„Til þess að ég gæti dregið alla menn til mín“
Þegar við nálgumst Guð, mun hinn græðandi kraftur friðþægingar Jesú Krists hafa áhrif á líf okkar.
Kæru bræður og systur, þegar ég bjó í Afríku, leitað ég ráða hjá öldungi Wilford W. Andersen, af hinum Sjötíu, um hvernig hjálpa mætti hinum fátæku Síðari daga heilögu þar. Eitt af því sem hann miðlaði mér af sinni undraverðu visku, var þetta: „Því lengri sem fjarlægðin er á milli þess sem gefur og þess sem þiggur, því sterkara verður tilkall hans til gjafarinnar.“
Þessi regla liggur að baki velferðarkerfis kirkjunnar. Þegar meðlimir geta ekki uppfyllt eigin þarfir, þá fara þeir fyrst til fjölskyldna sinna. Þessu næst, ef nauðsyn krefur, geta þeir farið til heimaleiðtoga kirkjunnar til að fá aðstoð við að uppfylla sínar stundlegu þarfir. Fjölskyldumeðlimir og staðarleiðtogar standa næst hinum nauðstadda, hafa oft verið í álíka stöðu og skilja hvernig best er að hjálpa. Þeir sem þiggja liðsinni, samkvæmt þessari fyrirmynd, eru þakklátir og síður líklegir til að finnast þeir eiga rétt á hjálpinni, vegna nálægðar sinnar við þann sem gefur.
Sú hugmynd um að – „því lengri sem fjarlægðin er á milli þess sem gefur og þess sem þiggur, því sterkara verður tilkall hans til gjafarinnar“ – hefur líka djúpa andlega tilvísun. Himneskur faðir okkar og sonur hans, Jesús Kristur, eru hinir miklu gefendur. Því meira sem við fjarlægjum okkur þeim, því sjálfsagðari verða gjafir þeirra. Við tökum að tileinka okkur þá hugsun að við verðskuldum náð og eigum blessanir inni. Tilhneigingin verður ríkari til að horfa umhverfis, einblína á óréttlætið og láta það angra okkur – jafnvel misbjóða okkur – vegna þeirrar ósanngirni sem við verðum fyrir. Þótt ósanngirnina sé hægt að rekja frá hinu smæst til hins stærsta, þá vex hið smáa, svo stórt verður, þegar við fjarlægjum okkur Guði. Okkur finnst að Guð sé skuldbundinn til að lagfæra hlutina – og þá þegar í stað!
Hin þveröfuga afstaða sem fæst þegar við nálgumst himneskan föður og Jesú Krist er útskýrð í Mormónsbók, með hinum stirðu samskiptum Nefís og eldri bræðra hans, Lamans og Lemúels:
-
Nefí var „fullur af þrá eftir að kynnast leyndardómum Guðs, [og því] ákallaði [hann] Drottin“ og hann mildaðist í hjarta. Laman og Lemúel voru hins vegar fjarlægir Guði – þeir þekktu hann ekki.
-
Nefí tók möglunarlaust á móti erfiðum verkefnum, en Laman og Lemúel „mögluðu varðandi ýmislegt.“ Að mögla er ritningarlegt jafngildi barnalegs væls. Ritningarnar segja að „þeir [hafi möglað] vegna þess að þeir þekktu eigi vegu þess Guðs, sem skóp þá.“
-
Nálægð Nefís við Guð gerði honum kleift að bera kennsl á og meta hina „mildu miskunn“ Guðs Öfugt við það þegar Laman og Lemúel sáu Nefí hljóta blessanir og „reiddust honum, vegna þess að þeir skildu ekki gjörðir Drottins.“ Laman og Lemúel sá blessanirnar sem þeir hlutu sem verðskuldaðar og voru önugir yfir að hafa ekki hlotið meira. Þeir virðast sjá blessanir Nefís sem „ranglæti“ sem beint er að þeim. Þetta er ritningarlegt jafngildi óánægjulegs tilkalls.
-
Nefí iðkaði trú á Guð til að geta gert það sem honum var boðið að gera. Laman og Lemúel gerðu þveröfugt: „Vegna hörkunnar, sem í hjörtum þeirra var, sneru þeir sér ekki til Drottins, eins og þeim bar.“ Þeir virtust halda að Drottni bæri að svara spurningum sem þeir höfðu ekki haft fyrir því að spyrja. „Drottinn kunngjörir okkur ekkert þess háttar,“ sögðu þeir, en gerðu enga tilraun til að spyrja. Þetta er ritningarlegt jafngildi háðslegra efasemda.
