Andleg hæfni
Þið getið, sem trúfastir lærisveinar Jesú Krists, hlotið persónulegan innblástur og opinberun í samræmi við boðorð hans, sem eru sérsniðin fyrir ykkur.
Þegar ég var að fara úr Stúlknafélagsbúðum í sumar, kom til mín indæl stúlka og rétti mér miða. Á miðanum stóð: „Hvernig get ég vitað þegar Guð er að reyna að segja mér eitthvað?“ Mér þótti vænt um spurningu hennar. Sálir okkar þrá tengingu við himneskt heimili okkar. Við viljum finna að við komum að gagni og að þörf sé fyrir okkur. Stundum reynist okkur erfitt að greina á milli eigin hugsana og hljóðra hugboða andans. Spámenn, fyrr og nú, hafa kennt að „ef eitthvað hvetur til góðra verka, er það frá Kristi“.
Russel M. Nelson forseti lagði fram einfalt, kröftugt boð: „Kæru bræður og systur, ég hvet ykkur eindregið til að efla andlega hæfni ykkar til að hljóta opinberun. … Takið ákvörðun um að takast á við hið andlega verk sem þarf til að fá notið gjafar heilags anda og heyrt betur og oftar rödd andans.
Þrá mín í dag er að tala til ykkar einlæglega um fjórar leiðir sem efla andlega hæfni til að hljóta opinberun.
1. Ákveðið meðvitað stað og stund, til að hlusta á rödd Guðs.
Þegar þið notið sjálfræði ykkar til að ákveða tíma á hverjum degi til að nálgast rödd Guðs, einkum í Momónsbók, þá mun rödd hans með tímanum verða skýrari og kunnuglegri.
Hins vegar geta truflanirnar og hávaðinn sem fylla heiminn, heimili okkar og líf, gert okkur erfiðara fyrir að heyra rödd hans. Þessar truflanir geta fyllt huga okkar og hjörtu svo að ekkert rúm verður fyrir hina hljóðu hvatningu heilags anda.
Spámaðurinn Joseph Smith kenndi að Guð opinberar sig fólki „einslega, í herbergjum þeirra, í óbyggðum eða á ökrum og yfirleitt án skarkala og uppnáms.“
Satan vill aðskilja okkur frá röddu Guðs með því að halda okkur frá þessum hljóðu stundum. Ef Guð talar hljóðri og kyrrlátri röddu, þurfum við að halla okkur nær honum til að hlusta. Ímyndið ykkur bara hvað myndi gerast, ef við værum jafn ákveðin í því að viðhalda tengingu himins eins og tengingu hins þráðlausa nets. Ákveðið tíma og stund og hlustið eftir rödd Guðs daglega. Haldið svo þetta helga stefnumót af nákvæmni, því svo margt er undir því komið.
2. Bregðist við án tafar
Þegar þið finnið fyrir hvatningu og bregðist við af ásetningi, getur Drottinn notað ykkur. Því oftar sem þið bregðist við, því kunnuglegri verður rödd andans. Þið munið sífellt betur kannast við leiðsögn Guðs og að hann sé „fús … að opinbera vilja sinn.“ Ef þið hikið, gætuð þið gleymt hvatningunni eða misst af tækifærinu til að liðsinna einhverjum fyrir Guð.
3. Gangið erinda Drottins
Sú bæn sem himneskur faðir virðist óðfús svara, er bæn okkar um að vera leidd til einhvers sem þarfnast hjálpar. Henry B. Eyring forseti hefur kennt okkur að leita opinberunar með því að spyrja Guð hverjum við getum hjálpað fyrir hann. „Ef þið spyrjið þannig spurninga, mun heilagur andi koma og þið skynjið ábendingar um það sem þið getið gert fyrir aðra. Þegar þið farið og gerið þá hluti, eruð þið í erindagjörðum Drottins og þegar þið eruð á Drottins vegum, eruð þið hæf fyrir gjöf heilags anda.“
Þið getið beðist fyrir og beðið Drottin um erindagjörð. Er þið gerið svo, getur hann notað ykkar venjulegu hæfileika til að framvæma óvenjulegt verk.
Afi minn, Fritz Hjalmar Lundgren, flutti frá Svíþjóð þegar hann var 19 ára gamall. Hann kom einn til Bandaríkjanna, með ferðatösku og sex ára skólanám að baki. Ótalandi á enska tungu, hélt hann til Oregon og vann þar sem skógarhöggsmaður og gekk síðan í kirkjuna ásamt móðurömmu og móður minni. Hann var aldrei í forsæti kirkjudeildar, en sem trúfastur heimiliskennari leiddi hann meira en 50 fjölskyldur aftur til virkni í kirkjunni. Hvernig fór hann að því?
Eftir að afi dó, fór ég í gegnum kassa af pappírum sem hann átti og fann bréf frá manni sem hafði komið aftur til kirkju vegna elsku afa. Í bréfinu stóð: „Ég trúi að leyndarmál bróður Fritz sé að hann er alltaf í erindagjörðum fyrir himneskan föður.“
Bréfið var frá bróður Wayne Simonis. Afi heimsótti hann og kynntist öllum í fjölskyldunni. Eftir einhvern tíma sagði afi að þeirra væri þörf og bauð þeim að koma til kirkju. Þann sunnudag vaknaði bróðir Simonis og frammi fyrir honum var vandamál – hann hafði ekki lokið við að skipta um þakið á húsi sínu og það var spáð rigningu í vikunni. Hann ákvað að fara í kirkju, heilsa afa með handabandi og fara síðan og klára þakið. Fjölskylda hans myndi vera við sakramentissamkomu án hans.
