2010–2019
Ver auðmjúkur
Apríl 2016


Ver auðmjúkur

Auðmýkt gerir okkur kleift að verða betri foreldrar, synir og dætur, eiginmenn og eiginkonur, nágrannar og vinir.

Við njótum þeirrar blessunar í kirkjunni að hafa samansafn sálma sem hjálpa okkur að tilbiðja með söng. Á kirkjusamkomum okkar þá „kalla [sálmarnir] á anda Drottins, skapa lotningu, sameina kirkjumeðlimi og gera okkur mögulegt að syngja Drottni lof. Sumar bestu prédikanirnar eru fluttar með sálmasöng“1

Spámaðurinn Joseph Smith meðtók opinberun fyrir eigikonu sína, Emmu, einungis nokkrum mánuðum eftir að kirkjan var skipulögð. Drottinn leiðbeindi henni að „velja [heilaga sálma], sem mér er þóknanlegt að hafa í kirkju minni, eins og það verður gefið þér.“2

Emma Smith safnaði saman sálmum sem fyrst komu út í þessari Kirtland sálmabók árið 1836.3 Það voru einungis 90 sálmar í þessu þunna smáriti. Margir þeirra voru sálmar frá mótmælendatrú. Hið minnsta 26 þeirra voru ortir af William W. Phelps, sem síðar tók þá saman og bjó þá undir prentun og birtingu. Einungis textarnir voru ritaðir. Það voru engar nótur sem fylgdu með. Þessi hógværa, litla sálmabók reyndist mikil blessun fyrir fyrstu meðlimi kirkjunnar.

Ljósmynd
Síða úr sálmabók Emmu Smith
Ljósmynd
Titilsíða úr sálmabók Emmu Smith

Nýjasta útgáfan af ensku sálmabókinni okkar var gefin út árið 1985. Margt af því sem Emma valdi, fyrir mörgum árum síðan, er enn í sálmabók okkar, eins og „Ég veit minn lifir lausnarinn“ og „Vor Guð hefur spámönnum gefið sitt mál.“4

Einn af nýju sálmunum í 1985 útgáfunni af sálmabókinni er „Beygðu kné þín.“5 Þessi friðsæli sálmur var saminn af Grietje Terburg Rowley, sem andaðist í fyrra. Hún gekk í kirkjuna árið 1950 á Hawaii, þar sem hún var skólakennari. Systir Rowley þjónaði í aðal tónlistarnefndinni og aðstoðaði við aðlögun sálma yfir á mismunandi tungumál. Hún byggði textann í sálminum „Beygðu kné þín“ á tveimur ritningargreinum: Kenningu og sáttmála 112:10 og Ether 12:27. Eftirfarandi er versið í Ether: „Og komi menn til mín, mun ég sýna þeim veikleika sinn. Ég gef mönnum veikleika, svo að þeir geti orðið auðmjúkir … því að ef þeir auðmýkja sig … og eiga trú á mig, þá mun ég láta hið veika verða styrk þeirra.“

Sálmurinn „Beygðu kné þín“ kennir tæran og einfaldan sannleika, eins og allir sálmar kirkjunnar. Hann kennir okkur að ef við auðmýkjum okkur þá er bænum okkar svarað, við munum njóta hugarró, við munum þjóna á áhrifaríkari hátt í köllunum okkar og ef við höldum áfram að vera staðföst þá munum við að lokum snúa til návistar föður okkar á himnum.

Frelsarinn kenndi fylgjendum sínum að þeir þyrftu að auðmýkja sig, verða sem lítil börn, til að komast í himnaríki.6 Vera má að við þurfum, í uppeldi okkar eigin barna, að hjálpa þeim að viðhalda auðmýkt sinni er þau komast á fullorðinsaldurinn. Það gerum við ekki með því að brjóta þau niður af því við erum harðbrjósta eða of hörð í að aga þau. Við kennum börnum okkar kosti óeigingirni, góðvildar, hlýðni, lítillætis, kurteisi og látleysis á meðan við hlúum að sjálfstrausti og sjálfsáliti þeirra. Þau þurfa að læra að fagna í velgengni systkina sinna og vina. Howard W. Hunter forseti kenndi að „raunveruleg umhyggja okkar á að vera fyrir velgengni annara.“7 Annars geta börn okkar orðið altekinn af eigin frama, samkeppni, öfund og gremju yfir velgengni jafningja sinna. Ég er þakklátur fyrir móður sem sagði, er hún sá að ég var að verða of sjálfmiðaður: „Sonur, örlítil auðmýkt kæmi þér að góðum notum einmitt núna.“

