2010–2019
Vökul í stöðugri bæn
Aðalráðstefna október 2019


Vökul í stöðugri bæn (Alma 34:39; Moróní 6:4; Lúkas 21:36)

Stöðug árvekni er nauðsynleg til að standa gegn andvaraleysi og óförum.

Ég bið einlæglega um liðsinni heilags anda fyrir mig og ykkur, er við gleðjumst og tilbiðjum saman.

Í apríl 1976 talaði öldungur Boyd K. Packer sérstaklega til æskufólks kirkjunnar á aðalráðstefnu. Í sígildum boðskap sínum, sem bar yfirskriftina „Andlegir krókódílar,“ sagði hann frá því, er hann vann að verkefni í Afríku, hvernig hann hefði fylgst með vandlega felulituðum krókódílum liggja fyrir grunlausri bráð sinni. Hann líkti síðan krókódílunum við Satan, sem liggur fyrir ógætnu æskufólkinu í felulitum hinnar banvænu syndar.

Ég var 23 ára þegar öldungur Packer hélt þessa ræðu og við Susan væntum fæðingar fyrsta barnsins okkar innan fárra daga. Við hrifumst af boðskap hans um að forðast synd og snilldaraðferð hans við að kenna mikilvæga andlega lexíu með því að nota venjulegt atferli dýra.

Susan og ég höfum líka ferðast til Afríku vegna fjölda verkefna. Okkur hefur líka gefist tækifæri til að sjá hinar stórbrotnu skepnur sem búa í þeirri heimsálfu. Við höfum haft ræðu öldungs Packers í huga og áhrif hennar á líf okkar og reynt að vera vökul og læra mikilvægar lexíur af atferli hins afríska dýralífs.

Ég ætla að lýsa einkennum og aðferðum tveggja blettatígra sem Susan og ég fylgdumst með við veiðar og tengja sumt það sem við sáum hinu daglega lífi í fagnaðarerindi Jesú Krists.

Blettatígrar og antilópur

Blettatígur hleypur hraðast allra dýra á jörðu og getur náð allt að 120 kílómetrum á klukkustund. Þessi fallegu dýr geta náð allt að 109 kílómetra hraða úr kyrrstöðu á innan við þremur sekúndum. Blettatígur er rándýr sem læðist að bráð sinni og hleypur stuttan sprett er hann eltist við og ræðst á bráð sína.

Ljósmynd
Öldungur og systir Bednar fylgjast með blettatígri

Ég og Susan eyddum næstum tveimur klukkustundum í að horfa á tvo blettatígra eltast við stóra hjörð topi-antilópa, sem eru algengustu og útbreiddustu antilópur Afríku. Hátt og þurrt gras afrísku grassléttanna var gullbrúnt og faldi næstum algerlega rándýrin þegar þau eltust við antilópuhjörð. Um 90 metrar voru á milli blettatígranna, en þeir unnu saman sem teymi.

Meðan annar tígurinn sat uppréttur og hreyfingarlaus í grasinu, beygði hinn tígurinn sig lágt niður að jörðu og skreið hægt nær hinum grunlausu antilópum. Tígurinn sem hafði setið uppréttur hvarf síðan í grasið á nákvæmlega sama augnabliki og hin settist uppréttur. Þetta atferli hélt síðan lengi áfram, að annar tígurinn skreið lágt nær hjörðinni og hinn tígurinn sat uppréttur í grasinu og svo öfugt. Þessari laumulegu ráðagerð var ætlað að afvegaleiða og blekkja antilópurnar og beina athygli þeirra frá nálægri hættu. Af þolinmæði og þrautseigju unnu tígrarnir tveir saman sem teymi til að tryggja sér næstu máltíð.

Nokkrir eldri og sterkari tarfar stóðu á verði á termítahaug á milli antilópuhjarðarinnar og tígranna sem nálguðust. Aukið útsýni yfir graslendið frá lágum hæðunum gerði þessum varðantilópum mögulegt að fylgjast með hættumerkjum.

Þegar tígrarnir virtust sláandi nálægt, sneri öll hjörðin sér við og tók á rás. Ég veit ekki hvort eða hvernig varðantilópurnar áttu samskipti við hjörðina, en viðvörun var einhvern veginn gefin og öll hjörðin hljóp lengra í burtu á öruggari stað.

Hver voru næstu viðbrögð tígranna? Án nokkurrar tafar, tóku tígrarnir tveir upp sama atferlið, að annar tígurinn skreið lágt áfram á meðan hinn tígurinn sat uppréttur í grasinu. Þetta atferli hélt stöðugt áfram. Tígrarnir létu ekki af þessu. Þeir hvorki hættu, né tóku sér hvíld. Þeir héldu ótrauðir áfram ráðagerð sinni um að afvegaleiða og blekkja. Ég og Susan horfðum á blettatígrana hverfa í fjarska og færast stöðugt nær antilópuhjörðinni.