Þar sem Laman og Lemúel voru fjarlægir frelsaranum, þá tóku þeir að mögla og þræta og sýna vantrú. Þeim fannst lífið vera ósanngjarnt og að þeir gætu gert tilkall til náðar Guðs. Nefí hlýtur hins vegar að hafa verið ljóst að lífið hlýtur að hafa verið Jesú Kristi afar ósanngjarnt, því hann hafði nálgast Guð. Þótt frelsarinn væri algjörlega saklaus, þá þoldi hann mestar þjáningar.
Því nær sem við erum Jesú Kristi í hugsun og ásetningi hjartans, því betur munum við meta að hann þjáðist saklaus, því þakklátari verðum við fyrir náð hans og fyrirgefningu og því sterkari verður þrá okkar til að iðrast og líkjast honum. Hin mikla fjarlægð okkar við himneskan föður og Jesú Krist er mikilvæg, en stefnan sem við tökum er jafnvel enn mikilvægari. Guð gleðst meira yfir hinum iðrandi syndara, sem reynir að nálgast hann, en þeim sem lifir í sjálfsréttlætingu og aðfinnslusemi og áttar sig ekki á, líkt og farísearnir og fræðimennirnir til forna, nauðsyn á eigin iðrun.
Þegar ég var barn, söng ég sænskan jólasöng, sem kennir þá einföldu og áhrifaríku lexíu – að þegar við nálgumst frelsarann þá veldur það breytingu hið innra. Textinn var eitthvað á þessa leið:
Á jóladagsmorgni í bítið,
ég fjárhúsið fara vil í,
þar sem Guð hefur náttstað
og hvílir í jötu.
Hve góður þú varst að koma
niður til jarðar hér!
Ég ei vil verja minni æsku
í heimsins synda fár!
Þegar við í óeiginlegri merkingu förum til fjárhússins í Betlehem, „þar sem Guð hefur náttstað og hvílir í jötu,“ munum við skilja betur að frelsarinn er gjöf frá kærleiksríkum himneskum föður. Við þróum þá með okkur sterka þrá til að hætta að valda Guði frekari sorg, fremur en að gera tilkall til blessana hans og náðar.
Hversu fjarlæg sem við nú erum himneskum föður og Jesú Kristi, eða hver sem stefna okkar er, þá getum við ákveðið að snúa að og komast nær þeim. Þeir munu hjálpa okkur. Líkt og frelsarinn sagði við Nefítana eftir upprisu sína:
„Og faðir minn sendi mig, til þess að mér yrði lyft upp á krossinum. Til þess að ég gæti dregið alla menn til mín, eftir að mér hefði verið lyft upp á krossinum. …
Og vegna þessa hefur mér verið lyft upp. Þess vegna mun ég draga alla menn til mín samkvæmt krafti föðurins.“
Við verðum að efla trú okkar á frelsarann til að komast nær honum, gera og halda sáttmála og lifa í samfélagi heilags anda. Við verðum að breyta í trú og bregðast við hinni andlegu leiðsögn sem við hljótum. Alla þessa þætti má finna í sakramentinu. Besta leiðin sem ég þekki til að komast nær Guði er vissulega sú að bæta sig stöðugt og meðtaka sakramentið verðulega í hverri viku.
Ein vinkona okkar í Suður-Afríku sagði frá því hvernig hún áttaði sig á þessu. Þegar Diane var nýskírð, sótti hún grein sem var rétt utan við Jóhannesarborg. Sunnudag einn sat hún meðal safnaðarins og skipan kapellunnar var þannig að djákninn kom ekki auga á hana við útdeilingu sakramentisins. Diane var varð fyrir vonbrigðum en sagði ekkert. Annar meðlimur tók eftir yfirsjóninni og benti greinarforsetanum á hana að samkomu lokinni. Þegar sunnudagaskólinn hófst, var Diane boðið að koma inn í mannlausa kennslustofu.
Prestdæmishafi kom inn. Hann kraup, blessaði brauðið og rétti henni af því. Hún neytti þess. Hann kraup aftur, blessaði vatnið og rétti henni bolla. Hún drakk það. Að þessu loknu flugu tvær hugsanir í gegnum huga hennar: Fyrsta: „Hann [prestdæmishafinn] gerði þetta aðeins fyrir mig.“ Síðari: „Hann [frelsarinn] gerði þetta aðeins fyrir mig.“ Diane skynjaði elsku himnesks föður.
