Á morgun mun Drottinn gjöra undursamlega hluti meðal yðar
Haldið áfram að elska. Haldið áfram að reyna. Haldið áfram að treysta. Haldið áfram að trúa. Haldið áfram að vaxa. Himnarnir eru að hvetja ykkur áfram í dag og munu gera það á morgun og ævinlega.
Bræður og systur, hafið þið einhverja hugmynd – einhverja minnstu hugmynd – um hve heitt og innilega við elskum ykkur? Í tíu klukkustundir hafið þið horft stöðugt á ásjónu þeirra sem tala frá þessum ræðustól, en á sama tíma þá höfum við setið aftan við þennan ræðustól og horft á ykkur. Þið vekið innilega aðdáun okkar, hvort heldur þið eruð í ráðstefnuhöllinni, meðal hinna 21.000 sem hér eru, eða meðal hinna mörgu í samkomuhúsum og kapellum eða að lokum þær milljónir á heimilum víða um heim, væntanlega umhverfis tölvuskjá fjölskyldunnar. Þið eruð hér og þið eruð þar, tímunum saman, íklædd ykkar besta og sýnið ykkar besta. Þið syngið og biðjist fyrir. Þið hlustið og trúið. Þið eruð undur þessarar kirkju. Við elskum ykkur.
Ein önnur stórkostleg aðalráðstefna sem við höfum notið. Við höfum verið innilega blessuð með návist Thoms S. Monson forseta og hans spámannlega boðskap. Monson forseti, við elskum þig, biðjum fyrir þér, þökkum þér og, umfram allt, styðjum þig. Við erum þakklát fyrir kennslu þína og þinna dásamlegu ráðgjafa og hinna mörgu dásamlegu leiðtoga, bæði karla og kvenna. Við höfum hlustað á óviðjafnanlega tónlist. Við höfum notið heitra bæna og hvatningar. Vissulega hefur andi Drottins verið hér ríkulega með okkur. Hve dásamleg og fullkomin helgi.
Ég veit þó að við eigum við tvö vandamál að stríða. Í fyrsta lagi er það sú staðreynd að ég einn stend á milli ykkar og íssins sem ætíð er hafður til reiðu fyrir ykkur eftir aðalráðstefnu. Seinna vandamálið sést mögulega á þessari mynd sem ég fann nýlega á netinu.
Ég færi öllum þeim börnum sem nú fela sig undir sófanum afsökunarbeiðni, en staðreyndin er sú að ekkert okkar vill að þær dásamlegu tilfinningar sem við höfum upplifað þessa helgi hverfi á morgun eða daginn eftir. Við viljum halda fast í okkar andlega innblástur og fræðsluna sem við höfum fengið. Það er þó óhjákvæmilegt að við förum aftur til jarðar eftir okkar himnesku upplifanir, ef svo mætti að orði komast, og höldum áfram að lifa, stundum við óheppilegar aðstæður.
Höfundur Hebrebréfsins lýsti þessu er hann ritaði: „Minnist fyrri daga, er þér höfðuð tekið á móti ljósinu, hvernig þér urðuð að þola mikla raun þjáninga.“ Sú raun, eftir að tekið er á móti ljósinu, getur verið af ýmsum toga og getur orðið á vegi okkar allra. Vissulega munu allir trúboðar, sem þjónað hafa, gera sér ljóst að lífið á akrinum er ekki eins og fyrirmyndaraðstæður trúboðsskólans. Það á líka við um okkur, er við yfirgefum ljúfa stund í musterinu eða einkar andlega sakramentissamkomu.
Munið eftir því, að þegar Móse kom niður af Sínaífjalli, eftir sína einstöku reynslu, þá sá hann að fólkið hafði „misgjört“ og „skjótt … vikið af [vegi Drottins]“ Þarna var það, önnum kafið við að tilbiðja gullkálf, á sama tíma og Jehóva hafði á fjallstoppinum sagt við Móse: „Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig,“ og „þú skalt engar líkneskjur gjöra þér.“ Móse gladdist ekki yfir sinni villuráfandi hjörð Ísraelsmanna þann dag!
Í jarðneskri þjónustu sinni, fór Jesús með Pétur, Jakob og Jóhannes upp á fjall ummyndunar, þar sem ritningin segir:„Ásjóna hans skein sem sól, og klæði hans urðu björt eins og ljós.“ Himnarnir lukust upp, fornir spámenn vitjuðu þeirra og Guð faðirinn hóf upp rödd.
