Staðföst skuldbinding við Jesú Krist
Guð býður að við látum algjörlega af gamalli háttsemi og hefjum nýtt líf í Kristi.
Síðastliðinn apríl naut ég þeirra forréttinda að vígja Kinshasa-musterið, í Austur-Kongó. Orð fá ekki lýst þeirri gleði sem ég og hinir trúföstu Kongóbúar upplifðum yfir að sjá musteri vígt í landi þeirra.
Þeir sem koma í Kinshasa-musterið sjá upprunalegt málverk sem heitir Kongófossar. Það minnir musterisfara á sérstakan hátt á staðfastar skuldbindingar sem krafist er til að bindast Jesú Kristi og fylgja sáttmálsvegi áætlunar himnesks föður. Fossarnir sem málverkið sýndir eru vekja hugsum um iðkun sem tíðkaðist fyrir meira en öld meðal kristinna í í Kongó á þeim tíma.
Áður en þeir tóku nýja trú, tilbáðu þeir lífvana hluti í þeirri trú að hlutirnir byggju yfir yfirnáttúrulegum kröftum. Eftir trúskiptin fóru margir í pílagrímsferð til eins af þeim óteljandi fossum sem eru í Kongófljótinu, svo sem til Nzongo-fossanna. Þessir trúskiptingar köstuðu fyrri skurðgoðum sínum í fossana sem tákn fyrir Guð og aðra um að þeir hefðu látið af sínum gömlu hefðum og meðtekið Jesú Krist. Þeir hentu ekki hlutum sínum af ásettu ráði í kyrrt, grunnt vatn; þeir hentu þeim út í ólgandi vatn mikilla fossa, þar sem ómögulegt var að endurheimta þá. Þessar athafnir táknuðu nýja og staðfasta skuldbindingu við Jesú Krist.
Fólk á öðrum stöðum og tímum sýndi skuldbindingu sína við Jesú Krist á svipaðan hátt. Fólk í Mormónsbók, þekkt sem Antí-Nefí-Lehítar, „[lagði] niður uppreisnarvopn sín,“ og „[gróf] þau djúpt í jörðu,“ sem var „vitnisburður þess fyrir Guði … [um að það] mundi aldrei framar nota vopn [sín].“ Með því að gera svo, lofaði það að fylgja kenningum Guðs og rjúfa aldrei skuldbindingu sína. Þessi gjörð var upphaf þess að það „[sneri] til Drottins“ og varð aldrei fráhverft.
Að „[snúa] til Drottins,“ merkir að láta af einhverri háttsemi, sem stjórnast af gömlum trúarháttum og tileinka sér aðra, byggða á trú á áætlun himnesks föður og á Jesú Kristi og friðþægingu hans. Þessi breyting er meira en vitsmunaleg staðfesting á trúarkenningum. Hún breytir eigin sjálfsmynd, skilningi á merkingu lífsins og leiðir til óhagganlegrar tryggðar við Guð. Persónulegar þrár, sem eru andstæðar því að bindast frelsaranum og fylgja sáttmálsveginum, hörfa fyrir staðfestu um að lúta vilja himnesks föður.
Að snúa til Drottins, hefst á staðfastri skuldbindingu við Guð og sú skuldbinding verður síðan virk í eigin lífi. Að viðhalda slíkri skuldbindingu, er ævilangt ferli sem krefst þolinmæði og stöðugrar iðrunar. Þessi skuldbinding verður að lokum hluti af því hver við erum, inngróin í eigin vitund og ríkjandi í lífi okkar. Á sama hátt og við gleymum aldrei eigin nafni, sama um hvað við hugsum, þá gleymum við aldrei skuldbindingu sem rituð er á hjartaspjöld okkar.
Guð býður að við látum algjörlega af gamalli háttsemi og hefjum nýtt líf í Kristi. Það gerist þegar við þróum trú á frelsarann, sem hefst á því að hlýða á vitnisburði þeirra sem hafa trú. Trú okkar styrkist í kjölfarið þegar við gerum það sem bindur okkur tryggilegar við hann.
Þægilegt gæti verið, ef aukin trú smitaðist, eins og flensa eða kvefpest. Þannig gæti einfaldur „andlegur hnerri“ eflt trú annarra. Þannig virkar það þó ekki. Trú fær aðeins vaxið ef menn breyta í trú. Oft eru það aðrir sem hvetja okkur til slíkrar breytni, en við getum ekki „vakið“ öðrum trú eða reitt okkur eingöngu á að aðrir styrki trú okkar. Við verðum að ákveða að tileinka okkur trúarvekjandi breytni, svo trú okkar fái vaxið, líkt og að biðja, læra í ritningunum, meðtaka sakramentið og þjóna öðrum.
