Hið græðandi smyrsl fyrirgefningar
Fyrirgefning býr yfir dásamlegum lækningarmætti. Við þurfum ekki að vera fórnarlamb tvisvar. Við getum fyrirgefið.
Allt sem kemur frá Guði er umlukið kærleika, ljósi og sannleika. Við lifum, þrátt fyrir það, í föllnum heimi sem stundum er uppfullur af myrkri og glundroða. Það kemur því ekki á óvart að mistök munu gerast, óréttlæti á sér stað og syndir eru drýgðar. Þar af leiðandi er ekki ein einasta núlifandi sála sem á einhverjum tímapunkti mun ekki verða fórnarlamb ónærgætinna gjörða, særandi eða jafnvel syndsamlegrar hegðunar einhvers annars. Þetta er sameiginlegt okkur öllum.
Þakksamlega, þá hefur Guð í kærleika sínum og náð gagnvart börnum sínum, séð okkur fyrir leið til komast í gegnum hvirfilvinda lífsins, sem stundum bresta á. Hann hefur fyrirbúið útgönguleið öllum sem eru fórnarlömb misgjörða annarra. Hann hefur kennt að við getum fyrirgefið! Jafnvel þótt við verðum fórnalömb í eitt skipti, þá þurfum við ekki að verða fórnarlömb aftur með því að sleppa ekki byrði óvildar, biturleika, sársauka, gremju og hefndar. Við getum fyrirgefið og orðið frjáls!
Fyrir mörgum árum, er ég var að laga girðingu, fékk ég litla tréflís í puttann. Ég reyndi að fjarlæga flísina og taldi mig hafa gert það, en svo var víst ekki. Eftir því sem leið á gréri húð yfir flísina og þykkildi myndaðist á fingrinum. Það var pirrandi og stundum kvalarfullt.
Árum síðar gerði ég loksins eitthvað í málinu. Það eina sem ég gerði var að setja smyrsl á þykkildið og setja sárabindi yfir. Ég endurtók þetta ferli mörgum sinnum. Þið getið rétt ímyndað ykkur undrun mína þegar ég tók sárabindið af dag einn og flísin hafði komið út úr þykkildinu á fingrinum.
Smyrslið hafði mýkt húðina og þar með opnað útgönguleið fyrir aðskotahlutinn, sem hafði valdið svo miklum sársauka í fjölda ára. Fingurinn læknaðist hratt um leið og flísin var farin og í dag eru engin ummerki um nokkur meiðsli.
Á svipaðan hátt getur langrækið hjarta alið mikið á óþarfa sársauka. Frelsarinn mun mýkja hjarta okkar og hjálpa okkur að breytast þegar við notum hið græðandi smyrsl friðþægingar hans. Hann getur læknað hina særðu sál (sjá Jakbr 2:8).
Ég er þess fullviss að flest viljum við fyrirgefa, en við eigum erfitt með það. Við erum stundum fljót að segja, þegar við höfum orðið fyrir óréttlæti: „Þessi manneskja gerði mér óleik. Hún á refsingu skilið. Hvar er réttlætið?“ Fyrir mistök höldum við, að ef við fyrirgefum þá muni réttlætið einhvern veginn ekki ná fram að ganga og komist verði hjá refsingu.
Það er einfaldlega ekki rétt. Guð mun úthluta refsingu sem er réttlát, því miskunnsemin getur ekki rænt réttvísina (sjá Alma 42:25). Af kærleika fullvissar Guð ykkur og mig: „Látið mig einan um dóminn, því að hann er minn og ég mun endurgjalda. Friður sé með yður“ (K&S 82:23). Jakob, spámaður Mormónsbókar, lofaði einnig: „[Guð] mun ljá yður huggun í þrengingum yðar, tala máli yðar og láta réttvísina koma yfir þá, sem leitast við að tortíma yður“ (Jakob 3:1).
Við getum huggað okkur við þá vitneskju að Guð mun bæta okkur fyrir sérhvert óréttlæti sem við verðum fyrir sem fórnarlömb, ef við erum trúföst. Öldungur Joseph B. Wirthlin sagði: „Drottinn umbunar hinum trúföstu fyrir sérhvern missi. … Sérhverju tári í dag mun að lokum verða umbunað hundraðfalt með fagnaðartárum og þakklæti.“
Við skulum einnig muna, þegar við kappkostum að fyrirgefa öðrum, að við erum öll að vaxa andlega, en við erum öll á mismunandi stigum. Það er erfitt að sjá vöxt anda okkar þótt auðvelt sé að sjá breytingar og vöxt líkama okkar.
Eitt af lykilatriðum í því að fyrirgefa öðrum er að sjá menn eins og Guð sér þá. Stundum opnar Guð smá rifu og blessar okkur með gjöf innsæis til að sjá inn í hjarta, sál og anda annarar persónu sem hefur brotið gegn okkur. Þetta innsæi getur jafnvel leitt til yfirgnæfandi kærleiks gagnvart þessar manneskju.
