2019
Ákvarðanatökur: Sjálfræði og opinberun
Apríl 2019


Ákvarðanatökur: Sjálfræði og opinberun

Höfundur býr í Utah, Bandaríkjunum.

Hversu mikið þurfum við að reiða okkur á svör Guðs við mikilvægar ákvarðanatökur?

woman standing in front of river

Myndskreyting eftir David Green

Á hverjum degi þurfum við öll að taka margar ákvarðanir. Sumar eru hversdagslegri, líkt og: „Í hvaða fötum ætti ég að vera?“ „Hvað ætti ég að borða í hádeginu?“ „Ætti ég að kaupa nýjan bíl eða halda í þann gamla aðeins lengur?“ Oft þurfum við þó að taka mikilvægari ákvarðanir: „Ætti ég að fara aftur í skóla?“ „Ætti ég að þiggja þetta starf?“ „Ætti ég að flytja til annarar borgar?“ „Ætti ég að kaupa mér hús?“ „Ætti ég að fara á stefnumót með þessum einstaklingi?“ „Ætti ég að giftast þessum einstaklingi?“ og þannig áfram.

Þegar við þurfum að taka mikilvægar ákvarðanir, gefum við okkur yfirleitt lengri tíma – eins og viðeigandi er – til að ákveða okkur. Við fylgjum þá leiðsögninni sem gefin var Oliver Cowdery í Kenningu og sáttmálum 9:8–9, þar sem Drottinn segir:

„En sjá, ég segi þér, að þú verður að kanna það vel í huga þínum, síðan að spyrja mig hvort það sé rétt, og sé það rétt, mun ég láta brjóst þitt brenna hið innra með þér. Þú munt þess vegna finna að það er rétt.

En sé það ekki rétt, munt þú ekkert slíkt finna, heldur aðeins sljóleika, sem veldur því að þú gleymir því sem rangt er.“

Þótt þetta sér vissulega góð leiðsögn, hvað varðar mikilvægar ákvarðanir, þá reiðum við okkur stundum aðeins of mikið á að Guð segi okkur hvað rétt sé að gera og of lítið á að kanna það vel í huga okkar hvað gera skal. Við festumst svo í því að bíða eftir að Guð staðfesti ákvarðanir okkar, að við látum stórkostleg tækifæri fara forgörðum. Við gætum vel skilið hlutverk sjálfræðis, en samt óttast að taka ákvarðanir sem gætu leitt okkur út af spori okkar fyrirfram ákveðnu „áætlunar,“ svo við gerum endanlega ráð fyrir að allt annað en bruni í brjósti eða rödd frá himni merki að ákvörðun okkar sé röng. Hjá mörgum okkar leiðir þessi togstreita á milli sjálfræðis og persónulegrar opinberunar til þessarar mikilvægu spurningar: Hvert er hlutverk Guðs í því að hjálpa okkur að taka ákvarðanir?

Hlutverk Guðs í ákvarðanatökum okkar

Hugsanlega verður þessari spurningu best svarað í frásögninni um bróður Jareds. Þar má finna áhugaverða aðferð vaxtar sem sýnir okkur hvernig Guð ráðgerir að við tökum ákvarðanir. Eftir að tungumálinu hafði verið spillt við Babelsturninn, bað Jared bróður sinn um að spyrja Drottin að því hvort fólkið ætti að yfirgefa landið og, ef svo væri, hvert það ætti þá að fara (sjá Eter 1:36–43). Bróðir Jareds spurði og Drottinn bauð þeim að fara niður að sjávarströnd. Á ferð þeirra þangað talaði Drottinn til þeirra í skýi og leiddi fólkið skref fyrir skref á ferð þess. Það kom loks að sjávarströnd og dvaldi þar í fjögur ár.

Við lok fjórða árs bauð Guð bróður Jareds að smíða yfirbyggða báta og búa fólkið undir að sigla yfir hafið. Þegar bróður Jareds varð ljóst að ekkert súrefni kæmist inn í bátana, gerði hann sem fyrr og spurði Guð hvað gera skildi. Drottinn svaraði og gaf honum nákvæm fyrirmæli, eins og vænta mátti, um að gera op að ofan og neðan á bátunum. Gætið að aðferð opinberunar fram að þessu. Guð gefur þeim áætlun, þeir spyrja hvernig útfæra skuli áætlunina og Guð veitir skýra og skorinorða leiðsögn.

Eftir að bróðir Jareds hafði gert opin í bátana, varð honum ljóst að ekkert ljós væri í þeim. Hann spyr Guð því aftur að því hvað gera skuli. Í stað þess að svara beint, spurði Guð: „Hvað vilt þú, að ég gjöri, til að þið hafið ljós í skipum ykkar?„ (Eter 2:23). Í stað þess að fá nákvæm fyrirmæli, eins og áður, bíður Drottinn þess að bróðir Jareds ákveði hvað gera skuli.

Slíkt svar frá Drottni er hugsanlega erfiðast að skilja við ákvarðanatöku. Okkur er kennt að biðja og bíða svars og því er eðlilegt að við höfum af því áhyggjur að fá ekkert svar. Oft veltum við því fyrir okkur, ef ekkert skýrt svar berst, hvort það geti talist „sljóleiki,“ sem staðfestir að ákvörðun okkar sé röng. Stundum veltum við því líka fyrir okkur hvort við séum ekki nægilega réttlát til að heyra svarið eða hvort við séum að spyrja af „einlægum ásetningi“ (sjá Moró 10:4). Það er þó til annar kostur sem við áttum okkur stundum ekki á – hugsanlega gæti Guð verið að bíða, eins og í tilviki bróður Jareds, eftir að við tökum okkar eigin ákvörðun.

