2021
Hjarta páskanna: Hinn lifandi Jesús Kristur
Mars 2021


„Hjarta páskanna: Hinn lifandi Jesús Kristur,“ Til styrktar ungmennum, mars 2021, 2–5.

Hjarta páskanna: Hinn lifandi Jesús Kristur

Þegar við höldum páska hátíðlega, fögnum við því að Jesús Kristur lifir nú og fyrir okkur öll.

Jesús Kristur kemur í Jerúsalem á ösnu.

Á páskatímanum fögnum við hinum lifandi Jesú Kristi. Af fullkominni elsku, fullvissar frelsarinn okkur: „Þér eigið frið í mér. Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn“ (Jóhannes 16:33).

Þegar við höldum páska hátíðlega, fögnum við því að Jesús Kristur lifir – ekki aðeins áður, heldur núna; ekki aðeins fyrir suma, heldur alla. Hann kom og kemur til að græða hina sorgmæddu, bjarga ánauðugum, gefa blindum sýn og frelsa lemstraða (sjá Lúkas 4:18). Það er hvert okkar. Endurleysandi loforð hans eiga við, hver sem fortíð eða nútíð okkar er eða áhyggjur framtíðar.

Hósanna og hallelúja

Á pálmasunnudegi reið Jesús inn í Jerúsalem á ösnu og „mikill mannfjöldi … [tók] pálmagreinar [og fór] út á móti honum“ (Jóhannes 12:12–13; sjá einnig Matteus 21:8–9; Markús 11:8–10). Pálmagreinar voru hefðbundið og heilagt tákn til að gleðjast í Drottni. Hinir trúföstu skildu þetta sem uppfyllingu spádóms og hrópuðu: „Hósanna í hæstum hæðum“ (Matteus 21:9). Hósanna merkir „frelsa núna“ (sjá Leiðarvísi að ritningunum, „Hósíanna”).

Viku eftir pálmasunnudag er páskadagur. Russell M. Nelson forseti kennir að Jesús Kristur „kom til að greiða skuld sem var ekki hans, því við áttum skuld sem við gátum ekki greitt.“1 Öll börn Guðs geta vissulega, fyrir friðþægingu Krists, „orðið [hólpin] með hlýðni við lögmál og helgiathafnir fagnaðarerindisins“ (Trúaratriðin 1:3). Á páskum syngjum við hallelúja. Hallelúja merkir „lofið Drottin Jehóva“ (sjá Bible Dictionary, „Hallelujah“).

Helgir atburðir milli pálmasunnudags og páskadags eru saga hósanna og hallelúja. Hósanna er bæn okkar um að Guð frelsi. Hallelúja tjáir lofgjörð okkar til Drottins fyrir von sáluhjálpar og upphafningar. Með hósanna og hallelúja viðurkennum við hinn lifandi Jesú Krist sem hjarta páskanna.

Jesús Kristur

Endurreisn og upprisa

Á páskadag, 3. apríl 1836, á fyrstu árum endurreisnarinnar, birtist hinn lifandi Jesús Kristur eftir að Kirtland-musterið hafði verið vígt. Þeir sem sáu hann þar vitnuðu um hann í samfellandi andstæðum elds og vatns: „Augu hans voru sem eldslogi, hárið á höfði hans var hvítt sem nýfallin mjöll, ljóminn frá svip hans bar af ljóma sólarinnar og rödd hans var sem dynur mikilla vatnsfalla, já, rödd Jehóva“ (Kenning og sáttmálar 110:3; skáletrað hér).

Við þetta tilefni lýsti frelsarinn yfir: „Ég er hinn fyrsti og hinn síðasti. Ég er sá, sem lifir. Ég er sá, sem deyddur var. Ég er málsvari yðar hjá föðurnum“ (Kenning og sáttmálar 110:4). Aftur samfallandi andstæður – fyrsti og síðasti, lifandi og deyddur. Hann er Alfa og Ómega, upphafið og endirinn (sjá Opinberunarbókin 1:8; 3. Nefí 9:18; Kenning og sáttmálar 19:1; 38:1; 45:7), höfundur og fullkomnari trúarinnar (sjá Hebreabréfið 12:2; Moróní 6:4).

