„Sterkur grundvöllur,“ Til styrktar ungmennum, mars 2021, 14–15.
Sterkur grundvöllur
Veggklifur
Tuttugu stúlkur stóðu mér við hlið og störðu á trévegg, tæplega 5 metra háan. Áskorun okkar var að hjálpa öllum stelpunum að komast yfir. Fyrir margar stúlkur var þetta fyrsta ár þeirra í Stúlknafélagsbúðum. Eldri stelpurnar og ég vorum ungmennaleiðtogar, en við höfðum aldrei tekið þátt í svona uppákomu. Við hlustuðum allar á reglurnar með tilhlökkun.
Hver og ein okkar þurfti að komast yfir vegginn. Þegar einhverri tókst það mátti hún standa á pallinum og hjálpa við að toga hinar upp. Samt sem áður mátti hún ekki hjálpa við að lyfta stúlkunum sem eftir voru, ef hún hafði snert jörðina.
Upphaflega áttum við í basli, en fljótlega tókst okkur að vinna saman og byrjuðum að lyfta stelpunum yfir. Einhverjar þeirra voru hræddar við að vera lyft svona hátt, þrátt fyrir öryggisráðstafanir. Aðrar voru kvíðnar yfir því að nota eigið afl til að komast upp á topp. Þetta krafðist aukins trausts og stuðnings af okkur öllum. Okkur tókst á endanum að klára áskorunina.
Þegar stúlkurnar klifruðu niður, söfnuðumst við saman til að ræða hinar fjölmörgu lexíur veggjaklifursins.
Við tökumst öll á við hluti sem virðast óyfirstíganlegir. Þrátt fyrir það erum við ekki ein. Umhverfis okkur er fólk sem hjálpar við að lyfta og styðja okkur. Himneskur faðir og Jesús Kristur eru til staðar til að hjálpa og styrkja þegar við snúum okkur til þeirra.
Megan B., Ohio, Bandaríkjunum
„Ég lofaði að ég myndi koma“
Ég hef alltaf viljað miðla fagnaðarerindinu til annarra, en í mörg ár tókst mér það ekki. Allt fram að því að ég varð vinur drengs sem heitir Tiago. Við bjuggum nálægt hvor öðrum og gengum því heim saman eftir skóla á hverjum degi.
Dag einn fórum við aðra leið heim og gengum framhjá kirkjubyggingunni þar sem ég sótti kirkju. Ég sagði honum að ég hafi verið meðlimur kirkjunnar í langan tíma. Ég sagði honum frá því hverju við trúum og hversu miklar blessanir fjölskylda mín hafi hlotið vegna þess. Ég bauð Tiago í kirkju næsta sunnudag og hann sagðist ætla að koma.
Sunnudagurinn kom og ég beið spenntur eftir honum í kirkjunni, en hann kom ekki. Síðar í vikunni bauð ég honum aftur. Svona gekk þetta í tvo eða þrjá mánuði, en hann var alltaf með afsakanir fyrir því að koma ekki. En ég hætti ekki að bjóða honum.
Einn sunnudagsmorgun var ég á sakramentissamkomu, leit við og sá Tiago standa þar. Ég var hissa að sjá hann, en hann kom, settist hjá mér og sagði: „Ég lofaði að ég myndi koma!“
Ég kynnti hann fyrir trúboðunum og þeir byrjuðu að kenna honum. Síðar skírðist hann. Nú erum við báðir að undirbúa okkur fyrir trúboð. Ég er svo ánægður með að ég gafst ekki upp á honum!
Meiry R., Brasilíu
Treystið tímasetningum Guðs
Frænka mín gekk í gegnum skilnað þegar einungis elsti sonur hennar hafði látið skírast. Til að halda friðsamlegu sambandi við blóðföður barna þeirra, vildi hún fá leyfi hans fyrir því að hin börnin mættu skírast líka. Því miður, veitti hann ekki leyfi í mörg ár.
Frænka mín ákvað að lokum að hún vildi láta skíra börnin þrátt fyrir vanþóknun föður þeirra. Eftir að frænka mín og frændsystkin höfðu fastað og beðið fyrir þessari ákvörðun, fengu allir þann innblástur að þau ættu að halda biðinni áfram.
Í sömu viku sagði blóðfaðir frændsystkina minna frænku minni að hann óskaði þess að börnin myndu hitta trúboðana og láta skírast. Ég man ennþá eftir gleðinni sem ég upplifði þegar móðir mín sagði mér fréttirnar. Ég vissi að himneskur faðir hafði blessað frændsystkin mín, eftir margra ára biðlund.
Við vitum ekki alltaf hvenær Drottinn svarar bænum okkar, en ég veit að hann mun alltaf gera það. Ég veit ekki hvers vegna himneskur faðir vildi að frændsystkin mín biðu eftir því að láta skírast, en ég veit að hann blessaði þau vegna trúfestu þeirra.
Bre J., Flórída, Bandaríkjunum