2010–2019
Breytingar til styrktar ungmennum
Aðalráðstefna október 2019


2:3

Breytingar til styrktar ungmennum

Fleiri piltar og stúlkur munu rísa undir áskoruninni og halda sig á sáttmálsveginum, vegna þessarar markvissu áherslu á ungmenni okkar.

Þakka þér, kæri Nelson forseti, fyrir þá gleðilegu opinberuðu leiðsögn varðandi vitnin við skírnir og þá leiðsögn sem þú hefur beðið okkur að miðla, til að styrkja ungmennin og þróa hina helgu möguleika þeirra.

Áður en ég segi nánar frá þessum breytingum, þá látum við í ljós einlægt þakklæti fyrir einstök viðbrögð meðlima við þróun áframhaldandi endurreisnar fagnaðarerindisins. Eins og Nelson forseti lagði til í fyrra, þá hafið þið tekið vítamínin ykkar!

Af gleði lærið þið Kom, fylg mér á heimilum ykkar. Þið hafið einnig brugðist við breytingum í kirkjunni. Meðlimir öldungasveitar og Líknarfélags starfa saman í einingu við sáluhjálparstarfið.

Við erum fullir þakklætis. Við erum einkar þakklátir því að ungmenni okkar eru áfram sterk og trúföst.

Ungmenni okkar lifa á spennandi en líka krefjandi tíma. Valkostirnir sem eru í boði hafa aldrei verið stórbrotnari. Dæmi: Nútíma snjallsíminn veitir aðgang að ótrúlega mikilvægum og upplífgandi upplýsingum, þar á meðal ættarsögu og heilagri ritningu. Þar er þó líka að finna heimsku, siðleysi og illsku, sem áður voru ekki svo auðveldlega fyrir hendi.

Heimamiðað námsefni
Ungmennastarf

Kirkjan hefur unnið að þremur mikilvægum og víðtækum verkefnum, til hjálpar ungmennum okkar við að vinna úr þessum flóknu valkostum. Í fyrsta lagi hefur námsefnið verið bætt og tengt meira heimilinu. Í öðru lagi var barna- og ungmennaáætlun sem felur í sér spennandi starf og persónulega framþróun, kynnt síðasta sunnudag af Russell M. Nelson forseta, M. Russell Ballard forseta og aðalembættismönnum. Í þriðja lagi er um að ræða skipulagsbreytingar með aukinni áherslu biskupa og annarra leiðtoga á ungmenni. Þessi áhersla verður að vera andlega öflug og stuðla að því að ungmenni okkar verða að þeirri æskulýðsfylkingu sem Nelson forseti hefur beðið þau að verða.

Samræmt verk

Þessar breytingar, ásamt þeim sem hafa verið kynntar á síðustu fáu árum, eru ekki afmörkuð, einangruð fyrirbæri Hver breyting er ómissandi þáttur í samræmdu verki til að blessa hina heilögu og búa þá undir að mæta Guði.

Einn þáttur verksins tengist hinni upprennandi kynslóð. Ungmennum okkar er falið að axla aukna ábyrgð á yngri aldri – án þess að foreldrar og leiðtogar komi að og taki yfir þau mál sem þau geta gert sjálf.

Tilkynning

Í dag kynnum við skipulagsbreytingar fyrir ungmenni á sviði deildar og stiku. Eins og Nelson forseti útskýrði, þá mun systir Bonnie H. Cordon ræða í kvöld um breytingar sem varða stúlkur. Tilgangur breytinganna sem ég mun nú kynna, er að efla Aronsprestdæmishafa, sveitir og sveitarforsætisráð. Þessar breytingar laga starf okkar betur að Kenningu og sáttmálum 107:15, þar sem segir: „Biskupsráðið er forsætisráð þessa [Arons]prestdæmis og hefur lykla eða vald þess.“

Ein ritningarleg ábyrgð biskups, er að vera í forsæti presta, sitja í ráði með þeim og kenna þeim skyldur embættis síns. Að auki ber fyrsti ráðgjafi í biskupsráði sérstaka ábyrgð á kennurum og annar ráðgjafi á djáknum.

Forsætisráð Piltafélags á sviði deildar, verður því samkvæmt þessu aflagt, til aðlögunar að þessari opinberun í Kenningu og sáttmálum. Þessir trúföstu bræður hafa gert margt gott og við þökkum þeim fyrir það.

Við vonumst til þess að biskupsráð muni leggja mikla áherslu á prestdæmisábyrgð pilta og hjálpa þeim við sveitarskyldur sínar. Hæfir fullorðnir ungir menn verða kallaðir sem leiðbeinendur til að aðstoða forsætisráð Aronsprestdæmissveita og biskupráð við skyldur þeirra. Við erum fullviss um að fleiri piltar og stúlkur muni rísa undir áskoruninni og halda sig á sáttmálsveginum, vegna þessarar markvissu áherslu á ungmenni okkar.

