Hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir
Ef þið hlustið á andann, munuð þið finna að hjarta ykkar mildast, trú ykkar eflist og geta ykkar til að elska Drottin eykst.
Bræður og systur, ég býð ykkur velkomin á 186. árlegu aðalráðstefnu Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Ég gleðst yfir að vera meðal ykkar og býð ykkur hjartanlega velkomin.
Ég er þakklátur fyrir að þið hafið komið á ráðstefnu til að upplifa innblástur himins og komast nær himneskum föður og Drottni Jesú Kristi.
Milljónir lærisveina Jesú Krists, sem hafa gert sáttmála um að hafa hann ávallt í huga og þjóna honum, eru samankomnir á þessari heimssamkomu. Með hinni dásamlegu nútíma tækni, hverfur tímamismunur og fjarlægðir verða engar. Við komum saman líkt og við værum öll í einni stórri ráðstefnuhöll.
Í hvers nafni við komum saman er þó mikilvægara en hin eiginlega samkoma. Drottinn hefur lofað að þótt lærisveinar hans séu ótalmargir á jörðunni í dag, þá verði hann nálægur hverju okkar. Árið 1829 sagði hann við hina fáu lærisveina sína: „Sannlega, sannlega segi ég yður, … að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, … sjá, þar verð ég mitt á meðal þeirra – einmitt þannig er ég mitt á meðal yðar“ (K&S 6:32).
Við, sem lærisveinar hans, erum fleiri en einn eða tveir á þessari ráðstefnu og Drottinn er mitt á meðal okkar, líkt og hann hefur lofað. Þar sem hann er upprisin og dýrðleg vera, þá er hann ekki líkamlega hvarvetna þar sem hinir heilögu koma saman. Við finnum hins vegar nærveru hans hér í dag fyrir kraft anda hans.
Hvar og hvenær við finnum nærveru frelsarans er undir hverju okkar komið. Hann gaf þessi fyrirmæli:
„Og sannlega segi ég yður enn, vinir mínir, ég læt yður þessi orð eftir til að íhuga í hjörtum yðar, með því boði, sem ég gef yður, að þér ákallið mig meðan ég er nálægur–
Nálgist mig og ég mun nálgast yður. Leitið mín af kostgæfni og þér munuð finna mig. Biðjið og yður mun gefast, knýið á og fyrir yður mun upplokið verða“ (K&S 88:62–63).
Ég veit hið minnsta um tvo einstaklinga sem hlýða á hér í dag sem þrá þá blessun af öllu hjarta. Þeir munu nálgast Drottin af einlægni á þessari ráðstefnu. Báðir skrifuðu þeir mér – og bréf þeirra bárust mér í sömu vikunni – þar sem þeir báðu um samskonar liðsinni.
Báðir eru þeir trúskiptingar í kirkjunni og hafa hlotið óyggjandi vitnisburð um elsku Guðs föðurins og sonar hans, Jesú Krists, frelsara heimsins. Þeir vita að spámaðurinn Joseph Smith skipulagði kirkjuna eftir beinni opinberun frá Guði og að lyklar hins heilaga prestdæmis hafa verið endurreistir. Báðir hlutu vitnisburð um að lyklarnir eru í kirkjunni á okkar tíma. Þeir gáfu mér sinn hátíðlega vitnisburð í rituðu máli.
Báðir hryggðust hins vegar yfir því að elska Drottins til þeirra og elska þeirra til Drottins hefði minnkað. Báðir vildu þeir, af öllu hjarta, að ég liðsinnti þeim til að endurvekja þessar kærleikstilfinningar, sem þeir upplifðu við komu sína í ríki Guðs. Báðir létu þeir þann ótta í ljós að trú þeirra myndi skaðast af prófraunum lífsins, ef þeir gætu ekki endurvakið að fullu þessar kærleikstilfinningar til frelsarans og kirkju hans.
Þeir eru ekki einir um þessar áhyggjur og prófraunirnar þeirra eru heldur ekki ný til komnar. Í jarðneskri þjónustu sinni sagði frelsarinn dæmisöguna um sáðkornið og sáðmanninn. Sáðkornið er orð Guðs. Sáðmaðurinn er Drottinn. Hvernig sáðkorninu reiddi af og það óx upp var háð ástandi jarðvegsins. Þið munið eftir þessum orðum:
„Og þá er hann sáði, féll sumt hjá götunni, og fuglar komu og átu það upp.
Sumt féll í grýtta jörð, þar sem var lítill jarðvegur, og það rann skjótt upp, því það hafði ekki djúpa jörð.
Þegar sól hækkaði, visnaði það, og sökum þess að það hafði ekki rætur, skrælnaði það.
Sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir uxu og kæfðu það.