Um kvöldið áttum ég og Susan eftirminnilegt samtal um það sem við höfðum séð og lært. Við ræddum líka við börn okkar og barnabörn um þessa upplifun og lærðum af þessu margar dýrmætar lexíur. Ég ætla nú að tilgreina þrjár þeirra lexía.

Lexía #1 – Varist afvegaleiðandi blekkingar

Mér finnst blettatígrar vera rennilegar, heillandi og hrífandi skepnur. Gulbrún og gráhvítur feldur blettatígursins, með hinum svörtu blettum, er fallegt dulargervi sem gerir dýrið næstum ósýnilegt bráð sinni á afríska graslendinu.

Ljósmynd
Blettatígur dulbúinn í landslaginu

Á svipaðan hátt geta andlega hættulegar hugdettur og athafnir oft virst aðlaðandi, eftirsóknarverðar eða ánægjulegar. Við verðum því öll í heimi samtímans að varast hið tælandi illa sem dulbýr sig sem hið góða. Jesaja aðvaraði: „Vei þeim, sem kalla hið illa gott og hið góða illt, sem gjöra myrkur að ljósi og ljós að myrkri, sem gjöra beiskt að sætu og sætt að beisku.1

Hve blessuð við erum, þegar brotið er gegn helgi mannlífsins á þessum þversagnakennda tíma, og það sagður vera réttur, og óreiða sögð frelsi, að lifa í þessari síðari daga ráðstöfun, er ljós hins endurreista fagnaðarerindis fær skinið skært í eigin lífi og gert okkur kleift að greina illar blekkingar og afvegaleiðingar andstæðingsins.

„Því að þeir sem vitrir eru og hafa tekið á móti sannleikanum og [hafa] haft hinn heilaga anda sér til leiðsagnar, og ekki látið blekkjast – sannlega segi ég yður, að þeir munu ekki upp höggnir og þeim eigi á eld kastað, heldur munu þeir standast daginn.“2

Lesson #2 – Verið vökul og á verði

Stutt stund kæruleysis eða andvaraleysis antilópu gæti boðið heim skjótri árás blettatígurs. Kæruleysi og andvaraleysi geta sömuleiðis gert okkur berskjölduð fyrir árásum andstæðingsins. Andlegt hugsunarleysi býður miklum hættum í líf okkar.

Ljósmynd
Antílópa á verði

iStock.com/Angelika

Nefí lýsti því hvernig Satan myndi reyna að færa værð yfir börn Guðs á síðari dögum og vekja „andvaraleysi holdlegs falsöryggis, svo að [þau] segi: Allt er eins og vera ber í Síon. Já, Síon dafnar, og allt er gott – þannig svíkst djöfullinn að sálum þeirra og leiðir [þau] lævíslega niður til heljar.3

Stöðug árvekni er nauðsynleg til að standa gegn andvaraleysi og óförum. Árvekni er að vera stöðugt vakandi fyrir hugsanlegri hættu eða erfiðleikum. Að vera á verði er að vera stöðugt vökull til að vernda og varðveita. Andlega séð verðum við að vera vakandi og vökul fyrir hvatningu heilags anda og merkjunum sem send eru frá varðmönnum Drottins í turnunum.4

„Já, og ég hvet ykkur einnig … að vera [vökul] í stöðugri bæn, svo að freistingar djöfulsins leiði ykkur ekki afvega, … því að sjá. Hann launar ykkur í engu góðu.“5

Með því að hafa frelsarann og fagnaðarerindi hans að þungamiðju lífs okkar, er okkur mögulegt að sigrast á þeim hneigðum hins náttúrlega manns að vera andlega dofinn og latur. Þegar við erum blessuð með augum til að sjá og eyrum til að heyra,6 getur heilagur andi aukið getu okkar til að horfa og hlusta, oft þegar við teljum að ekki þurfi að horfa eða hlusta eða þegar við teljum að ekkert sé hægt að sjá eða heyra.

„Verið þess vegna á verði, svo að þér verðið viðbúnir.“7

Lexía #3 – Skiljið fyrirætlanir óvinarins

Blettatígur er rándýr sem er eðlislægt að ráðast á önnur dýr. Blettatígur er rándýr hverja stund, hvers dags.

Ljósmynd
Blettatígur við veiðar

Satan „er óvinur réttlætis og þeirra sem leitast við að gjöra vilja Guðs.“8 Hans eina fyrirætlun og tilgangur, hverja stund, hvers dags, er að gera syni og dætur Guðs jafn vansæl sér sjálfum.9

Hamingjuáætlun föðurins er hönnuð til að veita börnum hans leiðsögn, til að gera þeim kleift að upplifa varanlega gleði og koma þeim örugglega heim til hans með upprisna upphafna líkama. Djöfullinn reynir að gera syni og dætur Guðs ráðvillt og óhamingjusöm og hindra eilífa framþróun þeirra. Andstæðingurinn vinnur markvisst að því að ráðast á þá þætti í áætlun föðurins sem hann hatar mest.