Ritningarnar kenna að elska Guðs til barna hans sé fullkomin. Hann þekkir möguleika þeirra til góðs, sama hver fortíð þeirra er. Það hefði ekki geta verið árásagjarnari og óvægari óvinur fylgjenda Jesú Krists en Sál frá Tarsus. Samt var ekki að finna einlægari, ákafari eða óhræddari lærisvein frelsarans eftir að Guð sýndi Sál ljós og sannleika. Sál varð postulinn Páll. Líf hans er dásamlegt dæmi um það að Guð sér fólk ekki bara eins og það er hverju sinni, heldur hvernig það getur orðið. Í lífi okkar allra er að finna einstaklinga líka Sál, sem hafa möguleikana sem Páll hafði. Getið þið ímyndað ykkur hvernig fjölskyldur okkar, samfélög og heimurinn allur myndi breytast, ef við myndum öll reyna að sjá hvort annað eins og Guð sér okkur?
Við horfum allt of oft á misgjörðamanninn eins og við horfum á ísjaka – við sjáum eingöngu toppinn en ekki það sem er undir yfirborðinu. Við vitum ekki hvað er að gerast í lífinu hjá fólki. Við þekkjum ekki fortíð þeirra eða baráttu; við þekkjum ekki sársaukann sem þau bera. Bræður og systur, vinsamlega ekki misskilja. Að fyrirgefa er ekki að láta hlutina óátalda. Við réttlætum ekki slæma hegðun eða leyfum einhverjum að fara illa með okkur vegna erfiðleika þeirra, sársauka eða veikleika. Við getum hins vegar öðlast meiri skilning og frið þegar við sjáum stóra samhengið.
Vissulega geta þeir sem eru andlega minna þroskaðir gert alvarleg mistök – en ekkert okkar ætti að vera skilgreint einungis af því versta sem við höfum nokkru sinni gert. Guð er fullkominn dómari. Hann sér undir yfirborðið. Hann veit allt og sér allt (sjá 2 Ne 2:24). „Ég, Drottinn, mun fyrirgefa þeim, sem ég vil fyrirgefa, en af yður er krafist, að þér fyrirgefið öllum mönnum“ (K&S 64:10).
Sjálfur Kristur, þegar hann var ranglega ásakaður, síðan grimmdarlega ráðist á hann, hann barinn og látinn þjást á krossinum, sagði á því augnabliki: „Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gjöra“ (Lúk 23:34).
Vera má, í skammsýni okkar, að stundum finnist okkur auðveldara að ala með okkur gremju gagnvart öðrum sem haga sér ekki eða hugsa á sama hátt og við. Við gætum orðið umburðarlaus í viðhorfi okkar, byggt á yfirborðslegum smáatriðum, sem gætu falist í andúð á andstæðum íþróttaliðum, stjórnmálaskoðunum eða trúarbragðakenningum.
Russell M. Nelson forseti veitti viturlega ráðgjöf þegar hann sagði: „Tækifæri til að hlusta á þá sem koma frá ólíkum trúarfélögum eða stjórnmálaskoðunum getur stuðlað að umburðarlyndi og lærdómi.”
Í Mormónsbók var tímabil þegar „kirkjunnar fólk tók að hreykja sér upp … tók að forsmá hvert annað og ofsækja þá, sem ekki trúðu í samræmi við þeirra eigin vilja og geðþótta“ (Alma 4:8). Við skulum öll minnast þess að Guð horfir ekki á lit íþróttaliðsins eða stjórnmálaflokksins. Ammon lýsti því meira að segja yfir: „[Guð] lítur niður til allra mannanna barna, og hann þekkir allar hugsanir og öll áform hjartans“ (Al 18:32). Bræður og systur, ef við vinnum í samkeppni lífsins, þá skulum við vinna með sæmd. Ef við töpum, töpum þá með sæmd. Því að ef við sýnum hvort öðru sæmd í lífinu, þá mun sæmdin verða verðlaun okkar á hinum efsta degi.
Rétt eins og við erum öll fórnarlömb misgjörða annara, á einum eða öðrum tíma, þá erum við einnig stundum gerendur. Við erum öll ófullkomin og þörfnumst náðar, miskunnar og fyrirgefningar. Við verðum að hafa í huga að fyrirgefning okkar eigin synda og brota er skilyrt því að við fyrirgefum öðrum. Frelsarinn sagði:
„Ef þér fyrirgefið mönnum misgjörðir þeirra, þá mun og faðir yðar himneskur fyrirgefa yður.
En ef þér fyrirgefið ekki öðrum, mun faðir yðar ekki heldur fyrirgefa misgjörðir yðar“ (Matt 6:14–15).
Af öllu því sem Drottinn hefði geta sagt í Faðir vorinu, sem er ótrúlega stutt, þá er áhugavert að hann valdi að segja: „Og fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér fyrirgefum vorum skuldunautum“ (Matt 6:12; 3 Ne 13:11).
Fyrirgefningin er einmitt ástæðan fyrir því að Guð sendi son sinn. Því skulum við fagna yfir boði hans að lækna okkur. Friðþæging frelsarans er ekki bara fyrir þá sem þurfa að iðrast. Hún er einnig fyrir þá sem þurfa að fyrirgefa. Biðjið Guð um liðsinni, ef þið eigið erfitt með að fyrirgefa einhverjum. Fyrirgefning er dásamleg lækningar regla. Við þurfum ekki að vera fórnarlamb tvisvar. Við getum fyrirgefið.
Ég vitna um varanlega elsku og þolinmæði Guðs í garð barna hans og þrá hans að við elskum hvert annað eins og hann elskar okkur (sjá Jóh 15:9, 12). Er við gerum svo, þá mun hann brjótast í gegnum myrkur þessa heims með dýrð og mikilfengleika himnaríkis síns. Við munum þá verða frjáls. Í nafni Jesú Krists, amen.