Þegar henni varð ljóst að fórn frelsarans var aðeins fyrir hana, hjálpaði það henni að finna nálægð hans og veitti henni sterka þrá til að viðhalda þessari tilfinningu í hjarta sér, ekki aðeins á sunnudögum, heldur alla daga. Henni varð ljóst að þótt hún hefði setið meðal safnaðarins til að meðtaka sakramentið, þá voru sáttmálarnir sem hún endurnýjaði hvern sunnudag aðeins hennar. Sakramentið hjálpaði – og heldur áfram að hjálpa – Diane að skynja kraft guðlegrar elsku, bera kennsl á hönd Drottins í lífi hennar og komast nær frelsaranum.
Frelsarinn auðkenndi sakramentið sem ómissandi þátt hins andlega grunns. Hann sagði:
„Og ég gef yður boðorð um að gjöra þetta [meðtaka sakramentið]. Og blessaðir eruð þér, ef þér gjörið þetta ætíð, því að þér byggið á bjargi mínu.
En hver sá yðar á meðal, sem gjörir meira eða minna en þetta, byggir ekki á bjargi mínu, heldur byggir á sendnum grunni. Og þegar regnið fellur, flóðin koma og vindar blása og bylja á þeim, þá munu þeir falla.“
Jesús sagði ekki „ef regnið fellur, ef flóðið kemur og ef stormar blása,“ heldur „þegar.“ Engin er ónæmur fyrir erfiðleikum lífsins; við þörfnumst öll öryggisins sem felst í því að meðtaka sakramentið.
Á upprisudegi frelsarans voru tveir lærisveinar á ferð til þorps sem hét Emmaus. Hinn upprisni Drottinn slóst í för með þeim án þess að kennsl væri borin á hann. Hann kenndi þeim úr ritningunum á ferð þeirra. Þegar þeir komu að ákvörðunarstað, buðu þeir honum að neyta með þeim matar.
„Og svo bar við, er hann sat til borðs með þeim, að hann tók brauðið, þakkaði Guði, braut það og fékk þeim.
Þá opnuðust augu þeirra, og þeir þekktu hann, en hann hvarf þeim sjónum.
Og þeir sögðu hvor við annan: Brann ekki hjartað í okkur, meðan hann talaði við okkur á veginum og lauk upp fyrir okkur ritningunum?
Þeir stóðu samstundis upp og fóru aftur til Jerúsalem. Þar fundu þeir [postulana ellefu] … saman komna.“
Þeir báru síðan postulunum vitni: „Sannarlega er Drottinn upp risinn. …
[Og] sögðu þá frá því, sem við hafði borið á veginum, og hvernig þeir höfðu þekkt hann, þegar hann braut brauðið.“
Sakramentið hjálpar okkur sannlega að þekkja frelsara okkar. Það minnir okkur líka á þjáningarnar sem hann þoldi saklaus. Ef lífið væri sannlega sanngjarnt, þá yrðum við aldrei reist upp; við gætum aldrei staðið hrein frammi fyrir Guði. Hvað þetta varðar, þá er ég þakklátur fyrir að lífið er ekki sanngjarnt.
Jafnframt get ég eindregið sagt að sökum friðþægingar Jesú Krists, þá verður engin ósanngirni að lokum í eilífum skilningi hlutanna. „Allt sem ósanngjarnt getur talist í lífinu, er mögulegt að leiðrétta.“ Núverandi aðstæður okkar breytast kannski ekki, en fyrir miskunn, góðvild og elsku Guðs, munum við öll hljóta meira en við fáum verðskuldað, meira en við fáum nokkurn tíma áunnið okkur og vonast eftir. Við eigum loforð um að „[Guð muni] þerra hvert tár af augum [okkar]. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“
Hver sem staða ykkar er gagnvart Guði, þá býð ég ykkur að nálgast himneskan föður og Jesú Krist, sem eru endanlegir velgjörðamenn og gefendur alls þess sem gott er. Ég býð ykkur að sækja sakramentissamkomu í hverri viku og meðtaka af hinum helgu táknum um líkama og blóð frelsarans. Ég býð ykkur að upplifa nærveru Guðs, er hann kunngjörir sig ykkur, líkt og hann kunngjörði sig postulunum til forna, með því að „brjóta brauðið.“
Ef þið gerið þetta, þá lofa ég ykkur því að þið munið komast nær Guði. Náttúrlegt barnalegt vælið, óánægjulegt tilkallið og háðslegar efasemdir munu þá hverfa. Slíkar kenndir mun hörfa fyrir aukinni elsku og þakklæti fyrir gjöfina sem himneskur faðir gaf með syni sínum. Þegar við nálgumst Guð, mun hinn græðandi kraftur friðþægingar Jesú Krists hafa áhrif á líf okkar. Líkt og með lærisveinana á veginum til Emmaus, þá munum við finna að frelsarinn hefur ávallt verið nálægur. Um það ber ég vitni í nafni Jesú Krists, amen.