Fjölskyldufundir
Þegar foreldrar eru undirbúnir og börnin hlusta og taka þátt í samræðunum þá virka fjölskyldufundirnir mjög vel!
Bræður mínir og systur, kaldhæðnin við það að vera foreldrar er að við eigum það til að vera góð í því hlutverki þegar þau eru orðin fullorðin. Í dag ætla ég að deila nokkru með ykkur sem ég vildi óska þess að ég hefði skilið betur þegar Barbara og ég byrjuðum að ala upp ástkær börn okkar.
Á þeim tíma sem ég hef verið postuli þá hef ég ítrekað lagt áherslu á kraft og mikilvægi kirkjuráða, þar með talið trúboðsráð, stikuráð, deildarráð og aðildarfélagsráðin.
Ég tel að ráðin séu áhrifaríkasta leiðin til að ná raunverulegum árangri. Að auki þá veit ég að ráðin eru leið Drottins og að hann skapaði allt í heiminum í gegnum himnesk ráð, eins og kemur fram í ritningunum.
Fram að þessu hef ég aldrei talað, á aðalráðstefnum, um það sem er algert undirstöðuatriði en kannski mikilvægasta ráðið, fjölskylduráðið.
Það hefur alltaf verið þörf fyrir fjölskylduráð. Í raun eru þau eilíf. Við vorum þátttakendur í fjölskylduráði í fortilverunni, þegar við bjuggum með himneskum foreldrum okkar, sem andabörn þeirra.
Þegar því er stýrt með kærleika og kristilegum gildum þá mun fjölskylduráðið vera mótvægi á móti áhrifum nútímatækni sem dregur oft athygli okkar frá því að eiga gæðastundir með hvort öðru og á einnig það einnig til að færa hið illa inn á heimili okkar.
Hafið í huga að fjölskylduráð eru frábrugðin fjölskyldukvöldum, sem eru haldin á mánudögum. Fjölskyldukvöld leggja aðallega áherslu á kennslu fagnaðarerindisins og fjölskylduskemmtun. Fjölskylduráð geta hinsvegar verið haldin hvaða dag vikunnar sem er og það eru fundir þar sem foreldrarnir eru aðallega að hlusta - á hvort annað og börn þeirra.
Ég tel að það séu að minnsta kosti fjórar tegundir af fjölskylduráðum:
Í fyrsta lagi, almennt fjölskylduráð þar sem öll fjölskyldan er saman.
Í öðru lagi, framkvæmdarfjölskylduráð sem samanstendur af móður og föður.
Í þriðja lagi, persónulegt fjölskylduráð, þar sem hittast foreldrar og eitt barn.
Í fjórða lagi, persónulegt fjölskylduráð þar sem eru einungis eitt foreldri og eitt barn.
Í öllum þessum fjölskylduráðum þá verður að slökkva á öllum rafmagnstækjum þannig að allir geti horft á og hlustað hvort annað. Í fjölskylduráðum, og við aðrar viðeigandi aðstæður, þá gæti verið sniðugt að hafa körfu fyrir rafmagnstækin þannig að þegar fjölskyldan safnast saman þá setja allir – líka mamma og pabbi – tækin sín, símana, spjaldtölvurnar og MP3 spilarana í körfuna. Eftir það geta þau rætt saman, án þess að freistast til að svara poti á Facebook, sms-i, Instagram, Snapchat og tölvupóststilkynningum.
Leyfið mér að deila með ykkur öllum hvernig öll þessi ráð geta virkað.
Í fyrsta lagi þá inniheldur almennt fjölskylduráð alla fjölskyldumeðlimina.
Í kirkjubæklingi sem heitir Fjölskyldan okkarsegir; „Þetta ráð getur komið saman til að ræða fjölskylduvandamál, vinna úr fjárhagsmálum, gera áætlanir, sýna stuðning og styrkja hvort annað og að biðja fyrir hvort öðru og fjölskyldueiningunni.“
Þetta ráð ætti að hittast á fyrirfram ákveðnum tíma og er yfirleitt formlegra en aðrar útgáfur af fjölskylduráðum.
Fundurinn ætti að hefjast með bæn eða þetta gæti verið eðlilegt framhald af samtali sem hófst við aðrar aðstæður. Hafið í huga að fjölskylduráð þarf ekki alltaf að hafa formlegt upphaf eða endir.
Þegar foreldrar eru undirbúnir og börnin hlusta og taka þátt í samræðunum þá virka fjölskyldufundirnir mjög vel!
