Handbækur og kallanir
38. Kirkjureglur og leiðbeiningar


„38. Kirkjureglur og leiðbeiningar,“ Valið efni úr Almennri handbók (2023).

„38. Kirkjureglur og leiðbeiningar,“ Valið efni úr Almennri handbók

38.

Kirkjureglur og leiðbeiningar

38.1

Kirkjuþátttaka

Faðir okkar á himnum elskar börn sín. „Allir eru jafnir fyrir Guði“ og hann býður öllum „sem einum að koma til sín og verða gæsku sinnar aðnjótandi“ (2. Nefí 26:33).

38.1.1

Mæting á kirkjusamkomur

Öllum er velkomið að mæta á sakramentissamkomu, aðrar sunnudagssamkomur og félagslega viðburði Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Aðilinn sem er í forsvari ber ábyrgð á að tryggja það að allir sem mæti, sýni hinni helgu aðstöðu virðingu.

Þeir sem mæta ættu að forðast truflun eða ónæði sem er í andstöðu við tilbeiðslu eða annan tilgang samkomanna. Virða ætti allar aldurs- og hegðunartakmarkanir á ólíkum kirkjusamkomum og viðburðum. Það kallar á að takmarka áberandi ástaratlot og klæðnað eða snyrtingu sem veldur truflun. Það felur einnig í sér að forðast stjórnmálalegar yfirlýsingar eða umræðu um kynhneigð eða önnur persónuleg einkenni á þann hátt að það dragi athygli samkoma frá frelsaranum.

Ef óviðeigandi hegðun á sér stað, veitir biskupinn eða stikuforsetinn einslega leiðsögn í anda kærleika. Hann hvetur þá sem sýnt hafa af sér óviðeigandi hegðun fyrir tilefnið að hjálpa við að viðhalda heilögu rými fyrir viðstadda, með sérstaka áherslu á tilbeiðslu himnesks föður og frelsarans.

Samkomuhús kirkjunnar eru í einkaeign og þar eiga kirkjureglur við. Þeir sem eru ófúsir að fylgja þessum leiðbeiningum verða vinsamlega beðnir um að mæta ekki á kirkjusamkomur og viðburði.

38.2

Reglur um helgiathafnir og blessanir

Almennar upplýsingar um helgiathafnir og blessanir má finna í 18. kafla. Upplýsingar um helgiathafnir musterisins má finna í 27. og 28. kafla. Séu biskupar með spurningar, geta þeir haft samband við stikuforsetann. Séu stikuforsetar með spurningar, geta þeir haft samband við svæðisforsætisráðið.

38.3

Borgaraleg hjónavígsla

Kirkjuleiðtogar hvetja meðlimi til að uppfylla skilyrði fyrir musterishjónaband og að giftast og verða innsiglaðir í musteri. Kirkjuleiðtogar mega hins vegar framkvæma borgaralega hjónavígslu ef þeir hafa lagalega heimild frá staðaryfirvöldum.

Borgaraleg hjónavígsla ætti að fara fram samkvæmt lögum þess svæðis þar sem vígslan fer fram.

38.3.1

Hver má framkvæma borgaralega hjónavígslu

Eftirfarandi starfandi embættismenn kirkjunnar mega framkvæma borgaralega hjónavígslu ef þeir hafa löglegt leyfi frá staðaryfirvöldum:

  • Trúboðsforseti

  • Stikuforseti

  • Umdæmisforseti

  • Biskup

  • Greinarforseti

Þessir embættismenn mega einungis framkvæma hjónavígslu á milli karls og konu. Eftirfarandi aðstæður verða allar að vera til staðar:

  • Brúður eða brúðgumi sé meðlimur kirkjunnar eða með staðfestan skírnardag.

  • Meðlimaskýrslur annað hvort brúðar eða brúðguma eru, eða verða eftir skírn, í kirkjueiningunni sem leiðtoginn er í forsæti fyrir.

  • Embættismaður kirkjunnar hefur lagalega heimild til að framkvæma borgaralega hjónavígslu í umdæminu þar sem hjónavígslan fer fram.

38.3.4

Borgaraleg hjónavígsla höfð í kirkjubyggingum

Hjónavígsla má fara fram í kirkjubyggingu ef hún truflar ekki venjulega kirkjudagskrá. Hjónavígslur ættu ekki að fara fram á hvíldardeginum eða mánudagskvöldum. Hjónavígslur sem fara fram í kirkjubyggingum ættu að vera einfaldar og virðulegar. Tónlist ætti að vera helg, lotningarfull og gleðirík.

Hjónavígslur mega fara fram í kapellunni, menningarsal eða öðru viðeigandi herbergi. Hjónavígslur ættu að fylgja leiðbeiningum um viðeigandi notkun samkomuhúsa.

38.3.6

Borgaraleg hjónavígsluathöfn

Í framkvæmd hjónavígslunnar ávarpar embættismaður kirkjunnar parið og segir: „Takið vinsamlega í hægri hönd hvors annars.“ Hann segir síðan: „[Fullt nafn brúðguma] og [fullt nafn brúðar], þið hafið tekið í hægri hönd hvors annars, sem tákn sáttmála þeirra sem þið gangist nú undir, í návist Guðs og þessara vitna.“ (Parið getur hafa valið eða tilnefnt þessi vitni fyrir fram.)

Embættismaðurinn talar því næst til brúðgumans og spyr: „[Fullt nafn brúðguma], vilt þú taka [fullt nafn brúðar] sem löglega eiginkonu þína og lofar þú af frjálsum vilja þínum og eigin vali, sem félagi hennar og löglega kvæntur eiginmaður, að vera bundinn henni og engu öðru; að þú munir virða öll lögmál, skyldur og skuldbindingar sem tilheyra hinu heilaga hjónabandi; og að þú munir elska hana, heiðra og virða meðan þið bæði lifið?“

Brúðguminn svarar: „Já“ eða: „Það geri ég.“

Embættismaður kirkjunnar talar því næst til brúðarinnar og spyr: „[Fullt nafn brúðar], vilt þú taka [fullt nafn brúðguma] sem löglegan eiginmann þinn, og lofar þú af frjálsum vilja þínum og eigin vali, sem félagi hans og löglega gift eiginkona, að vera bundin honum og engu öðru; að þú munir virða öll lögmál, skyldur og skuldbindingar sem tilheyra hinu heilaga hjónabandi; og að þú munir elska hann, heiðra og virða meðan þið bæði lifið?“

Brúðurin svarar: „Já“ eða: „Það geri ég.“

Embættismaður kirkjunnar ávarpar þá parið og segir: „Með því valdsumboði sem ég ber sem öldungur í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, lýsi ég ykkur, [nafn brúðguma] og [nafn brúðar], eiginmann og eiginkonu, löglega og lögformlega gift svo lengi sem þið lifið.“

(Annar orðháttur prests sem þjónar ekki sem embættismaður kirkjunnar: „Með því lagalega umboði sem ég ber sem prestur í [herdeild eða borgaralegum samtökum], lýsi ég ykkur [nafn brúðguma] og [nafn brúðar] eiginmann og eiginkonu, löglega og lögformlega gift svo lengi sem þið lifið.“)

„Megi Guð blessa samband ykkar með gleði yfir niðjum ykkar og löngu og hamingjuríku lífi saman, og megi hann hjálpa ykkur að halda þá helgu sáttmála sem þið hafið nú gert. Þessar blessanir bið ég um ykkur til handa í nafni Drottins Jesú Krists, amen.“

Boðið um að kyssa hvort annað sem eiginmann og eiginkonu er valkvætt, byggt á menningarlegum hefðum.

