlimir geta tekið á móti musterisgjöf sinni hið minnsta einu ári eftir staðfestingu þeirra.

27.2.1.2

Meðlimir með maka sem hefur ekki tekið á móti eigin musterisgjöf

Verðugur meðlimur sem á maka sem hefur ekki tekið á móti eigin musterisgjöf, getur tekið á móti musterisgjöf sinni þegar eftirfarandi skilyrði hafa verið uppfyllt.

  • Makinn án musterisgjafar veitir samþykki sitt.

  • Meðlimurinn, biskupinn og stikuforsetinn eru fullvissir um að ábyrgðin sem fylgir musterissáttmálum veldur ekki röskun á hjónabandinu.

Þessi skilyrði eiga við hvort heldur makinn sé meðlimur kirkjunnar eða ekki.

27.2.1.3

Meðlimir sem stríða við vitsmunalega fötlun

Meðlimir sem stríða við vitsmunalega fötlun geta tekið á móti musterisgjöf sinni ef:

  • Þeir hafa uppfyllt allar skilyrtar helgiathafnir (sjá 26.3.1).

  • Þeir hafa vitsmunalega getu til að skilja, gera og halda tengda sáttmála.

Biskupinn ræðir við meðliminn og foreldra hans eða hennar, þar sem það á við. Hann leitar einnig eftir leiðsögn andans. Hann kann að ráðfæra sig við stikuforsetann.

27.2.2

Ákveða hvenær skuli taka á móti musterisgjöf

Ákvörðunin um að taka á móti musterisgjöf er persónuleg og ætti að vera tekin í bænarhug. Musterisgjöfin er blessun krafts og opinberunar öllum þeim sem búa sig undir að meðtaka hana. Meðlimir kunna að velja að meðtaka eigin musterisgjöf þegar þeir hafa uppfyllt eftirfarandi skilyrði:

  • Þeir eru að minnsta kosti 18 ára.

  • Þeir hafa lokið eða eru ekki lengur í efri grunnskóla, framhaldsskóla eða samsvarandi.

  • Eitt ár hefur liðið frá staðfestingu þeirra.

  • Þeir finna þrá til að meðtaka og heiðra musterissáttmála allt sitt líf.

Meðlimir sem hafa tekið á móti trúboðsköllun eða eru að búa sig undir að innsiglast í musterinu ættu að taka á móti musterisgjöfinni.

Áður en að biskupinn eða stikuforsetinn gefur út musterismeðmæli fyrir meðlim til að taka á móti musterisgjöf sinni, ætti hann að skynja að einstaklingurinn sé reiðubúinn að skilja og halda helga musterissáttmála. Þessi hæfni er ákvörðuð einstaklingsbundið fyrir hvern einstakling.

27.2.3

Ráðgera og tímasetja musterisgjöf

27.2.3.1

Meðtaka meðmæli fyrir helgiathafnir lifenda

Meðlimur verður að fá musterismeðmæli fyrir helgiathafnir lifenda til að fara í musterið og taka á móti musterisgjöf. Fyrir upplýsingar um þessi meðmæli, sjá 26.5.1.

27.2.3.2

Hafa samband við musterið

Meðlimir sem áætla að taka á móti musterisgjöf sinni ættu að hafa samband við musterið með fyrirvara til að áætla helgiathöfnina.

27.2.3.3

Fylgdarmenn fyrir meðlimi sem meðtaka eigin musterisgjöf

Meðlimir sem taka á móti eigin musterisgjöf mega bjóða meðlimi af sama kyni, sem hefur tekið við eigin musterisgjöf, að starfa sem fylgdarmaður og aðstoða þá í athöfn musterisgjafarinnar. Fylgdarmaður verður að hafa gild musterismeðmæli. Musterið getur séð fyrir fylgdarmanni, ef þörf krefst.

27.3

Innsiglun eiginmanns og eiginkonu

Musterisinnsiglun sameinar eiginmann og eiginkonu um tíma og alla eilífð. Þau munu hljóta þessar blessanir ef þau eru trú þeim sáttmálum sem þau gera í musterinu. Í gegnum þessa athöfn geta börn þeirra einnig verið hluti af eilífri fjölskyldu þeirra.