Hvað bar fyrir augum Jesú eftir að hann kom niður af fjallinu og hafði hlotið slíka himneska reynslu? Fyrst voru það deilur á milli lærisveina hans og andstæðinga þeirra, yfir misheppnaðri blessun ungs drengs. Síðan reyndi hann að sannfæra hina Tólf – sýnilega án árangurs – um að hann yrði brátt færður fyrir staðarvaldhafa, sem myndu ráða honum bana. Síðan minntist einhver á skatt sem vangreiddur var, er var strax greiddur. Loks varð hann að ávíta suma bræðurna, því þeir þrættu sín á milli um hver væri mestur í ríki hans. Allt þetta varð til þess að hann sagði á einhverjum tímapunkti: „Ó, þú vantrúa kynslóð, hversu lengi á ég að … umbera yður?“ Oftar en einu sinni hafði hann tilefni til að setja fram þessa athugasemd í þjónustu sinni. Það sætti því engri furðu að hann hafi þráð einveru í bæn á fjallstindum!
Í ljósi þess að við þurfum öll að koma niður af fjallstindi háleitrar reynslu, til að takast á við hinn venjubundna hverfulleika lífsins, þá færi ég ykkur þessi hvatningarorð við lok þessarar aðalráðstefnu.
Til að byrja með, ef þið á komandi dögum sjáið ekki aðeins annmarka þeirra sem umhverfis ykkur eru, heldur líka eitthvað í eigin fari sem enn samræmist ekki þeim boðskap sem þið hafið hlýtt á þessa helgi, þá látið hvorki hugfallast, né gefist upp. Fagnaðarerindinu, kirkjunni og þessum dásamlegu aðalráðstefnum er ætlað að vekja okkur von og innblástur. Þeim er ekki ætlað að draga úr okkur kjark. Aðeins andstæðingurinn, óvinur okkar allra, reynir að telja okkur trú um niðurdrepandi óraunsæi þeirra lífsfyrirmynda sem útskýrðar eru á aðalráðstefnum, að fólk geti í raun ekki bætt sig, að engar framfarir geti í raun orðið. Hvers vegna er þetta málstaður Lúsífers? Vegna þess að hann veit vel að hann getur ekki orðið betri, að hanngetur ekki tekið framförum, að hann mun aldrei, um ótal heima, upplifa bjartan morgun. Hann er aumkunarverður einstaklingur, bundinn eilífum annmörkum, og hann vill að þið séuð líka aumkunarverð. Látið ekki blekkjast af honum. Með gjöf friðþægingar Jesú Krists og mætti himins, getum við bætt okkur, og hið dásamlega við fagnaðarerindið, er að okkur er umbunað fyrir að reyna, jafnvel þótt árangurinn láti stundum á sér standa.
Þegar ágreiningur kom upp á fyrstu árum kirkjunnar, um hver ætti og ætti ekki tilkall til blessana himins, sagði Drottinn við spámanninn Joseph Smith: „Sannlega segi ég yður, að [gjafir Guðs] eru gefnar þeim til heilla, sem elska mig og halda … boðorð mín, og þeim, sem leitast við að gjöra svo.“ Úff, erum við ekki öll þakklát fyrir viðaukann: „Og … leitast við að gera svo“! Hann hefur verið lífgjafi, því stundum er það allt sem við getum gert! Það felst nokkur huggun í þeirri staðreynd, að ef Guð umbunaði aðeins hinum fullkomlega trúföstu, þá yrði umbunarlistinn heldur snauður.
Minnist þess því á morgun, og alla komandi daga, að Drottinn blessar þá sem fúslega vilja bæta sig, sem viðurkenna nauðsyn boðorðanna og reyna að lifa eftir þeim, sem elska kristilegar dyggðir og leggja sig fram við að sækjast eftir þeim. Ef ykkur skrikar fótur í því verki, en það gera allir, þá er frelsarinn fús til að hjálpa ykkur að halda áfram. Ef þið fallið, kallið þá á styrk hans. Ákallið þá líkt og Alma: „Ó Jesús, … vertu mér miskunnsamur.“ Hann mun hjálpa ykkur að rísa upp aftur. Hann mun hjálpa ykkur að iðrist, að bæta og lagfæra allt nauðsynlegt og halda síðan áfram. Hin þráða farsæld mun brátt líta dagsins ljós.
„Hvað sem þér þráið af mér, það mun yður veitast,“ sagði Drottinn.
„… Set traust þitt á þann anda, sem leiðir til góðra verka – já, til að breyta rétt, til að ganga í auðmýkt, til að dæma réttlátlega. …
… [Þá] munt þú [hljóta] … allt, sem réttlætinu tilheyrir og sem þú þráir af mér, … í trú á að þér gefist það.“
Þessi kenning er mér kær! Þar segir síendurtekið að við munum verða blessuð fyrir þrá okkar til að gera gott, já, þegar við í raun reynum að vera góð. Við verðum líka að hafa í huga, að til þess að verðskulda þessar blessanir, þá þurfum við að gæta þess vandlega að við neitum ekki öðrum um þær: Við þurfum að koma réttlátlega fram, aldrei ranglátlega, aldrei af ósanngirni; við þurfum að vera auðmjúk, aldrei drambsöm, aldrei stærilát; við þurfum að dæma réttlátlega, aldrei af sjálfsréttlætingu, aldrei ranglátlega.