38.4

Innsiglunarreglur

Musterishelgiathöfn innsiglunar sameinar fjölskyldur um eilífð er meðlimir vinna að því að heiðra þá sáttmála sem þeir gera er þeir meðtaka helgiathöfnina. Helgiathöfn innsiglunar felur í sér:

  • Innsiglun eiginmanns og eiginkonu.

  • Innsiglun barna foreldrum.

Þeir sem halda sáttmála sína munu halda einstaklingsblessunum sem innsiglunin veitir. Þetta á við jafnvel þó að maki einstaklingsins hafi brotið sáttmálana eða dregið sig út úr hjónabandinu.

Trúföst börn sem eru innsigluð foreldrum eða eru fædd í sáttmálanum, halda blessunum eilífra foreldra. Þetta á við, jafnvel þó að foreldrar þeirra ógilda hjónabandsinnsiglun sína, ef kirkjuaðild þeirra skyldi vera afturkölluð eða þau segja upp kirkjuaðild sinni.

Meðlimir ættu að ráðfæra sig við biskup sinn ef þeir eru með spurningar um reglur innsiglunar. Biskup hefur samband við stikuforsetann ef hann er með spurningar. Séu stikuforsetar með spurningar, geta þeir haft samband við musterisforsætisráðið í musterisumdæmi sínu, svæðisforsætisráðið eða skrifstofu Æðsta forsætisráðsins.

38.5

Musterisfatnaður og musterisklæði

38.5.1

Musterisfatnaður

Meðlimir kirkjunnar klæðast hvítum fatnaði við helgiathafnir musterisgjafar og innsiglunar í musterinu. Konur klæðast eftirfarandi hvítum klæðnaði: kjól með síðum ermum eða kvartermum (eða pilsi og síðerma eða kvarterma blússu), sokkum eða sokkabuxum og skóm eða inniskóm.

Karlar klæðast eftirfarandi hvítum fatnaði: síðerma skyrtu, bindi eða slaufu, buxum, sokkum og skóm eða inniskóm.

Á meðan musterisgjöfin og innsiglunarathöfnin fer fram, klæðast meðlimir viðbótarviðhafnarklæðnaði yfir hvítan fatnað sinn.

38.5.2

Verða sér úti um musterisfatnað og musterisklæði

Deildar- og stikuleiðtogar hvetja meðlimi með musterisgjöf að verða sér úti um eigin musterisfatnað. Musterisfatnað og musterisklæði má kaupa í Dreifingarmiðstöðvum kirkjunnar eða á store.ChurchofJesusChrist.org. Stiku- og deildarritarar geta hjálpað meðlimum að panta fatnaðinn.

38.5.5

Klæðast og hirða um musterisklæði

Meðlimir sem hljóta musterisgjöf gera sáttmála um að klæðast musterisklæðum allt sitt líf.

Það eru heilög forréttindi að klæðast musterisklæðum. Að klæðast musterisklæðum er ytri tjáning á innri skuldbindingu um að fylgja frelsaranum Jesú Kristi.

Musterisklæðin eru áminning um þá sáttmála sem gerðir eru í musterinu. Þegar fólk klæðist þeim á réttan hátt ævina á enda, munu þau þjóna sem vernd.

Klæðast ætti klæðunum undir ytri fatnaði. Það er persónulegt val hvort klæðst sé öðrum nærklæðum undir eða yfir musterisklæðunum.

Ekki ætti að fara úr musterisklæðum fyrir athafnir sem hægt er að framkvæma í klæðunum. Ekki ætti að breyta þeim til að aðlaga öðrum fatastíl.

Musterisklæðin eru heilög og þeim ætti að sýna virðingu. Meðlimir með musterisgjöf ættu að leita leiðsagnar heilags anda til að svara persónulegum spurningum um að klæðast musterisklæðunum.

38.5.7

Förgun musterisklæða og musterisfatnaðar

Til að farga slitnum musterisklæðum, ættu meðlimir að klippa út og eyða merkjunum. Meðlimir ættu síðan að klippa efnið í sundur sem eftir er, svo að ekki sé hægt að bera kennsl á musterisklæðin. Henda má efninu sem eftir stendur.

Meðlimir mega gefa öðrum meðlimum með musterisgjöf musterisklæði og musterisfatnað sem eru í góðu ásigkomulagi.

38.5.8

Musterisgreftrunarklæði

Ef hægt er, ætti að jarða eða brenna látna meðlimi með musterisgjöf í musterisfatnaði. Ef menningarlegar hefðir eða greftrunarsiðir gera þetta óviðeigandi eða erfitt í framkvæmd, má brjóta fatnaðinn saman og leggja við hlið líkamans.

Karlar eru klæddir í musterisklæði og eftirfarandi hvítan fatnað: síðerma skyrtu, bindi eða slaufu, buxur, sokka og skó eða inniskó. Konur eru klæddar í musterisklæði og eftirfarandi hvítan fatnað: kjól með síðum ermum eða kvartermum (eða pils og síðerma eða kvarterma blússu), sokka eða sokkabuxur og skó eða inniskó.

Líkaminn er íklæddur musterisskrúða eins og musterisgjöfin segir til um. Skikkjan er sett yfir hægri öxl og bundin með slaufu við mittið vinstra megin. Svuntan er bundin um mittið. Borðinn er settur um mittið og bundinn með slaufu á vinstri mjöðm. Höfuðfat karlsins er vanalega lagt við hlið líkama hans þar til að því er komið að loka kistunni. Höfuðfatið er þá sett á, með slaufuna yfir vinstra eyra. Slæða konunnar getur verið útbreidd á koddanum fyrir aftan höfuð hennar. Það er valkvætt hvort andlit konunnar sé hulið með slæðunni fyrir greftrun eða brennslu, samkvæmt ákvörðun fjölskyldunnar.

38.6

Reglur um siðferðisleg málefni

38.6.1

Fóstureyðing

Drottin hefur boðið: „Þú skalt ekki … morð fremja, né nokkuð því líkt“ (Kenning og sáttmálar 59:6). Kirkjan er andvíg valkvæðum fóstureyðingum fyrir persónuleg eða samfélagsleg þægindi. Meðlimir ættu ekki að fara í, framkvæma, útvega, greiða fyrir, samþykkja eða hvetja til fóstureyðingar. Einu mögulegu undantekningar eru þegar:

  • Getnaður verður sem afleiðing af nauðgun eða sifjaspelli.

