2010–2019
Stöðugt og varanlegt traust
Aðalráðstefna október 2019


Stöðugt og varanlegt traust

Að treysta Drottni, felur líka í sér að treysta tímasetningum hans, sem krefst nægilegrar þolinmæði og þrautseigju til að sigra storma lífsins.

Daníel sonur okkar veiktist alvarlega í trúboði sínu í Afríku og var fluttur á sjúkrahús með takmörkuð úrræði. Þegar við lásum fyrsta bréfið hans til okkar, eftir veikindi hans, áttum við von á að hann léti hugfallast, en í stað þess skrifaði hann: „Ég fann frið, jafnvel þegar ég lá á slysadeildinni. Hin stöðuga og varanlega hamingja í lífi mínu er meiri en nokkru sinni áður.“

Þessi orð snertu mig og eiginkonu mína innilega þegar við lásum þau. Stöðug og varanleg hamingja. Við höfðum aldrei heyrt hamingjunni lýst á þennan hátt, en þetta voru orð að sönnu. Við vissum að hamingjan sem hann lýsti væri ekki einungis ánægja, eða bætt lundarfar, heldur friður og gleði sem hljótast af því að fela sig Guði á vald og setja traust sitt á hann í öllu.1 Við höfðum sjálf líka upplifað að Guð veitti okkur sálarfrið og von á Krist, jafnvel þegar lífið var erfitt og fullt óvissu.2

Lehí kennir að ef Adam og Eva hefðu ekki fallið, hefðu þau „haldið áfram í sakleysi án nokkurrar gleði, þar eð þau þekktu enga vansæld. …

En sjá. Allt hefur verið gjört af visku þess, sem allt veit.

Adam féll, svo að menn mættu lifa. Og menn lifa, svo að þeir megi gleði njóta.“3

Á þversagnakenndan hátt, búa þrautir og þrengingar okkur undir að upplifa gleði, ef við treystum á Drottin og fyriráætlun hans með okkur. Sannleikurinn er fagurlega settur fram af 13. aldar skáldi: „Sorgin býr þig undir gleði. Af ákefð sópar hún öllu út úr húsi þínu, til að rýma fyrir nýrri gleði. Hún hristir burtu gulu laufin af greinum hjarta þíns, svo fersk og græn lauf fái vaxið þar í þeirra stað. Hún dregur upp skemmdar rætur, svo nýjar þar undir hafi svigrúm til vaxtar. Hvað sem sorgin úr hjarta þínu hristir, þar annað betra finnur sér stað.“4

Russel M. Nelson forseti kenndi: „[Gleðin] sem frelsarinn býður okkur … er varanleg og fullvissandi um að ‚þrengingar munu aðeins vara örskamma stund‘ [Kenning og sáttmálar 121:7] og verða okkur til farsældar.”5 Raunir okkar og þrautir geta skapað rými fyrir aukna gleði.6

Góðu tíðindi fagnaðarerindisins eru ekki loforð um líf án sorgar, heldur líf fyllt tilgangi og merkingu – líf þar sem þrautir og þrengingar „[hverfa] í fögnuði Krists.“7 Frelsarinn sagði: „Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“8 Fagnaðarerindi hans er boðskapur vonar. Í sorginni og voninni á Jesú Krist felst loforðið um varanlega gleði.

Frásögnina um ferð Jaredítanna til fyrirheitna landsins mætti nota sem myndlíkingu fyrir ferð okkar um jarðlífið. Drottinn lofaði bróður Jareds og fólki hans, að hann „[færi] fyrir [þeim] til þess lands, sem er öllum öðrum löndum jarðarinnar betra.“9 Hann bauð þeim að smíða báta og þeir tóku hlýðnir til starfa við þá smíði, samkvæmt fyrirmælum Drottins. Þegar leið á verkið vöknuðu þó áhyggjur hjá bróður Jareds um að hönnun Drottins varðandi bátana væri ekki fullnægjandi. Hann hrópaði:

„Ó Drottinn, ég hef unnið það verk, sem þú bauðst mér, og ég hef gjört bátana eftir þinni leiðsögn.

En sjá. Ó Drottinn, í þeim er engin birta.“10

„Ó Drottinn, leyfir þú að við förum yfir þetta mikla vatn í myrkri?“11

Hafið þið einhvern tíma úthellt sál ykkar til Guðs á þennan hátt? Hafið þið einhvern tíma velt fyrir ykkur hvort þið þurfið að fara í gegnum þetta líf í myrkri, er þið reynið að lifa eins og Drottinn býður og réttlátar væntingar uppfyllast ekki?12

Bróðir Jareds lét jafnvel enn meiri áhyggjur í ljós yfir því hvernig fólkið gæti lifa af í bátunum. Hann hrópaði: „Og við hljótum einnig að farast, því að við getum aðeins andað að okkur því lofti, sem í þeim er.“13 Hafa erfiðleikar lífsins einhvern tíma gert ykkur svo erfitt fyrir um andardrátt að þið efuðust um að þið fengjuð tekist á við daginn, hvað þá að þið kæmust aftur til ykkar himnesku heimkynna?