Það er sama hverjar fjölskylduaðstæður okkar eru, það er brýnt að við skiljum einstakar aðstæður hvers fjölskyldumeðlims. Þó að við kunnum að deila erfðaefni þá gæti verið ástand eða aðstæður á meðal okkar sem getur gert okkur mjög ólík hvort öðru og sem krefst kannski samúðarfullrar samvinnu fjölskylduráðsins.
Til dæmis gæti öll umræða og kærleiki í heiminum kannski ekki leyst læknisfræðileg vandamál eða tilfinningarlegar áskoranir sem einn eða fleiri í fjölskyldunni gætu staðið frammi fyrir. Á slíkum stundum verður fjölskylduráðið að stað einingar, trausts og kærleiksríks stuðnings á sama tíma og utanaðkomandi aðstoðar er leitað í leit að lausnum.
Systkini, sérstaklega eldri systkini, geta verið kröftugir stuðningsmenn fyrir yngri systkini ef foreldrarnir vilja nota fjölskylduráðið til að fá þau eldri til stuðnings á tímum erfiðleika og álags.
Á þennan máta virkar fjölskyldan á svipaðan hátt og deild. Þegar biskupinn fær deildarráðsmenn til að taka þátt þá getur hann leyst vandamál og komið miklu góðu til leiðar sem hann gæti aldrei gert án aðstoðar þeirra. Á svipaðan hátt þá geta foreldrar fengið alla fjölskyldumeðlimi til starfa með sér til að takast á við áskoranir og mótlæti. Á þann hátt er kraftur fjölskylduráðsina settur til starfa. Þegar meðlimum fjölskylduráðsins finnst þeir hafa átt þátt í að taka ákvörðun þá verða þeir stuðningsmenn og ákveðin jákvæð niðurstaða getur orðið raunveruleg.
Fjölskylduráð samanstanda ekki alltaf af tveimur foreldrum og börnum. Fjölskylduráð ykkar gæti litið allt öðru vísi úr en okkar fjölskylduráð leit út þegar við vorum að ala upp börnin okkar sjö. Í dag er fjölskylduráð okkar, bara við Barbara, nema ef við köllum saman stórfjölskylduráð sem inniheldur öll fullorðin börn okkar, maka þeirra og stundum barnabörn okkar og barnabarnabörn.
Þeir sem eru einhleypir og jafnvel nemendur sem búa að heiman geta fylgt mynstri hins himneska ráði með því að safnast saman með vinum og herbergisfélögum til að ráðgast saman.
Hugleiðið hvernig andrúmsloftið í íbúð myndi breytast ef herbergisfélagar myndu safnast reglulega saman, biðja, hlusta, ræða og áætla saman.
Það geta allir aðlagað fjölskylduráðið og nýtt hag þessa guðlega mynsturs sem himneskur faðir hefur stofnað.
Eins og kom fram þá gæti stórfjölskylduráðið stundum verið hjálplegt. Stórfjölskylduráð gæti samanstaðið af ömmum og öfum og fullorðnum börnum sem búa ekki heima. Jafnvel þó að amma og afi eða hin fullorðnu börn búa langt í burtu þá geta þau tekið þátt í ráðunum í gegnum síma, Skype eða FaceTime.
Þið gætuð viljað íhuga að halda aðafjölskylduráðsfund á sunnudegi, sem er fyrsti dagur vikunnar, fjölskyldur geta þá farið yfir liðna viku og gert áætlanir fyrir komandi viku. Þetta gæti verið nákvæmlega það sem fjölskylda ykkar þarfnast til að gera hvíldardaginn að ánægjulegri upplifun.
Tegund tvö af fjölskylduráðum er framkvæmdarfjölskylduráð þar sem einungis foreldrarnir koma saman. Á þessum fundi geta foreldrar farið yfir líkamlegar, tilfinningalegar og andlegar þarfir hvers barns fyrir sig og framfarir þeirra.