  • Hæfur læknir ákvarðar að lífi eða heilsu móður sé verulega ógnað.

  • Hæfur læknir ákvarðar að fóstrið sé með alvarlega fósturgalla sem munu ekki leyfa barninu að lifa fram yfir fæðingu.

Jafnvel þessar aðstæður réttlæta ekki sjálfkrafa fóstureyðingu. Fóstureyðing er mjög alvarlegt mál. Hana ætti einungis að hugleiða eftir að viðkomandi aðilar hafa hlotið staðfestingu í gegnum bæn. Meðlimir geta ráðfært sig við biskup sinn sem hluta af þessu ferli.

38.6.2

Ofbeldi

Ofbeldi er ill meðferð eða vanræksla annarra, sem veldur líkamlegum, kynferðislegum, tilfinningalegum eða fjárhagslegum skaða. Afstaða kirkjunnar er að hvers kyns ofbeldi megi ekki viðgangast. Þeir sem beita maka sinn, börn eða aðra fjölskyldumeðlimi eða nokkurn annan ofbeldi, brjóta lögmál Guðs og manna.

Allir meðlimir, þá sérstaklega foreldrar og leiðtogar, eru hvattir til að vera vakandi og kostgæfnir og gera allt sem þeir geta til að vernda börn og aðra fyrir ofbeldi. Ef meðlimir verða varir við tilfelli ofbeldis, tilkynna þeir það yfirvöldum og eiga samráð við biskupinn. Kirkjuleiðtogar ættu að taka tilkynningum um ofbeldi alvarlega og aldrei hunsa þær.

Allir fullorðnir sem vinna með börnum og ungmennum skulu ljúka verndarþjálfun barna og ungmenna innan eins mánaðar frá því að vera staðfestir (sjá ProtectingChildren.ChurchofJesusChrist.org). Endurtaka á þjálfunina á þriggja ára fresti, hið minnsta.

Þegar ofbeldi á sér stað, þá ber kirkjuleiðtogum fyrst og fremst skylda til að liðsinna þeim sem hafa orðið fyrir ofbeldi og verja varnarlausa einstaklinga gegn ofbeldi í framtíðinni. Leiðtogar ættu ekki að hvetja nokkurn til að dvelja áfram á heimili eða í aðstæðum sem eru ótryggar eða þar sem ofbeldi þrífst.

38.6.2.1

Hjálparlína ofbeldis

Í sumum löndum hefur kirkjan komið á fót hjálparlínu þar sem trúnaðar er gætt um ofbeldi, til að aðstoða stikuforseta og biskupa. Þessir leiðtogar ættu að hringja tímanlega í hjálparlínuna varðandi allar aðstæður þar sem einstaklingur gæti hafa verið beittur ofbeldi – eða á ofbeldi á hættu. Þeir ættu einnig að hringja ef þeir verða varir við að meðlimur er að horfa á, kaupa sér eða dreifa barnaklámi.

Í löndum þar sem engin hjálparlína er, ætti biskup sem fréttir af ofbeldi að hafa samband við stikuforseta sinn. Stikuforsetinn ætti að leita sér leiðsagnar hjá lögráðgjafa svæðisins á skrifstofu svæðisins.

38.6.2.2

Ráðgjöf í ofbeldistilfellum

Þolendur ofbeldis upplifa oft alvarlegt áfall. Stikuforsetar og biskupar bregðast við með einlægri samúð og samkennd. Þeir veita andlega ráðgjöf og stuðning til að hjálpa þolendum að sigrast á eyðileggjandi áhrifum ofbeldis.

Stundum upplifa þolendur skömm og sektarkennd. Þolendur hafa ekki drýgt synd. Leiðtogar hjálpa þeim og fjölskyldum þeirra að skilja elsku Guðs og að lækningin komi fyrir tilstuðlan Jesú Krists og friðþægingar hans (sjá Alma 15:8.; 3. Nefí 17:9).

Stikuforsetar og biskupar ættu að hjálpa þeim sem eru sekir um ofbeldi að iðrast og hætta ofbeldisfullri hegðun sinni. Ef fullorðinn einstaklingur er sekur um kynferðissyndir gegn barni, gæti verið mjög erfitt að breyta þeirri hegðun. Iðrunarferlið gæti verið mjög langt. Sjá 38.6.2.3.

Til viðbótar við að þiggja innblásna aðstoð kirkjuleiðtoga, gætu þolendur, gerendur og fjölskyldur þeirra þurft á faglegri ráðgjöf að halda. Fyrir frekari upplýsingar, sjá 31.3.6.

38.6.2.3

Ofbeldi gegn börnum eða ungmennum

Ofbeldi gegn börnum eða ungmennum er einstaklega alvarleg synd (sjá Lúkas 17:2). Eins og það er notað hér, felur Ofbeldi gegn börnum eða ungmennum í sér eftirfarandi:

  • Líkamlegt ofbeldi: Valda alvarlegum líkamlegum áverkum með líkamlegu ofbeldi. Sumir áverkar eru ekki sjáanlegir.

  • Kynferðislegt ofbeldi eða misnotkun: Taka þátt í hvers kyns kynferðislegu atferli með barni eða ungmenni eða vísvitandi leyfa eða hjálpa öðrum að taka þátt í slíku athæfi. Eins og það er notað hér, þá felur kynferðislegt ofbeldi ekki í sér kynferðisathafnir milli tveggja ólögráða barna sem eru á svipuðum aldri.

  • Tilfinningalegt ofbeldi: Notkun gjörða og orða til að skaða alvarlega sjálfsvirðingu og sjálfsmynd barns eða ungmennis. Þetta felur yfirleitt í sér stöðugar og endurteknar svívirðingar, ofríki og gagnrýni sem eru niðurlægjandi og auðmýkjandi. Það getur líka átt við um alvarlega vanrækslu.

  • Barnaklám: Sjá 38.6.6.

Ef biskup eða stikuforseti kemst að eða hefur grun um ofbeldi gegn barni eða ungmenni, þá fylgir hann samstundis leiðbeiningunum í 38.6.2.1. Hann tekur einnig nauðsynleg skref til að hjálpa við að vernda gegn frekara ofbeldi.

Kirkjuaðildarráðs og athugasemdar í meðlimaskýrslu er krafist ef fullorðinn meðlimur beitir barn eða ungmenni ofbeldi, eins og lýst er í þessum hluta. Sjá einnig 38.6.2.5.

Ef ólögráða einstaklingur beitir barn ofbeldi, hefur stikuforsetinn samband við skrifstofu Æðsta forsætisráðsins fyrir leiðsögn.

