2019
Valkostir: Að vera góður listamaður eða góð móðir?
Apríl 2019


Valkostir: Að vera góður listamaður eða góð móðir?

Allir sögðu það ómögulegt að vera góð í hvorutveggja. Er það rétt?

Ég minnist þess að hafa liðið óþægilega í háskóla þegar fjallað var um ævi merkilegra listamanna. Hinir sannlega merku og eftirminnilegu virtust hafa náð stöðu sinni með því að vanrækja fjölskyldu sína og fórna eigin geðheilsu. Merkir listamenn máluðu á jóladagsmorgni, meðan börn þeirra opnuðu pakkana. Einn þeirra var giftur sex sinnum. Annar skar af sér eyrað og sendi það til ástvina sinna. Enn annar varð jafnvel manni að bana! Ég tók að velta því fyrir mér hvort það væri í raun mögulegt að vera góður listamaður og líka góð móðir (og halda jafnframt geðheilsunni!).

Prófessorarnir sögðu að við yrðum að færa fórnir, ef við í raun vildum verða mikilhæf. Við yrðum að leggja harðar að okkur en allir aðrir. Við yrðum að hafa listina í fyrirrúmi í lífi okkar. Ég velti oft fyrir mér þessari spurningu: „Hvað ef listamaður héldi boðorðin, hefði rétta forgangsröðun og hefði anda Drottinn sér til leiðsagnar, gæti hann þá ekki orðið jafn mikilhæfur og hugsanlega enn mikilhæfari?“ Þessi spurning var stöðugt með mér í náminu.

Ég og eiginmaður minn höfðum verið gift í eitt ár þegar við útskrifuðumst. Öldungur Russell M. Nelson (sem var í Tólfpostulasveitnni á þeim tíma) kom og flutti ræðu við útskriftina okkar. Hádegisverður fylgdi á eftir og einungis 16 nemendum var boðið í hann. Svo furðulegt sem það nú var, þá vorum við bæði, ég og eiginmaður minn, útvalinn í þann hóp. Að því kom að umræður urðu opnar fyrir spurningar og svör. Ég rétti upp hönd, horfðist í augu við öldung Nelson og tjáði áhyggjur mínar af því að vera bæði listamaður og móðir. Ég hefði lagt svo hart að mér í skóla við ræktun eigin hæfileika og vildi áfram leggja mig fram og taka framförum, en vissi líka að móðurhlutverkið ætti að vera í fyrirrúmi. Er mögulegt að gera hvorutveggja? Augu öldungs Nelson leiftruðu er hann sagði: „Algjörlega!“ Hann hvatti mig til að bæta eigin hæfni enn frekar og biðja til himnesks föður um hjálp við að vita hvernig ég gæti gert hvorutveggja og benti á að með hans liðsinni gæti ég gert það sem ég hefði áður talið ómögulegt. Ég tók þá leiðsögn alvarlega.

Skuldbundin tilgangi hans

Ég og eiginmaður minn eigum nú fjögur börn. Okkur hefur lærst að takast á við hina mörgu þætti foreldrahlutverksins. Til að byrja með, hóf ég flesta daga klukkan fjögur að morgni til að geta málað eitthvað áður en börnin vöknuðu. Ég reyndi að mála sex daga vikunnar, jafnvel þótt sumir dagar leyfðu einungis 30 mínútur. Ég hóf allar verkstundir með bæn og vissi að ég væri ekki upp á marga fiska án hjálpar Drottins. Ég bað ekki aðeins um velgengni í listinni, heldur líka að fá að vita hvað væri mikilvægast þann daginn, staðráðin í því að hafa tilgang hans í fyrirrúmi. Framfarirnar voru ekki hraðar, en þó stöðugar.

Ég fer nú frá útskriftardegi mínum, tólf ár fram í tímann. Ég var að upplifa uppgjafarstund. Lífið virtist hlaðið önnum. Móðurhlutverkið hafði verið erfiðara en ég vænti. Ég sat grátandi við málaratrönurnar og hugsaði hvort mér ætti í raun eftir að takast að verða sá mikilhæfi listamaður sem mig hafði dreymt um. Ég fann mig knúna til að ná í gömlu dagbókina mína í hillunni og lauk henni upp við færslu 30. apríl, 2006, daginn eftir útskriftina mína. Ég hafði steingleymt hinni undraverðu upplifun minni með Nelson forseta! Á einhvern hátt höfðu lífsins stormar næstum þurrkað þá minningu úr huga mínum. Þarna, fyrir augum mér, voru orð hins núverandi spámanns: „Algjörlega!“ Tárin breyttust í þakkartár, er ég horfði yfir farinn veg og vaknaði til meðvitundar um allt sem ég hafði áorkað frá þeim tíma og ég tók að líta vongóð fram veginn.

Gera hið ómögulega

Nokkrum mánuðum síðar hringdi í mig einn af hönnuðum tímaritsins Ensign, og bað um leyfi til að nota eina teikningu mína á innanverðri kápusíðu aðalráðstefnuútgáfu nóvember 2018. Ég var forviða! Á uppvaxtarárum mínum var alltaf það fyrsta sem ég gerði, er ég fékk kirkjutímaritin í hendur, að skoða allar myndirnar sem í þeim voru. Engin verk voru þar eftir mig! Þegar mér svo bárust þau tíðindi að vilji var til þess að nota mynd eftir mig, prýdda orðum Nelsons forseta, fékk ég greint hönd og hvatningu Guðs.

Ég á enn langa ferð fyrir höndum í listþróun minni, en ég er afar þakklát fyrir von Nelsons forseta á Drottin og okkur. Ég er þakklát fyrir bjartsýni hans og fullvissu. Ég veit, að ef við iðkum trú á Drottin, munum við geta áorkað miklu, jafnvel því sem við áður töldum ómögulegt. „Guði er enginn hlutur um megn“ (Lúk 1:37).