Bræður og systur, æðsta boðorð allrar eilífðar, er að elska Guð af öllu ykkar hjarta, mætti, huga og styrk – það er hið æðsta og mikla boðorð. Æðsti sannleikur allrar eilífðar, er þó sá að Guð elskar okkur af öllu sínu hjarta, mætti, huga og styrk. Sú elska er undirstaða eilífðar og ætti að vera undirstaða okkar daglega lífs. Vissulega er það einungis með þá fullvissu brennheita í sálu okkar að við getum sjálfsörugg haldið áfram að reyna að bæta okkur, leita fyrirgefningar synda okkar og hjálpa náunga okkar að njóta þessarar náðar.
George Q. Cannon forseti sagði eitt sinn: „Hversu alvarlegir sem erfiðleikarnir eru, hversu djúp sem þjáningin er, hversu mikil sem ógæfan er, þá mun [Guð] aldrei hverfa frá okkur. Það hefur hann aldrei gert og mun aldrei gera. Hann getur ekki gert það. Það samræmist ekki persónugerð hans [að gera það]. … Hann mun [ætíð] standa við bak okkar. Við kunnum að fara í gegnum hinn glóandi eldsofn; við kunnum að fara um hin djúpu vötn; en við munum hvorki eyðast, né sökkva í djúpið. Við munum sjá fyrir endann á öllum þessum erfiðleikum og raunum og verða betri og hreinni fyrir vikið.“
Þessi undursamlega trúrækni sem hringir af himnum, sem aldrei mun bregðast í lífi okkar, og sýnir sig best með lífi, dauða og friðþægingu Drottins Jesú Krists, gerir okkur kleift að komast hjá afleiðingum synda og flónsku – eigin synda eða annarra – hvernig sem þær birtast okkur í umgjörð daglegs lífs. Ef við gefum Guði hjarta okkar, ef við elskum Drottin Jesú Krist, ef við gerum okkar besta til að lifa eftir fagnaðarerindinu, þá mun morgundagurinn – og allir aðrir dagar – í raun verða undursamlegur, jafnvel þótt við skynjum þá ekki alltaf á þann hátt. Hvers vegna er það svo? Vegna þess að faðir okkar á himnum vill að svo sé! Hann vill veita okkur blessanir. Gefandi, ríkulegt og eilíft líf eru markmið miskunnaráætlunar hans fyrir börn hans! Það er áætlun sem byggist á þeim sannleika „að þeim, sem Guð [elskar], samverkar allt til góðs.“ Haldið því áfram að elska. Haldið áfram að reyna. Haldið áfram að treysta. Haldið áfram að trúa. Haldið áfram að vaxa. Himnarnir eru að hvetja ykkur áfram í dag og munu gera það á morgun og ævinlega.
„Veistu þá ekki? Hefir þú ekki heyrt?“ Jesaja hrópaði:
„[Guð] veitir kraft hinum þreytta og gnógan styrk hinum þróttlausa. …
… Þeir, sem vona á [hann], fá nýjan kraft, þeir fljúga upp á vængjum sem ernir. …
Því … Drottinn, Guð [mun halda] í hægri hönd þína og segi við þig: Óttast þú eigi, ég hjálpa þér!“
Bræður og systur, megi kærleiksríkur faðir á himnum blessa okkur á morgun, að muna eftir því hvernig okkur leið í dag. Megi hann blessa okkur með því að vinna að því af þrautseigju og þolinmæði að tileinka okkur þær fyrirmyndir sem yfirlýstar hafa verið á þessari ráðstefnuhelgi, meðvituð um að við munum ávallt njóta hans guðlegu elsku og öruggu hjálpar jafnvel þegar við eigum erfitt – nei, að við munum einkum og sér í lagi njóta þeirra þegar við eigum erfitt.
Ef staðlar fagnaðarerindisins virðast háir, og okkar nauðsynlegu persónulegu framfarir virðast fjarlægar og torveldar, munið þá eftir hughreystingu Jósúa til fólks síns, er það stóð frammi fyrir óvænlegri komandi tíð. „Helgið yður,“ sagði hann, „því að á morgun mun Drottinn gjöra undursamlega hluti meðal yðar.“ Ég staðfesti þetta loforð. Þetta er loforð þessarar ráðstefnu. Þetta er loforð þessarar kirkju. Þetta er loforð Hans, sem gerir þessi undur, sem sjálfur er „Undraráðgjafi, Guðhetja, … Friðarhöfðingi.“ Um hann ber ég vitni. Ég er vitni Hans. Þessi ráðstefna er honum vitnisburður um að verk hans heldur áfram á þessum dásamlegu síðari dögum. Í nafni Jesú Krists, amen.