Auðmýkt er hins vegar ekki nokkuð sem einungis er kennd börnum. Við verðum öll að kappkosta að vera auðmjúk. Auðmýkt er nauðsynleg til að öðlast blessanir fagnaðarerindisins. Auðmýkt gerir okkur kleift að hafa sundurkramið hjarta þegar við syndgum eða gerum mistök og gerir sjálfa iðrunina að möguleika. Auðmýkt gerir okkur kleift að verða betri foreldrar, synir og dætur, eiginmenn og eiginkonur, nágrannar og vinir.

Á hinn bóginn, getur óþarfa stolt leyst upp fjölskyldubönd, klofið hjónabönd og eyðilegt vináttubönd. Það er sérstaklega mikilvægt að muna eftir auðmýkt þegar þið takið eftir að andi sundrungar sé að aukast á heimili ykkar. Hugsið um allt hugarangrið sem þið getið forðast með því að auðmýkja ykkur og segja „fyrirgefðu,“ „þetta var ónærgætið af mér,“ „hvað langar þig að gera?“ „ég var hugsunarlaus“ eða „ég er mjög stoltur af þér.“ Það væri minna um ágreining og meiri friður á heimilum okkar ef þessar litlu setningar væru notaðar af auðmýkt.

Það getur verið auðmjúk reynsla að lifa einfaldlega lífinu og reyndar er það oft. Slys og sjúkdómar, andlát ástvina, vandamál í samböndum og jafnvel fjárhagsvandi getur knésett okkur. Allar slíkar raunir eru auðmýkjandi hvort heldur þær stafa af ytri aðstæðum eða af völdum slæmra ákvarðana og dómgreindarleysis. Ef við kjósum að vera samhljóma við andann, dvelja í auðmýkt og vera námshæf, þá munu bænir okkar verða einlægari og trú og vitnisburður munu vaxa er við yfirstígum mótlæti þessarar dauðlegu tilvistar. Öll hlökkum við til upphafningar, en áður þurfum við að standa stöðug í því sem kallað hefur verið „dalur auðmýktar.“8

Fyrir mörgum árum varð 15 ára gamall sonur okkar, Eric, fyrir alvarlegum meiðslum á höfði. Það var mikið hugarangur að horfa upp á hann í dái í rúmlega viku. Læknarnir sögðust ekki vita almennilega hvað myndi gerast næst. Við vorum augljóslega í sjöunda himni þegar hann fór að bæra á sér aftur. Við töldum að nú yrði allt í fína lagi en þar skjátlaðist okkur.

Hann gat ekki talað, gengið né borðað sjálfur þegar hann vaknaði. Og það versta var að skammtíma minnið hans var ekki lengur til staðar. Hann gat munað eftir nánast öllu sem gerðist áður en slysið átti sér stað en gat ómögulega munað atburði sem gerðust í kjölfarið, jafnvel þá sem áttu sér stað nokkrum mínútum fyrr.

Í langan tíma óttuðumst við að sonur okkur yrði læstur inni í huga 15 ára drengs. Fyrir slysið átt sonur okkur mjög auðvelt með flesta hluti. Hann var í íþróttum, vinsæll og gekk mjög vel í skóla. Áður virtist framtíð hans björt en nú höfðum við áhyggjur að hann myndi varla eiga framtíð, að minnsta kosti ekki neina sem hann myndi eftir. Hann átti í mesta basli með að þjálfa upp grundvallarfærni. Þetta var tímabil auðmýktar fyrir hann. Þetta var var einnig tímabil mikillar auðmýktar fyrir foreldra hans.

Við veltum fyrir okkur, í raun, hvernig slíkt gæti gerst. Við höfðum alltaf kappkostað að gera hið rétta. Í fjölskyldu okkar hafði hlýðni við fagnaðarerindið verið í miklum forgangi. Við skildum ekki hvernig nokkuð svo sársaukafullt gæti hent okkur. Okkur varð fljótt ljóst að endurhæfing hans myndi taka mánuði ef ekki ár og það kom okkur niður á hnéin. Það sem var enn erfiðara var stigvaxandi uppgötvun okkar að hann yrði aldrei samur.

