Ritningar
Eter 8


8. Kapítuli

Sundurlyndi og deilur eru um allt ríkið — Akis stofnar til eiðbundinna leynisamtaka um að drepa konunginn — Leynisamtök eru af djöflinum og afleiðing þeirra er tortíming þjóða — Þjóðir nútímans varaðar við leynisamtökum, sem munu reyna að kollvarpa frelsi allra landa og þjóða.

1 Og svo bar við, að hann gat Ómer, og Ómer ríkti í hans stað. Og Ómer gat Jared, og Jared gat syni og dætur.

2 Og Jared reis gegn föður sínum og fór og bjó í Hetlandi. Og svo bar við, að honum tókst með slægð að tæla marga, uns hann náði hálfu ríkinu.

3 Og þegar hann hafði náð hálfu ríkinu, réðst hann til orrustu við föður sinn, og hann flutti föður sinn burt í ánauð og lét hann þræla í ánauðinni —

4 Og á valdatíma Ómers eyddi hann helmingi ævi sinnar í ánauð. Og svo bar við, að hann gat syni og dætur, en á meðal þeirra voru Esrom og Kóríantumr —

5 Og þeir voru mjög reiðir vegna breytni Jareds bróður síns, og þeir söfnuðu liði og börðust við Jared. Og svo bar við, að þeir háðu orrustu við hann að nóttu til.

6 Og svo bar við, að þegar þeir höfðu drepið hermenn Jareds, ætluðu þeir að drepa hann einnig, en hann grátbændi þá að drepa sig ekki og lofaði að eftirláta föður sínum ríki sitt. Og svo bar við, að þeir þyrmdu lífi hans.

7 En nú varð Jared ákaflega hryggur yfir missi ríkisins, því að ríkið og vegsemd heimsins áttu hjarta hans.

8 Þegar dóttir Jareds, sem var mjög hyggin, sá hryggð föður síns, hugsaði hún ráð til að endurvinna ríkið fyrir föður sinn.

9 En dóttir Jareds var ákaflega fríð sýnum. Og svo bar við, að hún ræddi við föður sinn og sagði: Hvers vegna hryggist faðir minn svo mjög? Hefur hann ekki lesið heimildirnar, sem feður okkar fluttu með sér yfir hið mikla djúp? Sjá. Er þar ekki að finna frásögn af því, er þeir til forna náðu konungdómum og mikilli dýrð með leyniráðum?

10 Þess vegna skal faðir minn senda eftir Akis, syni Kimnors. Og sjá. Ég er fríð sýnum, og ég mun dansa fyrir hann og mun geðjast honum svo, að hann mun vilja fá mig fyrir eiginkonu. Og ef hann þá óskar þess af þér, að þú gefir sér mig fyrir eiginkonu, skaltu segja: Ég skal gefa þér hana, ef þú færir mér höfuð föður míns, konungsins.

11 En Ómer var vinur Akisar, og þegar Jared hafði sent eftir Akis, dansaði dóttir Jareds fyrir hann, og hún geðjaðist honum svo, að hann vildi fá hana fyrir eiginkonu. Og svo bar við, að hann sagði við Jared: Gef mér hana fyrir eiginkonu.

12 En Jared sagði við hann: Ég skal gefa þér hana, ef þú vilt færa mér höfuð föður míns, konungsins.

13 Og svo bar við, að Akis safnaði öllu ættfólki sínu til húss Jareds og sagði við það: Viljið þið sverja þess eiða að vera mér trú í öllu, sem ég bið ykkur um?

14 Og svo bar við, að það sór þess eið við Guð á himnum og einnig við himna og jörð og við höfuð sitt, að hver sá, sem viki sér undan því að veita Akis lið, skyldi missa höfuð sitt, og hver, sem mundi uppljóstra því, sem Akis segði, skyldi týna lífi sínu.

15 Og svo bar við, að þannig samsinnti það Akis. Og Akis lét það vinna þá eiða, sem menn til forna höfðu einnig svarið, þegar þeir sóttust eftir völdum, en eiðar þessir höfðu gengið mann fram af manni allt frá Kain, sem var morðingi frá upphafi.

16 Og með krafti djöfulsins voru þeir varðveittir, svo að fólkið gengist undir þá og héldist í myrkri og hjálpaði þeim, sem sóttust eftir yfirráðum til að ná völdum og myrða, ræna, ljúga og drýgja alls kyns ranglæti og hórdóma.

17 En það var dóttir Jareds, sem gaf honum hugmyndina um að leita þessara hluta aftan úr fortíðinni, og Jared læddi hugmyndinni áfram til Akisar. Þess vegna fræddi Akis ættmenn sína og vini um þetta og leiddi þá afvega með fögrum loforðum um allt, sem hugur þeirra girntist.

18 Og svo bar við, að þeir mynduðu leynisamtök, já, eins og til forna, en slík samtök eru viðurstyggilegri og ranglátari en allt annað í augum Guðs-

19 Því að Drottinn vinnur ekki í leyndum samtökum, né heldur vill hann, að maðurinn úthelli blóði, heldur hefur hann með öllu bannað það, frá upphafi mannsins.

20 En ég, Moróní, rita ekki um eðli eiða þeirra né samtaka, því að mér hefur verið kunngjört, að slíkt sé meðal allra manna og einnig meðal Lamaníta.

21 Og það hefur valdið tortímingu þeirrar þjóðar, sem ég nú tala um, og einnig tortímingu Nefíþjóðarinnar.

22 Og hverri þjóð, sem styður slík leynisamtök til valda og auðs, þar til þau eru útbreidd orðin meðal þjóðarinnar, sjá, henni skal tortímt. Því að Drottinn mun ekki leyfa, að blóð hans heilögu, sem hún mun úthella, hrópi stöðugt til hans úr jörðunni um hefnd yfir hana, án þess að hefna þeirra.

23 Ó, þér Þjóðir. Einmitt þess vegna er það viska Guðs, að þetta sé yður sýnt, svo að með því megið þér iðrast synda yðar og leyfið ekki þessum morðsamtökum, sem stofnuð eru til að ná völdum og auði, að ná tökum á yður — Og þetta verk, já, verk tortímingar kemur yfir yður, jafnvel sverð réttvísi hins eilífa Guðs fellur yfir yður, yður til falls og tortímingar, ef þér leyfið slíkt.

24 Þess vegna býður Drottinn yður, að þegar þér sjáið slíkt koma yðar á meðal, þá skuluð þér vakna til fullrar vitundar um hörmulegt ástand yðar vegna þeirra leynisamtaka, sem meðal yðar eru. Eða vei sé þeim vegna þess blóðs, sem úthellt hefur verið, því að það hrópar úr duftinu á hefnd yfir þau og einnig yfir þá, sem komu þeim á fót.

25 Því að svo ber við, að hver sá, sem byggir slíkt upp, leitast við að útrýma frelsi allra landa, þjóða og ríkja. Og slíkt felur í sér tortímingu allra þjóða, því að það er uppbyggt af djöflinum, sem er faðir allra lyga, já, einmitt hinum sama lygara og tældi fyrstu foreldra okkar, já, hinum sama lygara og lét manninn fremja morð frá fyrstu tíð og sem hert hefur hjörtu manna, svo að þeir hafa myrt spámennina og grýtt þá og vísað þeim burt frá upphafi.

26 Þess vegna er mér, Moróní, boðið að rita þetta, svo að hið illa verði afnumið og sá tími komi, að Satan hafi ekkert vald yfir hjörtum mannanna barna, heldur hneigist þau stöðugt til góðra verka og rati að uppsprettu alls réttlætis og láti frelsast.