2019
Minnist ekkjunnar frá Nain á stundum vonleysis
Apríl 2019


Minnist ekkjunnar frá Nain á stundum vonleysis

Einkum þegar okkur finnst við gleymd eða lítilsvirt, verðum við að hafa í huga: Jesús kom ekkjunni til hjálpar einmitt á stund neyðar og hann mun líka koma til okkar.

the widow of Nain

Stundum gæti okkur fundist, í lífsins gleði og sorgum, að Guð láti ekki mikið að sér kveða í okkar daglega lífi. Lífsmunstur okkar virðist fremur leiðigjarnt og einhæft. Tilbreyting er af skornum skammti og stundum reynist erfitt að greina bein inngrip Guðs í aðstæður okkar. Alltaf þegar slík vanmáttartilfinning yfirtekur mig, hugsa ég oft um konu nokkra í Nýja testamentinu, sem gæti hafa upplifað hið sama. Hún er ekki nafngreind í ritningunum, en einfaldlega auðkennd af nafni þorpsins sem hún bjó í og hjúskaparstöðu sinni.

Konan er ekkjan frá Nain og einungis guðspjallamaðurinn Lúkas greinir frá undursamlegri sögu hennar. Mér finnst hún vera táknræn fyrir undirstöðu persónulegrar þjónustu frelsarans og hvernig hann liðsinnti hinum vondaufu meðal almúga þess tíma. Þessi frásögn tekur af allan vafa um það hvort Guð þekkir okkur og lætur sér annt um okkur.

Stutt samantekt á kraftaverkinu í 7. kapítula í Lúkas, segir frá því að Jesús hafi stöðvað líkfylgd og reist upp til lífs að nýju látinn ungan mann. Það er þó margt annað sem skilja má af þessari sviðsetningu. Líkt og á við um öll kraftaverk, einkum þó þetta, þá er samhengið mikilvægt til að fá skilið þennan atburð. Þar sem ég hef kennt í Jerúsalem-miðstöð Brigham Young háskóla, mun ég greina frá mínum persónulega skilningi á þessu kraftaverki.

Nain var lítið bændaþorp á tíma Jesú, við rætur Mórefjalls, sem markar austurhlið Jesreeldalsins. Þorpið sjálft var fjarri umferðarveg. Aðgangur að því einskorðaðist við einn veg. Á tíma Jesú var byggðin þar fámenn og tiltölulega fátæk og hefur verið það alla tíð síðan. Á stundum í sögu þorpsins hefur fjöldi hús þar ekki verið nema 34 og íbúar aðeins 189 talsins.1 Á okkar tíma búa þar um 1.500 manns.

Lúkas hefur frásögn sína á því að segja að Jesús hefði verið í Kapernaum deginum áður og læknað þar þjón hundraðshöfðingjans (sjá Lúk 7:1–10). Við lesum að „skömmu síðar” (vers 11; leturbreyting hér), hafi frelsarinn haldið til þorps sem heitir Nain, með marga lærisveina með í för. Atburðarásin er hér afar mikilvæg. Kapernaum er staðsett við norðurströnd Galelíuvatns, um 183 metrum neðan sjávarmáls. Nain er um 48 kílómetrum suðvestan við Kapernaum, um 213 metrum ofan sjávarmáls, og því er erfið uppganga að fara til Nain. Ganga frá Kapernaum til Nain hefði hið minnsta tekið einn eða tvo daga. Nýlega tók það hóp ungra nemenda frá Jerúsalem-miðstöð BYU 10 klukkustundir að ganga þangað á slitlögðum vegi. Af því leiðir að Jesús hefur sennilega vaknað afar snemma eða jafnvel gengið að nóttu til að missa ekki af líkfylgdinni „daginn eftir.“2

map of Galilee

Þegar Kristur kom að þorpinu, eftir erfiða ferð, var verið að bera ungan mann, líklega á þrítugs aldri3 út á á líkborði. Lúkas segir að þessi ungi maður hafi verið einkasonur ekkjunnar og sumir fræðimenn telja gríska textann bera þá merkingu að hún hafi engan annan afkomanda átt.4 Fjölmennur hópur þorpsbúa var hjá henni í þessum afar hörmulega viðburði.

Augljóslega væri það öllum harmleikur að missa son, en hugsið ykkur hvað það hafði í för með sér fyrir þessa ekkju. Hvernig það hefði komið niður á henni félagslega, andlega og fjárhagslega að vera ekkja án erfingja í Ísrael til forna. Á tíma Gamla testamentisins var sú skoðun viðvarandi, að ef eiginmaður dæi fyrir aldur fram, væri það til tákns frá Guði um dóm syndar. Þar af leiðandi trúðu sumir því að Guð væri að kalla refsingu yfir þessa eftirlifandi ekkju. Þegar Naomí varð ekkja fyrir aldur fram, eins og sagt er frá í Rutarbók, sagði hún harmþrungin: „Drottinn hefir vitnað í móti mér og hinn Almáttki hrellt mig“ (Rut 1:21, alþjóðleg stöðluð útgáfa).5

Þessi ekkja frá Nain upplifði ekki einungis andlegan og tilfinningalegan sársauka, heldur stóð hún líka frammi fyrir fjárhagsþroti – jafnvel hungursneyð.6 Eftir hjónaband var kona sett í umsjá fjölskyldu eiginmanns síns, svo hún nyti fjáhagslegs öryggis. Ef eiginmaður hennar andaðist, var elsta syni hennar skylt að sjá henni fyrir framfærslu. Þessi ekkja hafði engan lengur til að styðja sig fjárhagslega, þar sem einkasonur hennar var nú látinn. Hafi sonur hennar verið á þrítugsaldri þegar hann lést, var hún líklega miðaldra kona, sem bjó í afviknu bændaþorpi og var nú andlega, félagslega og fjárhagslega bjargarlaus.