Kirkjuleiðtogar hvetja meðlimi til að búa sig undir að vera gift og innsigluð í musteri. Þar sem musterishjónavígslur eru ekki lagalega viðurkenndar, geta heimilaðir kirkjuleiðtogar framkvæmt borgaralegar giftingar sem er síðan fylgt eftir með musterisinnsiglun (sjá 38.3). Þessu ferli má einnig fylgja þegar musterishjónavígsla gæti valdið því að foreldrum eða nánustu fjölskyldumeðlimum finnast þeir undanskildir vegna þess að þeir geta ekki verið viðstaddir musterisathöfnina.

27.3.1

Hverjir mega innsiglast í musterinu

Öllum ábyrgum fullorðnum meðlimum kirkjunnar er boðið að búa sig undir musterisinnsiglun. Þeir sem eru giftir borgaralega eru hvattir til að verða innsiglaðir um tíma og eilífð í musteri um leið og þeir eru reiðubúnir. Meðlimir verða að hafa hlotið musterisgjöf sína áður en þeir geta innsiglast (sjá 27.2).

Hjón sem verið er að innsigla í musteri verða að vera annað hvort (1) borgaralega gift áður en þau eru innsigluð eða (2) gift og innsigluð í sömu musterisathöfninni. Sjá 27.3.2.

27.3.1.2

Meðlimir sem stríða við vitsmunalega fötlun

Meðlimir sem stríða við andlega fötlun geta innsiglast maka sínum, unnusta eða unnustu ef:

  • Þeir hafa hlotið allar skilyrtar helgiathafnir, þar á meðal musterisgjöf (sjá 27.2.1.3).

  • Þeir hafa vitsmunalega getu til að skilja, gera og halda tengda sáttmála.

Biskup ræðir við meðliminn og maka hans eða hennar, unnusta eða unnustu. Hann leitar einnig eftir leiðsögn andans. Hann kann að ráðfæra sig við stikuforsetann.

27.3.2

Ráðgera og tímasetja musterishjónavígslu eða innsiglun

27.3.2.1

Meðtaka meðmæli fyrir helgiathafnir lifenda

Meðlimur verður að fá musterismeðmæli fyrir helgiathafnir lifenda til að innsiglast maka sínum. Fyrir upplýsingar um þessi meðmæli, sjá 26.3.

27.3.2.2

Hafa samband við musterið

Meðlimir sem áætla að giftast eða innsiglast ættu að hafa samband við musterið með fyrirvara til að tímasetja helgiathöfnina.

27.3.2.3

Fá hjónabandsleyfi

Fyrir giftinguna verður parið að fá löglegt hjónabandsleyfi sem er í gildi þegar athöfnin fer fram. Ef parið áætlar bæði að giftast og innsiglast í sömu athöfninni verða þau að koma með gilt hjónabandsleyfi í musterið.

Hjón sem verið er að innsigla eftir borgaralega vígslu þurfa ekki að koma með hjónabandsleyfi í musterið. Þess í stað gefa þau upp dagsetningu og staðsetningu borgaralegrar vígslu þeirra sem hluta af staðfestingu í skjalavinnslunni.

27.3.2.4

Fylgdarmenn fyrir brúðina og brúðgumann

Systir með eigin musterisgjöf má fylgja brúðinni til að aðstoða hana í búningsherberginu. Bróðir með eigin musterisgjöf má gera hið sama fyrir brúðgumann. Fylgdarmaður verður að hafa gild musterismeðmæli. Musterið getur séð fyrir fylgdarmanni, ef þörf krefst.

27.3.2.5

Hver framkvæmir musterishjónavígslu eða innsiglun

Musterishjónavígsla eða innsiglun er yfirleitt framkvæmd af innsiglara sem er starfandi í musterinu þar sem parið verður gift eða innsiglað. Ef fjölskyldumeðlimur eða kunningi er með innsiglunarvald og er skráður í musterinu þar sem parið verður gefið saman eða innsiglað, mega þau bjóða honum að framkvæma hjónavígsluna eða innsiglunina.