38.6.2.4

Ofbeldi gegn maka eða öðrum fullorðnum einstaklingi

Oft er ekki hægt að nota eina skilgreiningu ofbeldis í öllum tilfellum. Þess í stað er um að ræða vítt róf alvarleika í ofbeldishegðun. Þetta róf nær frá því að hörð orð séu stundum notuð og allt í að valda alvarlegum skaða.

Ef biskup eða stikuforseti fær vitneskju af ofbeldi gegn maka eða öðrum fullorðnum, fylgir hann samstundis leiðbeiningunum í 38.6.2.1. Hann tekur einnig nauðsynleg skref til að hjálpa við að vernda gegn frekara ofbeldi.

Leiðtogar leita leiðsagnar andans til að ákveða hvort persónuleg ráðgjöf eða kirkjuaðildarráð sé best til þess fallið að vinna með ofbeldi. Þeir geta líka ráðfært sig við sinn næsta prestdæmisleiðtoga varðandi aðstæðurnar. Á hinn bóginn, ef eitthvað ofbeldi gegn maka eða öðrum fullorðnum einstaklingi er komið að þeim mörkum sem lýst er hér að neðan, þá er gerð krafa um kirkjuaðildarráð.

  • Líkamlegt ofbeldi: Valda alvarlegum líkamlegum áverkum með líkamlegu ofbeldi. Sumir áverkar eru ekki sjáanlegir.

  • Kynferðisleg misnotkun: Sjá aðstæður sem greint er frá í 38.6.18.3.

  • Tilfinningalegt ofbeldi: Verk og orð notuð til að skaða alvarlega sjálfsvirðingu og sjálfsmynd einstaklings. Þetta felur yfirleitt í sér stöðugar og endurteknar svívirðingar, ofríki og gagnrýni sem eru niðurlægjandi og auðmýkjandi.

  • Fjárhagslegt ofbeldi: Misnota einhvern fjárhagslega. Þetta kann að fela í sér ólöglega eða óheimila notkun á eign einhvers, peningum eða öðrum verðmætum. Það getur einnig þýtt að ná fjárhagslegu valdi yfir einhverjum með sviksamlegum hætti. Það gæti falist í notkun fjárhagslegs valds til að kúga einhvern.

38.6.2.5

Kirkjukallanir, musterismeðmæli og athugasemdir í meðlimaskýrslum

Meðlimir sem hafa beitt aðra ofbeldi ættu ekki að fá kirkjukallanir og mega ekki fá musterismeðmæli fyrr en þeir hafa iðrast og takmörkunum hefur verið létt af kirkjuaðild þeirra.

Ef einstaklingur beitti barn eða ungmenni kynferðislegu ofbeldi, eða beitti barn eða ungmenni alvarlegu líkamlegu eða andlegu ofbeldi, verður sett athugasemd í meðlimaskýrslu hans. Hann eða hún má ekki fá neinar kallanir eða verkefni sem hafa að gera með börn eða ungmenni. Þetta þýðir að þeir fá ekki úthlutaða fjölskyldu í hirðisþjónustu þar sem ungmenni eða börn eru á heimilinu. Það þýðir einnig að sá hinn sami fær ekki ungmenni sem félaga í hirðisþjónustu. Þessar takmarkanir ættu að vera til staðar, nema Æðsta forsætisráðið veiti leyfi til að athugasemdin sé fjarlægð.

38.6.2.6

Stiku- og deildarráð

Á stiku- og deildarráðsfundum fara stikuforsætisráð og biskupsráð reglulega yfir reglur og leiðbeiningar kirkjunnar varðandi forvarnir og viðbrögð við ofbeldi. Leiðtogar og ráðsmeðlimir leita leiðsagnar andans er þeir kenna og ræða þetta viðkvæma málefni.

Ráðsmeðlimir skulu einnig ljúka verndarþjálfun barna og ungmenna (sjá 38.6.2).

38.6.2.7

Lagaleg málefni sem tengjast ofbeldi

Ef ofbeldishegðun meðlims er brot gegn gildandi lögum, ætti biskupinn eða stikuforsetinn að hvetja meðliminn til að tilkynna þennan verknað til löggæslumanna eða annarra viðeigandi yfirvalda.

Kirkjuleiðtogar og meðlimir ættu að uppfylla lagalega skyldu sína um að tilkynna borgaralegum yfirvöldum um ofbeldið.

38.6.4

Getnaðarvarnir

Það eru forréttindi giftra einstaklinga sem geta eignast börn að veita andabörnum Guðs jarðneska líkama, sem þeir eru síðan ábyrgir fyrir að næra og ala upp (sjá 2.1.3). Ákvörðunin um hve mörg börn skuli eignast og hvenær er afar persónuleg. Það ætti að vera á milli hjónanna og Drottins.

38.6.5

Skírlífi og tryggð

Skírlífislögmál Drottins er:

  • Bindindi á kynferðislegt samband utan löglegs hjónabands milli karls og konu.

  • Tryggð í hjónabandi.

Líkamsnánd eiginmanns og eiginkonu er ætlað að vera falleg og heilög. Hún er vígð af Guði til að skapa börn og til kærleikstjáningar eiginmanns og eiginkonu.

38.6.6

Barnaklám

Kirkjan fordæmir barnaklám í hvaða birtingarmynd sem er. Ef biskup eða stikuforseti fær vitneskju af því að meðlimur sé flæktur í barnaklám, fylgir hann samstundis leiðbeiningunum í 38.6.2.1.

38.6.8

Umskurður á kynfærum kvenna

Kirkjan fordæmir umskurð á kynfærum kvenna.

38.6.10

Sifjaspell

Kirkjan fordæmir hvers kyns sifjaspell. Eins og það er notað hér, þá er sifjaspell kynferðislegt samband á milli:

  • Foreldris og barns.

  • Afa, ömmu og barnabarns.

  • Systkina.

  • Föður- eða móðursystkinis og systkinabarna.

Eins og það er notað hér, þá á barn, barnabarn, systkini og systkinabarn við um líffræðileg, ættleidd, stjúp- eða fóstursambönd.

Þegar ólögráða einstaklingur er þolandi sifjaspells, hringir biskupinn eða stikuforsetinn í hjálparlínuna í þeim löndum sem hún er í boði (sjá 38.6.2.1). Í öðrum löndum, ætti stikuforsetinn að leita sér leiðsagnar frá lögráðgjafa svæðisins á svæðisskrifstofunni. Hann er einnig hvattur til að ráðfæra sig við starfsfólk Fjölskylduþjónustunnar eða stjórnanda velferðar- og sjálfsbjargarsviðs á svæðisskrifstofunni.

Krafist er kirkjuaðildarráðs og athugasemdar í meðlimaskýrslu, sé meðlimur sekur um sifjaspell. Kirkjan gerir næstum alltaf kröfu um afturköllun kirkjuaðildar, sé um sifjaspell að ræða.

Ef ólögráða aðili fremur sifjaspell, hefur stikuforsetinn samband við skrifstofu Æðsta forsætisráðsins fyrir leiðsögn.