En sumt féll í góða jörð og bar ávöxt, sumt hundraðfaldan, sumt sextugfaldan og sumt þrítugfaldan.
Hver sem eyru hefur, hann heyri“ (Matt 13:4–9).
Ég segi aftur: Sáðkornið er orð Guðs. Jarðvegurinn er hjarta þess einstaklings sem tekur á móti sáðkorninu.
Öll eigum við svo margt sameiginlegt með þessum dásamlegu einstaklingum sem skrifuðu mér um liðsinni og fullvissu. Öll höfum við einhvern tíma tekið á móti sáðkorninu, eða orði Guðs, í hjarta okkar. Sumir meðal okkar tóku á móti því í æsku, með boði foreldra okkar um að láta skírast og staðfestast af þeim sem hafa til þess valdsumboð. Aðrir meðal okkar hlutu kennslu kallaðra þjóna Guðs. Öllum fannst okkur sáðkornið vera gott, jafnvel svo að hjarta okkar svall og við upplifðum gleði og aukningu sálarinnar.
Öll höfum við upplifað prófraun trúar okkar í því að bíða eftir dýrmætum blessunum, takast á við illgjarnar árásir þeirra sem vilja tortíma trú okkar, upplifa freistingar til að syndga og togstreitu áhugamála sem draga úr getu okkar til að endurnæra og milda okkar andlega hjarta.
Þeir eru blessaðir sem upplifa sorg yfir þeirri gleði sem þeir eitt sinn nutu. Sumir fá ekki séð trúna visna hið innra. Satan er klókur. Hann telur þeim sem hann óskar vansældar, trú um að gleðin sem þeir eitt sinn upplifðu sé barnaleg sjálfsblekking.
Boðskapur minn til okkar allra er sá að á næstu tveimur dögum mun okkur gefast dýrmætt tækifæri til að milda hjörtu okkar og taka á móti og næra sáðkornið. Sáðkornið er orð Guðs og því mun úthellt yfir okkur öll sem hlýðum á, horfum á og lesum boðskap þessarar ráðstefnu. Þjónar Guðs munu sjá um tónlist, ræður og vitnisburði, og þeir hafa leitað heilags anda af kostgæfni, sér til leiðsagnar í undirbúningi sínum. Bænir þeirra hafa verið lengri og auðmjúkari eftir því sem nær hefur dregið ráðstefnunni.
Þeir hafa beðist fyrir til að hljóta kraft til að hvetja ykkur til að búa hjörtu ykkar undir frjósama jörð, svo hið góða orð Guðs nái að vaxa og bera ávöxt í ykkur. Ef þið hlustið á andann, munuð þið finna að hjarta ykkar mildast, trú ykkar eflist og geta ykkar til að elska Drottin eykst.
Ákvörðun ykkar um að biðjast fyrir af einlægum ásetningi, mun umbreyta reynslu ykkar á þessari ráðstefnu og á komandi dögum og mánuðum.
Mörg ykkar eruð þegar að upplifa þetta. Í upphafi þessarar ráðstefnu, gerðuð þið meira en að hlusta bara á bænina; þið bættuð trú ykkar við það bænaákall að við munum fá notið þeirrar blessunar að heilögum anda verði úthellt yfir okkur. Þegar þið lukuð í hljóði á því að segja í nafni Jesú Krists, þá komust þið nær honum. Þetta er hans aðalráðstefna. Aðeins heilagur andi fær veitt okkur þær blessanir sem Drottinn þráir að veita okkur. Af elsku til okkar hefur hann lofað að við munum geta fundið að:
„Allt sem þeir segja, hvattir af heilögum anda, skal vera ritning, skal vera vilji Drottins, skal vera hugur Drottins, skal vera orð Drottins, skal vera rödd Drottins og kraftur Guðs til sáluhjálpar.
Sjá, þetta er fyrirheit Drottins til yðar, ó þér, þjónar mínir.
Verið þess vegna vonglaðir og óttist ei, því að ég, Drottinn, er með yður og mun standa með yður. Og þér skuluð vitna um mig, já, Jesú Krist, að ég er sonur hins lifanda Guðs, að ég var, að ég er og að ég kem“ (K&S 68:4–6).
Í hvert sinn er þjónn Guðs gengur að ræðustólnum getið þið beðist fyrir og bætt trú ykkar við þá bæn um að loforð Drottins í Kenningu og sáttmála, kafla 50, muni uppfyllast:
„Sannlega segi ég yður, sá sem ég hef vígt og sent til að prédika orð sannleikans með huggaranum, í anda sannleika, prédikar hann það með anda sannleikans eða á einhvern annan hátt?
Og sé það á einhvern annan hátt, er það ekki frá Guði.
Og enn fremur, sá er meðtekur orð sannleikans, meðtekur hann það fyrir anda sannleikans eða á einhvern annan hátt?