Ákvarðanataka

Ég upplifði nýlega aðstæður sem höfðu áhrif á skilning minn á sjálfræði og persónulegri opinberun. Þegar ég var um það bil að útskrifast úr skóla, buðust mér nokkur starfstilboð í hinum ýmsu borgum og ég átti erfitt með að ákveða hverju skildi taka. Ég hafði, eins og bróðir Jareds, upplifað margar stundir þar sem ég hafði beðist fyrir um mikilvægt ákvörðunarefni og Guð svarað nokkuð afgerandi. Ég vænti því hins sama og tók að biðja um að Guð hjálpaði mér að ákveða hvert starfið skildi taka. Ég gerði líka það sem af mér var krafist með því að kynna mér hvert starfstilboð og leita leiðsagnar hjá mörgum. Engu skipti samt hve mikið ég baðst fyrir og fastaði, himininn var hljóður og ekkert svar barst.

two different cities

Síðasti dagur til ákvörðunar nálgaðist óðum og óðagot koma á mig. Vissulega var þetta ákvörðunarefni sem Drottinn hlyti að láta sig skipta, svo afhverju svaraði hann þá ekki? Kannski lét hann sig engu skipta hvaða starf ég valdi mér, en hann hlýtur að hafa látið sig skipta til hvaða borgar ég flytti, þar sem það hefði án efa áhrif á líf mitt. Drottinn hafði ætíð haft eitthvað að segja um ákvarðanir mínar áður fyrr, svo afhverju ekki líka núna?

Það var sama hversu oft og heitt ég baðst fyrir, svarið lét standa á sér. Ég tók að velta fyrir mér hvort ég hefið fjarlægst Guð svo að mér væri ekki mögulegt að heyra svarið hans. Ég velti líka fyrir mér hvort ég heyrði ekki af því að undir niðri vildi ég ekki heyra svarið. Loks, daginn fyrir lokadaginn, varð ég að taka ákvörðun, svo ég reiddi mig á eigin dómgreind og hreinlega tók ákvörðun. Um kvöldið baðst ég fyrir og bað Guð einfaldlega um að láta mig vita ef ákvörðun mín væri röng. Enn barst ekkert svar, svo ég tók af skarið og þáði starfið.

Ég efaðist enn um ákvörðun mína nokkrum mánuðum síðar, svo ég bað um prestdæmisblessun til að sækjast eftir fullvissu. Í blessuninni var mér sagt að ég hefði ekki hlotið bænasvar af því að ákvörðun mín hefði verið Drottni vel þóknanleg. Þessi blessun undirstrikaði áður gefna leiðsögn trúboðsforseta míns, um að oft skipti í raun ekki máli hver ákvörðun okkar verður. Guð vill að við lærum að vera sjálfstæð með því að ákveða hvernig við högum lífi okkar. Trúboðsforsetinn minnti mig líka á að Guð, sem faðir okkar á himnum, mun ekki refsa okkur með því að svipta okkur lofuðum tækifærum, ef við reynum einlæglega að finna út hvað gera skuli.

Bróðir Jareds hefði sennilega getað komið fram með næstum hvaða lausn sem var til að lýsa upp bátana og Drottinn hefði lagt blessun yfir hana. Upplifun bróður Jareds þjónaði ekki aðeins þeim tilgangi að styrkja trú hans, heldur líka til að honum lærðist að taka ákvörðun.

Iðkun sjálfræðis

different paths

Iðkun sjálfræðis er, út frá eilífu sjónarhorni, nauðsynlegur þáttur til persónulegs vaxtar. Án sjálfræðis getum við ekki tekið þær ákvarðanir sem gera okkur kleift að ná vaxtarmarki okkar til fulls. Vöxtur, eins og allt sem viðkemur fagnaðarerindinu, verður til „orð á orð ofan og setning á setning ofan“ (2 Ne 28:30). Guð vill að við séum viðbúið fólk, ekki getulaust fólk og hann væntir þess að við notum sjálfræði okkar til að haga lífi okkar á bestan mögulegan máta.

Þegar okkur hefur loks lærst að skynja jafnvægið á milli sjálfræðis og opinberunar, getum við upplifað raunverulegan andlegan vöxt. Sú var raunin með bróðir Jareds. Eftir að hafa ígrundað málið til fulls, bræddi hann sextán smásteina úr fjallinu og bað Guð að snerta þá og láta þá lýsa (sjá Eter 3:1–5). Í það skipti, þegar Guð svaraði, breyttist allt. Bróðir Jareds heyrði ekki einungis rödd Guðs í skýi, heldur hann Drottinn sjálfan, sem ekki aðeins birtist honum í eigin persónu, heldur veitti hann líka bróður Jareds stórkostlega sýn um heiminn og allt sem gerast ætti (sjá Eter 3:6–26). Mögulegt er að bróðir Jareds hefði ekki verið andlega undir það búinn að taka á móti þessari sýn, ef hann hefði ekki fyrst upplifað þann persónulega vöxt sem hlýst af eigin ákvarðanatökum.

Við ættum vissulega að fylgja leiðsögn Alma við ákvarðanatökur, um að „[ráðgast] við Drottin um allt, sem [við tökum okkur] fyrir hendur“ (Alma 37:37). Þegar Drottinn vill að við tökum ákveðna ákvörðun, mun hann láta okkur vita af því og sjá til þess að við förum ekki afvega. Við verðum þó að vera viðbúin því að standa upp og halda áfram í trú, hvort sem svarið berst eða ekki. Svo framarlega sem við höldum sáttmála okkar og erum trúföst fagnaðarerindi Jesú Krists, getum við verið örugg yfir réttlátum ákvörðunum okkar og viss um að Drottinn sé ánægður með viðleitni okkar.