Eftir að Jesús Kristur birtist, komu Móse, Elías og Elía líka. Að guðlegri tilskipan, þá endurreistu þessir miklu spámenn lykla og vald prestdæmisins. Þannig eru „lyklar [þessarar ráðstöfunar] seldir … í hendur“ (Kenning og sáttmálar 110:16) hinnar endurreistu kirkju, til að blessa öll börn Guðs.

Mikilvægt er að Mormónsbók lýsir „krafti og upprisu Krists“ (Alma 41:2) – kjarna páska – í tengslum við tvennskonar endurreisn.

Fyrst er það líkamleg endurreisn í okkar „réttu og fullkomnu umgjörð“ – „hver limur og hver liðamót,“ og „ekki svo mikið sem eitt höfuðhár mun glatast“ (Alma 40:23). Þetta loforð veitir þeim von sem hafa misst limi, getu til að sjá, heyra eða ganga, eða þjást af erfiðum sjúkdómi, geðsjúkdómi eða öðrum ófullkomleika. Hann finnur okkur. Hann gerir okkur heil.

Annað loforð páskanna og friðþægingar Drottins, er að andlega muni „hver hlutur … endurreistur á sinn stað“ (Alma 41:4). Þessi andlega endurreisn endurspeglar verk okkar og þrár. Líkt og brauð á vatni, er það endurreist sem er „gott,“ „réttlátt,“ „réttvíst“ og „miskunnsamt“ (Alma 41:13). Engin furða er að Alma notar orðið endurreisa 22 sinnum2 er hann brýnir fyrir okkur að vera „réttvís, [dæma] af réttlæti og [gjöra] gott án afláts“ (Alma 41:14).

Þar sem „Guð sjálfur [friðþægði] fyrir syndir heimsins,“ (Alma 42:15) þá megnar friðþæging Drottins að bæta bæði fyrir það sem var og það sem getur orðið. Þar sem hann þekkir sársauka okkar, þrengingar og sjúkdóma og „allskyns … freistingar,“ (Alma 7:11) þá getur hann, af miskunn, liðsinnt okkur í vanmætti (sjá Alma 7:12). Þar sem Guð er „fullkominn, réttvís Guð og einnig miskunnsamur Guð,“ þá megnar miskunnaráætlunin að „[fullnægja] kröfum réttvísinnar“ (Alma 42:15). Við iðrumst og gerum allt sem við getum. Hann umlykur okkur eilíflega „í elskandi [örmum sínum]“ (2. Nefí 1:15).

Syngjandi söngva hinnar ævarandi gleði.

Ég ber vitni með ykkur, um Guð, okkar eilífa föður, og elskaðan son hans, hinn lifandi Jesú Krist. Jarðneskir menn voru grimmilega krossfestir og síðar uppreistir. Aðeins Jesús Kristur, í sínu fullkomna upprisna ástandi, ber þó enn merki krossfestingar á höndum sínum, fótum og síðu. Hann einn getur sagt: „Ég hef rist þig á lófa mína“ (Jesaja 49:16; 1. Nefí 21:16). Aðeins hann getur sagt: „Ég er sá, sem upp var hafinn. Ég er Jesús, sem var krossfestur. Ég er sonur Guðs“ (Kenning og sáttmálar 45:52).

Á þessum tíma getum við lært mikið um gæsku Guðs og guðlega möguleika okkar til að elska Guðs fái vaxið í okkur, er við leitum hans og liðsinnum hvert öðru. „Og svo ber við, að hinum réttlátu verður safnað frá öllum þjóðum og þeir koma til Síonar, syngjandi söngva hinnar ævarandi gleði“ (Kenning og sáttmálar 45:71). Syngið hallelúja á þessum tíma hósanna og hallelúja – því hann mun ríkja alltaf og að eilífu. Hrópið hósanna Guði og lambinu!