27.3.2.6

Viðeigandi klæðnaður í musterishjónavígslu eða innsiglun

Brúðarkjóllinn. Brúðarkjóllinn sem klæðst er í musterinu ætti að vera hvítur, hóflegur í hönnun og efni og án margbrotinna skreytinga. Hann ætti einnig að hylja musterisklæðin. Gegnsætt efni ætti að vera með fóðri.

Til að vera í samræmi við aðra kjóla sem klæðst er í musterinu, ætti brúðarkjóllinn að hafa langar ermar eða kvartermar. Kjólar ættu ekki að vera með slóða nema að hægt sé að næla hann upp eða fjarlægja fyrir innsiglunarathöfnina.

Musterið getur útvegað kjól, ef þörf krefur eða þess er óskað.

Fatnaður brúðguma. Brúðguminn klæðist venjulegum musterisklæðnaði á meðan á hjónavígslunni eða innsigluninni stendur (sjá 38.5.1 og 38.5.2).

Klæðnaður gesta. Þeir sem mæta í hjónavígsluna eða innsiglunina ættu að klæðast sams konar fatnaði og þeir myndu klæðast á sakramentissamkomu. Meðlimir sem koma í innsiglunina beint úr musterisgjafarsetu geta klæðst musterisskrúða.

Blóm. Parið og gestir þeirra ættu ekki að vera með blóm í hjónavígslunni eða innsiglunarathöfninni.

27.3.2.7

Skiptast á hringum eftir musterishjónavígslu eða innsiglun

Það er ekki hluti af innsiglunarathöfn musterisins að skiptast á hringum. Hins vegar geta hjón skipst á hringum eftir athöfnina í innsiglunarherberginu. Hjón ættu ekki að skiptast á hringum á nokkrum öðrum tíma eða stað í musterinu eða á musterislóðinni.

Hjón sem eru gift og innsigluð í sömu athöfn geta skipst á hringum seinna til að koma til móts við fjölskyldumeðlimi sem geta ekki verið viðstödd hjónabandsvígsluna. Hringaskiptin ættu ekki að endurskapa neinn hluta musterishjónavígslunnar eða innsiglunarinnar. Hjónin ættu ekki að skiptast á eiðum eftir að hafa verið gift eða innsigluð í musterinu.

Hjón sem giftast borgaralega fyrir musterisinnsiglun þeirra geta skipst á hringum í borgaralegu vígslunni, við musterisinnsiglunina eða við báðar athafnir.

27.3.4

Þau sem mega vera viðstödd musterishjónavígslu eða innsiglun

Pör ættu einungis að bjóða nánum fjölskyldumeðlimum og vinum til musterishjónavígslunnar eða innsiglunarinnar. Ábyrgir meðlimir verða að hafa meðtekið musterisgjöf sína og vera með gild musterismeðmæli til að vera viðstaddir.

Stikuforsetinn getur leyft einstaklingi sem hefur ekki verið skírður eða hlotið musterisgjöf, en stríðir við vitsmunalega fötlun, að fylgjast með musterishjónavígslunni eða innsiglun lifandi systkina sinna. Þessi einstaklingur verður að:

  • Vera að minnsta kosti 18 ára.

  • Geta sýnt lotningu á meðan á athöfninni stendur.

Stikuforsetinn skrifar bréf þar sem einstaklingnum er heimilað að fylgjast með innsigluninni. Bréfið er afhent í musterinu.

27.4

Innsigla lifandi börn foreldrum

Börn sem fæðast eftir að móðir þeirra hefur verið innsigluð eiginmanni í musterinu eru fædd í sáttmála þeirrar innsiglunar. Þau þurfa ekki að meðtaka helgiathöfn innsiglunar foreldra.

Börn sem ekki eru fædd í sáttmálanum geta orðið hluti af eilífri fjölskyldu með því að vera innsigluð blóðforeldrum eða ættleiddum foreldrum sínum. Þessi börn eiga rétt á sömu blessunum og þau sem fæddust í sáttmálanum.

27.4.2

Hafa samband við musterið

Hjón sem vilja innsigla sér börn sín, eða börn sem þrá að innsiglast látnum foreldrum sínum, ættu að hafa samband við musterið með fyrirvara til að tímasetja athöfnina.

Prenta