Námshjálp
ÞJS, Rómverjabréfið 7


ÞJS, Rómverjabréfið 7:5–27. Samanber Rómverjabréfið 7:5–25

Einungis Kristur hefur kraft til að breyta sálum manna varanlega til góðs.

5 Þegar vér vorum í holdinu, störfuðu ástríður syndanna, sem ekki voru í samræmi við lögmálið, í limum vorum og báru dauðanum ávöxt.

6 En nú erum vér leystir undan lögmálinu, sem hélt oss bundnum, þar sem vér erum dánir lögmálinu, til að vér þjónum í nýjung anda, en ekki í fyrnsku bókstafs.

7 Hvað eigum vér þá að segja? Er lögmálið synd? Fjarri fer því. Nei, ég þekkti ekki syndina nema fyrir lögmálið. Því að ég hefði ekki vitað um girndina hefði ekki lögmálið sagt: Þú skalt ekki girnast.

8 En syndin sætti lagi og vakti í mér alls kyns girnd með boðorðinu. Því án lögmáls er syndin dauð.

9 Því að einu sinni lifði ég án lögmálsbrots, en er boðorð Krists kom lifnaði syndin, en ég dó.

10 Og þegar ég trúði ekki boðorði Krists, sem kom og var vígt til lífs, sá ég að það dæmdi mig til dauða.

11 Því að syndin sætti lagi, afneitaði boðorðinu og blekkti mig, og deyddi mig með því.

12 Engu að síður komst ég að því að lögmálið er heilagt og boðorðið heilagt, réttlátt og gott.

13 Varð þá hið góða mér til dauða? Fjarri fer því! Heldur syndin. Til þess að hún birtist sem synd, olli hún mér dauða með því, sem gott er. Að syndin skyldi verða yfir sig syndug fyrir boðorðið.

14 Því að vér vitum að boðorðið er andlegt, en er ég var undir lögmálinu, var ég enn holdlegur, seldur undir syndina.

15 En nú er ég andlegur, því að það sem mér er boðið að gjöra, það gjöri ég, og það sem mér er boðið að leyfa ekki, leyfi ég ekki.

16 Því að það sem ég veit að ekki er rétt, gjöri ég ekki, og það sem er synd hata ég.

17 Ef ég því gjöri ekki það sem ég leyfi ekki, er ég samþykkur lögmálinu, sem er gott, og ég verð ekki dæmdur.

18 En nú syndga ég ekki lengur, heldur leitast við að yfirbuga syndina sem í mér býr.

19 Því að ég veit að í mér, það er í holdi mínu, býr ekkert gott. Að vilja er í mér, en að framkvæma það sem gott er finn ég ekki nema í Kristi.

20 Því að hið góða sem ég hefði gjört undir lögmálinu, er ekki gott, og því gjöri ég það ekki.

21 En hið illa, sem ég hefði ekki gjört undir lögmálinu, finn ég að er gott og það gjöri ég.

22 Ef ég nú gjöri það, með aðstoð Krists, sem ég hefði ekki gjört undir lögmálinu, er ég ekki undir lögmálið settur, og ég vil ekki lengur gjöra rangt, heldur sigra syndina sem býr í mér.

23 Ég finn því að þegar ég vildi gjöra gott undir lögmálinu var hið illa með mér; því að innra með mér hef ég mætur á lögmáli Guðs.

24 En ég sé annað lögmál, já, boðorð Krists, og það er innprentað í huga minn.

25 En limir mínir berjast gegn lögmáli huga míns og fjötra mig lögmáli syndarinnar í limum mínum.

26 Og ef ég sigra ekki syndina, sem í mér er, heldur þjóna lögmáli syndarinnar með holdi mínu, ó, aumur maður er ég! Hver mun bjarga mér frá þessum dauðans líkama?

27 Ég þakka þá Guði fyrir Jesú Krist, Drottin vorn, svo að ég þjóni sjálfur lögmáli Guðs með huga mínum.

Prenta