Þolendur sifjaspells upplifa oft alvarlegt áfall. Leiðtogar bregðast við með einlægri samúð og samkennd. Þeir veita andlega aðstoð og ráðgjöf til að hjálpa þeim að sigrast á eyðileggjandi áhrifum sifjaspells.

Stundum upplifa þolendur skömm og sektarkennd. Þolendur hafa ekki drýgt synd. Leiðtogar hjálpa þeim og fjölskyldum þeirra að skilja elsku Guðs og að lækningin komi fyrir tilstuðlan Jesú Krists og friðþægingar hans (sjá Alma 15:8.; 3. Nefí 17:9).

Til viðbótar við að þiggja innblásna aðstoð kirkjuleiðtoga, gætu þolendur og fjölskyldur þeirra þurft á faglegri ráðgjöf að halda. Fyrir frekari upplýsingar, sjá 38.6.18.2.

38.6.12

Dulspeki

Dulspeki leggur áherslu á myrkrið og leiðir til blekkingar. Það eyðir trú á Krist.

Í dulspeki má finna tilbeiðslu á Satan. Þar má einnig finna dulúðug verk sem eru ekki í samræmi við fagnaðarerindi Jesú Krists. Slíkir viðburðir eru meðal annars (en takmarkast ekki við) spásagnir, álög og lækningar sem líkja eftir prestdæmisvaldi Guðs (sjá Moróní 7:11–17).

Kirkjumeðlimir ættu ekki að taka þátt í neins konar tilbeiðslu á Satan eða nokkurs konar dulspeki. Þeir ættu ekki að einblína á slíkt myrkur í samtali eða á kirkjusamkomum.

38.6.13

Klámefni

Kirkjan fordæmir klámefni í hvaða birtingarmynd sem er. Notkun klámefnis, í hvaða mynd sem er, skaðar líf einstaklinga, fjölskyldna og samfélaga. Það hrekur einnig anda Drottins í burtu. Kirkjumeðlimir ættu að forðast hvers konar klámefni og standa gegn framleiðslu þess, útbreiðslu og notkunar.

Persónuleg ráðgjöf og óformlegar takmarkanir eru yfirleitt fullnægjandi þegar verið er að hjálpa einstaklingi að iðrast notkunar klámefnis. Kirkjuaðildarráð eru yfirleitt ekki kölluð saman. Hins vegar gæti aðildarráð verið nauðsynlegt fyrir ákafa og ítrekaða notkun klámefnis, sem hefur valdið verulegum skaða á hjónabandi eða fjölskyldu meðlims (sjá 38.6.5). Þörf er á aðildarráði ef meðlimur býr til, miðlar, hefur í fórum sínum eða horfir ítrekað á barnaklámefni (sjá 38.6.6).

38.6.14

Fordómar

Allir eru börn Guðs. Allir eru bræður og systur og hluti af guðlegri fjölskyldu hans (sjá „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins“). Guð „skóp og af einum allar þjóðir manna“ (Postulasagan 17:26). „Allir eru jafnir“ fyrir honum (2.Nefí 26:33). Í „augum hans er hver vera jafn dýrmæt annarri“ (Jakob 2:21).

Fordómar samræmast ekki opinberuðu orði Guðs. Náð eða ónáð hjá Guði byggist á trúfesti gagnvart honum og boðorðum hans, ekki litnum á húð einhvers eða öðrum eiginleikum.

Kirkjan biður alla um að láta af viðhorfi og breytni sem felur í sér fordóma gagnvart einhverjum hópi eða einstaklingi. Meðlimir kirkjunnar ættu að vera leiðandi í því að sýna öllum börnum Guðs virðingu. Meðlimir fylgja boðorði frelsarans um að elska hvern annan (sjá Matteus 22:35–39). Þeir leggja sig fram við að sýna öllum mönnum góðvild og hafna hvers kyns fordómum. Það á við um fordóma byggða á kynþætti, uppruna, þjóðerni, þjóðflokkum, kyni, aldri, fötlun, félags- og efnahagslegri stöðu, trúarskoðunum eða vantrú og kynhneigð.

38.6.15

Samkynhneigð og breytni

Kirkjan hvetur fjölskyldur og meðlimi til að sýna þeim gætni, elsku og virðingu sem laðast að öðrum af sama kyni. Kirkjan stuðlar einnig að samfélagslegum skilningi sem endurspeglar kenningar hennar um góðvild, að meðtaka fólk, elska aðra og sýna öllum mönnum virðingu. Kirkjan tekur ekki afstöðu í málefnum samkynhneigðra.

Boðorð Guðs banna alla ósiðsamlega hegðun, hvort heldur gagnkynhneigða eða samkynhneigða. Leiðtogar kirkjunnar leiðbeina meðlimum sem hafa brotið skírlífislögmálið. Leiðtogar hjálpa þeim að hafa góðan skilning á trú á Jesú Krist og friðþægingu hans, iðrunarferlinu og tilgangi lífs á jörðu.

Ef meðlimir laðast að sama kyni og eru að vinna að því að lifa eftir skírlífislögmálinu, hvetja leiðtogar þá og styðja í þeim ásetningi. Þessir meðlimir geta tekið á móti kirkjuköllunum, verið með musterismeðmæli og tekið á móti musterishelgiathöfnum ef þeir eru verðugir. Karlkyns meðlimir geta hlotið og notað prestdæmið.

Allir meðlimir sem halda sáttmála sína munu taka á móti öllum lofuðum blessunum í eilífðinni, hvort sem aðstæður þeirra gera þeim kleift að meðtaka blessanir eilífs hjónabands eða foreldrahlutverks í þessu lífi eða ekki (sjá Mósía 2:41).

38.6.16

Hjónaband samkynhneigðra

Kirkjan staðfestir kenningarlega reglu, byggða á ritningunum, að hjónaband milli karls og konu sé kjarninn í áætlun skaparans um eilíf örlög barna hans. Kirkjan staðfestir einnig að lögmál Guðs skilgreinir hjónaband sem löglegt samband milli karls og konu.

38.6.17

Kynfræðsla

Foreldrar bera meginábyrgð á kynfræðslu barna sinna. Foreldrar ættu að eiga hreinskilið, skýrt og áframhaldandi samtal við börn sín um heilbrigða, réttláta kynhneigð.

38.6.18

Kynferðisofbeldi, nauðgun og önnur kynferðismisbeiting

Kirkjan fordæmir kynferðisofbeldi. Eins og það er notað hér er kynferðisofbeldi skilgreint sem öll óvelkomin kynhegðun, þvinguð á annan einstakling. Kynferðisleg breytni með einstaklingi sem veitir ekki eða getur ekki veitt lagalegt samþykki sitt, fellur undir kynferðisofbeldi. Kynferðisofbeldi getur einnig átt sér stað gagnvart maka eða á stefnumótagrundvelli. Fyrir frekari upplýsingar um kynferðisofbeldi gagnvart barni eða ungmenni, sjá 38.6.2.3.

