Lifir þú af hálfum huga eftir fagnaðarerindinu?
Viðhorf okkar til kirkjulegrar ábyrgðar okkar, gerir í raun gæfumuninn.
„Verð ég?“
Hefur þessi hugsun einhvern tíma hvarflað að ykkur? Slíkar hugrenningar hafa oft komið upp í huga minn. Mér hefur lærst að slíkar hugsanir, sem virðast ómerkilegar, séu mikilvægur mælikvarði á eigið viðhorf. Vissulega getum við öll liðsinnt og þjónað öðrum, tekið á móti og framfylgt köllunum og sótt samfundi okkar í kirkjunni. Þetta getur gert gæfumuninn í lífi okkar, jafnvel þótt hálfur hugur sé þar að baki. Getur það hins vegar takmarkað möguleika Guðs til að nota okkur? Getur það takmarkað möguleika Guðs til að umbreyta okkur? Ég tel að það geri það.
Við þessar hugrenningar verður mér hugsað til Lamans og Lemúels, sem yfirgáfu Jerúsalem, fóru aftur til að ná í töflurnar, aðstoðuðu við skipasmíðina og gerðu ótal margt annað af hlýðni – en þeir gerðu þetta möglandi og hálfs hugar. Þeir leyfðu ekki að lífsins reynsla breytti þeim til hins betra. Þess í stað mögluðu þeir stöðugt og viðhorf þeirra einkenndist af slæmu hugarfari gagnvart öllum þeim aðstæðum sem þeir upplifðu sig í. Eftir að hafa áttað mig á þessu, vil ég í raun ekki vera Laman eða Lemúel.
Gefið ykkur stund til að íhuga hinn raunverulega ásetning verka ykkar. Einblínið þið á blessanirnar sem ykkur sjálfum eru geymdar þegar þið liðsinnið öðrum? Liðsinnið þið kannski öðrum öllu heldur af þrá til að miðla þeim ljósi og kærleika? Gerið þið allt sem köllun ykkar krefst af ykkur af því að þess er vænst af ykkur? Gerið þið það kannski öllu heldur af þrá til að þjóna Drottni og fólki umhverfis ykkur?
Þetta eru spurningar sem ég legg fyrir sjálfan mig endrum og eins. Geri ég allt sem ég get af einlægum ásetningi til að vera sannur lærisveinn Krists? Er hjarta mitt kannski ekki heilskipt í því? Ég held að Gérald Caussé biskup, Yfirbiskup kirkjunnar, hafi orðað þetta best: „Eruð þið virk í fagnaðarerindinu eða einungis önnum kafin í kirkjunni?“ („It Is All about People,“ Liahona, maí 2018, 112).
Virkni og annir
Þegar ég er einungis „önnum kafinn“ í kirkjunni, finnst mér tómlæti eiga greiðari aðgang að huga mínum. Slíkt tómlæti getur stafað af minni eldmóð eða jafnvel af því að leyfa að síður mikilvæg verkefni taki yfir þau sem í raun skipta máli. Slíkt tómlæti nær tökum á mér þegar ég missi athyglina í sæti mínu á sakramentissamkomu, þegar ég er annars hugar við kvöldbænir mínar, þegar ég les ritningarnar í flýti án þess að íhuga þær eða þegar ég liðsinni einhverjum aðeins til að geta sagt að ég hafi gert það, fremur en að sýna einlæga vináttu.
Stundum veldur það mér skapraunum þegar mér finnst engar framfarir hafa orðið í lífi mínu – þegar ég er einfaldlega sinnulaus og „önnum kafinn“ í fagnaðarerindinu – og slíkar tilfinningar verða viðvarandi þar til ég hef áttað mig á vandanum. Stundum verð ég að halla mér aftur, ná áttum og spyrja mig sjálfan: „Er ég einbeittur og heilskiptur varðandi þessa köllun, þennan einstakling eða þetta ritningavers einmitt núna?“
Stundum, eftir slíkar hugljómanir, eiga sér stað raunverulegar breytingar í lífi mínu. Þegar ég bið þess af einlægni að sjá aðra eins og himneskur faðir sér þá, þegar ég bið um tækifæri til þjónustu, þegar ég bið um leiðsögn í köllun minni, í vinnunni og í daglegu lífi, og það sem mikilvægast er, þegar verk mín stjórnast af eigin innri þrá til að verða betri maður – er það einmitt þá sem ég er virkur í fagnaðarerindinu. Það er einmitt þá sem ég upplifi sanna viðhorfsbreytingu í hjarta og sál. Það er einmitt þá sem ég sé dásamlega hluti gerast. Það er einmitt þá sem ég finn sanna hamingju fylla líf mitt. Það er einmitt þá sem ég reyni af sanni að breytast til hins betra.
Verk og tilfinningar
Ég tel okkur öll geta horft um öxl á einhver göfug verk, þar sem tilfinningar okkar voru ekki í samhljóm við verkin. Stundum verður lífið annasamt, stundum erum við ekki fyllilega hamingjusöm í aðstæðum lífsins og stundum fara hlutirnir öðruvísi en við væntum. Við erum ekki fullkomin, en ef við biðjum himneskan föður um hjálp við að vera heilskipt í því sem okkur er falið og getur stundum verið leiðigjarnt eða tímafrekt, getur okkur lærst að gera það á kristilegri hátt.
Ég minnist þess að hafa tekið treglega að mér þjónustuverk, aðeins til að upplifa umbreytingu og mildun hjartans að þeim loknum. Ég minnist þess að hafa fengið köllun og möglað yfir að hún væri of tímafrek, aðeins til að fella ljúfsár tár við aflausn hennar, því með tímanum hafði hún orðið mér kær.
Við getum miðlað ljósi, framfylgt ábyrgð okkar og hlotið bænheyrslu með góðum árangri, ef hjartað er á réttum stað. Ef við gefum okkur tíma til að skoða viðhorfið og ásetninginn að baki verka okkar, og gerum allt sem við getum „í hjartans einlægni [og] með einbeittum huga“ (Moró 10:4), munum við skilja betur leiðsögn himnesks föður, finna aukna gleði og hafa mikil áhrif á eigið líf og annarra.