Satan hefur ekki efnislíkama og eilíf framþróun hans hefur verið stöðvuð. Á sama hátt og vatn í árfarvegi er stöðvað með stíflu, er eilíf framþróun andstæðingsins stöðnuð, því hann hefur ekki efnislíkama. Lúsífer hefur, sökum eigin uppreisnar, afsalað sér öllum jarðneskum blessunum og upplifunum sem hægt er að njóta með líkama af holdi og beinum. Ein áhrifarík ritningarleg merking hugtaksins fordæmdur kemur fram í vangetu hans til að halda áfram að þróast og verða líkur himneskum föður.

Þar sem efnislíkaminn er slík þungamiðja í sæluáætlun föðurins og okkar andlegu framþróun, þá reynir Lúsífer að hindra framþróun okkar með því að freista okkar til að nota líkama okkar ranglega. Russell M. Nelson forseti hefur kennt að andlegt öryggi liggi að lokum í því „,að taka aldrei fyrsta lokkandi skrefið í átt að því sem maður ætti ekki að nálgast og gera það sem maður ætti ekki að gera.‘ … Við, sem manneskjur, höfum öll [líkamlegar] ástríður, nauðsynlegar til þess að geta lifað af. ,Þessar ástríður eru algerlega nauðsynlegar til að viðhalda lífinu. Hvað gerir andstæðingurinn? … Hann ræðst á okkur í gegnum ástríður okkar. Hann freistar okkar að borða það sem við eigum ekki að borða, drekka það sem við eigum ekki að drekka og að elska eins og við eigum ekki að elska!‘“10

Ein mesta kaldhæðni eilífðarinnar er sú að andstæðingurinn, sem er vansæll einmitt vegna þess að hann hefur ekki efnislíkama, laðar og tælir okkur til hlutdeildar í vansæld sinni með rangri notkun líkama okkar. Þannig er einmitt líkaminn, sem hann ekki hefur, megin viðfangsefni tilrauna hans til að freista okkar til andlegrar tortímingar.

Nauðsynlegt er að skilja ásetning óvinar, til árangursríks undirbúnings fyrir mögulegar árásir.11 Einmitt vegna þess að Moróní hershöfðingi var kunnugur fyrirætlunum Lamanítanna, var hann viðbúinn komu þeirra og vann sigur.12 Sömu meginreglur og loforð eiga við um hvert okkar.

„Séuð þér viðbúnir þurfið þér ekki að óttast.

Og svo að þér megið komast undan valdi óvinarins.“13

Boð, fyrirheit og vitnisburður

Rétt eins og hægt er að draga mikilvægar lexíur af því að fylgjast með atferli blettatígra og antilópa, svo getur hvert okkar leitað lexía og aðvarana í hinum einföldu athöfnum daglegs lífs. Þegar við leitumst við að hafa opinn huga og hjarta, til að taka á móti himneskri leiðsögn með krafti heilags anda, þá getur ein mikilvægasta leiðsögnin sem okkur berst og margar áhrifaríkustu aðvaranirnar til að tryggja öryggi okkar, átt rætur í okkar eigin venjulegu upplifunum. Áhrifamiklar dæmisögur er að finna bæði í ritningunum og í okkar daglega lífi.

Ég hef aðeins bent á þrjár af mörgum lexíum sem hægt væri að draga af ævintýrinu sem Susan og ég upplifðum í Afríku. Ég býð og hvet ykkur til að ígrunda atferli blettatígranna og antilópanna og finna fleiri álíka lexíur fyrir ykkur og fjölskyldu ykkar. Hafið ávallt í huga að heimili ykkar er hin sanna miðstöð trúarfræðslu og trúarlífs.

Þegar þið bregðist við þessu boði í trú, munu innblásnar hugsanir vakna í huga ykkar, andlegar tilfinningar svella í hjarta ykkar og þið munuð sjá hvað gera þarf eða gera áfram, svo að þið getið „klæðist alvæpni [Guðs], svo að [þið] fáið staðist hinn illa dag, eftir að hafa gjört allt til að fá staðist.“14

Ég lofa að blessanir árangursríks undirbúnings og andlegrar verndar, munu streyma í líf ykkar, ef þið eruð stöðugt og vandlega vökul í bæn.

Ég ber vitni um að ef þið sækið fram á sáttmálsveginum, mun það leiða til andlegs öryggis og varanlegrar gleði í lífi ykkar. Ég ber vitni um að hinn upprisni og lifandi frelsari mun styðja við og styrkja okkur á bæði góðum og slæmum stundum. Um þennan sannleika ber ég vitni, í hinu helga nafni Drottins Jesú Krists, amen.

Prenta