Kynferðisofbeldi nær yfir breitt svið breytni, frá áreitni og allt til nauðgunar og annars konar kynferðisofbeldis. Það getur gerst líkamlega, munnlega eða á annan hátt. Meðlimir sem hafa upplifað kynferðismisbeitingu, nauðgun eða annars konar kynferðisofbeldi, geta leitað upplýsinga um ráðgjöf, sjá 38.6.18.2.

Ef meðlimir gruna eða verða varir við kynferðisofbeldi, stíga þeir eins skjótt og auðið er fram til að vernda þolendur og aðra. Það á meðal annars við um að tilkynna borgaralegum yfirvöldum og láta biskup eða stikuforseta vita. Ef barn hefur orðið fyrir misnotkun ættu meðlimir að fylgja leiðbeiningunum í 38.6.2.

38.6.18.2

Ráðgjöf fyrir þolendur kynferðisofbeldis, nauðgunar og annarrar kynferðismisbeitingar

Þolendur kynferðisofbeldis, nauðgunar eða annarrar kynferðismisbeitingar upplifa oft alvarlegt áfall. Þegar þeir trúa biskupi eða stikuforseta fyrir því, bregst hann við af einlægri samúð og samkennd. Hann veitir andlega ráðgjöf og stuðning til að hjálpa þolendum að sigrast á eyðileggjandi áhrifum ofbeldis. Hann hringir einnig í hjálparlínu kirkjunnar vegna ofbeldis, þar sem það er mögulegt.

Stundum upplifa þolendur skömm og sektarkennd. Þolendur hafa ekki drýgt synd. Leiðtogar leggja ábyrgðina ekki á herðar þolandans. Þeir hjálpa þeim og fjölskyldum þeirra að skilja elsku Guðs og að lækningin komi fyrir tilstuðlan Jesú Krists og friðþægingar hans (sjá Alma 15: 8; 3. Nefí 17: 9).

Þó að meðlimir velji að miðla upplýsingum um misbeitinguna eða ofbeldið, ættu leiðtogar ekki að einblína um of á smáatriðin. Það getur verið skaðlegt fyrir þolendurna.

Til viðbótar við að þiggja innblásna aðstoð kirkjuleiðtoga, gætu þolendur og fjölskyldur þeirra þurft á faglegri ráðgjöf að halda. Fyrir frekari upplýsingar, sjá 31.3.6.

38.6.18.3

Kirkjuaðildarráð

Kirkjuaðildarráð kann að vera nauðsynlegt fyrir einstakling sem hefur beitt einhvern misbeitingu eða ofbeldi. Kirkjuaðildarráðs er krafist ef meðlimur hefur gerst sekur um nauðgun eða dæmdur fyrir annars konar kynferðisofbeldi.

38.6.20

Sjálfsvíg

Jarðlífið er dýrmæt gjöf frá Guði – gjöf sem ætti að meta og vernda. Kirkjan styður forvarnir gegn sjálfsvígum.

Flestir sem hafa hugleitt sjálfsvíg þrá lausn frá líkamlegum, vitsmunalegum, tilfinningalegum eða andlegum sársauka. Slíkir einstaklingar þarfnast kærleika, aðstoðar og stuðnings frá fjölskyldu, kirkjuleiðtogum og hæfum fagaðilum.

Biskupinn veitir trúarlegan stuðning ef meðlimur hugleiðir eða hefur gert tilraun til sjálfsvígs. Hann veitir meðlimnum samstundis aðstoð við að öðlast faglega aðstoð.

Þrátt fyrir bestu viðleitni ástvina, leiðtoga og fagaðila, þá er ekki alltaf hægt að koma í veg fyrir sjálfsvíg. Það skilur eftir sig djúpt hjartasár, tilfinningalegt umrót og ósvaraðar spurningar fyrir ástvini og aðra. Leiðtogar ættu að veita ráðgjöf og hugga fjölskylduna. Þeir veita styrk og stuðning.

Það er ekki rétt af einstaklingi að taka eigið líf. Hins vegar er það einungis Guð sem getur dæmt um hugsanir fólks, gjörðir og ábyrgð (sjá 1. Samúel 16:7; Kenning og sáttmálar 137:9).

Þeir sem hafa misst ástvini vegna sjálfsvígs geta fundið von og lækningu í Jesú Kristi og friðþægingu hans.

38.6.23

Transfólk

Transfólk stendur frammi fyrir flóknum áskorunum. Koma ætti fram við meðlimi og þá sem ekki eru meðlimir, sem skilgreina sig sem transfólk – og fjölskyldur þeirra og vini – af næmni, góðvild, samúð og með gnægð af kristilegum kærleika. Öllum er velkomið að mæta á sakramentissamkomu, aðrar sunnudagssamkomur og félagslegar athafnir kirkjunnar (sjá 38.1.1).

Kyn er nauðsynlegt einkenni í sæluáætlun himnesks föður. Ætluð merking orðsins kyn í fjölskylduyfirlýsingunni er líffræðilegt kyn við fæðingu. Sumir einstaklingar upplifa ósamræmi milli líffræðilegs kyns síns og kynvitundar sinnar. Þar af leiðir gætu þeir skilgreint sig sem transfólk. Kirkjan tekur ekki afstöðu í málefnum þeirra sem skilgreina sig sem transfólk.

Meirihluti starfssemi kirkjunnar og sumar helgiathafnir prestdæmisins eru kynlausar. Transfólk getur skírst og verið staðfest eins og fram kemur í 38.2.8.10. Þeir geta einnig meðtekið sakramentið og tekið á móti prestdæmisblessunum. Hins vegar eru vígsla prestdæmisins og musterishelgiathafnir meðtekin út frá líffræðilegu kyni við fæðingu.

Kirkjuleiðtogar ráða gegn valkvæðum læknisfræðilegum inngripum með lyfjum eða skurðaðgerðum í tilraun til að breytast í andstætt kyn frá líffræðilegu kyni við fæðingu („kynleiðrétting“). Leiðtogar benda á að þessi framkvæmd muni valda takmörkunum á kirkjuaðild einstaklingsins.

Leiðtogar ráðleggja einnig gegn félagslegri umbreytingu. Félagsleg umbreyting felur í sér breytingu á klæðnaði eða snyrtingu, eða að skipta um nafn eða persónufornafn til að kynna sig sem annað en líffræðilegt kyn við fæðingu gefur til kynna. Leiðtogar vara við að þeir sem fari í gegnum félagslega umbreytingu muni upplifa einhverjar takmarkanir kirkjuaðildar meðan á þessum umbreytingum stendur.

Takmarkanirnar eru meðal annars að ekki er mögulegt að taka á móti eða iðka prestdæmið, fá eða nota musterismeðmæli og taka á móti sumum kirkjuköllunum. Þó að sum forréttindi kirkjuaðildar séu takmörkuð, þá er önnur kirkjuþátttaka velkomin.