Þegar trú á Jesú Krist eykst, býður Guð að við skuldbindum okkur honum. Þessir sáttmálar eru bundnir loforðum og staðfesta trúarumbreytingu okkar. Sáttmálar skapa einnig öruggan grunn að andlegri framþróun. Þegar við veljum að skírast, tökum við í fyrsta sinn á okkur nafn Jesú Krists og einsetjum okkur að bera auðkenni hans. Við lofum að verða lík honum og tileinka okkur eiginleika hans.
Sáttmálar binda okkur frelsaranum og knýja okkur áfram á veginum til okkar himnesku heimkynna. Kraftur sáttmálanna auðveldar okkur að viðhalda hinni máttugu breytingu hjartans, eflir trúarlegan viðsnúning okkar til Drottins og ímynd Krists greypist enn frekar í ásýnd okkar. Sáttmálsskuldbinding sem haldin er af hálfum huga er okkur engin trygging. Við gætum freistast til að vera tvískipt, varpað okkar gömlu háttsemi í kyrrt vatn eða grafið uppreisnarvopn okkar þannig að handföngin standi upp úr. Hálfvolg skuldbinding við sáttmála okkar, mun ekki ljúka upp dyrum hins helgandi máttar himnesks föður og Jesú Krists.
Skuldbinding um að halda sáttmála okkar ætti ekki að vera skilyrt eða breytileg eftir aðstæðum lífs okkar. Stöðugleiki okkar gagnvart Guði, ætti að vera jafn vís og rennsli Kongófljótsins, sem á farveg nærri Kinshasa-musterinu. Rennsli árinnar er, ólíkt flestum ám í heiminum, jafnt allt árið um kring og bætir um 42 milljónum lítra við Atlantshafið á hverri sekúndu.
Frelsarinn bauð að lærisveinar sínir yrðu jafn áreiðanlegir og staðfastir. Hann sagði: „Ákveð þetta því í hjarta þínu, að þú munir gera það sem ég kenni og býð þér.“ „Staðföst“ ákvörðun um að halda sáttmála okkar, gerir öll loforð Guðs möguleg um varanlega gleði.
Margir trúir Síðari daga heilagir hafa sýnt að þeir halda „staðfastleg“ sáttmála sína við Guð og eru varanlega breyttir. Ég skal segja ykkur frá þremur slíkum einstaklingum – bróður Banza Mucioko, systur Banza Régine og bróður Mbuyi Nkitabungi.
Árið 1977 bjuggu Banza-hjónin í Kinshasa í Saír, nú þekkt sem Austur-Kongó. Þau voru mikils virt í samfélagi sínu í mótmælendakirkjunni. Vegna hæfileika þeirra, sá kirkjan til þess að hin unga fjölskylda kæmist til náms í Sviss og sá þeim fyrir háskólastyrk.
Meðan þau voru í Genf, sá bróðir Banza oft lítið samkomuhús á strætóleið sinni í skólann, með nafninu „Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.“ Hann velti fyrir sér: „Hefur Jesús Kristur heilaga nú á síðari dögum?“ Hann einsetti sér loks að fara og sjá.
Bróðir og systir Banza fengu hlýlegar móttökur í greininni. Þau spurðu sumra sinna ósvöruðu spurninga um eðli Guðs, svo sem: „Ef Guð er andi, eins og vindurinn, hvernig getum við þá verið sköpuð í hans mynd? Hvernig gat hann þá setið í hásæti?“ Þau höfðu aldrei fengið fullnægjandi svör, fyrr en trúboðarnir útskýrðu stuttlega kenningu endurreisnar. Þegar trúboðarnir fóru, horfðu Banza-hjónin á hvort annað og sögðu: „Er þetta ekki sannleikur sem við höfum heyrt?“ Þau héldu áfram að koma í kirkju og hitta trúboðana. Þeim var ljóst að skírn í hina endurreistu kirkju Jesú Krists hefði afleiðingar fyrir þau. Þau myndu missa háskólastyrkinn, vegabréfsáritanir þeirra yrðu afturkallaðar og tvö ung börn þeirra yrðu að yfirgefa Sviss. Þau ákváðu að láta skírast og verða staðfest í október 1979.