Mörg tár féllu á þessum tíma og bænir okkar urðu hjartnæmri og einlægari. Við tókum að sjá, með augum auðmýktar, hin smáu kraftaverk sem sonur okkar upplifði á þessu sársaukafulla tímabili. Smám saman fór honum fram. Viðhorf hans og horfur voru mjög jákvæðar.

Í dag er Eric, sonur okkar, giftur dásamlegum félaga og eiga þau fimm falleg börn. Hann er ástríðufullur kennari og gefur af sér í samfélaginu sem og kirkjunni. Það sem meira er, hann heldur áfram að lifa lífinu með sama anda auðmýktar sem hann öðlaðist fyrir svo löngu síðan.

Hvað ef við gætum verið auðmjúk áður en við göngum „dal auðmýktar“? Alma kenndi:

„Blessaðir eru þess vegna þeir, sem auðmýkja sig án þess að vera neyddir til auðmýktar.“

Já, miklu ríkulegar blessaður en þeir, sem neyðast til auðmýktar.“9

Ég er þakklátur fyrir spámenn, líkt og Alma, sem hafa kennt okkur gildi þessa mikilvæga eiginleika. Spencer W. Kimball, tólfti forseti kirkjunnar, sagði: „Hvernig verður maður auðmjúkur? Í mínum huga, þá þarf maður stöðugt að minna sjálfan sig á eigið ósjálfstæði. Hvaða ósjálfstæði? Gagnvart Drottni. Hvernig minnir maður sjálfan sig á? Með raunverulegri, stöðugri, tilbeiðslu þakkarbæn.“10

Það ætti ekki að koma neinum á óvart að eftirlætis sálmur Kimballs forseta hafi verið: „Ver hjá mér hverja stund.“11 Öldungur Dallin H. Oaks hefur greint frá því að þetta var sá sálmur sem bræðurnir sungu oftast sem upphafssálm í musterinu, á fyrstu árum hans í Tólfpostulasveitinni. Hann sagði „Ímyndið ykkur hin andlegu áhrif þessara fáu þjóna Drottins, sem sungu þennan sálm áður en beðist var fyrir um leiðsögn til að uppfylla miklu ábyrgð þeirra.“12

Ég vitna um mikilvægi auðmýktar í lífi okkar. Ég er þakklátur fyrir einstaklinga, eins og systur Grietje Rowley sem ritað hafa innblásin orð og tónlist sem hjálpar okkur að læra kenningar fagnaðarerindis Jesú Krists, þar á meðal auðmýkt. Ég er þakklátur fyrir sálmaarfleifð okkar, sem gerir okkur kleift að tilbiðja með söng og ég er þakklátur fyrir auðmýktina. Það er bæn mín að við munum leita eftir auðmýkt í lífinu svo við getum orðið betri foreldrar, synir og dætur, og fylgjendur frelsarans. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. „First Presidency Preface,“ Hymns of The Church of Jesus Christ of Latter-day Saints (1985), ix.

  2. Kenning og sáttmálar 25:11.

  3. Titilsíða fyrstu sálmabókar Síðari daga heilögu er dagsett 1835 en sálmabókinni var ekki lokið og fáanleg fyrr en snemma árs 1836.

  4. Tuttugu og sex af sálmunum svo voru í 1835 útgáfunni af sálmabókinni eru í núverandi sálmabók okkar (sjá Kathleen Lubeck,“The New Hymnbook: The Saints Are Singing!“Ensign, sept. 1985, 7).

  5. „Be Thou Humble,“ Hymns, nr. 130.

  6. Sjá Matt 18:1–4.

  7. Howard W. Hunter, „The Pharisee and the Publican,“ Ensign, maí 1984, 66.

  8. Anthon H. Lund, í Conference Report, apríl 1901, 22.

  9. Alma 32:16, 15.

  10. The Teachings of Spencer W. Kimball, útg. Edward L. Kimball (1982), 233.

  11. „I Need Thee Every Hour,“ Hymns, nr. 98; sjá einnig Brent H. Nielson, „I Need Thee Every Hour,“ Ensign, apríl 2011, 16.

  12. Dallin H. Oaks, „Worship through Music,“ Ensign, nóv. 1994, 10.

Prenta