Ef meðlimur ákveður að breyta eigin nafni eða persónufornafni, má skrá hið valda nafn í reitinn fyrir valið nafn í meðlimaskýrslunni. Einstaklingurinn getur verið nefndur því nafni í deildinni.

Aðstæður geta verið breytilegar frá einingu til einingar og einstaklingi til einstaklings. Meðlimir og leiðtogar ráðgast saman og með Drottni. Svæðisforsætisráð munu hjálpa staðarleiðtogum að takast á við hvert einstakt tilfelli af næmni. Biskup ráðfærir sig við stikuforsetann. Stikuforsetar og trúboðsforsetar verða að leita ráða hjá svæðisforsætisráðinu (sjá 32.6.3).

38.7

Læknis- og heilbrigðisreglur

38.7.2

Greftrun og líkbrennsla

Fjölskylda látinnar manneskju ákveður hvort líkami hans eða hennar verði greftraður eða brenndur. Hún virðir óskir einstaklingsins.

Í sumum löndum krefjast lögin líkbrennslu. Í öðrum tilfellum er greftrun ekki skynsamleg eða viðráðanleg fjárhagslega fyrir fjölskylduna. Í öllum tilfellum ætti að koma fram við líkamann af virðingu og lotningu. Meðlimir ættu að vera fullvissir um að kraftur upprisunnar eigi ávallt við (sjá Alma 11:42–45).

Þar sem það er mögulegt, ætti líkami látins meðlims með musterisgjöf að vera klæddur í musterisskrúða þegar hann er greftraður eða brenndur (sjá 38.5.8).

38.7.3

Börn sem deyja fyrir fæðingu (andvana fæðing og fósturlát)

Foreldrar ákveða hvort halda eigi minningarstund eða athöfn við gröfina.

Musterishelgiathafnir eru ekki nauðsynlegar né eru þær framkvæmdar fyrir börn sem dóu fyrir fæðingu. Þetta útilokar ekki þann möguleika að þessi börn geti orðið hluti af fjölskyldunni í eilífðinni. Foreldrar eru hvattir til að treysta Drottni og leita huggunar hans.

38.7.4

Líknardráp

Jarðlífið er dýrmæt gjöf Guðs. Með líknardrápi er vísvitandi verið að enda líf einstaklings sem þjáist af ólæknandi sjúkdómi eða öðru ástandi. Einstaklingur sem tekur þátt í líknardrápi, þar á meðal að aðstoða einhvern við að deyja með sjálfsvígi, brýtur gegn boðorðum Guðs og kann að brjóta lögin á svæðinu.

Það er ekki talið líknardráp að hætta lífsbjörgunaraðgerðum á einstaklingi við lok lífs (sjá 38.7.11).

38.7.5

HIV-sýking og alnæmi

Meðlimir sem eru með HIV-veiruna (human immunodeficiency virus) eða sem eru með alnæmi [AIDS] (acquired immunodeficiency syndrome) ættu að vera velkomnir á kirkjusamkomum og athöfnum. Nærvera þeirra er ekki heilsuvá fyrir aðra.

38.7.8

Heilsugæsla

Samkvæmt vilja Drottins er það að leita sér hæfrar læknishjálpar, iðka trú og þiggja prestdæmisblessanir allt samverkandi fyrir lækningu.

Meðlimir ættu ekki að stunda eða auglýsa lækningar né heilsuiðkun sem er siðferðislega, andlega eða lagalega vafasöm. Þeir sem eiga við heilsufarsvanda að stríða ættu að leita ráða hjá hæfum heilbrigðisstarfsmönnum sem hafa tilskilin starfsleyfi á því sviði sem þeir iðka sitt fag.

38.7.9

Marijúana í lækningarskyni

Kirkjan er mótfallin notkun marijúana nema í lækningarskyni. Sjá 38.7.14.

38.7.11

Að lengja líf (þar með talið með öndunarvél)

Meðlimir ættu ekki að finnast þeir skyldugir að lengja jarðlífið með öfgafullum aðgerðum. Þessar ákvarðanir eru best teknar af einstaklingnum, ef mögulegt, eða fjölskyldumeðlimum. Þeir ættu að leita álits hæfra lækna og andlegrar leiðsagnar í bæn.

38.7.13

Bólusetningar

Bólusetningar í höndum hæfra heilbrigðisstarfsmanna vernda heilsu og viðhalda lífi. Meðlimir kirkjunnar eru hvattir til að vernda sig, börn sín og samfélagið með bólusetningum.

Á endanum eru einstaklingar ábyrgir fyrir því að taka eigin ákvarðanir um bólusetningar. Ef meðlimir hafa áhyggjur, ættu þeir að ræða við hæfa heilbrigðisstarfsmenn og leita einnig leiðsagnar heilags anda.

38.7.14

Vísdómsorðið og heilbrigðisiðkun

Vísdómsorðið er boðorð Guðs. Spámenn hafa gert það ljóst að kenningarnar í Kenningu og sáttmálum 89 feli í sér bindindi á tóbak, sterka drykki (áfengi) og heita drykki (te og kaffi).

Til eru önnur skaðleg efni og iðkun sem ekki eru tekin fram í Vísdómsorðinu eða af kirkjuleiðtogum. Meðlimir ættu að nota visku og dómgreind í bænarhug við að taka ákvarðanir til að stuðla að líkamlegri, andlegri og tilfinningalegri heilsu þeirra.

38.8

Stjórnsýslureglur

38.8.1

Ættleiðing og fóstur

Það getur blessað bæði börn og fjölskyldur að ættleiða og veita fósturheimili. Ástríkar, eilífar fjölskyldur geta mótast í gegnum ættleiðingu. Hvort sem börnin koma inn í fjölskyldu í gegnum ættleiðingu eða fæðingu, eru þau jafn dýrmæt blessun.

Meðlimir sem leitast við að ættleiða eða taka börn í fóstur ættu að hlýða öllum viðkomandi lögum landsins og yfirvalda sem eiga hlut að máli.

38.8.4

Eiginhandaráritanir og ljósmyndir af aðalvaldhöfum, aðalembættismönnum og svæðishöfum Sjötíu

Meðlimir kirkjunnar ættu ekki að leitast við að fá eiginhandaráritanir aðalvaldhafa, aðalembættismanna eða svæðishafa Sjötíu. Slíkt dregur úr helgi köllunar þeirra og andríki samkoma. Það gæti einnig komið í veg fyrir að þeir heilsi upp á meðlimina.

Meðlimir ættu ekki að taka ljósmyndir af aðalvaldhöfum, aðalembættismönnum eða svæðishöfum Sjötíu í samkomusal.