Tveimur vikum eftir skírn þeirra, komu bróðir og systir Banza aftur til Kinshasa, sem fyrsti og annar meðlimur kirkjunnar í landi sínu. Meðlimir Genfar-greinarinnar héldu sambandi við þau og hjálpuðu þeim að tengjast leiðtogum kirkjunnar. Banza-hjónin voru hvött til að bíða trúfastlega eftir þeim fyrirheitna tíma að Guð stofnaði kirkju sína í Saír.
Á meðan var annar skiptinemi frá Saír, bróðir Mbuyi, við nám í Belgíu. Hann skírðist árið 1980 í Brussel-deildinni. Skömmu síðar þjónaði hann í fastatrúboði í Englandi. Guð vann sín kraftaverk. Bróðir Mbuyi sneri aftur til Saír sem þriðji meðlimur kirkjunnar í sínu landi. Með leyfi foreldra hans, voru kirkjusamkomur haldnar á heimili fjölskyldu hans. Árið 1986 var beiðni send til stjórnvalda um viðurkenningu kirkjunnar. Krafist var undirskriftar þriggja íbúa Saír. Þrír ánægðir undirritarar umsóknarinnar voru bróðir Banza, systir Banza og bróðir Mbuyi.
Þessir staðföstu meðlimir þekktu sannleikann þegar þeir heyrðu hann. Þeir gerðu sáttmála við skírn sem batt þá frelsaranum. Myndrænt vörpuðu þeir sínum gömlu háttum í ólgandi foss, án nokkurs ásetnings um að endurheimta þá. Sáttmálsvegurinn var aldrei auðveldur. Stjórnmálalegur óróleiki, of lítið samband við leiðtoga kirkjunnar og áskoranir þess að byggja upp samfélag heilagra, hefði getað dregið kjark úr síður skuldbundnum einstaklingum. Bróðir og systir Banza og bróðir Mbuyi sóttu hins vegar fram í trú. Þau voru viðstödd vígslu Kinshasa-musterisins 33 árum eftir undirritun umsóknarinnar sem leiddi til opinberrar viðurkenningar kirkjunnar í Saír.
Banza-hjónin eru hér í Ráðstefnuhöllinni í dag. Með þeim eru tveir synir þeirra, Junior og Phil og tengdadæturnar, Annie og Youyou. Árið 1986 voru Junior og Phil fyrstu tveir einstaklingarnir sem skírðir voru í kirkjuna í Saír. Bróðir Mbuyi horfir á ráðstefnuna í Kinshasa með eiginkonu sinni, Maguy, og börnum þeirra fimm.
Þessir brautryðjendur skilja merkingu og áhrif þeirra sáttmála sem gerðu þeim mögulegt að komast „til þekkingar á Drottni Guði sínum og til fagnaðar í Jesú Kristi.“
Hvernig bindumst við frelsaranum og verðum trúföst eins og þau og tugþúsundir heilagra í Kongó, sem á eftir þeim komu, og milljónir annarra um allan heim? Frelsarinn kenndi okkur það. Í hverri viku meðtökum við sakramentið og gerum sáttmála við föður okkar á himnum. Við lofum að binda okkur auðkenni frelsarans, með loforði um að vera fús til að taka á okkar nafn hans, hafa hann ávallt í huga og halda boðorð hans. Ef við undirbúum okkur samviskusamlega og gerum þessa sáttmála verðuglega í hverri viku, bindur það okkur frelsaranum, virkjar skuldbindingu okkar og knýr okkur kröftuglega áfram á sáttmálsveginum.
Ég býð að þið skuldbindist hinu ævilanga hlutverki lærisveinsins. Gerið og haldið sáttmála. Varpið burtu ykkar gömlu háttsemi, ofan í djúpa og ólgandi fossa. Grafið uppreisnarvopn ykkar algjörlega, svo handföngin standi ekki upp úr. Sökum friðþægingar Jesú Krists, mun það blessa líf okkar eilíflega að gera sáttmála í þeim einlæga ásetningi að heiðra þá af staðfestu. Þið verðið líkari frelsaranum, ef þið hafið hann ávallt í huga, fylgið honum og vegsamið hann. Ég ber vitni um að hann er hin trausta undirstaða. Hann er áreiðanlegur og loforð hans eru örugg. Í nafni Jesú Krists, amen.