Hin innblásna fyrirmynd Drottins kveður á um að biskup beri ábyrgð á öllum í deildinni. Hann blessar foreldra ungmenna, sem og ungmennin sjálf. Einn biskup komst að því, þegar hann leiðbeindi pilti sem átti í erfiðleikum með klámefni, að hann gat aðeins hjálpað piltinum við iðrun með því að hvetja foreldra hans til að bregðast við af kærleika og skilningi. Lækning piltsins var lækning fjölskyldu hans og varð möguleg þegar biskupinn starfaði fyrir hönd allrar fjölskyldunnar. Piltur þessi er nú orðinn verðugur Melkísedeksprestdæmishafi og fastatrúboði.

Eins og þessi frásögn sýnir, munu þessar breytingar:

  • Auðvelda biskupum og ráðgjöfum þeirra að einbeita sér að megin ábyrgð sinni varðandi ungmenni og börn í Barnafélaginu.

  • Setja kraft og skyldur Aronsprestdæmisins sem miðpunkt og markmið í lífi sérhvers pilts.

Þessar breytingar:

  • Undirstrika líka ábyrgð forsætisráða Aronsprestdæmissveita og milliliðalausa greinargerð til biskpsráðs.

  • Hvetja fullorðna leiðtoga til að liðsinna og kenna forsætisráðum Aronsprestdæmissveita við að efla kraft og yfirráð embættis þeirra.

Eins og fram hefur komið, þá draga þessar breytingar ekki úr ábyrgð biskupsráðs á stúlkum. Eins og Nelson forseti kenndi: „Megin ábyrgð [biskups] er að annast piltana og stúlkurnar í deildinni hans.“

Hvernig munu okkar ástkæru og duglegu biskupar framfylgja ábyrgð sinni? Eins og þið munið, þá var breyting gerð á sveitum Melkísedeksprestdæmisins árið 2018, til að auka samstarf við Líknarfélagið, svo öldungasveitir og Líknarfélag geti, undir stjórn biskups, hjálpað við mikilvæga ábyrgð, sem áður var honum tímafrek. Sú ábyrgð var meðal annars trúboðsstarf og musteris- og ættarsögustarf í deildinni – sem og hirðisþjónusta deildarmeðlima.

Ábyrgðarskyldur biskups

Biskup getur ekki úthlutað sumum ábyrgðarskyldum sínum, svo sem að styrkja ungmennin, vera almennur dómari, annast hina þurfandi og umsjá fjármála og stundlegra málefna. Þessar eru þó færri en okkur gæti áður hafa skilist. Öldungur Jeffrey R. Holland útskýrði á síðasta ári, þegar breytingar á sveitum Melkísedeksprestdæmis voru kynntar: „Biskup verður auðvitað áfram í forsæti hápresta deildarinnar. Þessar nýju breytingar [öldungasveitar og Líknarfélags] gera honum kleift að vera í forsæti starfs Melkísedeksprestdæmis og Líknarfélags, án þess að af honum sé krafist að vinna verk þessara tveggja aðila.

Líknarfélagsforseti og öldungasveitarforseti geta t.d. átt stærri þátt í því að veita fullorðnum ráðgjöf, eins og tilnefnt verður – svo og getur Stúlknafélagsforseti einnig veitt stúlkum ráðgjöf. Þótt einungis biskup geti þjónað sem almennur dómari, eiga þessir leiðtogar einnig rétt á opinberun frá himnum, sér til hjálpar við áskoranir sem ekki gera kröfu um almennan dómara eða fela ekki í sér einhvers konar misnotkun.

Það merkir ekki að stúlka geti ekki eða eigi ekki að ræða við biskup sinn eða foreldra. Ungmennin eru þeirra verk! Það merkir þó að leiðtogi Stúlknafélags gæti ef til vill best uppfyllt þarfir einstakrar stúlku. Biskupsráð lætur sig jafn miklu skipta velferð stúlkna og pilta, en okkur er þó ljós sá styrkur sem hlýst af því að hafa sterka, skuldbundna og einbeitta leiðtoga Stúlknafélagsins, sem elska og kenna, en taka ekki yfir hlutverk forsætisráðs námsbekkjar, heldur hjálpa ungmennum að ná árangri í því hlutverki.

Systir Cordon mun greina frá spennandi breytingum fyrir stúlkurnar í kvöld. Ég tilkynni hins vegar að Stúlknafélagsforsetar deildar, munu nú eiga samráð beint við biskup deildar um starfið. Áður var mögulegt að úthluta þessu til ráðgjafa, en nú ber sá sem hefur lykla að forsæti deildar milliliðalausa ábyrgð á stúlkum. Líknarfélagsforseti mun áfram eiga bein samráð við biskup.