38.8.7

Kirkjutímarit

Kirkjutímaritin eru:

Æðsta forsætisráðið hvetur alla meðlimi til að lesa kirkjutímaritin. Tímaritin geta hjálpað meðlimum að læra fagnaðarerindi Jesú Krists, læra kenningar lifandi spámanna, finna tengingu við heimskirkjuna, takast á við áskoranir í trú og koma nær Guði.

38.8.8

Nafn kirkjunnar, orðmerki og tákn

Ljósmynd
Orðmerki kirkjunnar og tákn

Nafn kirkjunnar, orðmerki og tákn eru aðalauðkenni kirkjunnar.

Orðmerki og tákn. Orðmerki kirkjunnar og tákn (sjá teikningu að ofan) skal eingöngu nota ef Æðsta forsætisráðið og Tólfpostulasveitin hafa veitt leyfi. Ekki má nota þau til skreytingar. Það má heldur ekki nota þau í einhverri persónulegri auglýsingu eða auglýsingaherferð.

38.8.10

Tölvur

Höfuðstöðvar kirkjunnar eða svæðisskrifstofan veitir og viðheldur þeim tölvum og hugbúnaði sem notaður er í samkomuhúsum kirkjunnar. Leiðtogar og meðlimir nota þessi aðföng til styrktar tilgangi kirkjunnar, að meðtöldu ættarsögustarfi.

Allur hugbúnaður á þessum tölvum er skráður á kirkjuna.

38.8.12

Námsefni

Kirkjan veitir námsefni til að hjálpa meðlimum að læra og lifa eftir fagnaðarerindi Jesú Krists. Þar á meðal eru ritningarnar, boðskapur aðalráðstefna, tímarit, handbækur, bækur og annað efni. Leiðtogar hvetja meðlimi til að nota ritningarnar og annað efni eins og þörf krefur, til að læra fagnaðarerindið heima við.

38.8.14

Klæðnaður og útlit

Meðlimir kirkjunnar eru hvattir til að sýna líkama sínum virðingu í vali þeirra á klæðnaði og útliti. Það sem er viðeigandi fer eftir mismunandi menningu og tilfellum.

38.8.16

Dagur föstu

Meðlimir mega fasta hvenær sem er. Hins vegar fasta þeir yfirleitt fyrsta hvíldardag hvers mánaðar.

Dagur föstu felur yfirleitt í sér bænir, að vera án matar og drykkjar í 24 klukkutíma (ef það er líkamlega mögulegt) og að gefa örlátlega í föstusjóð. Föstufórn er framlag til að hjálpa þeim sem eru þurfandi (sjá 22.2.2).

Stundum eru samkomur í kirkjunni í heild eða staðarsamkomur haldnar á fyrsta hvíldardegi mánaðarins. Þegar þetta gerist, ákvarðar stikuforsætisráðið annan hvíldardag fyrir dag föstu.

38.8.17

Fjárhættuspil og happdrætti

Kirkjan er andvíg hvers kyns fjárhættuspili og ræður gegn því. Þetta á meðal annars við um íþróttaveðmál og happdrætti sem studd eru af stjórnvöldum.

38.8.19

Innflytjendur

Meðlimir sem dvelja í sínu heimalandi fá oft tækifæri til að byggja upp og styrkja kirkjuna þar. Hins vegar er það persónulegt val að flytja til annars lands.

Meðlimir sem flytja til annarra landa ættu að fylgja öllum gildandi lögum (sjá Kenning og sáttmálar 58:21).

Trúboðar ættu ekki að bjóðast til að vera stuðningsaðili fyrir aðflutning annarra.

38.8.22

Landslög

Meðlimir ættu að hlýða, heiðra og styðja lög í hverju því landi sem þeir búa eða ferðast til (sjá Kenning og sáttmálar 58:21–22; Trúaratriðin 1:12). Það á líka við um lög sem banna trúboð.

38.8.25

Samskipti meðlima við höfuðstöðvar kirkjunnar

Kirkjumeðlimir eru lattir frá því að hringja, senda tölvupóst eða skrifa bréf til aðalvaldhafa varðandi kenningarlegar spurningar, persónulegar áskoranir eða beiðnir. Meðlimir eru hvattir til að hafa samband við staðarleiðtoga sína, þar með talda forseta Líknarfélagsins eða öldungasveitar, í leit að andlegri leiðsögn (sjá 31.3).

38.8.27

Meðlimir með fötlun

Leiðtogar og meðlimir eru hvattir til að takast á við þarfir allra sem búa innan einingar þeirra. Meðlimir með fötlun eru jafngildir og geta lagt af mörkum á þýðingarmikinn hátt. Fötlunin getur verið vitsmunaleg, félagsleg, tilfinningaleg eða líkamleg.

38.8.29

Önnur trúarbrögð

Margt er að finna í öðrum trúarbrögðum sem er uppbyggjandi, göfugt og verðugt hæstu virðingar. Trúboðar og aðrir meðlimir verða að sýna næmni og virðingu gagnvart trú og hefðum annarra.

38.8.30

Athafnir sem eru stjórnmálalegs eða borgaralegs eðlis

Kirkjumeðlimir eru hvattir til að taka þátt í stjórnmálalegum og stjórnarfarslegum málefnum. Í mörgum löndum gæti það verið:

  • Að kjósa.

  • Að skrá sig í eða þjóna í stjórnmálaflokkum.

  • Veita fjárhagsstuðning.

  • Vera í samskiptum við flokksleiðtoga og frambjóðendur.

  • Þjóna í kjörnu eða skipuðu embætti í svæðis- eða landsstjórn.

Meðlimir eru einnig hvattir til að taka þátt í verðugum málstað til að gera samfélag þeirra að heilnæmum stað til að búa í og ala upp fjölskyldur.

Staðarleiðtogar ættu ekki að safna meðlimum saman til að taka þátt í stjórnmálalegum málefnum. Né ættu leiðtogar að reyna að hafa áhrif á þátttöku meðlima.

Leiðtogar og meðlimir ættu einnig að forðast yfirlýsingar eða hegðun sem væri hægt að túlka sem stuðning kirkjunnar við hvers kyns stjórnmálaflokk, málefni, stefnu eða frambjóðanda.

38.8.31

Einkalíf meðlima

Kirkjuleiðtogum ber skylda til að vernda einkalíf meðlima. Kirkjuskýrslur, skrár og sams konar efni má ekki nota fyrir persónulegan, viðskiptalegan eða stjórnmálalegan tilgang.

38.8.35

Flóttafólk

Sem hluti af ábyrgð kirkjumeðlima að annast hina þurfandi (sjá Mósía 4:26), bjóða þeir fram tíma sinn, hæfileika og vináttu til að bjóða flóttafólk velkomið sem meðlimi samfélagsins.

38.8.36

Beiðnir um fjárhagsaðstoð kirkjunnar

Meðlimir sem eru þurfandi eru hvattir til að tala við biskup sinn, frekar en að hafa samband við höfuðstöðvar kirkjunnar eða biðja um peninga frá öðrum leiðtogum kirkjunnar eða meðlimum.

Prenta