Eftir að Drottinn hafði liðsinnt bróður Jareds við úrlausn allra áhyggjuefna sinna, útskýrði hann: „Þið getið ekki farið yfir hið mikla djúp, nema ég búi ykkur undir sjávaröldurnar og vindinn, sem geisað hefur og flóðin, sem koma munu.“14

Drottinn gerði þeim það ljóst að Jaredítarnir gætu ekki komist í hið fyrirheitna land án hans liðsinnis. Þeir voru ekki við stjórnvölinn og gátu aðeins komist yfir hið djúpa haf með því að treysta á hann. Þessi reynsla og kennsla frá Drottni virtist efla trú bróður Jareds og styrkja traust hans á Drottni.

Takið eftir hvernig bænir hans breyttust úr spurningum og áhyggjum yfir í trú og traust:

„Og ég veit, ó Drottinn, að allt vald er þitt og þú getur gjört, hvað sem þú vilt, manninum til góðs. …

Sjá, ó Drottinn, þú getur gjört þetta. Við vitum, að þú getur sýnt mikinn kraft, sem virðist smár mannlegum skilningi.“15

Skráð er að Jaredítarnir hafi síðan „[farið] um borð í … för [sín, lagt] á haf út og [falið] sig Drottni Guði sínum.“16fela sig einhverjum, merkir að treysta eða gefa sig einhverjum á vald. Jaredítarnir fóru ekki í bátana vegna þess að þeir vissu nákvæmlega hvað gerast myndi á ferð þeirra. Þeir fóru um borð, því þeim hafði lærst að treysta á mátt Drottins, gæsku hans og miskunn og voru því fúsir að gefa sig Drottni á vald og fela honum efa sinn og ótta.

Nýlega var barnabarn okkar, Abe, hræddur við að sitja á einu af hringekjudýrunum sem hreyfðist upp og niður. Hann vildi heldur að eitt sem ekki hreyfðist. Ömmu hans tókst loks að sannfæra hann um að það væri öruggt, svo hann treysti henni og fór á bak. Hann sagði síðan skælbrosandi: „Mér finnst ég ekki vera öruggur, en ég er það.“ Ef til vill leið Jaredítunum þannig. Í fyrstu finnst mönnum þeir ekki alltaf öruggir er þeir setja traust sitt á Guð, en gleðin fylgir.

Ljósmynd
Abe á hringekjunni

Ferðin var Jaredítunum ekki auðveld. „Oft var fólkið grafið í djúpi sjávar, þegar fjallháar öldurnar braut á því.“17 Þó, segir heimildin, „blés [vindurinn þeim] stöðugt í átt til hins fyrirheitna lands.“18 Þótt erfitt sé að skilja það, einkum á þeim tímum í lífi okkar er mótvindar eru sterkir og höfin ókyrr, þá getum við látið huggast af því að vita að Guð blæs okkur ætíð heim á leið af sinni óendanlegu gæsku.

Sagan heldur áfram: „Og þannig rak það áfram, en engin sjávarófreskja fékk grandað því, né hvalur skaðað það, og það hafði ljós að staðaldri, hvort sem það var undir vatni eða yfir.“19 Við lifum í heimi þar sem ófreskjuöldur dauðans, líkamlegra og andlegra veikinda og hverskyns þrauta og þjáninga brotna á okkur. Við getum þó líka, með því að trúa á Jesú Krist og setja traust okkar á hann, haft stöðugt ljós, hvort heldur ofan eða neðan sjávar. Við getum verið fullviss um að Guð lætur aldrei af því að blása okkur í átt að okkar himnesku heimkynnum.

Á meðan Jaredítarnir veltust um í bátunum, „[sungu þeir] Drottni lof … og [þökkuðu] honum allan liðlangan daginn. Og þegar náttaði, [hættu þeir] ekki að lofa Drottin.“20 Þeir fundu gleði og þakklæti, jafnvel mitt í þrautum sínum. Þótt þeir hefðu enn ekki náð til fyrirheitna landsins, þá fögnuðu þeir í hinum fyrirheitnu blessunum, sökum óhagganlegs og varanlegs trausts á hann.21

Jaredítarnana rak áfram á hafinu í 344 daga.22 Getið þið ímyndað ykkur slíkt? Að treysta Drottni, felur í sér að treysta tímasetningum hans, sem krefst nægilegrar þolinmæði og þrautseigju til að sigra storma lífsins.23

Að því kom svo að Jaredítarnir „[lentu] á strönd fyrirheitna landsins. Og þegar [fólkið] hafði stigið fæti sínum á strönd fyrirheitna landsins, laut það til jarðar og auðmýkti sig fyrir Drottni og felldi gleðitár frammi fyrir Drottni, vegna þeirrar miklu miskunnar, sem hann hafði auðsýnt því.“24

Ef við erum trúföst við að halda sáttmála okkar, munum við líka dag einn komast örugg heim, beygja okkur frammi fyrir Drottni og gráta gleðitárum yfir ljúfri miskunn hans í lífi okkar, þar með talið sorginni sem gerði gleðina enn meiri.25

Ég ber vitni um, að er við felum okkur Drottni og treystum stöðugt og varanlega á Jesú Krist og guðlegan tilgang hans í lífi okkar, mun hann vitja okkar með fullvissu, veita okkur sálarfrið og „von um, að við [munum] bjargast í honum.“26

Ég ber vitni um að Jesús er Kristur. Hann er uppspretta allrar gleði.27 Náð hans er nægileg og hann hefur kraftinn til að frelsa.28 Hann er ljós, líf og von heimsins. 29 Hann mun ekki leyfa að við förumst.30 Í nafni Jesú Krists, amen.

Prenta