Áætlun hans gekk ágætlega þangað til að hann heyrði einhvern klifra upp stigann til sín á þakinu. Með hans eigin orðum: „Þegar ég leit upp … sá ég bróður Fritz efst í stiganum. Hann brosti sínu breiða brosi. Til að byrja með var ég skömmustulegur og fannst ég vera eins og lítill krakki sem var gripinn við að skrópa í skólanum. Svo … varð ég reiður. [Bróðir Fritz bara] fór úr jakkanum og hengdi hann á stigann. Meðan hann bretti upp ermarnar á hvítu skyrtunni sinni, snéri hann sér að mér og sagði: ‚Bróðir Simonis, áttu annan hamar? Þetta verk hlýtur að vera þér mjög mikilvægt, annars hefðir þú ekki yfirgefið fjölskyldu þína og ef þetta er þér svona mikilvægt þá vil ég aðstoða þig.‘ Þegar ég leit í augu hans, sá ég aðeins góðmennsku og kristilegan kærleika. Reiðin hvarf. … Ég lagði verkfærin niður þennan sunnudag og fylgdi þessum góða vini mínum niður stigann og aftur til kirkju.“
Afa hafði verið úthlutað erindi frá Drottni og hann vissi að hann var að sækja týndan sauð. Á sama hátt og mennirnir fjórir sem báru lamaðan vin sinn upp á þakið og létu hann síga niður til að fá lækningu frá Jesú Kristi, þá leiddi erindi afa hann líka upp á þak. Drottinn sendir þeim opinberun sem leitast við að aðstoða aðra.
4. Trúið og treystið
Nýlega las ég um annan stórkostlegan trúboða sem fékk erindi sitt frá Drottni. Aron var að kenna konungi Lamaníta, sem velti því fyrir sér hvers vegna Ammon, bróðir Arons, hefði ekki líka komið til að kenna honum. „Og Aron sagði við konung: Sjá, andi Drottins hefur kallað hann annað.”
Andinn talaði til mín: Hvert og eitt okkar hefur sitt ólíka ætlunarverk og stundum kallar andinn okkur „annað.“ Það eru margar leiðir til að byggja upp ríki Guðs, sem lærisveinar Jesú Krists, er gera og halda sáttmála. Þið getið, sem trúfastir lærisveinar hans, hlotið persónulegan innblástur og opinberun í samræmi við boðorð hans, sem eru sérsniðin fyrir ykkur. Þið vinnið að ykkar sérstöku ætlunarverkum og hlutverkum í lífinu og hljótið ykkar sérstöku leiðsögn til að framfylgja þeim.
Nefí, bróðir Jareds og jafnvel Móse þurftu allir að fara yfir höfin breið – og hver gerði það á sinn hátt. Nefí vann „timbur á óvenjulegan hátt.“ Bróðir Jareds byggði skip sem voru „þétt sem skál.“ Og Móse „[gekk] á þurru mitt í gegnum hafið.“
Hver þeirra meðtók persónulega leiðsögn, sniðna að sér og hver þeirra treysti og lét verkin tala. Drottinn vakir yfir þeim sem hlýða og mun, með orðum Nefís, „greiða [okkur] veg til að leysa af hendi það, sem hann hefur boðið.“ Takið eftir að Nefí segir „veg en ekki veginn.
Missum við af eða hunsum persónuleg erindi frá Drottni, vegna þess að hann hafi undirbúið öðruvísi „veg“ en við áttum von á?
Afi minn var leiddur á óvenjulegan stað – í jakkafötum, uppi á þaki, á sunnudegi. Treystið að Guð leiði ykkur, jafnvel þó vegurinn virðist öðruvísi en þið áttuð von á eða sé ekki eins og hjá öðrum.
Síðari daga heilagir koma í mörgum mismunandi stærðum og gerðum, en „allir eru jafnir fyrir Guði“ – „[svartir og hvítir, ánauðugir og frjálsir, karl og kona,]“ einhleypir og giftir, ríkir og fátækir, ungir og gamlir, meðlimir til lengri og skemmri tíma. Sama hver þið eruð eða hvað þið eruð að takast á við, þá er ykkur boðið að koma til Drottins.
Er þið leitið og gerið vilja föðurins og það verður hljómfall ykkar daglega lífs, þá munið þið að sjálfsögðu vera leidd til að breytast og iðrast.
Hin nýja áætlun kirkjunnar fyrir börn og ungmenni er byggð á grunni þess að læra að leita opinberunar, uppgötva hvað Drottinn vill að við gerum og bregðast síðan við þeirri leiðsögn. Hvert okkar, sama hver aldur okkar er eða aðstæður, getur unnið að því að leita, meðtaka og bregðast við. Þegar þið fylgið þessu eilífa mynstri sem mótað er fyrir okkur á okkar tímum, munið þið koma nær Jesú Kristi – elsku hans, ljósi, leiðsögn, friði og lækningu hans og virkjandi krafti. Þið munið einnig auka andlega hæfni ykkar til að verða dag hvern verkfæri í höndum hans, við að vinna hið mikla verk hans. Í nafni Jesú Krists, amen.