Brautryðjendur í öllum löndum
Píanóið hans Ludovic
Ludovic var ánægður með að þjóna himneskum föður.
Ludovic tók upp nokkra fellistóla og bar þá yfir götuna. Það var sunnudagur og kirkjan var að fara að byrja. Það voru ekki nægilega margir stólar í húsinu í Togo þar sem þau komu saman í kirkju. Því kom Ludovic alltaf með stóla frá heimili afa síns.
„Af hverju myndirðu yfirgefa fallega kirkju til að fara í lítinn kofa?“ kallaði einhver á eftir honum. „Kirkjan þín er ekki einu sinni með bekki!“ sagði einhver annar, hlægjandi.
Ludovic þóttist ekki heyra þetta. Ég verð bara að halda áfram að gera það sem er rétt, hugsaði hann með sér.
Ludovic heyrði fyrst um kirkjuna þegar hann var 10 ára gamall. Hann var nú 12 ára. Hann og fjölskylda hans höfðu látið skírast stuttu áður. Hann var með prestdæmið og aðstoðaði við að bera út sakramentið. Hann safnaði jafnvel saman hluta af hádegismatarpeningnum sínum til að kaupa brauð fyrir sakramentið í hverri viku. Ludovic var ánægður með að þjóna himneskum föður.
Þegar það var kominn tími fyrir að samkoman hæfist, var salurinn fullur. Sumir sátu í stólunum sem Ludovic hafði komið með. Aðrir stóðu.
Samkoman hófst með söng. „Ísrael, Drottinn á þig kallar,“ söng Ludovic. Hann unni því að syngja í kirkju.
Eftir kirkju raulaði Ludovic er hann gekk frá stólunum. Hann raulaði er hann gekk heim. Þá fékk hann hugmynd! Hann náði í leikfanga-nótnaborðið sitt. Kannski gæti hann fundið út úr því hvernig spila ætti „Ísrael, Drottinn á þig kallar“!
Ludovic raulaði nóturnar og spilaði ólíkar nótur þar til hann náði að spila það rétt. Fljótlega kenndi hann sér að spila allt lagið.
Því næst mundi hann að fjölskylda hans átti einhverjar upptökur af kirkjusálmum. Hann hlustaði á þá og lærði að spila önnur lög líka. Ludovic æfði og æfði.
„Af hverju spilarðu ekki í kirkju á meðan við syngjum?“ spurði pabbi Ludovics einn daginn.
Maginn á Ludovic fór í hnút. „Ég er of feiminn,“ sagði hann. „Hvað ef ég geri mistök?“
„Þá heldurðu bara áfram,“ sagði pabbi. „Þú ert betri píanóleikari en þú gerir þér grein fyrir.“
Næsta sunnudag bar Ludovic ekki bara stóla. Hann bar einnig leikfanganótnaborðið sitt til kirkju. Þegar kom að inngangssálminum setti hann fingur sína óstyrkur á lyklana. Því næst hóf hann að spila. Allir sungu með. Það hljómaði svo vel!
Eftir þetta spilaði Ludovic í kirkju alla sunnudaga. Stundum gerði hann mistök. Hann gafst samt ekki upp. Þegar of erfitt var að spila lag, sungu þau án undileiks og Ludovic stjórnaði tónlistinni.
Ludovic brosti. Það skipti hann ekki máli þó að kirkjan færi fram á heimili einhvers. Það skipti hann heldur ekki máli að fólk gerði gys að honum. Það sem skipti Ludovic máli var að nota hæfileika sína til að þjóna Guði.