Við munum áfram hafa forsætisráð Piltafélags á sviði stiku og aðalembætta. Á sviði stiku verður háráðsmaður forseti Piltafélags og mun, ásamt þeim háráðsmönnum sem falið er að sjá um Stúlknafélagið og Barnafélagið, eiga aðild að stikunefnd Aronsprestdæmis–Stúlknafélags. Þessir bræður muni starfa með stikuforsætisráði Stúlknafélagsins í þessari nefnd. Nefnd þessi, með ráðgjafa stikuforseta sem formann, mun hafa aukið hlutverk, því mörg úrræðanna og athafnanna í hinni nýju starfsemi barna og ungmenna verða á sviði stiku.

Þessir háráðsmenn geta, undir stjórn stikuforsætisráðs, þjónað sem meðhjálp fyrir biskup og Aronsprestdæmissveitir, á líkan hátt og sú þjónusta sem háráðsmenn inna af hendi fyrir öldungasveitir deilda.

Á svipaðan hátt mun annar háráðsmaður þjóna sem stikuforseti sunnudagaskólans og gæti, ef þörf er á, þjónað í stikunefnd Aronsprestdæmis–Stúlknafélags.

Fleiri skipulagsbreytingar verða útskýrðar frekar í upplýsingum sendum leiðtogum. Þær breytingar eru meðal annars:

  • Ungmennaráð deildar kemur í stað ungmennanefndarfundar biskupsráðs.

  • Hugtakið „Ungmennafélagið“ verður aflagt og þess í stað verða notuð hugtökin „félagsstarf Stúlknafélags,“ „félagsstarf Aronsprestdæmissveita,“ eða „félagsstarf ungmenna,“ sem skal fara fram vikulega, þar sem mögulegt er.

  • Úthlutun fjárs til félagsstarfs ungmenna skal vera hlutfallslega jöfn á milli pilta og stúlkna, samkvæmt fjölda ungmenna í hvorum samtökum. Nægileg fjárhæð verður veitt fyrir athafnasemi Barnafélags.

  • Á öllum sviðum – deildar, stiku og aðalembætta – munum við nota hugtakið „samtök,“ fremur en hugtakið „aðildarfélag.“ Þau sem eru í aðalembættum samtaka Líknarfélagsins, Stúlknafélagsins, Piltafélagsins, Barnafélagsins og sunnudagsskólans, verða auðkenndir sem „aðalembættismenn.“ Þeir sem leiða samtök á sviðum deildar og stiku verða auðkenndir sem „embættismenn deildar“ og „embættismenn stiku.“

Breytingarnar sem kynntar voru í dag mega taka gildi um leið og greinar, deildir, umdæmi og stikur eru undir það búnar, en ættu að verða innleiddar fyrir 1. janúar 2020. Breytingar þessar eru samhæfðar og samræmdar fyrri breytingum, til styrktar andlegu skipulagsstarfi, sem samræmist þeirri kenningu að blessa og styrkja hvern karl, hverja konu, hvert ungmenni og barn, öllum til hjálpar við að fylgja fordæmi frelsara okkar, Jesú Krists, er við sækjum fram á sáttmálsveginum.

Kæru bræður og systur, ég lofa og vitna um að þessar víðtæku breytingar, undir leiðsögn innblásins forseta og spámanns, Russells M. Nelson, munu efla og styrkja sérhvern meðlim kirkjunnar. Ungmenni okkar munu þróa sterkari trú á frelsarann, hljóta vernd gegn freistingum andstæðingsins og vera viðbúin áskorunum lífsins. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá Russell M. Nelson, í “Latter-day Saint Prophet, Wife and Apostle Share Insights of Global Ministry,” Newsroom, 30. okt. 2018, newsroom.ChurchofJesusChrist.org.

  2. Að auki hafið þið lagt sérstaklega á ykkur að nota rétt nafn kirkjunnar, eins og Russell M. Nelson forseti kenndi og hafa frelsarann í huga, af elsku og virðingu, í þeirri viðleitni.

  3. „Meðlimir kirkju Jesú Krists eru sendir út til að ,vinna í víngarði hans til hjálpræðis sálum manna‘ (Kenning og sáttmálar 138:56). Þetta sáluhjálparstarf felur í sér meðlimatrúboð, varðveislu trúskiptinga, virkjun lítt virkra meðlima, musteris- og ættarsögustarf og kennslu fagnaðarerindisins. Biskupráð leiðir þetta starf og nýtur aðstoðar annarra meðlima deildarráðs“ (Handbook 2: Administering the Church, 5.0, ChurchofJesusChrist.org).