widow of Nain with the Savior

Á nákvæmlega réttum tímapunkti, er þorpsbúar voru að bera son ekkjunnar út til greftrunar, kom Jesús að útförinni og „kenndi hann í brjósti um hana“ (Lúk 7:13). Í raun gæti verið að Lúkas hafi hér tekið of vægt til orða. Jesús vissi á einhvern hátt af mikilli örvæntingu þessarar ekkju. Kannski hafði hún varið nóttinni á óhreinu gólfi sínu, grátbiðjandi himneskan föður um skilning á þessu. Kannski hafði hún jafnvel opinskátt efast og spurt af hverju hann vildi að hún lifði lengur á þessari jörðu. Kannski var hún bara skelfingu lostin yfir þeirri einsemd sem biði hennar. Við vitum það ekki. Við vitum hins vegar að frelsarinn kaus að halda þegar í stað frá Kapernaum, sem hefði getað falið í sér næturgöngu, til að ná líkfylgdinni í tíma, áður en líkið yrði grafið.

Þegar hann sá társtokkið andlit ekkjunnar, er hún gekk aftan við líkberana, fann Jesús til mikillar samúðar með þessari konu – en svo virðist sem samúð hans ætti rætur í tilfinningum sem hann hafði upplifað löngu fyrir „aðkomu“ sína að líkfylgdinni. Hann kom þar að einmitt á neyðarstundu.

Þá sagði Jesús við ekkjuna: „Grát þú eigi“ (vers 13). Óttalaus við trúarlegan óhreinleika, „snart [hann] líkbörurnar“ og líkberarnir „námu staðar.“ Þá bauð hann: „Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!

widow with son

Hinn látni settist þá upp og tók að mæla, og Jesús gaf hann móður hans“ (vers 14–15). Auðvitað urðu þorpsbúar og fylgjendur Jesú gagnteknir er sameiginleg sorg þeirra varð að innilegri gleði. Allir þar „vegsömuðu Guð og sögðu: ,Spámaður mikill er risinn upp meðal vor‘“ (vers 16). Þetta kraftaverk fólst líka í því að koma einni örvæntingarfullri sál til bjargar. Jesús vissi að þessi kona var í skelfilegum aðstæðum – sem samfélag þess tíma leit niður á. Aðstæður hennar hrópuðu á að hann kæmi þegar í stað til hjálpar, þótt hann hefði þurft að leggja á sig langferð og vera þar á nákvæmlega réttum tíma. Hann vissi af örvæntingu konunnar og brást skjótt við. Thomas S. Monson forseti (1927–2018) mælti óyggjandi sannleika þessum orðum: „Þegar við dag einn horfum um farinn veg, munum við sjá að það sem virtust vera tilviljunarkenndir atburðir í lífi okkar, hafi kannski ekki verið svo tilviljunarkenndir þegar uppi er staðið.“7

Hversu upphefjandi sem þessi atburðarás er fyrir okkur, verður hún að vera meira en einungis dásamleg biblíufrásögn. Hún staðfestir óyggjandi að Jesús hafi vitað af þessar fátæku, yfirgefnu og örvæntingarfullu ekkju. Einkum þegar okkur finnst við gleymd eða lítilsvirt, verðum við að hafa í huga: Jesús kom ekkjunni til hjálpar einmitt á stund neyðar og hann mun líka koma til okkar. Auk þessa, getum við líka lært aðra lexíu af fordæmi frelsara okkar, sem er mikilvægi þess að koma öðrum til hjálpar og blessa þá sem umhverfis eru. Margir umhverfis ykkur munu endrum og eins láta hugfallast. Ef þið segið þeim frá „systur Nain“ og hvernig Drottinn hafi vitað nákvæmlega af örvæntingu hennar og mikilli neyð, gæti það breytt nóttu í dag. Minnist þessara áhrifaríku orða Spencers W. Kimball forseti (1895–1985): „Guð gætir að og vakir yfir okkur. En það er venjulega fyrir tilverknað annarra sem hann uppfyllir þarfir okkar.“8

widow hugging her son

Af öllum kraftaverkum Jesú meðan hann var á jörðu, eru fá jafn ljúf og samúðarfull og þjónusta hans við ekkjuna frá Nain. Hún staðfestir að við skiptum hann máli og að við munum aldrei gleymd honum. Við megum ekki gleyma því.

Heimildir

  1. Sjá E. Mills, Census of Palestine 1931: Population of Villages, Towns, and Administrative Areas (1932), 75.

  2. Sjá S. Kent Brown, The Testimony of Luke (2015), 364.

  3. Sjá Brown, The Testimony of Luke, 365.

  4. Sjá Brown, The Testimony of Luke, 365.

  5. Í Jesaja 54:4 segir Drottinn ekkjunni Ísrael að hún skuli „eigi framar minnast svívirðingar ekkjudóms [síns] (ný ensk þýðing).

  6. Sjá Brown, The Testimony of Luke, 365.

  7. Thomas S. Monson, í Joseph B. Wirthlin, „Lessons Learned in the Journey of Life,“ Liahona, maí 2001, 38.

  8. Teachings of Presidents of the Church: Spencer W. Kimball (2006), 82.