Handbækur og kallanir
28. Musterishelgiathafnir fyrir látna


„28. Musterishelgiathafnir fyrir látna,“ Valið efni úr Almennri handbók (2023).

„28. Musterishelgiathafnir fyrir látna,“ Valið efni úr Almennri handbók

skírnarfontur

28.

Musterishelgiathafnir fyrir látna

28.0

Inngangur

Helgiathafnir sem framkvæmdar eru í musterum gera fjölskyldum það kleift að vera saman að eilífu og að upplifa fyllingu gleði í návist Guðs.

Til þess að börn himnesks föður geti snúið til hans á ný, verður hvert og eitt þeirra að iðrast, verða verðugt þess að meðtaka helgiathafnir sáluhjálpar og upphafningar og heiðra þá sáttmála sem tengjast hverri helgiathöfn.

Himneskur faðir vissi að mörg barna hans myndu ekki hljóta þessar helgiathafnir í jarðlífi sínu. Hann veitti þeim aðra leið til að meðtaka helgiathafnirnar og gera sáttmála við hann. Þessar helgiathafnir geta verið framkvæmdar í musterum með staðgenglum. Það þýðir að lifandi einstaklingur meðtekur helgiathafnirnar fyrir hönd einhvers sem er látinn. Í andaheimum getur hinn látni valið að meðtaka eða afþakka helgiathöfnina sem hefur verið framkvæmd fyrir hann (sjá Kenning og sáttmálar 138:19, 32–34, 58–59).

Kirkjumeðlimir eru hvattir til að bera kennsl á látna ættingja sína sem ekki hafa hlotið helgiathafnir sáluhjálpar og upphafningar. Meðlimir framkvæma síðan helgiathafnirnar fyrir hönd þessara ættingja.

Ef meðlimir hafa ekki undirbúið ættmennanöfn fyrir musterisstarf (sjá 28.1.1), getur musterið lagt til nöfn látinna einstaklinga sem þarfnast helgiathafna.

28.1

Almennar leiðbeiningar fyrir staðgengilshelgiathafnir

Hægt er að framkvæma staðgengilshelgiathafnir fyrir einstaklinga sem voru 8 ára eða eldri við andlát sitt. Fyrir utan þau tilfelli sem getið er í 28.3, þá má framkvæma staðgengilshelgiathafnir þegar 30 dagar hafa liðið frá andlátinu ef annað tveggja á við:

  • Náinn ættingi hins látna (ófráskilinn maki, fullorðið barn, foreldri eða systkini) leggur nafnið inn fyrir helgiathöfn musterisins.

  • Leyfi fyrir helgiathöfninni er fengið frá nánum ættingja hins látna (ófráskildum maka, fullorðnu barni, foreldri eða systkini).

Ef hvorugt ofangreindra skilyrða á við, má framkvæma staðgengilshelgiathafnir 110 árum eftir að hinn látni fæddist.

28.1.1

Búa nöfn látinna einstaklinga undir musterishelgiathafnir

Þar sem það er mögulegt, ætti að leggja upplýsingar um látin skyldmenni inn í FamilySearch.org áður en að musterishelgiathafnir eru framkvæmdar (sjá 25.4.2).

28.1.1.1

Senda inn nöfn skyldmenna

Þegar nöfn eru send inn fyrir staðgengilshelgiathafnir, ættu meðlimir almennt einungis að senda nöfn þeirra sem þeir eru skyldir.

28.1.2

Þau sem mega taka þátt í helgiathöfnum fyrir látna

Allir meðlimir sem hafa gild musterismeðmæli mega taka þátt í skírnum og staðfestingum fyrir látna. Meðlimir sem hlotið hafa musterisgjöf og hafa gild musterismeðmæli mega taka þátt í öllum helgiathöfnum fyrir látna. Sjá 26.3.

28.1.4

Tímasetja

Meðlimir kunna að þurfa að panta tíma áður en þeir framkvæma helgiathafnir fyrir látna. Sjá temples.ChurchofJesusChrist.org fyrir tengiliðaupplýsingar hvers musteris og skilyrði fyrir tímaáætlanir.

28.2

Framkvæma musterishelgiathafnir fyrir látna einstaklinga

Meðlimur má einungis þjóna sem staðgengill fyrir látinn einstakling af sama kyni þegar hann framkvæmir staðgengilshelgiathafnir.

28.2.1

Skírn og staðfesting fyrir látna

Öllum meðlimum sem eru með gild musterismeðmæli getur verið boðið að þjóna í verkefnum í skírnarherberginu. Sum þeirra verkefna geta verið:

  • Staðgenglar í skírnum og staðfestingum.

  • Vitni við staðgengilsskírnir.

  • Aðstoðarþjónar.

Melkísedeksprestdæmishafar og prestar í Aronsprestdæminu geta fengið boð um að framkvæma skírnir fyrir látna. Melkísedeksprestdæmishöfum getur líka verið boðið að þjóna í staðfestingum fyrir látna.

Einungis karlmenn með musterisgjöf geta fengið boð um að:

  • Þjóna sem ritarar skírnarfontsins.

  • Þjóna sem ritarar staðfestingar.

28.2.2

Musterisgjöf (þar með talið smurning og laugun)

Þegar verið er að framkvæma staðgengilsmusterisgjöf er smurning og laugun framkvæmd og skráð sér (sjá 27.2). Allir meðlimir með musterisgjöf og gild musterismeðmæli geta þjónað sem staðgenglar við þessar helgiathafnir.

28.2.3

Innsiglun maka og innsiglun barna og foreldra

Í musterinu er hægt að innsigla látna einstaklinga þeim mökum sem þeir voru giftir í lifanda lífi. Látnir einstaklingar geta einnig verið innsiglaðir lifandi eða látnum börnum sínum. Meðlimur með musterisgjöf og gild musterismeðmæli getur þjónað sem staðgengill við þessar helgiathafnir.

28.3

Sérstakar aðstæður

Þessi hluti útskýrir aðstæður þar sem sumar af leiðbeiningunum í 28.1 eiga kannski ekki við.

28.3.1

Börn sem dóu fyrir fæðingu (andvana fæðing og fósturlát)

Musterishelgiathafnir eru ekki nauðsynlegar né eru þær framkvæmdar fyrir börn sem dóu fyrir fæðingu. Fyrir frekari upplýsingar, sjá 38.7.3.

28.3.2

Börn sem dóu fyrir átta ára aldur

Lítil börn eru frelsuð fyrir friðþægingu Jesú Krists og „hólpin í himneska ríkinu“ (Kenning og sáttmálar 137:10). Vegna þessa eru engar skírnir né musterisgjafir framkvæmdar fyrir barn sem dó fyrir átta ára aldur. Hins vegar má innsigla börn foreldrum sínum, ef þau fæddust ekki í sáttmálanum eða meðtóku ekki þá helgiathöfn í lifanda lífi (sjá 18.1).