  4. Við, sem leiðtogar, elskum meðlimi Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu fyrir gæsku þeirra og lærisveinshlutverk. Við lofum þá einstaklinga, mæður, feður, ungmenni og börn sem ganga sáttmálsveginn – og gera það af tryggð og gleði.

  5. Árið 2019 hófu 11 ára gamlir djáknar að útdeila sakramentinu og 11 ára gömlum stúlkum og piltum var heimilt að fá takmörkuð musterismeðmæli. Á síðasta ári skoraði Nelson forseti á pilta og stúlkur að taka þátt í æskulýðsfylkingu til samansöfnunar Ísraels beggja vegna hulunnar (sjá “Hope of Israel” [heimslæg trúarsamkoma fyrir ungmenni, 3. júní 2018], HopeofIsrael.ChurchofJesusChrist.org). Viðbrögðin hafa verið stórfelld.

    Fastatrúboðar eru nú yngri að þjóna á einstakan hátt. Frá 6. október 2012, hafa piltar átt kost á að þjóna 18 ára gamlir og stúlkur 19 ára gamlar.

  6. „Einnig er skylda forseta Aronsprestdæmis að vera í forsæti fjörutíu og átta presta og sitja í ráði með þeim, kenna þeim skyldur embættis síns. … Þessi forseti skal vera biskup, því að það er ein af skyldum þessa prestdæmis“ (Kenning og sáttmálar 107:87–88).

  7. Fullorðnir leiðtogar verða líka kallaðir sem sérfræðingar Aronsprestdæmissveita, til að aðstoða við úrræði og athafnir og sækja sveitarfundi, svo biskupsráð geti reglubundið vitjað námsbekkja og félagsstarfs Stúlknafélags og endrum og eins Barnafélagið. Suma sérfræðinga væri hægt að kalla til aðstoðar við ákveðna viðburði, svo sem búðir; aðra mætti kalla til lengri tíma, til að aðstoða leiðbeinendur sveita. Það verða alltaf hið minnsta tveir fullorðnir karlmenn á hverjum sveitarfundi, dagskrárviðburði eða í félagsstarfi. Þótt hlutverk og heiti kunni að breytast, gerum við ekki ráð fyrir að dragi úr fjölda þeirra fullorðnu karla sem þjóna og styðja Aronsprestdæmissveitir.

  8. Russell M. Nelson, „Vitni, sveitir Aronsprestdæmisins og námsbekkir Stúlknafélagsins,“ aðalráðstefna, október 2019, skáletrað hér; sjá einnig Ezra Taft Benson, “To the Young Women of the Church,” Ensign, nóv. 1986, 85.

  9. Við ráðleggjum líka biskupum að verja meiri tíma með ungum einhleypum meðlimum og sinni eigin fjölskyldu.

  10. Jeffrey R. Holland, leiðtogafundur aðalráðstefnu, apríl 2018; sjá einnig “Effective Ministering,” ministering.ChurchofJesusChrist.org. Öldungur Holland kenndi að biskup geti ekki úthlutað þeirri ábyrgð að vera í forsæti Aronsprestdæmissveita og Stúlknafélags, vera almennur dómari, sjá um fjármál og stundleg málefni kirkjunnar og að annast fátæka og þurfandi. Forsætisráð öldungasveitar og Líknarfélags og aðrir, geta borið megin ábyrgð á trúboðsstarfi, musteris- og ættarsögustarfi, kennsluhæfni í deildinni og að vaka yfir og þjóna meðlimum kirkjunnar.

  11. Auk aðstæðna þar sem krafist er lykla almenns dómara, ættu hverskyns misnotkunarmál að vera í höndum biskups, í samræmi við reglur kirkjunnar.

  12. Líknarfélagsforseti stiku mun einnig áfram eiga beint samráð við stikuforseta.

  13. Ráðgjafa forseta Piltafélags stiku má kalla úr söfnuði stiku eða hann getur verið, eins og þörf er á, sá háráðsmaður sem tilnefndur er Stúlknafélaginu og háráðsmaður tilnefndur Barnafélaginu.

  14. Sá bróðir sem þjónar sem forseti sunnudagaskólans, hefur mikilvæga ábyrgð varðandi námsefni ungmenna, tvo sunnudaga í hverjum mánuði.

  15. Forsætisráð Líknarfélagsins, Stúlknafélagsins, Piltafélagsins, sunnudagaskólans og Barnafélagsins á sviði aðalembætta og á sviði stiku, eru aðalembættismenn eða embættismenn stiku. Biskupsráð leiðir piltana á sviði deildar, svo leiðbeinendur Aronsprestdæmissveitar eru ekki embættismenn deildar.