Framkvæmdarfjölskylduráðið er einnig góður tími fyrir hjón að tala um þeirra persónulega samband. Þegar Harold B. Lee forseti framkvæmdi innsiglun okkar þá kenndi hann okkur lögmál sem ég gæti trúað að myndi hjálpa öllum hjónum. Hann sagði „Farið aldrei að sofa án þess að krjúpa saman, haldast í hendur og fara með bænirnar ykkar. Slíkar bænir bjóða himneskum föður að veita okkur ráð í gegnum kraft andans.“
Þriðja tegundu fjölskylduráðsins er afmarkað fjölskylduráð. Í þessu tilfelli þá hittast foreldrarnir með einu barni í einu í formlegum eða óformlegum aðstæðum. Þetta er tækifæri til umræðuum að taka ákvarðanir fyrirframvarðandi það hvað hann eða hún ætlar eða ætlar ekki að gera í framtíðinni. Þegar slíkar ákvarðanir eru teknar þá gæti verið gott að skrá þær niður til að vitna í seinna meir ef þörf verður á. Ef sonur ykkar eða dóttir sér ykkur sem traustan stuðningsmann, þá getur þessi fjölskylduráðsfundur verið nýttur til að setja markmið fyrir framtíðina. Þetta er einnig tími til þess að hlusta á alvarlegar áhyggjur eða mótlæti sem barnið gæti hafa verið að takast á við, svo sem skort á sjálfsöryggi, illa meðferð, einelti eða ótta.
Fjórða tegund fjölskylduráðsins er persónulegt fjölskylduráð, þar sem eitt foreldri fundar með einu barni. Þessi útgáfa fjölskylduráðs er yfirleitt óundirbúin. Til dæmis þá gætu foreldri og barn nýtt óformlegar aðstæður í bílferð eða þegar unnið er að heimilisstörfunum. Skemmtiferð þar sem annað foreldrið og eitt barn eru saman getur boðið upp á sérstaka andlega og tilfinningalega tengslamyndun. Setjið upp áætlun með fyrirvara svo að börnin geti gert ráð fyrir þessu og hlakkað til þess að eiga góða stund með mömmu eða pabba.
Bræður og systur, einu sinni voru veggir heimila okkar næg vernd gegn utanaðkomandi átroðningi og áhrifum. Við læstum dyrunum, lokuðum gluggum og skelltum hliðum og okkur fannst við örugg, og vernduð í okkar litla skjóli frá utanaðkomandi heimi.
Þeir tímar eru liðnir. Efnislegir veggir, hurðir, grindverk og hlið að heimilum okkar geta ekki komið í veg fyrir ósýnilega innrás frá Internetinu, netinu og farsímakerfum. Það getur smogið inn á heimili okkar með einungis nokkrum smellum og áslætti á lyklaborð.
Sem betur fer hefur Drottinn veitt okkur leið til að berjast á móti þessari innrás neikvæðrar tækni sem getur dregið athygli okkar frá því að eiga gæðastundir með hvert öðru. Hann hefur gert þetta með því að veita okkur ráð til að styrkja, verja, vernda og næra dýrmætustu sambönd okkar.
Börn þarfnast sárlega foreldra sem eru viljugir að hlusta á þau og fjölskylduráðið getur veitt tækifæri þar sem fjölskyldumeðlimir geta lært að skilja og elska hvort annað.
Alma kenndi: „Ráðgastu við Drottin um allt, sem þú tekur þér fyrir hendur, og hann mun leiðbeina þér til góðs.“Það mun bæta samskiptin okkar í milli ef við bjóðum Drottni að vera hluti af fjölskylduráði okkar í gegnum bæn. Með aðstoð himnesks föður og frelsarans, og í gegnum bæn, þá getum við orðið þolinmóðari, hugulsamari, hjálplegri, átt auðveldara með að fyrirgefa og skilja Með þeirra aðstoð getum við gert heimili okkar að smá broti af himni á jörðu.
Fjölskylduráð sem er hannað eftir fyrirmynd ráðanna á himnum, uppfull af kristilegum kærleika og leidd af anda Drottins, munu hjálpa okkur að vernda fjölskyldur okkar frá truflun sem getur stolið dýrmætum tíma okkar saman og verndað okkur frá hinu illa í heiminum.
Sameiginlega getur bæn ásamt fjölskylduráði boðið upp á návist frelsarans eins og hann lofaði okkur: „Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal þeirra.“Að bjóða anda Drottins að taka þátt í fjölskylduráði ykkar færir ólýsanlegar blessanir.
Munum, að lokum, að fjölskylduráð sem haldin eru reglulega munu aðstoða okkur að koma auga á vandamál snemma og grípa í taumana strax, þau munu veita hverjum fjölskyldumeðlim þá tilfinningu að þeir séu mikils virði og skipti máli, og það sem er mikilvægast, er að þau munu aðstoða okkur við að verða farsælli og hamingjusamari í dýrmætum samböndum okkar, innan veggja heimilisins. Megi himneskur blessa allar fjölskyldur okkar er við ráðgumst saman, ég bið þess auðmjúklega í nafni Drottins, Jesú Krists, amen.