Sé það á einhvern annan hátt, er það ekki frá Guði.
Hvers vegna skiljið þér þá ekki og vitið, að sá sem meðtekur orðið með anda sannleikans, meðtekur það eins og andi sannleikans flytur það?
Þess vegna skilja hvor annan, sá sem prédikar og sá sem meðtekur, og báðir uppbyggjast og fagna saman“ (K&S 50:17–22).
Þið getið beðist fyrir þegar kórinn tekur að syngja. Kórstjórinn, orgelleikarinn og kórmeðlimir hafa beðist fyrir og æft sig með bæn í hjarta og í þeirri trú að tónlistin og orðin munu nái að milda hjörtu og efla þrótt til styrktar trú þeirra sem á hlýða. Þeir munu láta ljós sitt skína, líkt og Drottinn væri þar, vitandi að himneskur faðir heyrir til þeirra, eins víst og hann heyrir þeirra persónulegu bænir. Saman hafa þeir unnið af elsku, svo loforð frelsarans til Emmu mætti uppfyllast: „Því að sál mín hefur unun af söng hjartans, já, söngur hinna réttlátu er bæn til mín, og henni mun svarað með blessun yfir höfuð þeirra“ (K&S 25:12).
Ef þið hlustið ekki aðeins, heldur biðjið líka yfir söng þeirra, mun bænum ykkar og þeirra verða svarað, með úthellingu blessana. Þið munuð finna hvernig elska og velþóknun frelsarans blessa ykkur. Allir þeir sem sameinast í þessari lofgjörð munu finna fyrir vaxandi elsku til hans.
Þið getið ákveðið að biðjast fyrir þegar ræðumaður er að ljúka boðskap sínum. Sá sem það gerir, biðst fyrir hið innra til föðurins um að heilagur andi muni veita sér orð vitnisburðar, sem mun vekja von og þrá til að hafa frelsarann ávallt í huga og halda boðorð hans, sem hann hefur gefið þeim.
Vitnisburðurinn verður ekki flutningur boðskaparins. Hann verður staðfesting á einhverjum sannleika sem andinn veitir hjörtum þeirra sem biðja um liðsinni, guðlega leiðsögn og að upplifa hina hreinu ást Krists.
Sannur vitnisburður mun gefinn ræðumönnum. Orð þeirra kunnu að vera fáein, en þau munu berast í hjörtu auðmjúkra hlustenda, sem komið hafa á ráðstefnuna með þrá eftir hinu góða orði Guðs.
Ég veit af eigin reynslu hvað trú góðs fólks fær komið til leiðar við að kalla fram orð frá andanum í lok prédikunar. Oftar en einu sinni hefur einhver sagt við mig eftir að ég hef gefið vitnisburð: „Hvernig vissir þú hvað ég þurfti að heyra?“ Mér hefur lærst að undrast ekki yfir því að muna ekki töluð orð. Ég mælti orð vitnisburðar og Drottinn var til staðar og veitti mér þau á réttu andartaki. Loforðið um að Drottinn muni veita okkur orð, einmitt á því augnabliki sem við þurfum á þeim að halda, á einkum við um vitnisburð (sjá K&S 24:6). Hlustið vandlega á þá vitnisburði sem gefnir verða á þessari ráðstefnu – þá munuð þið komast nær Drottni.
Þið skynjið nú að ég fer að ljúka þeim boðskap sem ég hef reynt að færa ykkur með vitnisburði um sannleika. Bænir ykkar munu hjálpa mér að hljóta orð vitnisburðar, sem getur hjálpað einhverjum öðrum sem þráir bænheyrslu.
Ég gef ykkur minn örugga vitnisburð um að himneskur faðir, hinn mikli Elóhim, elskar hvert og eitt okkar. Sonur hans, Jehóva, var skaparinn, undir hans leiðsögn. Ég ber vitni um að Jesús frá Nasaret fæddist sem sonur Guðs. Hann læknaði sjúka, veitti blindum sýn og reisti upp dauða. Hann reiddi fram gjaldið fyrir syndir sérhvers barns himnesks föður, sem fæðst hefur í jarðlífið. Hann rauf helsi dauðans fyrir alla, er hann reis úr gröfinni á fyrsta páskasunnudeginum. Hann lifir í dag, Guð – upprisinn og dýrðlegur.
Þetta er hin eina sanna kirkja og hann er aðalhyrningarsteinn hennar. Thomas S. Monson er spámaður hans fyrir allan heiminn. Þeir spámenn og postular sem tala á þessari ráðstefnu, mæla fyrir munn Drottins. Þeir eru þjónar hans, réttmætir fulltrúar hans. Hann fer fyrir þjónum sínum í heiminum. Það veit ég. Um það ber ég vitni, já, í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.